Gleðilega kosningabaráttu

Betri hliðin á sveitarstjórnapólitíkinni hefur mér yfirleitt þótt vera að þar snúast mál ekki svo mikið um flokka, heldur frekar um fólk. Fólk sem ekki er rígbundið af stefnu flokka sinna í landsmálum, en vill einfaldlega leggja sitt af mörkum til að gera sitt nánasta umhverfi að betri stað. Verri hliðin er hins vegar sú að oft vill þessi áhersla sem lögð er á fólk umfram flokka verða til þess að gagnrýni andstæðinga verður um of á persónulegum nótum - og þá um leið ómálefnalegum.

Ummæli Aldísar Hafsteinsdóttur bæjarstjóra um félaga minn og meðframbjóðanda, Njörð Sigurðsson, sem hún birtir á heimasíðu sinni í dag finnst mér sorglegt dæmi um þetta. Njörður sat bæjarstjórnarfund í vikunni sem gestur, og hjó eftir því að Aldís sagði eitthvað á þá leið að ef lánin sem bærinn hefur tekið á þessu kjörtímabili hefðu verið í erlendri mynt værum við í enn dýpri skít en við erum nú þegar!

Njörður segir frá þessu á Facebook síðu sinni, enda fannst honum merkilegt að heyra bæjarstjórann viðurkenna að bærinn væri í djúpum skít. Viðbrögð Aldísar eru með slíkum ólíkindum að ég trúi varla enn að þarna fari sú Aldís sem ég hef kynnst, af góðu einu.

Það er einlæg  von mín að kosningabaráttan hér í Hveragerði verði ekki á þessum nótum. Hér er verk að vinna á öllum sviðum. Það dylst engum sem skoðar málin af sanngirni að Sjálfstæðisflokkurinn hefur að ýmsu leyti unnið ágætt starf á kjörtímabilinu, en betur má ef duga skal. Meirihlutinn hefur sofið á verðinum í veigamiklum málum, eins og t.d. atvinnumálum – sem sést kannski best á því að atvinnumálanefnd var lögð niður á kjörtímabilinu. Þá hefur forgangsröðun núverandi meirihluta verið með þeim hætti að stefnir í óefni, eins og ég hef áður lýst.

Ég ber mikla virðingu fyrir öllu fólki sem gefur kost á sér til vinnu fyrir bæjarfélagið sitt. Hvar í flokki sem það kann að standa. Aldísi og fleiri sem skipa lista Sjálfstæðisflokksins kann ég persónulega afar vel við og vona að það fólk fari ekki að ata mig og félaga mína auri þótt við eigum að heita andstæðingar á pólitíska sviðinu þessa dagana. Á sama hátt trúi ég að félagar mínir á A-listanum sleppi öllu persónulegu skítkasti, enda hefur verið lögð sérstök áhersla á það í stefnumörkun listans fyrir kosningarnar.

Ég leyfi mér að endingu að bjóða Sjálfstæðismönnum að kíkja við á kosningaskrisfstofu A-listans, sem opnar formlega í Sunnumörk á laugardaginn. Sjálfur mun ég svo sannarlega kíkja við hjá Sjálfstæðismönnum og óska þeim til hamingju með sína opnun.

 Gleðilega kosningabaráttu Smile

 Heimir Eyvindarson, skipar 7. sæti A-listans í Hveragerði


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Heimir´

Vil óska þér góðs gengis í kosningabaráttunni. Tek ofan fyrir fólki eins og þér sem vill gefa kost á sér í svona verkefni. Þekki af eigin raun að þetta er mikil vinna sem ekki er alltaf þökkuð en er samt sem áður gefandi ef maður hefur áhuga á að bæta umhverfi sitt.

Tek heilshugar undir það sem þú ert að fjalla um hér að ofan en það er nú einu sinni þannig að sumt fólk á erfitt með að taka gagnrýni en er alltaf til búið að gagnrýna aðra.

Með kveðju

Helga G Guðjónsdóttir

Helga G GUðjónsdóttir (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 10:36

2 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Þakka þér fyrir Helga .

Heimir Eyvindarson, 30.4.2010 kl. 15:41

3 identicon

Good luck from Denmark :)

Jesper (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 13:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband