Aðeins að rofa til hjá vinstri mönnum

Ég hef oft hneykslast á klaufagangi vinstri manna í markaðssetningu, þ.e. auglýsingum á sjálfum sér, framsetningu á sínum málum o.s.frv. Ég held að ég hafi fyrst áttað mig á þessum vandræðagangi vinstri manna þegar ég sá frétt í Þjóðviljanum sáluga sem átti að sýna það í eitt skipti fyrir öll hve alþýðlegir þingmenn Alþýðubandalagsins væru. Innihald fréttarinnar var að þingmennirnir höfðu klætt sig í gallabuxur og tekið strætó! Þarna fékk ég kjánahroll í fyrsta sinn.

Síðan þetta var hef ég margoft veitt vandræðagangi á vinstri vængnum athygli og jafnframt tekið eftir því hvernig hægri mönnum hefur á hinn bóginn hvað eftir annað tekist snilldarlega að vekja á sér jákvæða athygli, og ekki síst snúa sig út úr vandræðum án þess að hljóta skaða af. Það eitt að Sjálfstæðisflokkurinn virðist halda velli sem langstærsti flokkur landsins eftir 16 ára setu í ríkisstjórn, og hver afglöpin á fætur öðrum, meðan fylgið hrynur af samstarfsflokknum þykir mér til marks um frábæra markaðssetningu. Vinstri menn geta kannski ekki mikið lært af þeim hægri þegar kemur að pólítík og prinsipp málum, og vilja vonandi ekki, en margt gætu þeir lært í markaðstækni. 

Í dag heyrði ég hinsvegar loksins auglýsingu frá vinstri sem eitthvað vit var í. Auglýsingin vakti athygli mína og fékk mig til að hugsa í smástund. Eins og auglýsingar um stjórnmál ættu að gera. Auglýsingin var frá Samfylkingunni og í henni var vakin athygli á því að flokkurinn hefði 4 sinnum á síðasta kjörtímabili gert það að tillögu sinni í þinginu að stimpilgjöld yrðu lögð af en framsókn og Sjálfstæðisflokkur hefðu alltaf sagt nei.

Þessi auglýsing er góð. Hún byggir á ísköldum staðreyndum (vona ég) um réttlætismál sem varðar fjölda fólks og ríkisstjórnarflokkarnir hafa báðir, bresti mig ekki minni, á loforðalista sínum fyrir þessar kosningar. Því vona ég að fólk sem heyrir auglýsinguna hugsi sig um eitt augnablik, og velti því fyrir sér hvers vegna framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa afnám stimpilgjalda á stefnuskrá en vilja þó ekki hrófla við þeim.

Það sem mér finnst síðan einna þægilegast við auglýsinguna er að hún endar ekki á innihaldslausu slagorði. Vinstri menn hafa nefnilega í gegnum tíðina verið mjög gefnir fyrir uppblásin slagorð, en ég held að ég fari rétt með að Samfylkingin flaggi engu slíku fyrir þessar kosningar, þó sumir frambjóðendur flokksins tali reyndar meira og minna í slagorðastíl. Það eldist nú kannski af þeim blessuðum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Þóroddsson

"Lifi byltingin"

Tómas Þóroddsson, 28.4.2007 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband