Vinsældir - eða vinir á réttum stöðum?

Ég ýjaði að því í bloggfærslu fyrir dálitlu síðan að vinsældir tónlistarmanna og hljómsveita væru oft skringilega tilkomnar - jafnvel tilbúnar. Síðan sagði ég ekkert meira, nema meira um það síðar. Og nú er síðar.

Hvernig er hægt að mæla vinsældir íslenskra tónlistarmanna? Og er yfirhöfuð einhver þörf á því? Ég hef svosem lengi verið þeirrar skoðunar að það þurfi ekkert sérstaklega, enda hef ég aldrei elst við að kaupa þá tónlist sem vinsælust er hverju sinni. Vissulega hefur það þó skipt mig máli hvernig gengur hjá minni hljómsveit, og það er fyrst og fremst það sem hefur fengið mig til að velta þessum hlutum fyrir mér. 

Með reglulegu millibili les maður á síðum íslenskra blaða, og heyrir jafnvel einnig talað um það á Rás 2, að þessi eða hin hljómsveitin sé gríðarlega vinsæl og það sé með ólíkindum hvað allt gangi vel hjá henni. Í ansi mörgum tilvikum verð ég steinhissa vegna þess að ég hef aðgang að sölulistum og spilunarlistum og eins þekki ég nógu vel til í bransanum til að vita nokkurnveginn hvernig aðsókn hefur verið á tónleika eða böll viðkomandi. Árangur á þeim vígstöðvum gefur sjaldnast tilefni til stórra yfirlýsinga. Hvað er það þá sem liggur til grundvallar því mati að hljómsveitin eða tónlistarmaðurinn sé hreinlega að springa úr vinsældum?

Hvað annað er hægt að mæla? Ekki geta vinsældir, sem fullyrt er í útvarpi og blöðum að séu til staðar, grundvallast á tilfinningu viðkomandi fjölmiðlamanns? Eða hvað? Ég er altént þeirrar skoðunar að eitthvert áþreifanlegt atriði þurfi að vera til staðar. En hvað ætti það að vera?

Í mínum huga er plötusala ágætt tæki til að mæla vinsældir, þ.e. að því gefnu að farið sé eftir þeim leikreglum sem Félag íslenskra hljómplötuframleiðenda (FHF) hefur sett sér og þær ekki aðlagaðar að þörfum öflugra aðila innan félagsins - svipað og gert var með áldisk Björgvins í fyrra. Til upplýsingar fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru þær reglur í grófum dráttum þannig að sala í helstu hljómplötuverslunum og stórmörkuðum landsins er skráð og úr þeim sölutölum er unninn sölulisti sem nefnist Tónlistinn og birtist í Mogganum á fimmtudögum. Það er sá sölulisti sem marktækastur  hefur verið undanfarin ár (þó hann sé auðvitað ekki gallalaus), og við hann er miðað þegar FHF tekur ákvörðun um hverjir hljóti gull- eða platínuplötur. Oftast nær a.m.k. Wink.

Lagalistinn er annað fyrirbæri sem FHF stendur á bak við, en þar er um að ræða lista yfir mest spiluðu lög landsins í viku hverri, samkvæmt upplýsingum frá útvarpsstöðvum. Sá listi er um margt ágætur en hann mælir þó ekki vinsældir laga nema upp að vissu marki. Vissulega spila FM957 og Bylgjan mest af þeirri tónlist sem menn á þeim bæjum telja í mestum metum hjá sínum hlustendum hverju sinni, og til þess að meta það gera þessar stöðvar reglulega kannanir meðal hlustenda. Þær kannanir eru þó með þeim annmörkum að þar haka þátttakendur einungis við 30 lög sem stöðvarnar hafa ákveðið að kjósa skuli um. Hlustendur geta ekki kosið lög að eigin vali. En engu að síður hygg ég að spilunarlisti þessara tveggja stöðva sé sæmilega í takt við vilja hlustenda þeirra. Það er þó einungis ákveðin tegund tónlistar sem er spiluð á þessum stöðvum. Groddaleg gítarlög fá t.d. sjaldan eða aldrei spilun á Bylgjunni, jafnvel þó þau njóti vinsælda á FM og Rás 2. Það er hluti af því að útvarpsstöðin hefur sett sér stefnu sem farið er eftir í einu og öllu. Það er hið besta mál, og tryggir að markhópnum svelgist ekki á molasopanum. 

Öðru máli gegnir um Rás 2. Þar á bæ er mönnum frjálst að spila hvað sem þeir vilja, burtséð frá óskum hlustenda. Það er sérstaða Rásar 2 að þar getur maður átt von á að heyra lög sem aldrei heyrast á öðrum stöðvum og þar getur maður einnig átt von á því að heyra Álftagerðisbræður strax á eftir Iron Maiden! Oft er þessi sérstaða stöðvarinnar sjarmerandi, en oftast finnst mér hún reyndar til vansa - aðallega vegna þess að ég virðist ekki hafa sama smekk og PopplandsmennSmile. Smekk manna er að sjálfsögðu ekki hægt að rökræða af neinu viti þannig að þessi skoðun mín hefur því lítið gildi í sjálfu sér. En í grunninn er ég altént dálítið hrifinn af því að það sé til útvarpsstöð sem spilar hitt og þetta og fylgir engri sjáanlegri stefnu. Það getur verið ágætis tilbreyting. 

En þessi sérstaða Rásar 2 gerir það að verkum að spilunarlistar þaðan ættaðir segja kannski engin ósköp um vinsældir þeirra laga sem á þá rata. Það er hygg ég ekki hringt inn í hrönnum til að biðja Popplandsmenn að spila B-hliðar lög með Neil Young, en þau eru samt talsvert spiluð vegna þess að fáir ef nokkrir tónlistarmenn eru í meiri metum stjórnenda Popplandsins en einmitt sá annars ágæti Kanadamaður. Eins veit ég mýmörg dæmi um íslensk lög sem notið hafa mikilla vinsælda á Bylgjunni og FM en hafa ekki fengið spilun á Rás 2, eingöngu vegna geðþóttaákvarðana Popplandsmanna. Sem dæmi um slíkt misræmi í áherslum milli stöðva get ég nefnt að lagið Á þig, sem mín ágæta hljómsveit gaf út sumarið 1998, var eitt vinsælasta lag sumarsins á FM og Bylgjunni ( m.a. spilað oftar á Bylgjunni en hið geysivinsæla Farin með SkítamóralSmile) en það var einungis spilað tvisvar sinnum á Rás 2! Þetta tiltekna lag hefur tvisvar síðan notið mikilla vinsælda á Bylgjunni og FM, í rólegri, órafmagnaðri útgáfu, en aldrei fengið viðlíka viðtökur á Rás 2. Þessi litla spilun Rásar 2 á laginu var einvörðungu tilkomin vegna óvildar eins af virtustu dagskrárgerðarmönnum stöðvarinnar í okkar garð.

Ég tek það fram að langt er um liðið og löngu gróið um heilt okkar á milli. Lög okkar fá nú um stundir ágæta spilun á Rás 2 og við höfum ekki yfir neinu að kvarta, t.a.m. áttum við mest spilaða lagið á Rás 2 á síðasta ári. En þetta dæmi, og fleiri sem ég gæti nefnt, sýna það að spilun á Rás 2 þarf ekkert endilega að vera í takt við vinsældir. Rás 2 lýtur einfaldlega öðrum lögmálum en hinar stöðvarnar, og ekkert nema gott um það að segja í sjálfu sér.

Spilunarlistar á borð við lagalista FHF eru þessvegna ekki óbrigðul mælitæki á vinsældir, en gefa þó ákveðnar vísbendingar. T.d. þykist ég vita að til að toppa þann lista þurfi lag að vera í nokkuð góðri spilun á öllum stærstu stöðvunum, en geðþóttaákvarðanir geta gert það að verkum að önnur lög, sem kannski eiga í raun meira upp á pallborðið hjá þjóðinni en topplagið sjálft, ná ekki þeim hæðum sem samræmast raunverulegum vinsældum.

Hvað er þá eftir til að mæla? Aðsókn á tónleika og dansleiki hlýtur að vera vísbending, en erfitt getur verið að mæla slíkt. Ef þú átt góðan vin á blaði er allt eins víst að hægt sé að fá hann til að birta vel heppnaða hópmynd af þeim fáu sem mættu og skrifa frétt um að fjölmargir áhorfendur hafi skemmt sér konunglega. Slíkt umtal er alltaf gott. Tónlistarmenn eru líka andskotanum lygnari þegar þeir eru spurðir um aðsókn. Ég man t.d. eftir einni hljómsveit sem var talsvert í sviðsljósinu fyrir nokkrum árum, en meðlimir hennar fullyrtu kinnroðalaust í hvert skipti sem þeir voru spurðir um aðsókn að það hefði verið uppselt! 

Þeir sem lifa og hrærast í tónlistarheiminum vita oftast nokkurnveginn hvernig aðsóknin er hjá keppinautunum en þær upplýsingar liggja hvergi frammi, og berast aldrei til almennings. Ef ég myndi t.d. ljúga því í viðtali að við hefðum fyllt einhverja íþróttahöllina úti á landi þá er ótrúlegt að einhver keppinauturinn sendi frá sér leiðréttingu á þeim rangfærslum. Vitandi það stunda sumir þennan hvimleiða leik, og grandvaralausir fjölmiðlamenn grípa blöðruna á lofti og halda áfram að blása hana upp.

Aðsóknartölur eru sem sagt heldur ónákvæmt mælitæki líka. Allavega er nákvæmni upplýsinga ekki alltaf eins og best verður á kosið. Þá dettur mér ekki mikið meira í hug sem er raunverulega mælanlegt. Einhverjar hugmyndir?

Ef hljómsveit á góða vini sem vinna á fjölmiðlum, tala nú ekki um ef meðlimir sveitarinnar eru sjálfir blaða- eða útvarpsmenn, þá má koma ansi miklu fjölmiðlahafaríi af stað. Margir þeirra tónlistarmanna sem lesa má um á síðum blaðanna og heyrast mærðir í hvívetna í Popplandi hafa lítið unnið sér til frægðar annað en að eiga vini á réttum stöðum. Með endurtekinni umfjöllun um meintar vinsældir viðkomandi rís frægðarsólin hægt og sígandi. En innistæðan er lítil og baklandið ekkert þannig að raunverulegar, áþreifanlegar vinsældir láta oftar en ekki á sér standa. Það selst ekki upp á tónleika þessara sveita, sé vettvangurinn stærri en sem nemur litlu kaffihúsi í 101, og plöturnar seljast ekki í bílförmum. Þrátt fyrir það heldur umtalið áfram, enda gefast félagarnir ekki upp.

Ég vil taka það skýrt fram áður en enn lengra er haldið að þessi skrif mín hafa ekkert með mína hljómsveit að gera. Við erum ekki með í jólaplötuslagnum, og sækjumst ekki sérstaklega eftir því að vera upphafnir í innihaldsrýrum viðtölum eða blaðagreinum. Okkur gengur ljómandi vel. Þannig hefur það verið lengi, aðsókn á böllin yfirleitt góð og síðustu 4 plötur seldar í gull. Það er ekki yfir neinu að kvarta. Það káfar ekkert upp á okkur þó einhverjar hljómsveitir segist vera á barmi heimsfrægðar eða vinsælastar á landinu o.s.frv. Þá eru þær bara í því - þar til blaðran springur Wink.

En það breytir því ekki að mér persónulega leiðist orðið dálítið þessi uppivöðslusemi og eilífar tilraunir til að upphefja eitthvað sem ekki er innistæða fyrir. Tala nú ekki um þegar tónlistarmenn tapa sér í því að upphefja sjálfa sig. Gott dæmi um það er ítarleg grein sem Atli Bollason hljómborðsleikari Sprengjuhallarinnar og tónlistarskríbent á Morgunblaðinu (!) ritar í Lesbók blaðsins s.l. laugardag. Þar greinir hann frá því í löngu máli hvernig frægðarsól Sigur-rósar og fleiri hljómsveita hefur hnigið og vikið fyrir nýrri, ferskari og gáfaðri kynslóð - með Sprengjuhöllina í broddi fylkingar! Máli sínu til stuðnings tínir hann til ýmis falleg ummæli sem birst hafa á prenti um hljómsveitina Smile.

Ég tek það fram að ég hef ekkert á móti Sprengjuhöllinni sem slíkri, hef enda enga sérstaka skoðun á því bandi, en mér blöskrar hve langt umræddur Atli gengur í að upphefja sína eigin hljómsveit. Það finnst mér í besta falli óviðeigandi. Ég hvet alla til að skoða þessa grein vel og vandlega. Hún er ágætlega skrifuð, en ekki síst til vitnis um svo ótalmargt - misgott. 

Tilgangurinn með þessum langhundi mínum, sem ég bið þá sem hafa af þrautsegju lesið alla leið hingað niður hér með afsökunar á, er þegar öllu er á botninn hvolft kannski einmitt ekki annar en sá að biðja fólk að temja sér gagnrýna hugsun. Ekki kokgleypa það sem sagt er á síðum blaða eða í útvarps- og sjónvarpsþáttum. Ekki láta fjölmiðlamenn segja hvað sé í lagi að kaupa og hvað ekki. Hvað sé inn og hvað út. Í aðdraganda jólaplötuflóðsins held ég að það sé þörf áminning. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiríkur Harðarson

Heimir minn vil bara segja þér að ég er orðinn algjerlega áhugalaus eftir lestur svona mikið llllangra færslna/pistla að eina erindi mitt við þig nú er að segja þér að stuttir hnitmiðaðir pistlar eru miklu BETRI.

Eiríkur Harðarson, 14.11.2007 kl. 17:54

2 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Ég er svosem alveg sammála þér Eiríkur minn, en stundum liggur manni bara svo óskaplega mikið á hjarta að maður nær ekki að hemja sig .

Heimir Eyvindarson, 14.11.2007 kl. 18:57

3 identicon

Ég er hjartanlega sammála þér að hálfa væri nóg. Langir pislar eða ekki það venst, haltu svo bara áfram í þinni tónlistarsköpun.

Svo vantar mig að vita hver var trommari Á Móti Sól 1995-1997

Hef sett inn á síðuna hjá mér upplýsingar um Íslenskir einherja/Hljómsveitir

Guðmundur Heiðar Gunnarsson (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 19:14

4 identicon

Ég var einmitt að velta fyrir mér úr hvaða haus sprengjuhöllin hefði stokkið svona fullsköpuð og heimsfræg!

Heiðrún Dóra (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 15:43

5 Smámynd: Hjalti Árnason

Sprengjuhöllin er víðfræg í noregi. Eru það ekki vegagerðarmennirnir sem eru alltaf að sprengja alltí tætlur????

Nei án gríns, Þetta er alveg rétt hjá þér. Ég veit ekki hversu mörg símtöl ég fékk á sínum tíma, þegar ég var frægur útvarpsstjóri. Það var alveg sama hvað, Einsöngur, rapp, þungarokk, Harmonikka; allir voru ALVEG við það að verða heimsfrægir.

Mér finnst líka að stöðvar eins og bylgjan skjóti sig hálfpartinn í fótinn við að gera svona þrönga spilunarlista. Ég held ekki út að hlusta á svona heilann dag (guði sé lof að ég hætti æi frystihúsinu!) Í noregi er ágæt stöð (sem ég hlusta aldrei á) sem mér fannst spila alltaf mikið eitís þegar ég kom hingað ´94. Þeir eru ennþá með sama playlistann!!! Feikna flottir!! Þeir fundu upp eitís! Þeir ganga örugglega allir í bleikum jakkfötum.

Það besta sá ég á mbl.is í haust þarsem ein fremsta hlkjómsveit noregs var að halda tónleika á íslandi. Kallið mig afa, en ég hafði ALDREI heyrt um grúpppuna, ekki heldur hinir í hljómsveitinni minni sem eru mun betur inní bransanum en ég.  

Hjalti Árnason, 23.11.2007 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband