Sjálfstæðismenn í Hveragerði

Það sköpuðust líflegar umræður á kaffistofunni í skólanum í dag þegar einn sjálfstæðismaðurinn í hópnum fór að agnúast út í okkur hin fyrir að hafa ekki mætt á opinn fund Sjálfstæðisfélagsins í Hveragerði s.l. laugardag, þar sem sjálfur Árni M. Mathiesen sat fyrir svörum. 

Svo ég leyfi mér að vitna í þessa ágætu vinkonu mína þá sagði hún eitthvað á þessa leið: ,,Ég skil ekkert í ykkur sem eruð svona óánægð, að mæta ekki og láta í ykkur heyra. Það þýðir ekkert að sitja bara heima og tuða."

Það læðist að mér sá grunur að þessi sómakona sé ekki ein um þessa skoðun, ég hef allavega heyrt út undan mér svipaðar athugasemdir flokkssystkina hennar. Kæmi mér ekki á óvart að einhverjir sjálfstæðismenn hér í bænum séu ánægðir með sig að hafa fundið það út að það sé lélegt hjá okkur ,,tuðurunum" að mæta ekki á þessa reglulegu opnu fundi félagsins - og taka þannig virkan þátt í umræðunni - í stað þess að tuða í heimahúsum.

Ég svaraði vinkonu minni afdráttarlaust og gat ekki annað á henni skilið en hún væri sammála því sem ég hafði um málið að segja. Að minnsta kosti tók hún rökum mínum, og annarra við borðið, af karlmennsku og viðurkenndi að sjálfsagt hefði hún blindast af flokkshollustu um stundarsakir, þar sem hún sat ásamt félögum sínum og klappaði fyrir dýralækninum hugumstóra.

Til að bæta um betur ætla ég að svara öðrum sjálfstæðismönnum hér á svæðinu, sem hugsanlega reka hér inn nefið annað slagið. Með tuði beint úr heimahúsi Smile.

Varðandi það hvort það sé lélegt hjá mér að mæta ekki á þessa opnu fundi Sjálfstæðisfélagsins í Hveragerði og taka þannig þátt í umræðunni hef ég þetta að segja: Ég fagna því að félagið standi fyrir fundum af þessu tagi og finnst það gott framtak. Það er mér hinsvegar algerlega í sjálfsvald sett hvort ég mæti á þá eða ekki og ég leyfi mér að fullyrða að ég er hvorki betri né verri á eftir. 

Ég hafði hug á því að mæta á fyrsta fundinn, þar sem Ragnar Önundarson var með framsögu - enda hefur hann haft ýmislegt málefnalegt fram að færa. Bæði í aðdraganda kreppunnar og eftir að hún skall á. Það háttaði hinsvegar þannig til að þann morgun hafði ég tekið að mér að fylgja ungum körfuboltamönnum úr Hveragerði á mót í höfuðborginni, þannig að ég hafði ekki möguleika á að mæta. 

Ég hefði einnig getað hugsað mér að hlýða á Illuga Gunnarsson fara yfir kosti og galla aðildar að ESB í nóvemberbyrjun, en þá átti ég ekki heldur heimangengt.

Þeir gestir sem síðan þá hafa heiðrað Hvergerðinga með nærveru sinni á þessum fundum hafa einfaldlega ekki heillað mig. Ég sá t.d. engan tilgang í því að rífa mig af stað á laugardagsmorgni til að hlýða á erindi Árna Johnsen um efnahagsmál!!!

Að sama skapi sá ég engan tilgang í því að hlýða á fyrirlestur Árna M. Mathiesen um efnahagsmál s.l. laugardag. Hafi einhver stjórnmálamaður sýnt það að hann láti sig engu varða athugasemdir almennings, hvað þá vandaðar og vel rökstuddar aðfinnslur sérfræðinga hvaðanæfa að úr heiminum, þá er það Árni Mathiesen. Alvarlegar aðfinnslur lögfróðra manna, t.a.m. Umboðsmanns Alþingis, hreyfa heldur ekki á nokkurn hátt við Árna. Það er því algerlega borin von að eitthvað komi út úr því að spyrja hann út úr á félagsfundi í Hveragerði. Það held ég að allir sjái, jafnvel hörðustu sjálfstæðismenn.

big-arnimmathieseni4y1715_jpg_550x400_q95.jpg

Eg leyfi mér að fullyrða að enginn þingmaður hefur sýnt af sér annan eins hroka og Árni í umræðunni síðan kreppan skall á. Ekki einu sinni Ingibjörg Sólrún flokkssystir mín! Nú síðast um helgina heyrði ég hann svara því til i útvarpi, spurður að því hvort hann bæri enga ábyrgð á ástandinu, að hann gæti svosem tekið á sig ábyrgðina af falli Lehman Brothers og þeirrar lánsfjárkreppu sem fylgdi í kjölfar þess, ef mönnum liði eitthvað betur með það!  Það er nú öll iðrunin hjá manninum sem ber ábyrgð á efnahagsmálum þjóðarinnar.

Ég spurði þessa ágætu vinkonu mína að því hvernig hann hefði svarað fyrir nokkur tiltekin atriði og það var ekki annað á henni að heyra en tilsvör hans hefðu verið á svipuðum nótum og þau hafa verið í fjölmiðlum undanfarna mánuði; Hann hefur ekkert gert af sér og ástandið sem nú er uppi er ekki á nokkurn hátt honum eða félögum hans í Sjálfstæðisflokknum að kenna.

Það kann vel að vera að slíkur málflutningur gleðji sjálfstæðismenn í Hveragerði, en ég tel tíma mínum betur varið í að tuða í heimahúsum en að hlusta á mann sem er svo algerlega fyrirmunað að sjá hversu ævintýralega vanhæfur hann er.

Sé ég ómerkilegri pappír í augum einhverra Sjálfstæðismanna í Hveragerði fyrir vikið, verða þeir einfaldlega að eiga það við sig Smile.  


ESB

Enn er ESB umræðan komin í öngstræti. Sjálfstæðismenn, sem þykjast loks ætla að ræða málin af alvöru, keppast nú við að stinga upp á leiðum til að sporna við því að almennileg umræða um málið fari fram. Formaður flokksins, og margir fleiri flokksmenn vilja t.d. að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort farið verði í aðildarviðræður eða ekki!

Það er algjörlega fáránlegt, enda alveg ljóst að það er ekki hægt að mynda sér vitræna skoðun á málinu nema það liggi fyrir hvað sé í boði.

Það er deginum ljósara að stærstur hluti þjóðarinnar, jafnvel hver einasti maður, veit ekkert um það hverju aðildarviðræður myndu skila okkur. Enda væru það undarlegar samningaviðræður sem menn vissu fyrirfram hvernig færu.

Það er aukinheldur alveg ábyggilegt að talsvert af því fólki sem nú þegar hefur gert upp hug sinn byggir afstöðu sína á ranghugmyndum. Það á jafnt við um þá sem sjá ESB í hyllingum og þá sem hryllir við því.

Umræðan um ESB hefur einfaldlega verið of máttlítil, og ég leyfi mér að segja á köflum kjánaleg, að það er borin von að ætlast til þess að almenningur hafi myndað sér raunhæfa skoðun á þessu risastóra máli. Þessvegna er akkurat engin skynsemi fólgin í því að láta þjóðina kjósa um hvort fara eigi í viðræður.

Að baki slíkum hugmyndum býr eitthvað annað en vilji til málefnalegrar umræðu. Því miður.  


Pétur Blöndal....

...var að hamast við að verja verðtrygginguna í Speglinum fyrr í kvöld. Hann var fenginn til að gefa álit sitt á hugmyndum manns, sem ég man nú ekki í svipinn hvað heitir, um breytingar á útreikningi vísitölu.

Þessi tiltekni maður hefur stungið upp á því að búin verði til sérstök vísitala fasteignaverðs, sem tæki þá einvörðungu mið af þróun fasteignaverðs, í stað þess að miðað sé við vísitölu neysluverðs þegar verðbætur eru reiknaðar ofan á verðtryggðu húsnæðislánin okkar - eins og nú er gert.

Helstu rök mannsins eru þau að hann telur ósanngjarnt að hækkanir á t.d. bensíni, hjólbörðum og innfluttum neysluvörum leiði til hækkunar afborgana af húsnæðislánum - á sama tíma og húsnæðið sjálft lækkar í verði. Lái honum hver sem vill Smile.

Pétur fann hugmyndum mannsins flest til foráttu. Hann lýsti t.d. þeirri skoðun sinni að honum fyndist eðlilegt að hækkanir á bensínverði leiddu til hækkunar húsnæðislána. Og rökin fyrir því voru nokkuð sérkenniileg, ég held ég muni þau nokkurnveginn orðrétt; ....maður sem ákvað fyrir tveimur árum að sleppa því að aka hringinn í kringum landið vill auðvitað að peningarnir sem hann lagði til hliðar þá dugi fyrir bensíninu eða olíunni núna.

Þetta er í sjálfu sér ekki alvitlaust, enda kristallast þarna grunnhugsunin með verðtryggingunni, þ.e. að sparifé fólks skerðist ekki. En þetta hefur bara því miður enga merkingu á Íslandi, þar sem peningamálastefna Péturs og félaga, sem m.a. felst í því að ríghalda í krónuna sem sveiflast eins og lauf í vindi af minnsta tilefni - og hefur nota bene alltaf gert -, hefur leitt af sér þvílíkan óstöðugleika að það er alveg undir hælinn lagt hvort peningar sem ávaxtaðir eru í banka haldi raunverulegu verðgildi sínu - jafnvel þó vextir séu hér með því hæsta sem þekkist í víðri veröld.

Maðurinn sem Pétur tók sem dæmi og lagði peningana sína inn á bankabók í staðinn fyrir að keyra hringinn hefði t.d. fyrir tveimur árum síðan getað keypt 45 lítra af díselolíu fyrir 5000 kall. Í dag fengi hann 30 lítra fyrir sama pening! Hann hefði semsagt þurft að ávaxta fé sitt um 50% á tveimur árum til að halda í við þróun olíuverðs á Íslandi, þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð á olíu sé í sögulegu lágmarki! Það sýnir nú hve mikil glóra er í dæmi stærðfræðingsins, þegar litið er upp úr reikningsbókinni og raunveruleikinn er skoðaður. 

Mér leiðist líka þessi eilífi væll um skerðingu sparifjár ef þetta séríslenska verðtryggingarfyrirkomulag verði aflagt. Væri ekki nær að byggja hér upp kerfi á svipuðum nótum og gert er í löndunum í kringum okkur, þar sem vextir af húsnæðislánum eru gegnumgangandi 4-6% og engin verðtrygging. Ekki hef ég heyrt af því að sparifjáreigendur í þessum löndum séu stórkostlega ósáttir við það.

Og allt tal um að lífeyrissjóðirnir muni gjalda svo óskaplega fyrir það ef verðtryggingin yrði aflögð er hreinlega hjákátlegt, í ljósi þess að þeir hafa nú þegar tapað hærri upphæðum á glannalegum áhættufjárfestingum, en þeir munu tapa á afnámi verðtryggingar!

Nei Pétur vill heldur halda í íslensku leiðina, þar sem íslensk króna og verðtrygging, sem er óhjákvæmikegur fylgifiskur krónunnar, skapa þær aðstæður að meginþorri almennings verður að gera sér að góðu að búa við  okurvexti og vísitölubindingu sem hefur það í för með sér að hér hækka lánin jafnt og þétt þótt stöðugt sé borgað af þeim, í stað þess að lækka eins og tíðkast í löndunum í kringum okkur.

Í þessu umhverfi sem Pétur og félagar hans hafa skapað okkur er stöðugleiki einungis bóla, eitthvað sem við höfum rétt fundið smjörþefinn af í gegnum tíðina. Hér megum við búa við gjaldmiðil sem hefur alla tíð sveiflast í allar áttir, mest þó niður á við. Það hefur m.a. leitt af sér verðlagssveiflur sem eiga sér fáar hliðstæður í hinum vestræna heimi. Við slíkar aðstæður græðir í raun enginn þegar til lengri tíma er litið, nema kannski alhörðustu braskararnir. Meginþorri almennings, sem á fremur skuldir en sparifé, græðir allavega ekki á þessu. Það er deginum ljósara, gildir þá einu hvaða reikningskúnstum Pétur Blöndal bregður fyrir sig.  

Pétur hélt síðan áfram að verja kerfið og sagði það vera misskilning, að það væru bankarnir sem lánuðu fólki fé til íbúðakaupa. Hið rétta væri að það væru sparifjáreigendur. Þeir legðu fé í bankana, í von um að ávaxta það vel, og það fé notuðu bankarnir síðan til að lána fólki fyrir húsnæði. Þessvegna mætti alls ekki skerða tekjur sparifjáreigenda með breytingum á vísitölunni eða afnámi verðtryggingar.

Það er vissulega rétt hjá Pétri að svona fúnkerar kerfið hjá bönkunum. Þessvegna er sorglegt að hér hafi ekki tekist að búa til sanngjarnt húsnæðislánakerfi, sem hefur það að meginmarkmiði að lántakandanum sé gert kleift að kaupa sér húsnæði án þess að steypa sér í endalausar skuldir, fremur en að markmiðið sé að lánveitandinn maki krókinn. 


EES að kenna?

Ef ófarir okkar Íslendinga í efnahagsmálum eru EES að kenna, eins og ýmsir vilja halda fram þessa dagana, hvernig stendur þá á því að Norðmenn og öll hin löndin í EES eru ekki á hausnum eins og við?

Gleðilegt ár

Ég hef viljandi ekki bloggað síðan um miðjan desember, enda ágætt að taka sér jólafrí frá því eins og öðru. En nú er komið nýtt ár og rétt að fara að ranka við sér.

Áður en ég fer að senda frá mér snilldarpistla (Wink) um það hvernig reka skuli landið og bæjarfélagið, hvort við eigum að vera innan eða utan ESB og almennt hvernig bæta skuli mannlífiðSmile ætla ég að fara aðeins yfir það sem á daga mína hefur drifið síðan ég bloggaði síðast.

Fyrir jólin hafði ég óskaplega mikið að gera, en ég man ekki almennilega hvað það var allt saman. Utan það að ég tók nokkur próf í Háskólanum - með ágætum árangri. Síðan komu jólin og þau voru eins og alltaf frábær. Það var borðað, skipst á gjöfum, spilað o.s.frv. Allt eins og það á að vera.

Á annan dag jóla fór ég á Egilsstaði með félögum mínum í Á móti sól  og spilaði þar á mögnuðu jólaballi, þar sem aðsóknin var eins og á gullaldarárum sveitaballana.

Daginn eftir tók ég þátt í hinu árlega Sölvakvöldi í Hveragerði, sem er einstaklega skemmtilegur viðburður. Þar fóru ýmsir á kostum, sérstaklega Hannes vinur minn Kristjánsson Smile.

Áramótin voru ljómandi skemmtileg líka, við vorum með góða gesti í mat, horfðum á ágætt skaup, skutum upp rakettum, skáluðum, spiluðum og skemmtum okkur hið besta. Ekki hægt að hafa það mikið betra. Ég missti samt af Krydsíldinni, það var dálítið klúður.

Síðustu daga hef ég síðan ekki gert annað en að reyna að snúa sólarhringnum við áður en ég þarf að mæta til vinnu aftur. Eins og sjá má á tímanum á þessari færslu hefur það ekki gengið sem skyldi Smile


Póstlisti FÍH

Ég er í FÍH, Félagi íslenskra hljómlistarmanna, og sem meðlimur fæ ég reglulega sent fréttabréf félagsins í tölvupósti.  

Á föstudaginn fékk ég ansi skemmtilegan tölvupóst frá félaginu.

Í honum stendur m.a eitthvað á þessa leið: Ágæti félagsmaður. Ef þú af einhverjum ástæðum færð ekki tölvupóst frá okkur, vinsamlegast sendu okkur þá netfangið þitt.

Hugsanlega er tölvupóstur ekki besta leiðin til að ná til þessa hóps......Smile


Sé þig seinna

Mér finnst ekkert leiðinlegt að segja frá því að Sé þig seinna, sem einmitt er hægt að hlusta á í spilaranum hér til hliðar, er næst vinsælasta lag landsins í þessari viku, samkvæmt lagalista Félags hljómplötuframleiðenda. Yfirleitt er maður nú ekkert að monta sig af því að lögin manns séu í öðru sæti, en það er í góðu lagi núna því að Emilíana Torrini er í fyrsta sæti - og það er hreint engin skömm að vera fyrir aftan þá frábæru söngkonu.


Players í kvöld

Á móti sól verður á Players í kvöld, þrátt fyrir eldsvoðann í gær.

Það kviknaði víst í Players í gær en það breytir því ekki að við verðum með ball þar í kvöld. Dugnaðurinn í þessum mönnum er þvílíkur að þeir náðu að opna staðinn aftur í gærkvöldi, með nýju parketi og allez! Sjálfsagt hefur staðurinn aldrei verið flottari - sjáumst Smile

gunnar_large1

Þess má geta að þeir sem mæta með mynd af Gunnari Birgissyni í vasanum fá óvæntan glaðning.


Nú skil ég ekkert lengur

Ég ætla að leyfa mér að halda fram að ég sé ekki nema í meðallagi vitlaus. Samt sem áður skil ég ekki hvaða farsi er í gangi með barnabæturnar, eftir að rausnarlegur aðgerðapakki til handa heimilunum í landinu var kynntur á dögunum.

Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður dýralæknis í fjármálaráðuneytinu, segir á Vísi.is að barnabætur hafi verið greiddar þrjá mánuði fram í tímann þann 1. nóvember s.l. og því komi barnabætur næst til útborgunar þann 1. febrúar. Þá geti fólk, í samræmi við fyrrnefndan aðgerðapakka, valið hvort það kjósi að fá bæturnar borgaðar þrjá mánuði fram í tímann - eða dreifa greiðslunum eitthvað!!!

Ég verð að viðurkenna að ég skil hvorki upp né niður í þessu. Nú hvarflar ekki að mér að rengja þennan mann, en úr því að barnabætur voru borgaðar þrjá mánuði fram í tímann þann 1. nóvember þá hefur það væntanlega verið þannig um nokkurt skeið. Hvernig dettur mönnum þá í hug að einhver muni kjósa það frekar að fá þær einungis borgaðar einn mánuð fram í tímann? Og hvaða erindi átti slík breyting inn í sérstakan aðgerðapakka til bjargar fólki í fjárþörf og greiðsluerfiðleikum?

Er einhver bættari með þetta?

Og svona í lokin: Hvernig fékk Geir Hårde það út að ríkissjóður myndi verða af vaxtatekjum vegna þessarar tilteknu breytingar? 


Geir með puttann á púlsinum

Geir Hårde segir í viðtali við AP fréttastofuna í dag að hann telji sig ekki bera neina ábyrgð á því hvernig komið er fyrir íslensku þjóðinni. Hann segist líka telja það vera hlutverk sitt og ríkisstjórnar sinnar að leiða þjóðina út úr þeim vanda sem að henni steðji um þessar mundir.

Ennfremur tekur hann fram að til þess hafi hann traust umboð íslensku þjóðarinnar! Máli sínu til stuðnings vísar hann til niðurstaðna atkvæðagreiðslu um vantrauststillögu á ríkisstjórnina, sem borin var upp í vikunni!!!

Þá höfum við það. Geir og hans ríkisstjórn njóta fyllsta trausts þjóðarinnar til að leiða þær "björgunaraðgerðir" sem nú standa yfir, af því að þessi sama ríkisstjórn kaus að fella ekki sjálfa sig í atkvæðagreiðslu á Alþingi! 

Var einhver að tala um raunveruleikafirringu?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband