Færsluflokkur: Tónlist

100 íslensk 80´s lög

Ég varð mér úti um nýjasta 100 laga pakkann frá Senu, 100 íslensk 80´s lög. Þetta er sniðug sería hjá þeim og virðist ganga vel í landann. Það verður samt að segjast að það er margt ansi skrýtið þarna inná milli, t.d. eru á plötunum 2 lög úr ranni Geirmundar Valtýssonar sem er svosem gott og blessað en í mínum huga á Skagfirska sveiflan ekkert skylt við 80´s annað en að hafa komið út á téðu tímabili.........eða hvað?

Síðan eru í pakkanum nokkur lög úr þeirri frábæru kvikmynd Rokk í Reykjavík, flest stórgóð en vekja aftur upp spurninguna um það hvort það sé nóg að hafa komið út á 9.áratugnum til að teljast 80´s lag.....?

Það er auðvitað spurning hvað hver og einn flokkar sem 80´s tónlist, persónulega finnst mér t.d. nauðsynlegt að innan seilingar sé a.m.k. annaðhvort hárblásari eða synthesizer - nema hvorttveggja sé Cool - en hljómsveitir eins og Vonbrigði notuðu klárlega hvorugt Wink.

Auðvitað er aldrei hægt að gera svona safndisk þannig að öllum líki og það eru heldur ekki til 100 "hreinræktuð" íslensk 80´s lög þannig að það er eðlilegt að útgefendur fylli uppí með efni sem var vinsælt á tímabilinu til að gera gripinn að betri söluvöru. Ekkert nema gott um það að segja, og þó að ég sé aðeins að tuða yfir pakkanum þá er ábyggilega helmingurinn af honum lög sem á einhverjum tímapunkti hafa verið uppáhaldslög hjá mér - t.d. öll lögin úr Rokki í Reykjavík. Það er hálf asnalegt að kvarta yfir þvíBlush. En að vísu átti ég þau lög öll fyrir, þannig að sem slíkur gerir þessi pakki ekki mikið fyrir mig persónulega. Þó margt sé gott við hann fer ég ekki ofan af því að það hefði verið hægt að gera betur.

Mér finnst t.d. klént að fylla uppí plötuna með lögum sem hafa komið út ótal sinnum á hinum ýmsustu safnplötum, eins og Skólaball með Brimkló og Ég gef þér allt mitt líf með Bjögga og Röggu Gísla. Þau lög eru ábyggilega á góðri leið með að verða til á hverju einasta íslensku heimili. Bæði stórfín, en anna fullkomlega eftirspurn. 

Mér hefði þótt skemmtilegra ef útgefendurnir hefðu lagt meira á sig við að grafa upp lög sem voru vinsæl á þessum tíma en hafa ekki verið fáanleg síðan þá. Fornaldarhugmyndir með hljómsveitinni Lola frá Seyðisfirði er gott dæmi um slíkt lag og það er einmitt að finna í pakkanum. Fyrir það fá Senumenn hrós.

Besserwisserinn ég man reyndar í augnablikinu ekki eftir mörgum svoleiðis lögum til viðbótar í svipinn, en það væri eflaust fljótt að rifjast upp ef kafað væri eftir því. Lög eins og Vinur minn missti vitið og Götustelpan (hún var sveitt þá o.s.frv...), sem Pálmi Gunnars gerði vinsæl um miðjan níunda áratuginn, eru t.a.m. ágætis dæmi. Höfundar beggja þessara laga komu óvænt fram á sjónarsviðið og hurfu þaðan jafnskjótt. Annar bóndi norðan úr landi og hinn sjómaður úr Þorlákshöfn, held ég að ég fari rétt með (er þó alls ekki viss), og ég held svei mér þá að ég hafi ekki heyrt þessi lög síðan á 80´s tímabilinu - Gaukurinn í Þjórsárdal einhver? .............Cool

Reyndar hef ég ekki saknað þessara tveggja laga sérstaklega, enda var hvorugt þeirra í sérstöku uppáhaldi hjá mér, en það hefði að mínu mati styrkt þessa útgáfu verulega að hafa þau með. Eins hefði verið gaman að rifja upp eina smell hljómsveitarinnar Pax Vobis - Coming my way, en allstaðar þar sem Pax Vobis kom mátti treysta því að stutt var í bæði syntha og hárblásara. Ég leyfi mér m.a.s. að fullyrða að fáar hljómsveitir hafi blásið hár sitt af viðlíka áfergju og liðsmenn Pax Vobis, með sjálfan Geira Sæm í broddi fylkingar og Þorvald Bjarna á kantinum, gerðu á sínum tíma. Nema ef vera skyldi Stuðkompaníið og Rikshaw Grin - en þau 80´s bönd eiga t.a.m. einungis 1 lag hvort í pakkanum meðan Geirmundur á 2 stk...................Whistling


Bæjarhátíðir eru hið besta mál

Ég tek það fram að ég var ekki á skaganum um helgina og veit nákvæmlega ekkert um það hvernig Írskir dagar fóru fram, en ég reikna með að flestir hafi skemmt sér hið besta eins og oftast er raunin með bæjarhátíðir af þessu tagi. 

Sjálfur hef ég troðið upp á allmörgum bæjarhátíðum og oftar en ekki furðað mig á neikvæðum fréttaflutningi í kjölfar þeirra. Það er nú einu sinni þannig að þar sem slíkur mannfjöldi kemur saman er alltaf hætta á einhverjum pústrum og ryskingum og þjóðfélagið er nú því miður orðið þannig að fíkniefnamál koma alltaf upp á slíkum hátíðum. Síðan má alltaf spyrja sig hvort t.d. fjöldi fíkniefnamála sem upp koma sé eitthvað viðmið um það hvort viðkomandi skemmtun hafi tekist vel eða illa. Lögreglan segir t.a.m. mikinn viðbúnað á svæðinu vera ástæðu þess hversu mörg mál komust upp. Er það ekki af hinu góða að tekist hafi að koma böndum á einhverja bófa a.m.k.?

Öll umræða um að það þurfi að breyta fyrirkomulagi bæjarhátíða til að koma í veg fyrir ölvun og ólæti, og jafnvel leggja þær niður fer óumræðilega í taugarnar á mér. Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða að meirihluti gesta á Írskum dögum á Akranesi um helgina var þangað kominn til að skemmta sér. Það að litlum hluta þeirra hafi orðið eitthvað á, og kannski aðeins fatast flugið á ekki að verða til þess að hátíðin heyri sögunni til.  


mbl.is Viðbúnaður lögreglu hjálpaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasta sinn í Kópavogi?

Það er gaman að segja frá því að Sálin hans Jóns míns stígur á stokk á Players í kvöld, en fyrir réttum 2 vikum var þessi frábæra hljómsveit með ball á NASA við Austurvöll og auglýsti þá af miklum móð að um síðustu framkomu sveitarinnar í Reykjavík um langan tíma væri að ræða! Ok. Ég veit vel að Players er í Kópavogi, en er þetta ekki fulllangt seilst í auglýsingamennskunni........;-)

Dugleysi mitt - og annarra

Ég hef verið dálítið hugsi yfir fréttunum af málefnum tónlist.is undanfarið, eins og sést hefur hér á síðunni. Þessi umfjöllun hefur nefnilega ekki bara leitt í ljós að vinnubrögð stjórnenda tónlist.is eru engan veginn í lagi, heldur einnig - og ekki síður - hversu illa hagsmunasamtök okkar sem erum að bjástra við tónlist hafa staðið sig í málinu. Síðast en ekki síst leiða þessi ósköp síðan hugann að því hvað við sjálf stöndum illa vörð um okkar hagsmuni og hvað við látum yfir okkur ganga, óátalið.

Ég er félagi í 2 hagsmunasamtökum í tónlistarbransanum, STEFi (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar) og FÍH (Félag íslenskra hlóðfæraleikara) og ég hef sótt um inngöngu í 2 til viðbótar, FTT (Félag tónskálda og textahöfunda) og FHF (Félag hljómplötuframleiðenda) og mig langar aðeins að fara yfir reynslu mína af þessum samtökum.

STEF: Ég var í raun sjálfkrafa skráður í STEF. Um leið og ég byrjaði að fikta við að semja texta sem rötuðu inn á plötur varð ég félagi og samtökin sáu um að innheimta fyrir mig höfundarlaun. Gott og vel. Ég hef í gegnum tíðina haft talsverðar tekjur af lögum mínum og textum og hef ekkert yfir STEF að kvarta svosem, enda hef ég undanfarið átt mjög góð samskipti við fólk þar á bæ.

En STEF hefur ekki alltaf komið fram við mig eins og ég sé skjólstæðingur samtakanna. Árið 1998 sendum við félagarnir í Á móti sól frá okkur 2 lög sem náðu talsverðum vinsældum. Annað var Á ÞIG, eða Æ mig langar upp á þig eins og flestir kalla það, og hitt var STELPUR. Bæði þessi lög fengu mikla spilun í útvarpi, þá sérstaklega Á ÞIG sem var t.d. eitt mest spilaða íslenska lagið á Bylgjunni það árið og naut ótvírætt mikilla vinsælda. En þegar tékkinn frá STEFi kom þótti mér lögin gefa undarlega lítið af sér. Ég man þessar tölur ekki nákvæmlega en mig minnir að ég hafi fengið u.þ.b. helmingi minna fyrir þessi 2 lög samtals en ég fékk fyrir DJÖFULL ER ÉG FLOTTUR sem var heilmikill smellur árið áður. Þegar ég leitaði skýringa hjá STEFi var mér sagt að ég yrði að skrifa formlegt bréf til stjórnarinnar til að reyna að fá úr því skorið hvort um einhver mistök væri að ræða, og þá hver skýringin á þeim hugsanlega væri og hvað væri til bragðs að taka. Það gerði ég samviskusamlega, þó mér þætti það óneitanlega nokkuð undarleg boðleið, en fékk ekkert svar. Nokkrum vikum síðar skrifaði ég stjórninni annað bréf þar sem ég ítrekaði erindið. Því bréfi var heldur ekki svarað. 

Ég var semsagt ekki virtur svars hjá mínu eigin félagi, mínum hagsmunasamtökum. Og það sem verra var: Ég lét það yfir mig ganga. Og það sem er kannski ennþá verra er það að ég lét engan vita. Kannski hafa margir fleiri lent í því sama - og ekki sagt neitt heldur. Þessu verðum við að breyta með einhverjum hætti.  

FÍH: Ég man ekki hvenær ég skráði mig í FÍH eða afhverju. Mig minnir að ég hafi einfaldlega talið að það væri eðlilegt að ég gengi til liðs við stéttarfélag tónlistarmanna úr því að ég væri að baksa við að vera tónlistarmaður. Síðan les maður maður um aðkomu FÍH að Samtóni og samninga sem Samtónn hefur gert fyrir hönd sinna umbjóðenda, og í raun miklu fleiri sýnist mér, og þá virðist manni, eins og glöggur bloggvinur minn benti á, félagið í raun vera farið að vinna gegn sínum eigin umbjóðendum! Það er ábyrgðarleysi. En þetta lætur maður yfir sig ganga, og heldur áfram að borga félagsgjöldin.

Svonefnd flytjendagjöld, sem eru held ég hluti STEF-gjalda, renna einnig til FÍH skilst mér en ég hef aldrei séð krónu af þeim - og mun aldrei sjá því þau fara í rekstur FÍH; rekstur skrifstofu og hljóðvers, sem er svosem ágætt, og ekki síst rekstur tónlistarskóla! Hvaða stéttarfélag stendur í slíkum rekstri? Þetta er alveg galið Shocking.

Ég má semsagt taka þátt í að afla flytjendagjaldanna og borga félagsgjöldin, en að ég fái eitthvað af þeim til baka er ekki inn í myndinni. Til að kóróna allt saman semur afsprengi félagsins (Samtónn) síðan um það við tónlist.is að þeir megi streyma lögunum mínum og allra annarra fyrir samtals 100 þúsund krónur á ári! Þetta hef ég látið yfir mig ganga hingað til, en ég hugsa að eitt af mínum fyrstu verkum á þriðjudaginn verði að segja mig úr þessum félagsskap Smile.

FTT kann ég eiginlega engin deili á en ég hygg að ég eigi mun meiri samleið með þeim félagsskap en FÍH. Sjáum hvað setur, í það minnsta fékk ég strax jákvæð viðbrögð við umsókn minni. Það lofar altént góðu.

FHF er félagsskapur sem mig langar kannski ekkert sérstaklega að tilheyra, en ástæða þess að ég sækist eftir því að komast þar inn er sú að ég hef undanfarið verið mjög ósáttur við gjörðir félagsins og með inngöngunni vonast ég til að geta haft einhver áhrif.

Ég hef gert athugasemdir við undarlega framgöngu FHF í 2 málum.

1. Sena seldi Alcan u.þ.b. 10,000 geisladiska með Bó og Sinfó sem Alcan síðan dreifði frítt inn á hvert heimili í Hafnarfirði á jóladagsmorgun, sérmerktum og sérinnpökkuðum þannig að engin leið var fyrir hafnfirðinga að skila þeim í næstu búð og fá annað í staðinn, eins og ef um venjulega sölu væri að ræða. FHF staðfesti það við vini sína í Senu að þessi "sala" yrði færð til bókar á nákvæmlega sama hátt og ef ég sjálfur hefði farið út í búð og keypt diskinn, sem ég reyndar gerði - en það er önnur saga. Þetta gengur þvert gegn viðurkenndum hefðum, og er algjörlega á skjön við ábendingar félagsins til okkar hinna um að einungis með sannanlegri sölu í viðurkenndum verslunum geti maður gert tilkall til þess að fá viðurkennda gull- eða platínusölu. Þessar reglur voru semsagt sveigðar og beygðar þegar Sena þurfti á að halda. Tek það fram að ég er ekki á nokkurn hátt að gagnrýna Bó - hann á allt gott skilið.

Frá þessum samningi við Alcan var gengið löngu fyrir jól og því gat Sena tilkynnt það með pompi og prakt á besta tíma í jólaplötuflóðinu að Bó og Sinfó væri komin í platínu - sem jók sölu disksins enn frekar!

2. Í byrjun maí fjallaði Orri Páll Ormarsson um hljómplötumarkaðinn á Íslandi í ágætri grein í Mogganum. Þar er m.a. vitnað í formann FHF og sölulisti sem hann lét blaðinu í té birtur, en sá listi sýndi fram á að Sena heði komið að útgáfu 18 af 20 vinsælustu platna ársins 2006. Útgáfustjóri Senu baðar sig í frægðinni í greininni og lætur vel af sér "þetta er yfirleitt stönginn-inn hjá okkur" segir hann m.a. Wink

Báðir þessir aðilar, Jónatan Garðarsson hjá FHF og Eiður Arnarsson útgáfustjóri Senu, vissu hinsvegar mætavel að listinn var kolrangur, enda hafa þeir eftir á viðurkennt að líklega hefðu 10-15 plötur sem einyrkjar sem ekki eru aðilar að FHF gáfu út á árinu komist inn á listann - á kostnað Senutitlanna!

Þegar ég gerði athugasemdir við þessi vinnubrögð benti formaðurinn á blaðamanninn og sakaði hann um óheiðarleika, sem fólst í því að birta umræddan lista í leyfisleysi. Bæði Jónatan og Eiður viðurkenna þó að hafa fengið greinina til yfirlestrar og þar er fjallað um listann með afgerandi hætti. Svo þau rök eru léttvæg - í besta falli. 

Það eru vinnubrögð af þessu tagi sem fara í taugarnar á mér og ég er ekki tilbúinn til að láta yfir mig ganga. En það er eins með þessi samskipti mín við FHF og samskipti mín við STEF forðum að ég hef engum sagt frá þeim. Ég hef aðeins fjallað um þau hér á blogginu mínu en ég hef ekki formlega deilt reynslu minni með öðrum tónlistarmönnum, enda veit ég ekki á hvaða vettvangi það ætti svosem að vera. Kannski er sá vettvangur til, en ef svo er þá veit ég ekki af honum.

Eflaust hafa margir fleiri svipaða sögu að segja en það kemst aldrei upp á yfirborðið af því að við tónlistarmennirnir tölum of lítið saman. Samstaðan er ekki nógu breið. Underground liðið er of upptekið við að gera lítið úr okkur sveitaballapoppurunum, við sveitaballamennirnir erum of uppteknir við að fussa og sveia yfir tónlistarskólaliðinu, jazzmönnunum og listaspírunum og jazzmennirnir og bakraddasöngvararnir eru of uppteknir við að fussa og sveia yfir öllu saman Wink. Þannig gengur þetta hring eftir hring og á meðan eru réttindi okkar fótum troðin - oft með okkar samþykki, beinu eða óbeinu.

Ég held að það sé kominn tími til að við sem erum að puða í músíkinni hættum að eyða púðri í að draga hvert annað í dilka og förum að skiptast á upplýsingum. Það þarf ekki að vera flókið dæmi né krefjandi, það gæti t.d. verið ágætis byrjun að koma upp póstlista þar sem menn gætu sent sín á milli upplýsingar um alla þá fjölmörgu hluti sem geta flokkast sem sameiginlegir hagsmunir stéttarinnar. Það þarf ekki að einskorðast við réttindabaráttu, við gætum t.a.m. skipst á praktískum upplýsingum eins og t.d. hvar hagstæðast sé að framleiða geisladiska, hvernig sé best að flytja þá inn o.s.frv. Ég sjálfur hef t.d. eytt töluverðum tíma í að kanna slíka hluti og gæti veitt ágætar upplýsingar um það og eflaust hafa margir fleiri gert slíkt hið sama.

Ef slíkur póstlisti væri til staðar gætum við líka látið hvert annað vita hvort við hefðum í hyggju að gera eitthvað í málunum gagnvart tónlist.is. Ég hef heyrt af nokkrum aðilum sem ætla að fara fram á að þeirra efni verði tekið út af vefnum á þriðjudaginn, og ég og mín hljómsveit erum að velta því sama fyrir okkur. Ég hef líka haft spurnir af því að hægt sé að láta önnur samtök en STEF innheimta fyrir sig höfundarréttargjöld, og mér skilst að einhverjir íslenskir tónlistarmenn hafi þann háttinn á. Mér þætti fróðlegt að heyra frá þeim, og öllum hinum, varðandi þessi mál - og öll hin.

Góðar stundir Smile   


Ein örstutt athugasemd

Það er á Stefáni að skilja að tónlist.is hafi að fullu greitt STEFi og útgefendum, vandinn sé bara sá að þeir aðilar standi ekki í skilum við listamenn. Nú á mín hljómsveit 7 plötur inni á tónlist.is, þar af 5 sem við erum sjálfir útgefendur að. Við höfum engar greiðslur fengið frá tónlist.is, hvorki sem útgefendur né flytjendur,...........þrátt fyrir ítrekuð tilmæli, þannig að Stefán fer nú vísvitandi með rangt mál þarna.
mbl.is Framhaldssagan um Tónlist.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin frétt

Hér sýnist mér að verið sé að rugla saman 2 ólíkum hlutum, annarsvegar greiðslum til rétthafa vegna spilunar/streymis, semsagt STEF gjöldum, og hinsvegar greiðslum fyrir sölu á lögum/tónverkum samkvæmt samningum við listamennina sjálfa, séu þeir samningar til staðar. Þegar tónlist.is fór í loftið árið 2003 skrifaði ég, f.h. minnar hljómsveitar, undir samning við fyrirtækið sem í grófum dráttum kvað á um að lög okkar yrðu aðgengileg í gagnagrunninum og við fengjum ágóðahlut af niðurhali þeirra og spilun/streymi. Enda var nokkuð breið samstaða meðal tónlistarmanna um þennan gagnagrunn, sem er um margt mjög sniðugut dæmi, áður en Sena sölsaði hann undir sig. Ég hef ekki lesið þessa frétt Árna Matt., en af þessum útdrætti að ráða þá er hér um yfirklór að ræða. Í það minnsta hef ég ekki enn fengið krónu frá tónlist.is þrátt fyrir að lög okkar hafi oftsinnis verið í hæstu hæðum vinsældalista fyrirtækisins, og m.a.s. stundum verið í meirihluta á listanum!
mbl.is Tónlist.is stendur skil á sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég man ekki eftir að hafa fengið borgað

Ég er nú ekki viss um að það sé rétt að einhverjum tónlistarmönnum sé hyglað á kostnað annarra á tónlist.is, ekki umfram það sem eðlilegt getur talist a.m.k. Þá á ég við að auðvitað er vefurinn fyrst og fremst söluvefur þannig að stjórnendurnir hljóta að leggja áherslu á það sem þeir telja söluvænlegast hverju sinni. Ábyggilega standa einhverjir minni útgefendur höllum fæti gagnvart t.d. Senu þar eins og annarsstaðar, en það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að mínu viti. Að neita því er kannski óeðlilegt, en það er önnur saga.

Hitt er svo annað mál að ég á dálítinn slatta af lögum þarna inni og ég hef aldrei fengið krónu borgaða Wink

 


mbl.is Hygla ekki á tonlist.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur verið að 10 bestu lögin hafi komist áfram?

Ég er dálítið þreyttur á því hvernig við afgreiðum orðið árlega ófarir okkar í þessari undankeppni. Samsæri, austurblokkin er með þetta, Balkanskagabræðralag o.s.frv. Ég held að við megum ekki detta í svona væl.

Víst eru þessar þjóðir orðnar margar en eru þær ekki partur af Evrópu alveg eins og við? Ég sé ekki að það sé svindl þó fólk af svipuðum menningarsvæðum hafi svipaðan smekk. Hvað megum við segja þegar okkar fulltrúi hvetur okkur til að kjósa norðurlandaþjóðirnar á laugardaginn! Er það ekki sami "glæpurinn"?

Ef málið er að fólkinu sem kaus líkaði betur við lögin 10 sem komust áfram en okkar lag þá er bara akkurat ekkert við því að gera.

Í gær voru 28 þjóðir að keppa, og með fullri virðingu fyrir öllum hlutaðeigandi aðilum þá vorum við með tilþrifalítið lag, vondan texta og fremur óspennandi atriði. Í það minnsta hef ég lítið gaman af því að sjá menn lemja ótengd hljóðfæri til óbóta í beinni Wink. Það eina sem hefði getað fleytt okkur áfram í keppninni var Eiríkur, það var sterkur leikur að fá hann til að syngja lagið, en því miður dugði það ekki til í þetta sinn.

Það gengur bara betur næst. Ekkert væl!


mbl.is Fleiri en Eiríkur ósáttir við svæðaskiptingu í Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru berin súr?

Ég var að lesa grein í Morgunblaðinu um sölu á tónlist. Þar kemur fram að Sena ber höfuð og herðar yfir aðra útgefendur, sem eru svosem engar fréttir, en 18 af 20 söluhæstu titlum síðasta árs tengjast að sögn blaðsins Senu beint eða óbeint. Þessu til staðfestingar fylgir listi frá Sambandi hljómplötuframleiðenda yfir 25 söluhæstu plötur ársins 2006. Að vísu er þess getið að sölutölur frá 12 Tónum vanti.

Eitthvað fleira sýnist mér vanta á þennan lista því hljómplötuna Á MÓTI SÓL Í 10 ÁR er þar hvergi að finna. Ég fletti upp í gömlum tölvupóstum til að gá hvort þetta gæti staðist, því síðast þegar ég vissi var platan á topp 10 yfir söluhæstu plötur ársins. Í tölvupóstunum sá ég reyndar ekki endanlegar uppgjörstölur ársins, því þær hafði ég ekki fengið, en ég sá næstsíðasta Tónlista ársins sem er jafnframt síðasti listinn fyrir jól og á honum erum við um 2000 eintökum á eftir Björgvini Halldórssyni, sem samkvæmt Mogganum í dag var langsöluhæstur þessi jólin, og tæpum 1000 eintökum á eftir Bubba. Aftur á móti erum við rúmum 2000 eintökum á undan Regínu Ósk sem á einhvern undarlegan hátt endar þó í 20.sæti á listanum í Mogganum og verður þar með 18. Senuplatan á topp 20!

Fyrir þá sem ekki vita þá er Tónlistinn sölulisti Sambands hljómplötuframleiðenda og eftir honum er farið þegar plötusala er gerð upp, ákveðið hverjir hafa rétt á gull- og platínuplötum o.s.frv. Þessum lista er semsagt ætlað að vera raunverulegt mælitæki, og hefur verið nokkuð marktækur sem slíkur enda eru upplýsingar frá öllum þeim verslunum sem selja tónlist í einhverju magni hafðar til grundvallar við útreikninga á listanum.

Hljómsveitin Á móti sól er ekki í Sambandi hljómplötuframleiðenda, og því kemur okkur sá félagsskapur í sjálfu sér ekki við. Þó höfum við áður gert athugasemdir við vinnubrögð sambandsins og spurt áleitinna spurninga á borð við það hvort Sena njóti sérréttinda hjá sambandinu. Formanni sambandsins tekst t.a.m. yfirleitt alltaf að koma Senu að þegar hann er tekinn tali sem hlutlaus fagaðili, hann var t.d. beðinn að spá fyrir um söluhæstu titlana fyrir jólin í einhverju blaðinu og þar svaraði hann því til að hann mætti nú ekki gera upp á milli eða draga neinn útúr en tókst þó að lokum að nefna 3 flytjendur sem allir voru á mála hjá Senu!

Þegar Björgvini Halldórssyni var afhent platínuplata með viðhöfn á besta tíma rétt fyrir jólin var hann ekki búinn að selja nema rúman helming þess fjölda eintaka sem þarf til að fá afhenta platínuplötu, samkvæmt þeim viðmiðunarmörkum sem sambandið setur öðrum listamönnum, en af einhverjum ástæðum var Senu leyft að taka sölu til Alcan með í reikninginn, en eins og menn muna keypti Alcan ógrynni af disknum og gaf hafnfirðingum í síðbúna jólagjöf. Það eru að mínu mati hæpin vinnubrögð að telja slíka sölu með, og algjörlega andstætt þeim reglum sem aðrir þurfa að fara eftir.

Það er best að taka það fram að það er alls ekki ætlun mín með þessum skrifum að kasta rýrð á Björgvin Halldórsson. Síður en svo, hann á allt gott skilið. Sjálfur keypti ég diskinn hans fyrir jólin, sjálfviljugur í einni af þeim plötubúðum sem tekið er tillit til þegar Tónlistinn er reiknaður út. Ég er einungis að benda á vinnubrögð sem mér finnst athugaverð og ófagleg.

Hvort þessi vinnubrögð megi rekja til þess að formaður Sambands hljómplötuframleiðenda var í mörg ár samstarfsmaður útgáfustjóra Senu, og vann hjá fyrirtæki sem í dag er í eigu Senu, veit ég ekki en ég veit fyrir víst að þessum sama manni er fullkunnugt um í hversu mörgum eintökum hljómplatan Á MÓTI SÓL Í 10 ÁR seldist á síðasta ári. Afhverju hann kýs að sópa þeim tölum undir borðið þegar Morgunblaðið leitar upplýsinga hjá honum veit ég hinsvegar ekki.

Kannski það hafi eitthvað með þá staðreynd að gera að síðan útgáfustjórinn vinur hans ákvað að rifta gildandi samningi milli Senu og Á móti sól, þrátt fyrir að við hefðum nýlokið við að selja plötuna FIÐRILDI í tæpum 5000 eintökum að sumri til (sem er mjög góð sumarsala), höfum við selt yfir 20,000 plötur, þvert á spádóma útgáfustjórans.

Maður spyr sig.

 


Vel heppnuð samsetning

Ég var að enda við að lesa ágætt viðtal við Valgeir Guðjónsson í DV þar sem hann fjallar m.a. um viðskilnað sinn við Stuðmenn. Í sjálfu sér er fátt sem kemur á óvart í viðtalinu, nema kannski það að Valgeir er nú í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn! En það er nú önnur saga.

Ég fór að velta því fyrir mér, og hef svosem oft gert það áður, hvað góður hópur getur komið mörgu til leiðar og hvernig sumar samsetningar ólíks fólks verða að kraumandi suðupotti þar sem snilldin flæðir upp um alla veggi, að því er virðist áreynslulaust.

Hugsið ykkur t.d. hvað Bítlarnir hafa verið magnaður hópur. Það er alveg óhætt að fullyrða að jafnvel þó það sé óumræðilega Lennon og McCartney að þakka hversu stórir Bítlarnir urðu þá spilaði hver einasti meðlimur mikilvægt hlutverk. Á einhvern óútskýranlegan hátt skapaðist stemmning sem leiddi af sér hvern gullmolann af öðrum. Undir dyggri stjórn George Martin auðvitað. Jafnvel á lokametrunum þegar menn töluðust vart við sömdu Paul og John frábær lög, hvor í sínu lagi. Það var eins og það væri nóg að tilheyra hópnum, jafnvel þó menn vildu lítið með hann hafa á stundum.

Síðan hættu Bítlarnir og gullmolunum fækkaði verulega svo ekki sé meira sagt. Auðvitað sömdu þeir eitt og eitt frábært lag, eins og Imagine Lennons, og áttu velgengni að fagna en lagasmíðarnar standast að mínu viti fæstar samanburð við það besta sem þeir gerðu með Bítlunum.

Án þess að ég ætli að líkja Stuðmönnum við Bítlana þá er ég þeirrar skoðunar að samsetning þess hóps hafi verið mjög heppileg. Ég varð mikill aðdáandi Stuðmanna þegar Með allt á hreinu kom út og eignaðist skömmu síðar allt efni sem þeir höfðu gefið út. Þar innan um eru mörg vinsælustu og bestu dægurlög sem hafa verið samin á Íslandi.

Valgeir Guðjónsson stofnaði Stuðmenn ásamt Jakobi Magnússyni og líklega er ekki á neinn hallað þó því sé haldið fram að þeir tveir hafi verið "aðal" Smile. Ekki einu sinni sjálfan Egil Ólafsson sem er þó líklega uppáhaldssöngvarinn minn þegar allt er talið, og flinkur tónlistarmaður. En rétt eins og í Bítlunum hefur hópurinn allt að segja. Stuðmenn voru einfaldlega á þeim árum sem Valgeir var þar innanborðs frábær hópur á öllum sviðum popptónlistar. Þar voru saman komnir afburða hljóðfæraleikarar, söngvarar, húmoristar, upptökumenn, útsetjarar, texta- og lagasmiðir og afraksturinn varð hver smellurinn á fætur öðrum.

Spilverk þjóðanna og Þursaflokkurinn vitna einnig um frjósemi þessa hóps og í því sambandi er kannski vert að upphefja Egil aðeins með því að benda á að hann er sá eini úr þessum hópi sem var í öllum böndunum þremur Smile. Svo einhverrar sanngirni sé gætt.

Þegar Valgeir síðan segir skilið við félaga sína sumarið 1988 hallar verulega undan fæti. Þau eru a.m.k. teljandi á fingrum annarrar handar Stuðmannalögin sem eitthvað er varið í sem komið hafa út eftir brotthvarf Valgeirs. Og alveg á sama hátt hefur ekki margt skemmtilegt komið frá Valgeiri heldur. Þetta er altént mín skoðun, en eflaust eru einhverjir ósammála mér. Það er hinsvegar alltaf jafn gaman að sjá Stuðmenn spila, það hefur ekkert breyst að betri tónleikasveit fyrirfinnst varla.

Þó þetta séu nú ekki merkileg vísindi hjá mér, og engin sannindi nema bara fyrir sjálfan mig, þá finnst mér þetta samt dálítið athyglisvert. Ég á mér ekki marga uppáhalds lagahöfunda íslenska en Valgeir er klárlega einn þeirra - ég nefni yfirleitt hann, Jóhann Helgason eða Magnús Eiríksson ef ég er spurður. Nokkur af þeim lögum sem ég hef sérstakt dálæti á eru líka eftir Jakob Magnússon. Ekkert þeirra er samið eftir 1988.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband