Svíar eru skrýtnir kallar

Ég hef oft furðað mig á því hvað svíar eru leiðinlega akkurat. Eða bara leiðinlegir. Líklega leiddi ég fyrst hugann að því þegar hinn sænski umsjónarmaður farfuglaheimilisins í Gautaborg neitaði mér og tveimur félögum mínum um næturgistingu, á þeim forsendum að hann gæti alls ekki tekið við gestum eftir lokun. Klukkan var 22.02 og heimilið lokaði kl. 22.00!

Þetta var árið 1987 og við vorum hvorki veraldarvanir né fjáðir þannig að hótel eða gistihús var einhvernveginn ekkert inni í myndinni, og því brugðum við á það ráð að reyna að láta nóttina líða einhvernveginn. Meðal staða sem við heimsóttum undir morgun, þegar búið var að loka bíóhúsunum og diskótekunum, var heljarstór strípibúlla sem var opin fram eftir öllu. Þar réð hin sænska nákvæmni einnig ríkjum. Strípidísin háttaði sig samviskusamlega á heila og hálfa tímanum, á heila tímanum stóð hún eftir á nærunum einum fata en á hálfa tímanum hélt hún brjóstahaldaranum líka! Milli strípistunda afgreiddi hún svo óáfengan Pripps á barnum.  Afskaplega óspennandi prógramm - verulega sænskt.

8 árum síðar kom ég aftur til Svíþjóðar, þá með bekknum mínum í Garðyrkjuskólanum sem var sendur í þriggja vikna námsferð til Hvilan Trädgårdskole, rétt hjá Malmö. Og það var ekki að sjá að svíarnir hefðu neitt slakað á nákvæmniskröfunum síðan ég sá þá síðast Wink. Hópurinn fór tvisvar eða þrisvar yfir sundið til Köben og í þá daga var engin Eyrarsundsbrú komin þannig að það þurfti að taka ferju. Sem var í sjálfu sér ekkert vandamál því siglingin tók ekki nema 40-50 mín. minnir mig, og fjölmargar ferjur í boði þannig að það var alltaf pláss. En ég lýg því ekki að allar þessar ferjur, ábyggilega hátt í 10 stk., fylgdu nákvæmlega sömu áætlun! Hver ein og einasta! Þær sigldu yfir sundið á heila tímanum, líklega á tveggja tíma fresti, þannig að ef þú misstir af einum bát þá þurftirðu bara að gjöra svo vel að bíða eftir að tíu báta strollan kæmi til baka! Við misstum náttúrlega aldrei af bátnum, en okkur fannst þetta engu að síður í meira lagi undarlegt fyrirkomulag.

Mér finnst norðmenn líka skrýtnir, eins og oft hefur komið fram í skrifum mínum, en ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þá að sinni. Mér finnst samt rétt að nefna þá því að kveikjan að þessum skrifum mínum var sú að ég var rétt í þessu að furða mig á undarlegum flugfargjöldum hjá SAS-flugfélaginu og ég er aldrei viss um hvort það er sænskt eða norskt. Kannski er það m.a.s. danskt, hvað veit ég? Það hlýtur samt eiginlega að vera sænskt því ódýrustu sætin eru sérstaklega merkt. Allavega sat ég undir risastóru skilti sem á stóð ódýrustu sætin, þegar ég fór með SAS til Stokkhólms í sumarWink. Ég held að engum nema svíum geti dottið þvílík leiðindi í hug.  

En semsagt, talandi um SAS, þá erum við fjölskyldan að skoða hvert við getum farið í sumar og meðal þess sem hefur verið skoðað er Svíþjóð og Noregur. Og það er svo undarlegt að það er u.þ.b. helmingi ódýrara að fljúga til Stokkhólms með viðkomu í Osló, en að fljúga bara til Osló Shocking. Semsagt ef þú ferð ekki frá borði í Osló, bíður bara rólegur eftir að ríka liðið komi sér útWink, og heldur síðan áfram með vélinni sem leið liggur til Stokkhólms þá borgarðu helmingi minna!

Ég held að maður verði hreinlega að vera svíi eða norðmaður til að fatta upp á svona þvælu.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

snilldar færsla

takk fyrir mig.

p.s. er SAS ekki eitthvert norsk/sænskt/danskt samkrull? ég held það.

Brjánn Guðjónsson, 4.2.2008 kl. 04:03

2 identicon

Segi sama og Brjánn, skondinn sannleikur hér á ferð í þessum pistli þínum. Og þetta með farfuglaheimilið og nákvæmnina alla rifjaði upp fyrir mér þegar Þjóðverjarnir í búð í Düsseldorf neituðu að sýna mér bol í hillu af því að klukkuna vantaði 5 mínútur í sex og búðin lokaði kl. 6. Kannski eru Svíar eftir allt Þjóðverjar en bara ekki komnir út úr skápnum  - Segisonna

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 17:04

3 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Svíþjóð er ofarlega á listanum yfir staði sem ég hlakka mikið til að heimsækja aldrei. Bévítans skattpíningarsósíalistaríki - samt með kóng og svoleiðis... skrýtið.

Ingvar Valgeirsson, 4.2.2008 kl. 21:58

4 Smámynd: Eyþór Árnason

En sænskan er falleg...Vem kan segla..

Eyþór Árnason, 4.2.2008 kl. 23:05

5 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Brjánn: Takk sömuleiðis , og jú þetta er örugglega eitthvað samnorrænt.

Anna: Já Svíar eru klárlega skápaþjóðverjar!

Ingvar: Skrýtið. Já! Það sem er kannski ennþá skrýtnara er að svo þegar maður heimsækir þessa reglusnata þá eru þeir óskaplega vingjarnlegir og vilja allt fyrir mann gera. Það er allt í standi hjá þeim, það er annað en hægt er að segja um norðmenn t.d. En þeir eru samt eitthvað svo glataðir......

Eyþór: Já sænskan er virkilega falleg.........förutan vind

Heimir Eyvindarson, 6.2.2008 kl. 17:03

6 Smámynd: Hjalti Árnason

Einmitt, ég er líka alltaf að færa mig nær landamærunum. Grasið er grænna (og mun ódýrara) hinumegin við sundið. En það er langódýrast og best í Danmörku.  Synd að fólk vilji hafa mig í vinnu hérna, annars væri ég löngu fluttur....

Hjalti Árnason, 11.2.2008 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband