Verðugur er verkamaðurinn launa sinna

Ég hef starfað sem kennari/leiðbeinandi s.l. 3-4 ár og líkað starfið býsna vel. Svo vel raunar að ég er nú í óðaönn að afla mér réttinda, svo ég verði fullgildur kennari. En eins og ég minntist aðeins á í síðustu færslu hef ég alvarlega verið að velta því fyrir mér upp á síðkastið hvort það er nú nokkur glóra í því.

Mér finnst t.d. grátlegt hvað stéttarfélag okkar er vonlaust batterí. Ég hef borgað félaginu, í formi stéttarfélagsgjalda, u.þ.b. 50 þúsund á ári s.l. 3 ár, eða samtals 150 þúsund krónur. Hvað fæ ég í staðinn? Jú ég fæ t.d. að leigja mér rándýran sumarbústað þegar allir hinir eru búnir að velja sér, eins og ég minntist á í gær, og ég fæ niðurgreiddan kostnað við tannviðgerðir.

Ég spurðist aðeins fyrir um þær reglur í dag og mér skilst að það fúnkeri þannig að fari kostnaðurinn yfir 80 þúsund borgi KÍ 25% þess kostnaðar sem umfram er. Þannig að ef maður borgar 100 þúsund í tannlækningar borgar KÍ 25% af 20 þúsundunum sem umfram 80 kallinn eru! Samtals 5000 krónur, og af þeim þarf maður síðan að greiða skatt! Það er nú öll dýrðin. 

Síðan má ekki gleyma því að stéttarfélagið sér mér fyrir mönnum til að semja um launin mín fyrir mig. Svokallaðri samninganefnd. Ég hef nú fylgst lengi með kjaramálum kennara og fæ ekki séð að þessi nefnd hafi unnið nein stórvirki Sick. Sannast sagna skil ég almenning mjög vel að líta stétt sem velur sér svona fólk til að semja fyrir sig ekki neinum sérstökum virðingaraugum.

S.l. vetur var t.d. ákveðið að nota ekki tækifærið meðan uppsveiflan var enn til staðar, og menn töluðu fremur í milljörðum en krónum, til að leiðrétta kjör stéttarinnar. Nei. Mannvitsbrekkurnar og markaðsfræðingarnir í samninganefnd kennara ákváðu að bíða í eitt ár. Allan þann tíma hafa kennarar verið með umtalsvert lægri laun en sambærilegar stéttir, t.d. leikskólakennarar. Bravó!

Ég gæti lengi haldið áfram að tuða um ágæti" KÍ en ég ætla ekki að gera ykkur það. Ég verð samt að minnast á það að sambandið virðist skorta alla „markaðshugsun". Eitt lítið dæmi í því sambandi er t.d. það að leggja upp í enn einar kjaraviðræðurnar með Eirík Jónsson í broddi fylkingar. Nú er hann eflaust vænsti maður, og flestum öðrum reyndari í kjaraviðræðum, en það breytir bara engu. Fólk er fyrir löngu búið að fá nóg af honum, og ég er þess alveg fullviss að almenningur snýst ekki umsvifalaust á sveif með kennurum næst þegar Eiríkur birtist á skjánum. Því miður. Ekkert illa meint.

Kjaramál snúast nefnilega að svo stóru leyti um almenningsálitið. Það að meirihluti þjóðarinnar sé á móti launakröfum svo stórs hóps sem kennarar eru, eins og of oft hefur komið fyrir, hefur t.d. bein áhrif á það hvaða afstöðu ráðamenn taka. Mér er það t.d. minnisstætt þegar Kjartan Ólafsson þingmaður sunnlendinga steig í pontu á Alþingi í miðri vinnudeilu kennara og fullyrti að kennarar ynnu ekki nema 130-140 stundir á mánuði, meðan annað fólk ynni 200-250 stundir! Slíkt bull er mér til efs að menn leyfðu sér að bera á borð ef meirihluti almennings hefði fullan skilning á stöðu kennara, og tæki afstöðu með þeim.

Svipaðar rangfærslur var að finna í athugasemd góðrar vinkonu minnar við síðustu bloggfærslu mína. Ég lái henni ekki að fara með rangt mál, þegar þingmenn gera það líka. Staðan er einfaldlega þannig að KÍ hefur algerlega mistekist að bæta ímynd kennarastéttarinnar, og virðist vera algjörlega ráðþrota í þeim efnum. Þessvegna þurfum við enn um stund að sitja undir slíkum þvættingi.

Ég er ekki sérfróður í kjaramálum kennara, skeyti raunar lítið um hvað ég hef í kaup. Enda er ég ekki í starfinu vegna launanna, það er klárt! En ég held nú samt að ég viti nokkurnveginn hvernig vinnutíma kennara er háttað. T.d. var ég nýkominn heim úr skólanum í gærkvöldi þegar ég las athugasemd Huldu vinkonu minnar, en það er önnur saga Smile

Án þess að ég ætli að fara í einhverjar hártoganir um það hvort ég skila sama vinnuframlagi og venjulegt fólk ætla ég að reyna að skýra vinnutímann aðeins út. Að svo miklu leyti sem ég skil hann. Þeir leiðrétti mig sem betur vita og þekkja.

Full vinnuvika umsjónarkennara er 43 klukkustundir. Þar af eru að ég held 27 kennslustundir.

Engin yfirvinna er greidd, nema kennari kenni auka kennslustund. Allt annað á að rúmast innan þessara 43 stunda; Undirbúningur og úrvinnsla kennslu, gerð og yfirferð prófa, allir fundir með kennurum eða starfsfólki, foreldrafundir og viðtöl, skemmtanir og undirbúningur þeirra, undirbúningur ferðalaga, endurmenntun og námskeið sem kennarar þurfa að sækja, nemendasamtöl, aðstoð við fjáröflun nemenda, foreldrasamstarf o.s.frv.

Hver kennslustund er 40 mínútur, þannig að kenndar klukkustundir eru samtals 18.

Restin er skilgreind svona:

5,72 klukkustundir í lögbundin hlé s.s. kaffi- og matartíma. Hvorki meira né minna en hjá öðrum stéttum.

9,14 klukkustundir í verkstjórnartíma. Hér er um að ræða viðtalstíma, kennarafundi, starfsmanna- og stigsfundi, fag- og árgangafundi, samstarf fagfólks innan skólans og utan, skráningu upplýsinga, umsjón og eftirlit með kennslurými o.fl.

10 klukkustundir í undirbúning og úrvinnslu kennslu. Mig minnir að þetta sé hugsað þannig að fyrir hverja 40 mínútna kennslustund séu ætlaðar 20 mínútur til undirbúnings og úrvinnslu.  Mörgum finnst það fáránlegt að kennarar þurfi svo mikinn tíma til undirbúnings, en ég segi fyrir mig að ég gæti alveg þegið meiri tíma til að undirbúa og skipuleggja verkefni með krökkunum. Ég er oft fram á kvöld að garfast í einhverju sem viðkemur kennslunni og skipulagi hennar, og þannig er með flesta kollega mína.

Þetta dæmi kemur í raun þannig út að kennari með 25 barna bekk hefur að jafnaði u.þ.b. 5 mínútur á dag fyrir hvern og einn nemanda. Sem hver heilvita maður sér að er allt of lítið.

Venjuleg vinnuvika á Íslandi er 40 klukkustundir. Vinnuvika kennara er 43 stundir, umframstundirnar 3 fara held ég í að jafna út páska- og jólafrí sem margir býsnast yfir. Eins má geta þess að sumarfrí kennara er 8 vikur, ekki 12 eins og margir virðast halda. Yfir sumarið ber kennurum aukinheldur skylda til að sækja endurmenntunarnámskeið. Einhversstaðar sá ég að það ættu að vera 100-150 stundir, ég er þó ekki viss um það. En altént á umræðan um löng frí kennara, hvort heldur um er að ræða sumarfrí eða jóla- og páskafrí, ekki rétt á sér. 

Ég tek það aftur fram að ég er ekki sérfróður um kjaramál kennara, og það er ekki víst að ég fari að öllu leyti með rétt mál í þessum doðranti mínum, en þetta er í það minnsta nærri lagi. Ég ætla heldur ekki að væla undan vonda fólkinu sem býsnast yfir því hvað ég skila litlu vinnuframlagi. Það verður að eiga það við sig. Mér finnst umræðan bara fyrst og fremst eiga að snúast um það í hvernig samfélagi við viljum búa. Viljum við t.a.m. búa í samfélagi þar sem umönnunarstörf eru láglaunastörf? Ég segi nei. Ég vil samfélag þar sem boðið er upp á öflugan skóla, allt frá leikskólastigi og upp úr. Ég vil að gott fagfólk, sem er ánægt í starfi sjái um menntun barna minna.

Það fólk sá ég í grunnskólanum í Hveragerði þegar ég hóf störf þar. Það fólk var ein meginástæða þess að ég ákvað að flytja hingað. Nú er hinsvegar svo komið að flótti er brostinn á í stéttinni, og óánægjan kraumar undir niðri. Ef ekkert verður að gert líst mér ekki á blikuna.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Frábær pistill Heimir  Ímynd stétta ykkar lítur ekki of vel út að við  

Sem betur fer er frábært fagfólk að störfum sem á skilið að fá miklu betri laun, það sagði ég líka í athugasemd minni í gær að ég hefði fullan skilning á launakröfum ykkar  

En ég á fullt af vinum sem eru kennarar  og hefur þess vegna ekki farið fram hjá mér sveigjanleiki í vinnutíma þeirra, lítur þannig út hjá leikmanni því að við sjáum ykkur ekki fara yfir prófin heima á kvöldin né útbúa verkefni.

Held að það væri löngu tímabært hjá ykkar stétt að skipta Eiríki Jónssyni út

Ég er líka í starfstétt sem semur alltaf fyrst og tekur þegjandi við því sem boðið er, að því allt annað setur þjóðfélagið á annan endan  hef oft sagt það það þyrfti einn Guðmund Gunnarsson í hverja samninganefnd, sem betur fer bý ég með rafvirkja sem Guðmundur semur fyrir

Kannski er hægt að fá Guðmund leigðan því ekki færðu sumarbústað í Flúðlingaholti fyrr en eftir c.a. 9 ár

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 5.3.2008 kl. 18:22

2 Smámynd: Guðmundur M Ásgeirsson

eftir sorglega fá ár fer Marinó í grunnskóla til að láta forrita sig fyrir lífstíð - ég vil geta sagt að það sé fólk með hugsjónir, stolt og ánægju af starfi sínu sem er að fara að kenna honum - og ef það á að takast verður þetta fólk - sem er að ala upp verðandi stjórnendur - AÐ FÁ ALMENNILEG HELVÍTIS LAUN!

Guðmundur M Ásgeirsson, 6.3.2008 kl. 00:42

3 Smámynd: Bryndís Valdimarsdóttir

Mjög góður pistill Heimir, frábært hjá þér. Ég ætla ekkert að tjá mig frekar um þetta (ég verð svo æst), finnst þetta bara mjög nauðsynleg umræða.

Bryndís Valdimarsdóttir, 6.3.2008 kl. 10:00

4 identicon

Heyr heyr!

Ég skal alveg viðurkenna það að vinnutími kennara er nokkuð sveigjanlegur, og kannski sveigjanlegri í framhaldsskólum en í grunnskólum. Hins vegar er það ein af mörgun ástæðum fyrir því að ég valdi mér þetta starf. Ég get unnið heima og það er mitt val. Ég mæti á hverjum morgni kl.8 og er í vinnu fram eftir degi, engu að síður sit ég nánast öll kvöld með fartölvuna í fanginu, fer yfir verkefni, ritgerðir, svara nemendum og undirbý næsta dag.

Fyrir 180 þús krónur útborgaðar eftir 4 ára háskólanám finnst mér ekkert athugavert við þennan svokallaða ,,sveigjanlega" vinnutíma, þó það nú væri! Menn ætti kannski ekki að undra hvers vegna ég sit fyrir framan tölvuna nú á þessari stundu og íhuga hvað ég eigi eiginlega að læra næst...

Eyja peyja (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 12:00

5 identicon

...og að lokum ég fer með 7 skáldsögur inn í komandi páskafrí sem þarf að lesa og útbúa verkefni/ritgerðarefni upp úr... Jei, kannski hef ég tíma fyrir smá góðgæti inn á milli, hver veit.

Eyja...again (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 12:03

6 identicon

Vel gert "sossi".

Ari (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 21:39

7 identicon

Frábær pistill Heimir. Mig langar að segja þér smáreynslusögu sem snerta þetta viðhorf sem þú bendir á að takist svo illa að útrýma. Árin sem ég vann sem grunnskólakennari eru ansi mörg. Á þessum árum tók ég þátt í kjarabaráttunni og tvisvar varð staðan sú að baráttan endaði með verkfalli. Það var með hreinum ólíkindum hvað það var mikið að fólki sem gaf sjálfu sér skotveiðileyfi á okkur kennara í þessum verkföllum. Ég var á endanum farin að forðast það t.d. að fara á kaffihús því að ég mátti eiga von á því að þangað kæmi eitthvert fólk sem væri nógu málkunnugt mér til að vinda sér að mér og hella úr skálum reiði sinnar yfir þessu kennaraliði sem alltaf væri með eintóma frekju sem bitnaði á börnunum þeirra, þetta lið flatmagaði sumarlangt, fengi langt jólafrí og langt páskafrí langt umfram aðra og svo væri þetta starf þess eðlis að iðvnaðarmaðurinn af götunni gæti verið alveg jafnhæfur ef ekki hæfari til að kenna börnunum þeirra, þetta væri langmest bara spurning um karakter! Ég reyndi fyrst að mögla og benti á staðreyndirnar sem þú ert einmitt að skrifa um, þ.e. hvernig launin væru reiknuð út, m.a. að yfirvinnan væri reiknað á dagvinnutaxta og greidd út í fríi og maður hefði ekki einu sinni val í þeim efnum o.s.frv. o.s.frv. ..... Svo reyndi ég að útskýra faglega þáttinn og allt það ..... veistu .... þetta fólk hafði engan áhuga á að hlusta ... það hreinlega elskaði að rakka kennarastéttina niður. Ég man að ég varð bæði sár og reið að finna hvað öll vinnan sem ég lagði á mig til að sinna starfinu mínu og hlúa að börnum náungans var lítils metin ... en ... svo þegar ég fór lengra með pælinguna sá ég einmitt það sem þú bendir réttilega á ... KÍ hefur alltof lítið gert af því að vinna foreldra á sitt band. Fólk sem elskar að rakka niður kennarastéttina gerir það af því að það tengir ekki, það fattar ekki að það besta sem það getur gert fyrir börnin sín er að vinna með kennurum, það hefur ekki enn áttað sig á því að þá verður skólastarf best þegar foreldrar og kennarar upplifa sig í sama liði og eru tilbúnir að berjast saman fyrir bættum vinnuaðstæðum. þ.m.t. hóflegu vinnuálagi og sanngjörnum launum. Þarna hefur KÍ ekki unnið heimavinnuna sína að mínu mati.

Takk aftur fyrir frábæran pistil.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 7.3.2008 kl. 11:07

8 identicon

Ég er með hugmynd að nýjum skylduáfanga í Kennó. "Hvernig útskýrir þú tilverurétt þinn sem kennari?" Fáum svo Þorgerði Katrínu og Árna Matt sem gestafyrirlesara!!

Kolla (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 15:13

9 Smámynd: Hjalti Árnason

Þetta er í sjálfu sér ekkert mikið betra hérna megin við lækinn. Reyndar hef ég ekki heyrt  nokkurn kennara kvarta sérstaklega yfir launaleysi  lengi hÉr eru sömu regglur með yfirvinnu og Þ.h. Ég er sjálfur farinn að velta fyrir mér að verða kennari, fæ mjög fín laun sem fagkennari vegna minna þriggja sveinsbréfa, ef ég bæti við mig einu ári í kennslu eftir meistaraskólann

Ég get ekki sagt annað en að ég öfundi stundum vin minn kennarann (sem ég kalla Frímann) vinnur átta mánuði á ár, alltaf inni, alltaf á föstum tímum og með reglulegum 40 mínútna hléum.

Hjalti Árnason, 9.3.2008 kl. 20:17

10 Smámynd: Guðmundur Rafnkell Gíslason

Sæll Heimir!

Ég útskrifaðist sem kennari frá HA 1997. Ég tók við Egilsbúð 1 mánuði fyrir útskrift og hef aldrei kennt. Ég ber gríðarlega virðingu fyrir kennurum og þeir vinna upp til hópa miklu fleiri stundir en þeir fá borgaðar. Auðvitað eru svartir sauðir innan um sem komast létt frá öllum saman en þeir eru í öllum stéttum.

Það er mikið vit í að mennta sig sem kennari. Menntunin er góð og hefur reynst mér vel í starfi sem framkvæmdastjóri, sveitarstjórnarmaður, mannauðsstjóri og nú aftur framkvæmdastjóri. Ekki spurning að ljúka kennaramenntun en hvort á svo að kenna eins og launin eru... það er spurning.

Ég er vinnuveitandi kennara, í vissum skilningi, sem forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar. Ég vil borga kennurum hærri laun en.... flest sveitarfélög hafa ekki efni á því. Það er vandamálið. Sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólanna af ríkinu en meðgjöfin var of lág. Til að hækka laun kennara, án þess að sveitarfélögin fari á hausinn, þarf ríkisstjórnin að útvega nýja tekjustofna eða bæta í þá sem fyrir eru.

Þú átt skilning minn allan.

Ég ætla að verða kennari þegar ég verð stór.... eða þegar ég hef efni á því.

Svo var alltaf draumurinn að vera trillukarl á sumrin en kvótakerfið kemur líklega í veg fyrir það. 

Bestu kveðjur frá Nesk. Bið að heilsa drengjunum og Kidda Harðar trommara.

Guðmundur Rafnkell Gíslason, 15.3.2008 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband