Færsluflokkur: Ferðalög

Mér leiðast heimskuleg ferðatilboð

E-kort og Expressferðir bjóða upp á tilboðsferð til Berlínar í október. Flogið verður með Iceland Express og gist á Park Inn hótelinu í austurhlutanum. Ferðin kostar 48,900 á mann, og verðið miðast við að maður deili herbergi með öðrum. Innifalið í verði er auk flugs og gistingar gönguferð um borgina - líklega undir leiðsögn, það kemur þó ekkert fram um það.

Það vill til að ég hef flogið til Berlínar með express og gist á þessu sama hóteli. Hvort tveggja var alveg til fyrimyndar, en það kostaði hinsvegar alls ekki eins mikið og þessi svonefnda tilboðsferð. Tveggja manna herbergi á þessu hóteli kostar 7500 pr.nótt, það er 3,750 á mann. 3 nætur, eins og gert er ráð fyrir í tilboðinu, myndu þá kosta 11,250 á mann. Það segir mér að tilboðsverðið á fluginu sé tæpar 38,000 krónur. Það er ekki merkilegt tilboð, miðað við það að yfirleitt kostar flug til Berlínar og aftur heim 25-30 þús. Kannski gönguferðin sé svona helv. dýr?

Tilboð þýðir aftur hvað.....?

 

 


Að fara til Noregs.....

....er svipað og að fara til tannlæknis: Það er bæði dýrt og vont!

Ég sá þessa ágætu speki í Fréttablaðinu í gær, og ákvað að deila henni með ykkur Grin.


Borgarfjörður-Stokkhólmur-Vestmannaeyjar

Jæja þá er maður kominn í gang aftur, eftir gott hlé. Ég er eflaust búinn að móðga þá sem hafa skrifað komment hjá mér, hvað þá klukkað mig. Ég biðst afsökunar á því og ber við tímaleysi. Því til sönnunar ætla ég að telja upp það helsta sem á daga mína hefur drifið síðan ég bloggaði síðast.

Helgina fyrir verslunarmannahelgi fórum við í hljómsveitinni á Borgarfjörð-Eystri, þar sem Magni fagnaði útkomu fyrstu sólóplötu sinnar. Ég var munstraður í bandið sem spilaði með honum þannig að prógrammið hjá mér var nokkuð stíft: Útgáfutónleikar í Fjarðarborg á föstudagskvöldinu og tónleikar í Bræðslunni á laugardagskvöldinu og auk þess spiluðum við í Á móti sól á barnaskemmtun í Fjarðarborg um miðjan laugardaginn og ball á sama stað um kvöldið, að afloknum Bræðslutónleikunum.

Af óteljandi ástæðum hefur háttað þannig til að ég hef ekki fyrr litið þennan Borgarfjörð augum, ég segi óteljandi vegna þess að það hefur ansi oft staðið til að renna þangað þegar við höfum verið að drepa tíma á Egilsstöðum í gegnum tíðina. En einhvernveginn hefur alltaf eitthvað komið uppá þannig að ekkert hefur orðið úr - fyrr en nú. Þetta er ansi afskekktur staður, en býsna fallegur þó. Gaman að sjá þetta Smile. Það eru einhverjar myndir komnar inn frá Borgarfirði, þó ekki myndin af Megasi með 10 kótilettur í fanginu Wink.

Daginn eftir að ég kom heim frá Borgarfirði skelltum við Auður okkur til Stokkhólms. Það var líka í fyrsta skipti, og vonandi ekki það síðasta. Ég var mjög hrifinn af borginni, hún er virkilega falleg og nóg um að vera. Gamla Stan er snilld, lifandi músik út um allt, götulistamenn og allur pakkinn. 

Við bjuggum á Rica Stockholm hótelinu niðrí bæ, skammt frá lestarstöðinni. Það var mjög fínt, og staðsetningin snilld. Búðir og veitingastaðir allt um kring. Vegna fyrirliggjandi anna við spilamennsku þurftum við að stytta ferðina um einn sólarhring, sem var frekar leiðinlegt því við náðum ekki að skoða nema brot af því sem okkur langaði að sjá. En vonandi náum við að heimsækja borgina síðar. Ég mæli allavega með Stokkhólmi, og fólkinu ekki síður.

Svíar eru bestir í návigi, þá eru þeir kurteisir og viðræðugóðir og yfirleitt með sitt á hreinu, en einhvernveginn fara þeir ósegjanlega í taugarnar á mér alveg þangað til ég hitti þá. Ég hef nokkrum sinnum komið til Svíþjóðar og alltaf þegar ég er að undirbúa mig, t.d. með því að fara inná sænskar vefsíður eða lesa blöðin þeirra, þá fyllist ég hálfgerðum viðbjóði. Ég finn í gegnum prentsvertuna og skjáinn hvernig montið og merkilegheitin umlykja mig svo mér verður ómótt. Flökrar við af uppbelgdri þjóðrembunni sem skín í gegnum hvert orð. Svo eru þeir líka alltaf að bjástra við eitthvað glatað. Í flugvélinni las ég t.d. grein um mjög viðamikla rannsókn sem þeirra helstu sérfræðingar, sem eru nú væntanlega engin smámenni, gerðu á sykurlausum vörum. Niðurstaðan var stórmerkileg, í það minnsta fór heil opna undir þessa merkilegu uppgötvun: Sykurlausar vörur smakkast ekki eins vel og þær sykruðu! Svo á maður að bugta sig og beygja fyrir þessu fólki Shocking.

Strax og komið var heim frá Stokkhólmi tók stíf spilamennska við. Á miðvikudagskvöldið spiluðum við á troðfullum Gauknum ásamt ástralanum geðþekka Toby Rand, sem var gestur okkar/Magna í vikutíma eða svo. Daginn eftir var haldið til Vestmannaeyja, spilað á Húkkaraballi í Týsheimilinu þá um kvöldið og svo á stóra sviðinu niðrí dal föstudags-, laugardags-, og sunnudagskvöld. Þjóðhátíðin var snilld eins og alltaf, veður með besta móti - í það minnsta talsvert betra en spár gerðu ráð fyrir, stemmningin ólýsanleg eins og alltaf og gestrisni heimamanna hreint með ólíkindum.

Reyndar tókst okkur að móðga fullt af fólki óbeint með því að þiggja ekki heimboð sem við áttum útum allan bæ í hinar ýmsustu veislur, en það helgaðist aðallega af því að heilsa nokkurra okkar var ekki eins og best verður á kosið þannig að við fórum sem minnst útúr húsi. Biðjum hlutaðeigandi afsökunar og lofum að standa okkur betur næst Smile.

 


Sumarfrí í Danmörku

Við ákváðum að endurtaka leikinn frá því í fyrrasumar og leigja okkur sumarhús í Danmörku. Að vísu lá leiðin ekki aftur á Jótlandið góða heldur ákváðum við að prófa Falster að þessu sinni. Við vorum í sumarhúsinu í eina viku en áður en við fórum þangað niður eftir vorum við í eina nótt í Malmö og tvær nætur í Köben.

Þetta var mjög skemmtileg ferð og við vorum tiltölulega heppin með veður, þó það hafi nú hist þannig á að veðrið hér heima var líklega enn betra! Ekki oft sem það gerist Blush. Veðurspáin var reyndar alla dagana mun verri en veðrið, alveg öfugt við það sem maður á að venjast hér á landi. Það var meira og minna glampandi sól alla daga nema einn, en þá gerði rok á danskan mælikvarða. Mesta rok í manna minnum og auðvitað stóðu danirnir algjörlega ráðþrota gagnvart óveðrinu. Við víkingarnir fórum nú bara á rúntinn, og fannst ekki mikið til veðursins koma Wink.

En þeim tókst nú samt að bjóða okkur upp á rafmagnsleysi í kjölfarið. Rafmagnslínurnar þeirra lágu eins og hráviði út um allt því þessi blessuðu tré þeirra brotnuðu undan veðurofsanum og slitu niður línurnar. Það var svosem allt í lagi, maður hélt bara að það kæmu menn og redduðu því, en það varð nú aldeilis ekki raunin. Eftir 8 tíma rafmagnsleysi fórum við að athuga málið og þá fengum við þau svör að þeir teldu of hættulegt að reyna að laga línurnar í slíku veðri Shocking. Þá var mér nú öllum lokið og sagði við annars elskulega stúlkuna sem tjáði mér tíðindin: "I danskerne duer ikke til noget!" Þetta viðmót mitt hjálpaði nú ekki upp á sakirnar og úr varð að ég fór í búðina og keypti eldivið í arininn, eldspýtur og kerti. Sólarhring síðar kom rafmagnið aftur Smile.

Þessi sumarhúsabyggð sem við vorum í, Marielyst, er annars mjög skemmtilegur staður. Þarna er heilmikla þjónustu að hafa, banka,verslanir, veitingastaði, golfvelli og allskonar afþreyingu og tiltölulega stutt í 2 ferjuhafnir þar sem hægt er að hoppa til Þýskalands - sem við gerðum. Eins er frekar stutt í skemmtigarðinn Bonbonland og ýmislegt fleira. Mæli með þessu, en mun samt örugglega prófa eitthvað nýtt næst Wink.

 


Amsterdam - Ferðasaga

Jæja þá er maður kominn heim frá Amsterdam. Prógrammið var nokkuð stíft, skólaheimsóknir, Rolling Stones tónleikar, karaoke, út að borða, út að labba, út að sigla o.s.frv. 

Þetta var í fyrsta skipti sem ég kem til Amsterdam, en vonandi ekki það síðasta. Ég var í smástund að átta mig á því hvort ég fílaði staðinn, hugsanlega vegna þess að við fórum í rauða hverfið strax fyrsta kvöldið og þar fær maður aðeins upp í kok, svo ekki sé meira sagt. Síðan leið það nú hjá og maður naut veðurblíðunnar á fallegum torgum borgarinnar í góðum félagsskap. Það er ekki hægt að kvarta yfir slíku.

Annars var mjög áhugavert að sjá rauða hverfið. Þar var t.d. allt fullt af japönskum túristum sem hefur eflaust liðið frekar illa því þarna er mælst til þess að menn séu ekki með myndavélar á lofti í tíma og ótímaSmile. Þarna stóðu stúlkurnar, eins misjafnar og þær voru margar, í röðum á bak við opnanleg fög og buðu þjónustu sína, sumar höfðu greinilega nóg að gera en aðrar hafa eflaust þurft að gefa sveran afslátt. Fjölbreytileiki mannlífsins í hverfinu endurspeglaðist kannski helst í því að inná milli sýningarglugganna mátti sjá venjulegt fólk. Það var t.d. frekar súrrealískt að sjá matarboð hjá miðaldra fólki mitt á milli tveggja útstillingarglugga! Það gerist varla annars staðarTounge.

Hótelið sem við gistum á var nú ekki til að hrópa húrra fyrir, en það háttaði þannig til þegar við ákváðum að fara þessa ferð að þetta var eina hótelið í Amsterdam sem gat tekið á móti 50 manna hóp þannig að við skelltum okkur á það frekar en að vera í einhverju úthverfi, eða þá tvist og bast um borgina. Hótelið heitir Tulip Inn og er við Nassaukade, svona fyrir ykkur hin að varastWink.

Staðsetningin var samt frábær, hótelið er rétt við Leidseplein, sem er fallegt torg með óteljandi skemmti- og veitingastöðum allt í kring. Þar eru tvö frábær steikhús sem við prófuðum: Gauchos og Rancho og fullt af öðrum flottum ressum, indverskum, ítölskum, grískum, portúgölskum svo fátt eitt sé nefnt. Eitthvað fyrir alla semsagt.

Borgin, a.m.k. það sem ég sá af henni, er falleg og veðrið þessa daga sem við vorum þar var alveg frábært, ef frá er talið þrumuveður sem gekk yfir landið á föstudagskvöldinu og grandaði m.a. 2 manneskjum. Auðvitað þurfti það að hittast þannig á að akkurat þetta kvöld höfðum við ákveðið að skella okkur á tónleika með Rolling Stones Wink. Tónleikarnir voru haldnir í Goffertpark í Nijmegen, sem er rúmum 100 kílómetrum frá Amsterdam, og þangað fórum við saman í rútu, rúmlega 20 manna hópur.

Ferðin tók rúma 4 tíma vegna umferðaröngþveitis sem Hollendingar buðu okkur uppá, annarsvegar vegna þess að alvarlegt slys hafði orðið á hraðbrautinni og hinsvegar einfaldlega vegna þess að það var föstudags-eftirmiðdegi. Þegar rútan loks kom á staðinn byrjaði þetta þvílíka þrumuveður með tilheyrandi eldglæringum og úrhelli sem minnti á vel heppnaða helför sem ég fór í London fyrir nokkrum árum. Maður varð gegndrepa á 0,1 enda bara í stuttbuxum eins og kjáni og röðin við regnfatasöluna á staðnum var þvílík að manni fannst varla taka því að eyða tónleikunum í slíkt vesen. Ég hef aldrei á ævinni séð þvílíkar eldglæringar, svo mikið er víst.

En tónleikarnir voru frábær upplifun. Ég er í sjálfu sér ekki forfallinn stones aðdáandi, finnst Bítlarnir betri ef út í það er farið - en sá samanburður á einhvern veginn engan rétt á sér, en mér finnst þeir góðir og Mick Jagger er klárlega einn af mínum uppáhaldssöngvurum. Og að sjá þann mann á sviði er alveg magnað, hann er örugglega flottasti performer sem uppi hefur verið - svei mér þá!

Bandið byrjaði reyndar hrikalega illa, Start me up var svosem í góðu lagi en svo komu nokkur lög í röð í nýrri kantinum og þar voru Keith og Ron alveg út á túni. Um miðbik tónleikanna lamdi Mick Ron duglega og þá lagaðist bandið stórlega. Keith var samt sem áður aldrei með á nótunum, ekki einu sinni í Brown Sugar! Engum dirfist þó að lemja hann, enda lagast hann örugglega ekkert við þaðWink. En hann er algjör töffari, það má hann eiga, og hann er gríðarlega virtur af aðdáendum bandsins því hann fékk engu síðri móttökur en Jaggerinn.

Þrátt fyrir úrhellið og umferðaröngþveitið var kvöldið frábært, og verður lengi í minnum haft. Rétt eins og ferðin öll.

 

 


Norðmenn eru dásamlegir

Þetta eru athyglisverðar pælingar og það verður spennandi að sjá hvað kemur útúr þessari könnun ef af henni verður. Vingjarnlegir og ríkir eru norðmenn klárlega, kannski hrokafullir en alls ekki óáhugaverðir! Ef ég yrði spurður álits á norðmönnum myndi ég svara í mjög löngu máli, þeir eru nefnilega svo dásamlegir á margan hátt - en líka alveg dásamlega vitlausir. Fyrir það fyrsta eiga þeir þennan olíusjóð sinn óhreyfðan inn á bankabók. Vextirnir einir hlaupa á milljörðum á ári ef mig misminnir ekki en ekki tíma þeir að taka út eitthvað smotterí til að gera mannsæmandi vegi eða halda uppi sæmilegum vörnum gegn dópistaklíkunum sem hafa lagt undir sig heilu hverfin í Osló, en þetta vinalega sveitaþorp, sem eitt sinn var, á nú þann vafasama heiður að þar er neysla harðra vímuefna s.s. heróíns mest á öllum norðurlöndunum. Norðmenn hljóta þó að hafa ágæta ímynd í alþjóðasamfélagi stjórnmálanna. Þeir eru öflug þjóð sem hefur oft vakið athygli fyrir vasklega framgöngu. T.d. í málefnum Ísraels og Palestínu o.fl. Eins standa þeir enn keikir fyrir utan ESB, sem skapar þeim nokkra sérstöðu. En þó stjórnmála- og embættismenn kunni að líta norðmenn jákvæðum augum held ég að pöpull heimsins sjái þá bara eins og þeir eru: Syngjandi glaðir kjánar á gönguskóm , með lítil en vel snyrt yfirskegg íklæddir brúnum mokkasíum á tyllidögum. Karlarnir upp til hópa alveg lausir við það að vera svalir, sem er svosem ágætt, og konurnar undarlega óspennandi sé t.d. miðað við kvenpeninginn í nágrannalandinu Svíþjóð, sem er nú bara rétt hjá;-). Sá pöpull heimsins sem heimsækir Noreg mun eftir sem áður dásama náttúrufegurðina og vingjarnlegheit heimamanna, en furða sig um leið á hrikalegu verðlaginu, kjötfarshamborgurum, bensínlausum bensínstöðvum og pulsum í lúffum og lompum svo fátt eitt sé nefnt. En hvað sem öllu þessu líður er alltaf gaman að koma til Noregs, þó ekki væri nema bara fyrir þetta yndislega tungumál þeirra. Heja Norge
mbl.is Eru Norðmenn ríkir og hrokafullir eða vingjarnlegir og óáhugaverðir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn um Berlín

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var í A-Berlín um daginn að það var einmitt þar sem ég smakkaði Berlínarbollu í fyrsta sinn.

Kannski ekkert merkilegt......... 


Berlín - lið fyrir lið

Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um Berlín. Þar er vissulega margt að skoða og sagan drýpur svo að segja af hverju strái, en þar er líka ýmislegt sem er býsna óspennandi.  

Ferðin var í heildina mjög fín, við fengum frábært veður, vorum á frábæru hóteli og sáum fullt af skemmtilegum hlutum. Samt sem áður er ég ekki viss um að ég komi aftur til borgarinnar. Það var eitt og annað sem mér fannst ekki heillandi, t.d. fólkið, sem ég hafði fyrirfram ímyndað mér að væri kurteist og þægilegt. Það var þvert á móti upp til hópa fremur þungbúið og óhresst, en það sem kom mér kannski mest á óvart var hversu lélegir þjóðverjarnir eru í ensku. Og líka hvað þeim finnst furðulegt að fólk skuli ekki kunna þetta fremur óaðlaðandi mál þeirra. Ef maður hváði hækkuðu þeir bara róminn – þýzkan er ekki ómþýðari á háum styrk, síður en svo. Í kjánaskap mínum gleymdi ég að læra málið áður en ég fór í ferðina og það gerði það að verkum að ég var meira og minna í pati og bendingum allan tímann. 

En eins og ég segi þá var margt gott og margt ekki svo gott þannig að ég ákvað að kryfja upplifun mína á vísindalegan hátt. 

Berlín – lið fyrir lið: 

Flugvöllurinn: Schönefeld Airport - í austurhlutanum: Það var fínt að lenda þar, enda byggingin frekar lítil svo það gekk fljótt og vel að komast í gegn. Hinsvegar var allt annað mál að fljúga þaðan. Við flugum heim á mánudagskvöldi og byggingin var algjörlega troðfull. Það eru tveir matsölustaðir á svæðinu, annar var svo yfirfullur að manni datt ekki í hug að reyna að komast þar inn en hinn var Burger King, án sæta, þar sem maður borðaði á endanum kvöldmatinn – standandi upp á endann. Allt gekk frekar hægt fyrir sig og svo sem ekki neitt jákvætt um flugstöðina að segja.  Ég tók eftir því að reykingar voru hvergi leyfðar, og það var ekki annað á vörðunum að sjá en að þeir væru afar stoltir af því. Reykingabannið plagaði mig ekki neitt, enda hef ég aldrei náð tökum á reykingum, en ég get ekki annað en vorkennt fólki sem þarf að gjöra svo vel að vera reyklaust í þá 2-3 tíma sem flestir þurfa að eyða á svona flugstöðvum til viðbótar við flugið sjálft sem tekur nú í flestum tilvikum einhverja klukkutíma. 

Það er gaman að segja frá því, svona í framhjáhlaupi, að það voru helmingi fleiri starfsmenn að innrita fólk í flug til Mombasa en til Íslands, kannski enn ein staðfestingin á að við erum nú engin stórþjóð. 

Hótelið: Park Inn – á Alexanderplatz í austurhlutanum: Það var frábært í alla staði; herbergið snyrtilegt, rúmið þægilegt og útsýnið frábært (við vorum á 29.hæð og Sæmi á 34.!) og öll aðstaða á hótelinu til fyrirmyndar. Það eru 5-6 veitingastaðir, heilsulind, spilavíti og verslunarmiðstöð í hótelbyggingunni, nokkrir veitingastaðir í nokkurra metra fjarlægð og lestir, sporvagnar og strætisvagnar allt um kring.  

Maturinn: Að mestu vel yfir meðallagi. Við fengum dýrindis steik á Kula Karma í Hackescher Markt og ágæta pizzu á 12 Apostel, svo dæmi séu tekin. Reyndar fær þessi 12 Apostel staður frábæra dóma víðast hvar á hinu þýzka interneti – bestu pizzur í þýzkalandi o.s.frv......sé það rétt eiga þeir bágt. Ég hef fengið betri pizzur í Osló. 

Einn eftirminnilegasti staðurinn sem við fórum á heitir Sixties og er Amerískur restaurant, að útlitinu til eins og klipptur út úr American Graffitti, Grease og svoleiðis myndum, en innvolsið ekki alveg í lagi. Í fyrsta lagi var eingöngu 70´s og 80´s músik í græjunum, í það minnsta hljómaði ekki eitt einasta sixtís lag þennan tíma sem við dvöldum þarna. Í öðru lagi kunnu þjónarnir ekki ensku, sem stingur dálítið í stúf á amerískri matstofu og í þriðja lagi voru hamborgararnir úr kjötfarsi. Ég hefði reyndar getað sagt mér það sjálfur því ég gekk í svipaða gildru í Hamborg fyrir rúmu ári síðan. Svona er maður nú vitlaus. 

Búðirnar: Ég er nú svo mikil kerling að mér finnst gaman að versla, í útlöndum vel að merkja. Það helgast nú aðallega af því að í útlöndum getur maður oft keypt hluti sem ekki eru fáanlegir hér á landi, og eins er verðlagið yfirleitt mun hagstæðara en hér heima. Sérstaklega á fatnaði. Því var ekki til að dreifa í Berlín, allavega ekki í þeim búðum sem við skoðuðum. Maður get gert góð kaup á leikföngum og skóm en þar með var það nú eiginlega upptalið. Að vísu er sá fatnaður sem þessir upp til hópa smekklausu, súrkálsétandi svínakjötsfíklar framleiða og hanna fyrir sjálfa sig fremur ódýr, en um leið og fötin eru farin að líkjast flíkum fyrir venjulegt fólk og bera merki sem maður hefur séð bregða fyrir áður kosta herlegheitin svipað og í Kópavogi og Kringlunni.

En búðirnar eru flottar og úrvalið gott. KaDeWe er mjög flott, sérstaklega fiskborðið, og Galeria Kaufhaus sem er í sömu byggingu og hótelið er mjög flott moll líka. Á Ku Damm er líka fullt af flottum búðum sem gaman er að skoða, en það er ekki til mikils að gera viðskipti þar. Sjálfsagt er hægt að finna ódýrari búðir, en við gerðum það allavega ekki í þessari ferð. 

Sagan og menningin: Ég get nú lítið tjáð mig um menninguna að öðru leyti en því að þýskt sjónvarp er skelfilega leiðinlegt. Þó maður horfi fram hjá því að þeir talsetja allt efni þá var dagskráin hrútleiðinleg á öllum stöðvum, allan tímann.

Öðru máli gegnir um söguna. Við fórum í dæmigerða skoðunarferð í opnum vagni á sunnudeginum og það var ljómandi skemmtilegt. Margt merkilegt að sjá. Ég var alveg heillaður af safninu við Checkpoint Charlie, en þar má t.a.m. sjá ýmsa hluti sem fólk faldi sig í á leiðinni yfir landamærin milli austurs og vesturs og lesa um ótrúlegar flóttatilraunir. Sumar heppnuðust, aðrar ekki. 

Næturlífið: Ég er afskaplega lítið fyrir næturlíf í sjálfu sér, en okkur þótti tilhlýðilegt að kíkja á stemmninguna. Sem var svo að segja engin. Maður eftir mann stóð á því fastar en fótunum að á Friedrichsstrasse, eða the lively Friedrichsstrasse eins og þeir sumir kölluðu þessa ágætu götu, væri svo sannarlega líf í tuskunum. Það var nú öðru nær, það margreyndum við.

Skemmtilegasta hverfið sem við skoðuðum var Hackescher markt, sem er reyndar í grennd við Friedrichsstrasse. Þar eru fínir veitingastaðir og ágætis stemmning. Eins var gaman að koma á Potsdamer platz, en þess má geta að þar er hægt að sjá amerískar bíómyndir sem þjóðverjinn hefur ekki komist í að talsetja - í Sony center sem er mögnuð bygging. Eflaust er ágætis næturlíf einhversstaðar í borginni, en við hittum ekki á það í þetta sinn a.m.k. 

Þá er þessari vísindalegu yfirferð lokið og enn er ég litlu nær um hvernig mér líkar við Berlín. Líklega þarf ég að heimsækja borgina aftur, betur undirbúinn, og sjá hvort hún heillar mig ekki upp úr skónum. Það vantaði herslumuninn í þetta sinn.

Auf wiedersehen  


Aftur til Berlínar

Við Auður ætlum að skella okkur til Berlínar um helgina. Þangað hef ég ekki komið síðan á tímum kalda stríðsins þegar ég, ungur kommúnistasonurinn, var sendur í sumarbúðir ráðstjórnarríkjanna í Austur-Þýzkalandi eins og ég hef áður komið að.

Ég hlakka til að eyða afmælisdeginum á Berlin-Alexanderplatz, en þar í grennd gat maður keypt amerískt gos og sælgæti gegn framvísum vestrænna skilríkja - sem var óneitanlega talsvert betra fæði en krana-teið, kardimommudroparnir og maltbrauðið sem boðið var upp á í sumarbúðunum.

Meira um það síðar.....góða helgi.


Enn af sumarbúðum ráðstjórnarríkjanna

Það rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég var að fara í gegnum gamlan bókabunka að foreldrar mínir sendu mig aldeilis ekki einan og óstuddan, 12 ára gamlan, í sumarbúðir ráðstjórnarríkjanna í Austur-Þýzkalandi. Nei nei nei...í vasa minn settu þau handbók í þýzku sem ég hef líklega átt að grípa til ef einhver vandræði yrðu á vegi mínum. Bókin er frá árinu 1962 og hefur að geyma setningar á borð við þessar:

Bitte, ziehen Sie diesen zahn, sem þýðir; Gerið svo vel að draga þessa tönn.
Ich möchte die Nägel spitz haben, sem þýðir víst; Ég vil hafa neglurnar frammjóar

og síðast en ekki síst:
Zieht es ihnen? Sem útleggst: Er súgur hjá yður? 

Já já strákurinn er hólpinn með þetta upp á vasann....... 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband