Færsluflokkur: Dægurmál

Sumartími á Seyðisfirði

Seyðfirðingar gæla nú við þá hugmynd að færa klukkuna hjá sér fram um tvo tíma á sumrin, til að njóta sólarinnar eilítið lengur. Ég veit nú ekki hvað mér á að finnast um það, get ekki alveg séð að það gangi upp að eitt svæði á landinu sé á allt öðrum tíma, en mér finnst frábært hjá þeim að vekja máls á þessu. Og óneitanlega ber það vott um áræðni að þora að stinga upp á slíku í fullri alvöru.

Ég hef reyndar lengi verið þeirrar skoðunar að við Íslendingar ættum að færa klukkuna framar, bæði að vetri og sumri. Það er að vísu ekki alveg kórrétt landfræðilega séð, en hér á landi eru aðstæður vissulega dálítið sérstakar og því hafa margir bent á að það væri fýsilegur kostur að sveigja aðeins milli tímabelta og stilla okkur t.d. saman við hinar norðurlandaþjóðirnar, sem eru einum tíma á undan okkur á veturna og tveimur á sumrin. Með því móti nytum við sólarinnar aðeins lengur á kvöldin og eins væri ekki verra að "tapa" ekki alltaf 1-2 klukkutímum þegar maður skreppur til Köben t.d. Í stuttum helgarferðum á vegum íslenskra ferðaskrifstofa og flugfélaga, sem oftar en ekki bjóða upp á tafir (og jafnvel krókaleiðir upp á síðkastið), er hver klukkustund dýrmæt Wink


Viðburðarík vika

Ég veit vel að tæknilega byrjar vikan á sunnudegi, en ég leyfi mér samt að segja að það hafi verið góður endir á vægast sagt viðburðaríkri viku að horfa á íslenska landsliðið vinna glæsilegan sigur í Svíum í gær. Magni kom til okkar og horfði á leikinn með okkur og hafi hann verið raddlítill þegar hann kom, eftir 3 böll um helgina, var hann ennþá verri þegar hann fór! Svei mér þá ef ég var ekki orðinn tæpur líka Smile. Tek ofan fyrir Guðmundi og strákunum, takk fyrir mig.

Það þarf kannski ekkert að ræða jarðskjálftana, en ég geri það nú samt. Ég var staddur í Grunnskólanum þegar skjálftinn kom, sat við tölvuna mína á efri hæðinni og verð að viðurkenna að mér leist ekkert á blikuna. Dreif mig út og beinustu leið heim, þar sem Auður stóð með símann í annarri og sjónvarpið í hinni! Við fyrstu sýn fannst manni allt í rúst, en þegar maður fór að litast um hjá öðru fólki hélt maður bara kjafti. Við sluppum ótrúlega vel.

Annað er svo sem ekki að frétta í bili.


Guðjón Bergmann eyðir óvissunni!

Þessi fyrirsögn er ættuð af www.visir.is og með henni fylgir fréttatilkynning frá Guðjóni Bergmann þess efnis að hann og konan hans séu ekki að flytja af landi brott.

Ég er rosalega feginn að þessari óvissu skuli nú vera eytt í eitt skipti fyrir öll. Ég var hættur að sofa fyrir áhyggjum! 


Áhyggjur taugaveiklaðs gamalmennis

Ég sá á www.mbl.is áðan að norðmenn eru að velta fyrir sér möguleikanum á því að takmarka ökuleyfi ungmenna, í kjölfar banaslyss sem varð í umferðinni þar um helgina. Yngstu ökumönnunum yrði þá bannað að keyra bíl um kvöld og helgar.

Þekkjandi noreg (sem líkt og framsókn og arsenal ritast ætíð með litlum staf) finnst mér allt eins líklegt að handónýtt vegakerfi þessarar ríkustu nágrannaþjóðar okkar eigi einhverja sök, án þess að ég hafi hugmynd um það, en þó finnst mér hugmyndin alls ekki vond.

Ég viðraði þessa hugmynd reyndar hér á blogginu fyrir margt löngu, og hafði þá heyrt af svipuðu fyrirkomulagi einhversstaðar í heiminum. Mér er bara fyrirmunað að muna hvar.

Ég var nú að ferma elsta son minn í gær þannig að bílprófið nálgast óðum og það veit sá sem allt veit að fáir yrðu fegnari en ég ef svona reglur yrðu settar hér á landi Wink. Ekki það að ég ætli syni mínum að verða glanni, en ég man bara svo vel eftir spennunni sem fylgdi því að keyra um helgar þegar maður var nýkominn með bílpróf.

Ég veit að ég hljóma eins og gamall kall, sem ég er enda á góðri leið með að verða, en mér finnst skynsemi í því að halda unglingum frá þeim óþægilegu aðstæðum sem geta komið upp þegar leikar fara að æsast.

 


Vinir Hannesar....

...Hólmsteins standa fyrir fjársöfnun til styrktar meistaranum. Í auglýsingu frá þessum einbeittu hjarðmönnum segir m.a.: .......að styðja þurfi fjárhagslega við bakið á Hannesi Hólmsteini: „...þar sem íslenskur auðmaður sækir fast að honum fyrir að hafa nýtt málfrelsi sitt á Íslandi."

Það er nefnilega það! Ég ætla nú ekki að ræða málavöxtu í þrætum Jóns Ólafssonar og Hannesar Hólmsteins, en mér finnst undarlegt að stuðningsmenn Hannesar skuli láta þess getið að fyrst um sinn vanti meistarann 3,1 milljón króna! Það er nefnilega akkurat sú upphæð sem Hannes var dæmdur til að greiða Auði Laxness (að meðtöldum málkostnaði) fyrir ritstuld frá sjálfu nóbelskáldinu.

Varla er Auður Laxness umræddur íslenskur auðmaður, sem sækir fast að honum fyrir að hafa nýtt málfrelsi sitt!

P.s. Ég þori ekki að segja hálfvitar!, af ótta við að vera lögsóttur.


Frasi dagsins

Dugleg geit!

Nauðaómerkileg bloggfærsla

Ég fer orðið oftar í Bónus en ég gerði. Það stafar aðallega af því að fyrir rúmum mánuði fluttum við fjölskyldan frá Selfossi til Hveragerðis, og í Hveragerði er úrvalið í matvöruverslunum bundið við eina búð: Bónus. Búðin er ágæt sem slík, en ég sakna þess að geta ekki skotist í Nóatún og Fiskbúðina eins og ég gat gert á Selfossi, því matarúrvalið í Bónus er nú satt best að segja ekkert æðislegt. En samt sem áður líður okkur betur í Hveragerði, svo það sé nú á hreinu Smile

Talandi um fiskbúðina, þá var hér í Hveragerði mjög góð fiskbúð en íbúarnir hafa greinilega ekki verið nógu duglegir að nota sér hana því eigendurnir pökkuðu saman og lokuðu. Því miður.

Annað sem ég sakna frá Selfossi er drykkjarvatnið. Mér skilst að Hvergerðingar fái neysluvatn úr 3 vatnsbólum, misgóðum. Mitt er ábyggilega verst! Og ég sem hélt að hið margrómaða íslenska vatn væri tiltölulega svipað um allt land.........svona er maður nú vitlaus.

En það stóð nú ekki til að eyða þessari bloggfærslu í að bera saman Hveragerði og Selfoss. Fyrir mér er þetta allt sama svæðið, annar staðurinn er bara miklu skemmtilegri, og auk þess talsvert nær Reykjavík Wink.

Þessi bloggfærsla átti satt best að segja alls ekki að vera nein langloka, ég hafði í raun ekkert að segja annað en það að eitt af því undarlegasta sem ég veit er hvað ég stressast oft upp í röðinni í Bónus. Það er líklega ein ástæðan fyrir því að mér hefur aldrei fundist neitt voðalega spennandi að fara í Bónus....? Ég verð alveg sérstaklega stressaður þegar kemur að því að raða í pokana, þá fer ég alveg á taugum! Enda er það iðulega þannig að næsti kúnni er komin í bakið á mér og farinn að bíða eftir því að ég sópi mínum vörum í pokann. Og ég, sem er með ágæta rýmisgreind þó ég segi sjálfur frá, raða eins og óður maður í pokana - yfirleitt lenda viðkvæmu vörurnar neðst og eitthvað brotnar og ég veit ekki hvað og ekki hvað. Finnur enginn fyrir þessu nema ég?

 

 


Stríðið búið?

Ég sá í einhverju blaði í dag að breska stjórnin hefði ákveðið að hætta að tala um stríð gegn hryðjuverkum, eins og Bush og Blair hafa gert allt frá 11.september 2001.

Ég fagna því að sjálfsögðu að Bretar skuli loks hafa áttað sig á því að þeir standa ekki andspænis einum ákveðnum óvini, heldur ýmsum litlum öfgahópum sem líklegast telja sig hafa farið halloka á einhvern hátt í samskiptum sínum við vesturveldin.  

Það hefur verið með hreinum ólíkindum að fylgjast með fullorðnum mönnum fara með ófriði gegn heilu þjóðunum, eins og Afgönum og Írökum, í þeirri trú að það væri leiðin til að uppræta hryðjuverkastarfsemi. "Stríðið gegn hryðjuverkum" var alla tíð glórulaust og í mínum huga löngu tapað, ef út í það er farið. Frá mínum bæjardyrum séð tapaðist það endanlega þegar maður þurfti að fara úr skónum áður en farið var um borð í flugvél!

Nú er bara að sjá hvort Bush fylgi fordæmi Blair og co. Hverjar eru líkurnar á því Sideways

 


Sorglegt

Gunnar í Krossinum kom með skýringu á þessu athæfi á Bylgjunni í morgun: Bandaríkjamenn ákváðu fyrir einhverju síðan að hætta að hafa boðorðin 10 sýnileg í skólunum. Fram að því hafði tyggjó verið stærsta vandamálið í skólunum, en eftir það skothríðir af þessu tagi! Og maðurinn talaði af sannfæringu, rétt eins og hann tryði þessu.................
mbl.is Steig inn í skólastofuna og hóf skothríð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband