Undarleg túlkun forseta bæjarstjórnar

Eyþór Ólafsson forseti bæjarstjórnar gerir á síðunni Bláhver.is athugasemdir við grein sem ég skrifaði í Hverafuglinn þann 11. febrúar, en í greininni velti ég fyrir mér forgangsröðun meirihluta bæjarstjórnar. Það sem ég geri einkum að umtalsefni er sú staðreynd að á sama tíma og fjárframlög til grunnskólans hafa verið skert umtalsvert hefur meirihlutinn haldið áfram að eyða tíma og peningum í það að reyna að sannfæra bæjarbúa um að skynsamlegt sé að reisa loftborið íþróttahús upp í dal hið fyrsta.

Athugasemdir Eyþórs við skrif mín eru í aðalatriðum tvær. Í fyrsta lagi vill hann ekki meina að þrengt sé að rekstri skólans með þeim niðurskurði sem þar er kominn til framkvæmda, né heldur að þjónusta við nemendur hafi verið skert. Í öðru lagi býsnast hann yfir meintri andstöðu minni við hið loftborna íþróttahús.

Ef ég svara fyrst vangaveltum Eyþórs um grunnskólann þá er það rétt sem hann segir í sinni grein, að menn upplifa aðhald með mismunandi hætti og þá sterkast ef það kemur beint niður á þeim sjálfum. Það er hárrétt hjá Eyþóri að ég tek mjög nærri mér alla skerðingu á þjónustu við börn og unglinga. Ég er svo heppinn að starfa með börnum og unglingum í skólanum og mín upplifun er sú að þar slái hjarta þessa bæjarfélags. Ég hef látið hafa það eftir mér við ýmis tækifæri að hér í Hveragerði sé einstaklega gott og heilbrigt mannlíf og það er mín skoðun að sá góði andi sem ríkir í bæjarfélaginu sé meðal annars tilkominn vegna þess góða samfélags sem skapast hefur í grunnskólanum, þar sem áhersla er lögð á vellíðan nemenda og gagnkvæma virðingu barna og fullorðinna. Þessi andi var t.d. öðru fremur til þess að ég ákvað að setjast að hér í bænum, og svo er um marga fleiri. Þá má ekki líta fram hjá því góða starfi sem fram fer í leikskólum bæjarins og því markvissa samstarfi er orðið er á milli skólastiga hér í bænum.

Eyþór telur að sá niðurskurður sem orðið hefur á fjárframlögum til grunnskólans sé í góðu lagi. Þar greinir okkur einfaldlega á. Það vill svo til að bæði í gegnum starf mitt sem tónlistarmaður, sem og í gegnum nám mitt í menntunarfræðum hef ég kynnst skólastarfi í ótal skólum víða um land og ég fullyrði að óvíða finnur maður fyrir jafn góðum anda og ríkir í okkar skóla. Það hefur tekið mörg ár að byggja þann góða anda upp og það má aldrei gleyma því að það er mun auðveldara og fljótlegra að rífa niður en byggja upp. Það er þessvegna sem ég leyfi mér að segja að ástæða sé til að hafa áhyggjur af niðurskurði fjármuna til grunnskólans. Um þetta erum við Eyþór ekki sammála og við því get ég í sjálfu sér lítið gert, annað en að harma hans afstöðu.

Hvað varðar meinta andstöðu mína við loftborið íþróttahús, þá ber fyrst að halda því til haga að ég hef í raun ekki enn myndað mér skoðun á því hvort hér eigi að rísa loftborið hús eða hefðbundið. Það eina sem ég hef látið hafa eftir mér í þeim efnum er að mér hugnast illa að hafa það lengst upp í dal. Þeim hlutum er ég þó ekki á nokkurn hátt að velta fyrir mér í umræddri grein. Ég geri einungis athugasemdir við það að á sama tíma og fjárframlög til grunnskólans eru skert skuli meirihlutinn telja bæjarsjóð aflögufæran um fé fyrir nýju íþróttahúsi. Gildir þá einu hvort það verður loftborið eða steinsteypt. Að ég vilji setja uppbyggingu íþróttamannvirkja aftur í hafsauga eins og Eyþór leggur út af orðum mínum er líka af og frá. Ég vil auðvitað rétt eins og Eyþór að hér rísi nýtt íþróttahús sem allra fyrst, en mér dettur ekki í hug að halda því fram að við höfum efni á því eins og staðan er í dag. Það er að mínu mati ekkert annað en ódýr auglýsingamennska að halda slíku fram, líkt og Eyþór gerir í sinni grein.

Það er ekki minn háttur eða ætlun að mála skrattann á vegginn, eða vera með óþarfa bölmóð. En það gera sér held ég allir grein fyrir því að næstu 1-2 ár verða okkur á margan hátt nokkuð erfið. Því er það að mínu mati lykilatriði að við þjöppum okkur enn betur saman og hjálpumst að við að gera okkur lífið sem léttast meðan þjóðfélagið réttir úr kútnum, sem það mun smám saman gera. Hugum að aðalatriðunum í okkar lífi, en látum aukaatriðin lönd og leið. Það þarf síðan hver og einn að gera upp við sig hvort hann metur meir börn eða steinsteypu, en ég er altént þeirrar skoðunar að við eigum að setja fólkið í forgang; börnin, unglingana - alla fjölskylduna. Virkjum okkur sjálf til góðra verka, en slökum aðeins á í „steypubrjálæðinu.”

Að lokum vil ég ítreka það sem ég nefni í umræddri grein minni, að mér finnst núverandi meirihluti um margt hafa staðið sig vel. Blómasýningin og ýmsar framkvæmdir er lúta að ásýnd bæjarins bera t.d. vott um það. Ég vænti þess að smærri framkvæmdir í þá veru haldi áfram, hver sem það verður sem fer með meirihlutavöld í bænum að afloknum næstu kosningum, enda nauðsynlegt að bærinn geri sitt til að halda hjólum atvinnulífs í bænum á hreyfingu. Að ráðast í svo stóra, og um margt illfyrirsjáanlega framkvæmd, sem byggingu nýs íþróttahúss er hinsvegar einfaldlega ekki verjandi á þessum tímapunkti. Sérstaklega ekki þegar staðan er slík að skera þarf niður í grunnþjónustu á borð við leik- og grunnskóla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband