Handboltinn á niðurleið?

Mér finnst svolítið undarlegt hvernig viðræður HSÍ við þjálfara hafa gengið. Fyrst var rætt við Magnus Anderson, sem gaf afsvar. Ég veit svosem ekkert um þær viðræður, en þvínæst var leitað til þriggja íslenskra þjálfara, Dags Sigurðssonar, Geirs Sveinssonar og Arons Kristjánssonar - í þessari röð.

Ef eitthvað er að marka fréttaflutning fjölmiðla skil ég varla hvernig þeim íslensku datt yfirhöfuð í hug að standa í viðræðum við HSÍ, því af honum má ráða að enginn þeirra hafi haft tíma fyrir starfið. Dagur og Aron gátu ekki tekið starfið að sér vegna skuldbindinga við sín félagslið og Geir var ekki tilbúinn til að fórna dýrmætum tíma með fjölskyldunni fyrir landsliðið. Eflaust eru ástæður þremenninganna þó flóknari en fréttaflutningur gefur til kynna, vonandi a.m.k. Annars hafa þeir hreinlega verið að sóa tíma HSÍ.

Og talandi um HSÍ þá má kannski velta því fyrir sér hvort nægilega vel sé á málum haldið þar á bæ. Ekki það að ég sé einhver sérfræðingur í þeim efnum, síður en svo, en mér finnst eins og það ríki dálítið metnaðarleysi í handboltanum hér á landi. Almennt séð. Hvernig hefur HSÍ t.d. brugðist við þeirri samkeppni sem handboltinn á í við körfuboltann? Oft hefur maður heyrt þjálfara og fleiri lykilmenn í handboltahreyfingunni tala um að það sé afar slæmt hve margir stórir strákar kjósi fremur að æfa körfubolta en handbolta, og sumir hafa m.a.s. gengið svo langt að kenna því um slakt gengi landsliðsins á síðasta stórmóti, þ.e. að við séum svo miklu lágvaxnari heldur en hin liðin. Það er vissulega áhyggjuefni að hávaxnir og sterkir strákar sæki frekar í körfu en handbolta, en það þýðir ekkert að kvarta og kveina yfir því. Væri ekki nær að gera eitthvað í málunum?

Eins og ég benti á áðan er langur vegur frá að ég sé sérfróður um þessi mál, en mér fróðari menn hafa sagt mér að körfuknattleikssambandið sé t.d. mun duglegra í samstarfi við grunnskólana en HSÍ. Sem dæmi má nefna að KKÍ hefur komið svokölluðum minni-bolta inn í íþróttakennslu í grunnskólunum, en þar er notast við lægri körfur og reglurnar eru rýmri. Ég veit ekki til þess að HSÍ hafi gert neitt til þess að gera handboltann meira spennandi fyrir unga krakka, en það kann vel að vera að ég fari með fleipur.

Körfuboltinn er um margt sniðug íþrótt, og hefur óneitanlega margt að bjóða sem erfitt er að keppa við. T.d. geta menn auðveldlega æft sig einir og eins er lítið mál að leika körfubolta utanhúss. Það er því ljóst að það er ekki einfalt mál fyrir handboltann að keppa við körfuna, en það hlýtur að vera hægt að reyna.

Handboltinn er jú einu sinni nokkurs konar þjóðaríþrótt okkar, og klárlega sú boltaíþrótt sem við stöndum fremst í á alþjóðlegum vettvangi. Vissulega er handboltinn ekki eins stór og vinsæl íþróttagrein á alþjóðamælikvarða og körfubolti, að ekki sé minnst á fótboltann, en það breytir því ekki að þetta er viðurkennd íþróttagrein, spiluð um allan heim og keppnisgrein á ólympíuleikum. Margir íslendingar hafa einnig haft af því atvinnu að spila handbolta, meðan einungis örfáir körfuboltamenn hafa gerst atvinnumenn erlendis - svo fátt eitt sé nefnt.  

Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti körfubolta, það má ekki túlka orð mín á þann veg, en það er mín skoðun að við ættum að hlúa betur að handboltanum. Hvað sem öllum samanburði líður. Mér finnst óumræðilega skemmtilegt að fylgjast með landsliðinu okkar (þegar vel gengurWink ), og ég veit að stór hluti þjóðarinnar er mér sammála. Sú stemmning sem oft hefur myndast í kringum strákana okkar" er óviðjafnanleg og hefur oftar en ekki stytt þjóðinni stundir í svartasta skammdeginu. Vinsældir handboltans fara aukinheldur vaxandi um allan heim, og því er kannski ennþá súrara að horfa upp á greinina koðna niður hér á landi. Vonandi tekst að snúa þeirri óheillaþróun við, og lykilatriði í þeim efnum er að við eigum áfram öflugt A-landslið karla. Það er líklega ekkert sem eflir áhuga ungra krakka meira en að landsliðið nái góðum árangri á stórmótum. Þessvegna er ábyrgð HSÍ þegar kemur að ráðningu landsliðsþjálfara mjög mikil, og mikilvægt að menn fari ekki á taugum þó nokkrir hafi afþakkað djobbið.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Fyrst engin vill starfið er þá ekki kjörið að bjóða það Pólverja

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 22.2.2008 kl. 21:45

2 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Jú það hefur nú stundum gefist vel 

Heimir Eyvindarson, 22.2.2008 kl. 21:47

3 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

En er það ekki svo, að störf sem ekki þóknast okkur Íslendingum erum boðin Pólverjum eða öðrum

Bogdan er einn sá besti þjálfari sem handboltalandsliðið hefur haft og nú hugnast mér svo að það þurfi erlenda NÝUNG í bæði fótbolta og handaboltalandsliðið

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 22.2.2008 kl. 22:00

4 identicon

Vill svo skemmtilega til að ég var einmitt í mat og drykk með tveimur þjálfurum 1.deildar kvenna, formanni handboltadeildar og stjórnarmanni HSÍ í gærkvöldi og þar var farið yfir þessi mál í víðara samhengi eins og sagt er.   Staðreyndin er nú sú að þeir sem starfa í innsta hring eru bara býsna blindir á staðreyndirnar, þ.e. hvað handboltinn hér heima er í mikilli lægð.  Það er engin mæting á leiki og öll virðing og metnaður fyrir t.d. Evrópuleikjum er farin....ástæðan??  Það eru engir spennandi leikmenn í deildinni!   Þróunin er sú að allir sem eitthvað geta freistast til að fara erlendis í jafnvel slakari deildir til að verða "atvinnumenn".  Á sama tíma vippa liðin inn 1-2 útlendingum með tilheyrandi útgjöldum.  Á hvað er ætlast til að fólk komi að horfa á???  Þetta var ekki svona.  Menn fóru yfirleitt mun seinna erlendis að spila, ef þeir fóru nokkuð....t.d Bjarki Sig og Valdi Gríms voru atvinnumenn í mjög stuttan tíma og voru þó báðir heimsliðsmenn!  Bogdan kynslóðin fóru flestir út eftir nám hér heima og gerðu það gott.   Ég segi að það þarf breyta þessu, seinka  því að okkar bestu menn fari erlendis, t.d. með því að gera mönnum kleift að stunda nám hér heima og spila handbolta.   Menn gætu haft frítt húsnæði, frí skólagjöld o.sfrv ásamt einhverjum vasapening.  Eftir að námi lýkur er svo kjörið fyrir menn að reyna fyrir sér erlendis, þroskaðri og betri menn.   Við eigum að geta þetta, nóg er þekkingin, fullt af góðum þjálfurum og fleira.  Samhliða þessu ættu félagsliðin að styrkjast og eiga meiri séns í evrópumótunum.   Stemningin sem myndast í kringum landsliðið okkar skilar sér ekki í deildina nema að einhverjir landsliðmenn spili þar, það er alveg klárt. 

Varðandi HSÍ þá er þetta afar klaufalegt hjá þeim og asnalegt hjá þeim að vera alltaf að tilkynna hvern skuli nú ræða við.  Af hverju ekki að halda þessu bara leyndu þar til niðurstaða er komin?  Mjög töff líka að vera næstur í röðinni, á eftir hinum 5 eða 6 jafnvel!   Tobbi Taplausi hafði nefnilega nokkuð til síns máls held ég.    Ég held að Dagur og Aron hafi hvorugur ætlað sér í starfið, það kom ekkert nýtt uppá hjá þeim báðum varðandi núverandi störf þeirra.   Þar fyrir utan finnst mér þeirra tími ekki vera kominn, hann kemur síðar.   En það er rétt hjá gamla að það virðist vera sem handboltahreyfingin sé ekki alveg vakandi.  Maður þekki varla  orðið krakka eða ungling sem stundar handbolta eða fylgist með honum, fyrir utan landsliðið.....það hefur breyst frá árum áður.

Annars verður maður alltaf að passa sig á þér Tommi...körfunöttari að tjá sig um handbolta..það kann ekki góðru lukku að stýra  Vandamálin í körfunni eru næg...alltof margir útlendingar sem eru að skemma verulega fyrir...minni tækifæri fyrir unga Íslendinga og gífurlegur kostnaður.    En handboltamenn gæta engu að síður lært ýmislegt af körfunni. 

Jæja, klukkan orðin of margt, ég ætla ekki detta inn á Össurstímann, gott í bili.  

Rilli (IP-tala skráð) 24.2.2008 kl. 01:09

5 Smámynd: GK

Það gefur auga leið að handbolti er minni en körfubolti

GK, 26.2.2008 kl. 23:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband