Færsluflokkur: Matur og drykkur

Tandoori masala

Ég má til með að minnast á frábæran indverskan veitingastað sem við Auður fórum á í Köben um daginn. Tandoori masala heitir hann og er við Skt. Peters stræde, ekki langt frá Strikinu. Ég hafði heyrt vel af systurstaðnum við Halmtorvet látið, en þar var allt fullt þannig að við prófuðum þennan og sáum ekki eftir því.

Við vorum 8 sem borðuðum saman og hvert einasta okkar var himinlifandi með matinn. Það hljóta að vera meðmæli. Ég gef staðnum allavega hæstu einkunn fyrir matinn, umhverfið er svo aftur annað mál. Í rauninni dálítið sjarmerandi skrýtiðSmile. Velbekomme. 


Lambakjöt á diskinn minn?

Það er svo skelfing mikið að gera hjá mér að mér dettur ekkert sniðugt í hug til að skrifa. En frekar en að gera ekki neitt ætla ég að skrifa eina nöldurfærslu. Biðst afsökunar fyrirfram.

Þannig er að ég er aðeins farinn að spá í hvað ég ætla að hafa í páskamatinn og fór þessvegna í fyrradag og skoðaði mig um í Nóatúni, hér á Selfossi. Einhvernveginn var ég ekkert sérstaklega vel stemmdur og þessvegna fór útbúnaðurinn á lambakjötinu í taugarnar á mér, eins og reyndar svo oft áður - eða allt frá því að ég fór að telja mig hafa eitthvað vit á lambakjöti, sem hefur líklega verið fyrir um 20 árum þegar ég vann við kjötsölu o.fl. hjá S.S.

Ég held að fáir hafi komið jafnmiklu óorði á íslenskt lambakjöt og þetta batterí sem hefur séð um markaðssetninguna á því undanfarin ár og áratugi. Ég veit ekki hvað batteríið heitir en þetta eru öflug samtök sem virðast hafa talsverðan pening milli handanna - líklega peninga ríkisins. Slagorðið er: Lambakjöt - Náttúrulega gott  ....er það ekki rétt munað hjá mér annars?

Ég man að ég var einmitt að vinna hjá S.S. þegar þessi ósköp byrjuðu, en þá var farið að selja lambakjöt í hálfum skrokkum - niðursagað í poka. Neytendavænar umbúðir þess tíma. Ég var sjálfur einn af þeim sem sagaði ofan í þessa poka og þessvegna veit ég nákvæmlega hvað í þeim var og hvað vakti fyrir sölunefndinni.

Í þessa poka fóru lambskrokkar sem voru aðeins undir meðalþyngd, þ.e. frekar magrir og þar af leiðandi var kjötið ekki í hæsta gæðaflokki, en svosem ekki vont heldur. Aðal markmiðið var samt, eins og verið hefur allar götur síðan, að koma frampartinum út! Fyrir þá sem vita þá er framparturinn semsagt hvorki hryggur né læri, sem ég held að flestir geti skrifað undir að séu bestu bitar lambsins rétt eins og á öðrum skepnum. Frampartur er fínn í súpukjöt, saltkjöt, kjöt í karrý, gúllas og fleiri prýðisgóða rétti, t.d. thailenska, en hann á lítið skylt við góða steik. En semsagt, trompið í þessum pokum voru framhryggjarsneiðar sem fólk átti að grilla rétt eins og kótilettur og lærisneiðar. Afhverju í ósköpunum?  

Ég velti því stundum fyrir mér hver kynni mín af lambakjöti yrðu ef ég væri nú í þeim sporum að hafa ekki þessa lágmarksvitneskju sem ég þó hef um eðli og eiginleika þess. Hefði bara heyrt einhverja sérfræðinga rausa um gæði þess í fjölmiðlum, sérfræðinga sem flestir þiggja að ég hygg laun frá þessum sölusamtökum fyrir að dásama íslenska lambið. Og heyrast nota bene sjaldnast tala um framparta. 

Hvað yrði t.d. á vegi mínum ef ég færi út í búð til að kaupa lambakjöt? Það er nánast pottþétt að það yrði lambasteik í fallegum, sérmerktum umbúðum á tiltölulega hagstæðu verði. Með eldunarleiðbeiningum og jafnvel tilbúinni sósu. Hljómar ágætlega, og er til í lange baner í flestum ef ekki öllum verslunum.

En þegar steikin væri komin úr ofninum og ég færi að smakka dýrðina, sem svo dásömuð hefur verið af helstu steikarsérfræðingum landsins, rynnu sjálfsagt á mig tvær grímur. Bitarnir ólseigir, löðrandi í fitu og fullir af einhverju rusli sem minnti helst á gúmmíteygjur -semsagt sinum. Hér væri nefnilega blessaður framparturinn kominn enn eina ferðina. Ég myndi ekki láta mér detta í hug að kaupa þetta helvíti aftur er ég hræddur um.

Það er eins og það sé einhver árátta í íslenskum kjötkaupmönnum, og kannski kaupmönnum yfirleitt, að leggja ofurkapp á að koma illseljanlegri vöru út. Og glotta svo ef það tekst. Í gegnum tíðina hefur fólk viljað hrygg og læri og framparturinn óhjákvæmilega síður gengið út og þessvegna hefur hverju átakinu af öðru verið hrint í framkvæmd til að auka söluna á honum. Það er í sjálfu sér vel skiljanlegt, en afhverju þarf að ljúga því að fólki að hér sé dýrindis steik á ferðinni?  

Þessi sölusamtök virðast fá ótakmarkað fé til að auglýsa lambakjöt, hver leiðinlega auglýsingin á fætur annarri um gæði lambakjöts hefur í það minnsta komið fyrir sjónir manns á undanförnum árum, svo ekki sé minnst á þáttöku samtakanna í ýmsum sýningum, sjónvarpsþáttum o.s.frv bæði hérlendis og erlendis. Það er allt gott og blessað, og af hinu góða að kynna gæði kjötsins, en hvað svo?

Svo fer fólk útí búð og ætlar að grípa dýrðina með sér og þá er búið að dulbúa einhverja bévítans framparta sem steikur út um alla búð! Meira að segja ef maður er svolítið klár og fer beint í kjötborðið og biður um hrygg þá fær maður dálítið af framparti með! Lambahryggur er nefnilega iðulega sagaður þannig að það er farið dálítið upp í frampartinn þannig að það fylgja með eins og 4-5 sentimetrar af framparti! Kænska kjötkaupmannsins ríður ekki við einteyming.

Mér er til efs að þetta háttalag auki sölu á lambakjöti. Ég er altént svo gamaldags að ég trúi því að gæði séu besta auglýsingin, sérstaklega í þeim tilfellum þar sem varan sjálf er vel þekkt. Það hafa allir heyrt um lambakjöt, það þarf ekki að kynna það fyrir fólki eins og um ókunnuga vöru sé að ræða, en ég hygg að eftir þessar aðfarir þurfi að fara að kynna gæði kjötsins fyrir venjulegu fólki. Fólkinu sem fór út í búð og fékk frampart og hefur síðan þá ekki dottið í hug að bragða á lambakjötsóþverranum.

Afhverju er ekki hægt að kaupa svona vel búnar og fallega framsettar steikur úr hrygg og læri? Afhverju er ekki hægt að kaupa hrygg án þess að frampartur fylgi með og afhverju er ekki hægt að kaupa læri án þess að hálfur hækillinn fylgi með?

Ég er alveg viss um að lambakjöt myndi seljast miklu betur ef gæðin væru meiri. Það er til skammar að í landi þar sem gæði lambakjöts eru básúnuð daginn út og inn, á kostnað ríkisins, sé ekki hægt að fara út í búð og kaupa almennilegt kjöt - og hana nú! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband