Hugsum um börnin okkar

Í vor verður gengið til sveitarstjórnarkosninga. Sjálfsagt hafa hörðustu aðdáendur flokka sinna nú þegar gert upp hug sinn af gömlum vana, en mig langar að biðja ykkur hin að hugleiða aðeins hvernig samfélag við viljum byggja.

Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess að mér finnst núverandi meirihluti um margt hafa staðið sig vel. En þrátt fyrir það er ég eindregið þeirrar skoðunar að við verðum að breyta grunnáherslum í rekstri bæjarins, ef ekki á illa fyrir okkar góða samfélagi að fara.

Það er grafalvarleg staðreynd að börn og unglingar eru sá þjóðfélagshópur sem fer verst út úr kreppunni. Sérfræðingar hafa vaxandi áhyggjur af andlegri líðan barna og leggja á það ríka áherslu að stoðþjónustu megi ekki skerða. Í því sambandi vil ég nefna að meirihluti bæjarstjórnar hefur með harkalegum niðurskurði fjármuna til grunnskólans þrengt svo að rekstri hans að ástæða er til að hafa áhyggjur af. Á sama tíma hefur talsverðum fjármunum verið varið í önnur, að mínu viti veigaminni mál, svo sem það að reyna að selja okkur þá hugmynd að skynsamlegt sé að reisa loftborið íþróttahús upp í dal! Það er gott dæmi um forgangsröðun núverandi meirihluta.Forgangsröðun sem verður að breyta.

Það er vissulega ljóst að aðstaða til íþróttaiðkunar er bágborin hér í bæ, en mín skoðun er sú að við verðum að horfast í augu við það að hér verður ekki ráðist í uppbyggingu íþróttamannvirkja alveg á næstunni. Allt tal um loftbóluhús fyrir hundruðir milljóna er því marklaust hjal. Sóun á tíma og peningum. Ég hefði frekar viljað sjá þessum peningum varið í innra starf deilda íþróttafélagsins. T.d. hefði mátt niðurgreiða æfingagjöld í einhverjum flokkum eða greinum. Það er jú margsannað mál að iðkun íþrótta er ein besta forvörn sem völ er á og því mikilvægt að búa svo um að sem flestum börnum sé gert það mögulegt. Ekki síst þegar svo árar sem nú um stundir.

Það má ekki skilja orð mín svo að ég vilji ekki nýtt íþróttahús. Auðvitað vil ég það. Hinsvegar finnst mér tómt mál að tala um slíkar framkvæmdir þegar fjárhagsstaða bæjarfélagsins er eins og raun ber vitni. Það er einfaldlega óábyrg fjármálastjórn. Við höfum einhvernveginn lifað það af að búa við okkar litla íþróttahús hingað til og við hljótum að geta látið okkur hafa það í örfá ár til viðbótar. Meðan við þurfum að skera niður grunnþjónustu við börn og unglinga getur varla verið að við getum byggt íþróttahús. Það er hæpin forgangsröðun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband