Suðurstrandarvegur enn og aftur!

Enn einu sinni dúkkar umræðan um Suðurstrandarveg upp, nú í kjölfar fregna af því að framkvæmdum við fyrirhugaða Sundabraut hefur verið slegið á frest.

Ég er líklega bara svona vitlaus en ég hreinlega næ því ekki afhverju í ósköpunum þarf að gera þennan blessaða veg. Þetta var eflaust ágætis hugmynd fyrir 30 árum síðan þegar við lifðum af fiskveiðum, en það var líka margt annað sem þótti ekki svo galið í þá daga, t.d. hansahillur og Goombay dance band - svo fátt eitt sé nefnt.

Einhvernveginn held ég að þörfin fyrir Suðurstrandarveg sé liðin hjá. Það kann þó vel að vera misskilningur. Allavega eru helstu rökin sem ég hef heyrt fyrir veginum þau að með tilkomu hans aukist hagræði í fiskvinnslu á svæðinu, þ.e. að Suðurland og Suðurnes geti samnýtt afla og eitthvað meira sem ég hef ekki hundsvit á svosem. En er virkilega réttlætanlegt að gera veg fyrir 1100 milljónir svo að sé hægt að rúnta með þorsk milli Þorlákshafnar og Grindavíkur? Var ekki verið að minnka þorskkvótann um þriðjung á milli ára? Halló!

Ég prófaði að "gúgla" Suðurstrandarveg til að sjá hvort finna mætti einhver fleiri rök fyrir þessari framkvæmd og ég verð að segja að niðurstaða leitarinnar var í meira lagi athyglisverð. Allavega fyrir óupplýstan landsbyggðarblesa eins og mig.

T.d. segir í ályktun Sambands sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) frá árinu 2006 eitthvað á þá leið að Suðurstrandarvegur muni hafa gríðarlega jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu, sérstaklega þar sem ekki þurfi þá lengur að aka um höfuðborgarsvæðið til að komast frá Leifsstöð á helstu ferðamannasvæði landsins. Ég er kannski að fara með fleipur en ég held að ég segi það satt að Suðurstrandarvegur stytti ekki leiðina milli t.d. Keflavíkur og Geysis. Leiðin milli Keflavíkur og Selfoss er rúmir 90 km., sé ekið í gegnum höfuðborgarsvæðið, en um Suðurstrandarveg minnir mig að leiðin verði nálægt 120 km. þannig að hvernig hægt er að sjá ávinning í þeim efnum er ofar mínum skilningi. Auk þess hugsa ég nú að erlendir ferðamenn hafi ekkert á móti því að skoða höfuðborgina, ég hef allavega gaman af því að skoða slíkar borgir þegar ég leggst í flakk. Ég myndi allavega ekki hoppa hæð mína af kæti yfir því að geta sneitt algjörlega hjá Kaupmannahöfn og keyrt rakleiðis til Gilleleje eða Stubberup væri ég að koma til Danmerkur í fyrsta skipti Wink. Svo mikið er víst.

Önnur skemmtileg röksemd sem ég sá frá SASS er að vegurinn sé gríðarlegt öryggisatriði. Reykjanesskaginn sé virkt eldfjallasvæði og því sé nauðsynlegt að hafa fleiri en eina samgönguleið mögulega, komi til náttúruhamfara! Það er nú erfitt að setja sig í þessi spor, en ef ég byggi t.d. í Sandgerði og það skylli á slíkt hörmungareldgos að eina von mín til að halda lífi væri að keyra til Þorlákshafnar af öllum stöðum þá held ég nú að ég léti mig hafa það að skröltast veginn eins og hann er í dag, jafnvel þó það kynni að kosta mig 2-3 hjólkoppa og kannski smá hausverk Sideways.

Svo sá ég ýmsa mektarmenn, m.a. Einar Njálsson f.v. bæjarstjóra Árborgar, tjá sig um að lagning vegarins hafi verið ein þeirra röksemda sem týndar voru til þegar hið nýja Suðurkjördæmi var búið  til. Eigum við að ræða þessa kjördæmaskipan eitthvað?

Á einhver heillegar hansahillur................?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Árnason

Nei, ekki hansahillur, en gráfeldarhillurnar urðu að fínni kjallarainnréttingu, eftir að hafa aðeins snert sög og nokkra (marga) nagla.  En ekki segja þeim sem gáfu mér dýrindin í fermingargjöf.

Nei án gríns, það er samdráttur og þá er farið að grafa. Bæði í ríkissjóð og landið. Þetta til að reyna að halda atvinnuleysisprósentunni niðri eða allavega geta sýnt framá að eitthvað sé gert til að sporna við. Þegar ríkiskassinn er svo tómur fer allt niður á við, framkvæmdirnar stoppa og tekjur ríkisins minnka. Það er ódýr plástur að ráðast í vegagerð og þess háttar þegar illa árar. Verktakar gera hvað sem er til að fá verk. Þeir fá nánast ótakmarkaðan aðgang að ódýru vinnuafli. Verktakarnir og vinnuaflið borga skattinn sinn, og ríkissjóður tæmist þannig ekki eins hægt og ætla mætti. Þetta hefur verið gert áður og verður gert aftur. Þetta er að slá ryki í augu fólks. 

Hjalti Árnason, 12.7.2007 kl. 19:46

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Væri ekki betra að nýta þessa peninga í að tvöfalda Hellisheiðina?

Minnir að Grindvíkingar hafi ekki verið það friðsamlegir þegar þeir komu á sveitaböllin hjá okkur í denn, að það sé beint uppörvandi... Vonandi hefur það nú samt breyst.

Gestur Guðjónsson, 13.7.2007 kl. 00:17

3 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Algjörlega sammála þér Gestur. Hellisheiðina verður að tvöfalda, og það almennilega.

Ég næ því bara ekki alveg hverslags bylting þessi Suðurstrandarvegur á að vera fyrir atvinnulífið. Þú manst nú hvað Óseyrarbrúin átti að vera mikil lyftistöng fyrir útgerðina á ströndinni.....ætli einhver hafi reiknað út arðsemi hennar? Ekki held ég að Eyrbekkingar eða Stokkseyringar hafi hagnast á tilkomu hennar, allavega lagðist útgerð svo að segja af á báðum stöðum skömmu síðar .

Heimir Eyvindarson, 13.7.2007 kl. 01:18

4 identicon

Það er náttúrlega bara bilun að ætla sér að leggja fjármuni í Suðurstrandarveg áður en búið er að 2falda Hellisheiði.

Annars hef ég alltaf sagt að það eigi að leggja járnbrautarteina frá Keflavík til Eyrarbakka.

Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 13:56

5 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Já það er líklega ekkert vitlausari hugmynd en Suðurstrandarvegurinn! Hehe . Ein röksemdin sem ég sá fyrir þessum bastarði var einmitt sú að hann myndi tengja hið nýja Suðurkjördæmi betur saman. Ætli væri þá ekki réttast að leggja járnbrautina alla leið austur á Höfn? 

Heimir Eyvindarson, 15.7.2007 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband