Henry Birgir í ham

Mér hefur oft blöskrað hvað íþróttafréttamenn geta verið dómharðir og meiðandi. Í dag ryðst einn mesti besserwizzerinn í þeirra hópi, Henry Birgir Gunnarsson á Fréttablaðinu, fram á ritvöllinn og fer miður fögrum orðum um Eyjólf Sverrisson landsliðsþjálfara.

Ég get alveg verið sammála Henry um það að ástandið á landsliðinu er ekki björgulegt þessa dagana, og árangur Eyjólfs er hreint ekki glæsilegur. Það vita allir, en mér finnst óþarfi að vera með skítkast á borð við það að engar faglegar ástæður hafi verið til þess að ráða Eyjólf á sínum tíma og það hafi í raun verið algjörlega út í hött! Jafn ómaklegt finnst mér að gera því skóna að leikmenn beri enga virðingu fyrir honum. Hvað veit Henry Birgir um það?

Hvaða faglegu forsendur bjuggu að baki ráðningu Eyjólfs veit ég ekki, enda enginn sérfræðingur í þjálfunarfræðum, en ég geri ráð fyrir að menn hjá KSÍ hafi verið ánægðir með góðan árangur hans með ungmennalandsliðin, auk þess sem menn þar á bæ þekktu mætavel ótvíræða leiðtogahæfileika hans,enda hafði hann verið dáður fyrirliði íslenska landsliðsins og Herthu Berlin um árabil. Ég geri ráð fyrir að KSÍ forystan hafi hugsað með sér að rétt væri að stokka spilin upp á nýtt, eftir heldur dapurt gengi undangenginna landliðsþjálfara, og veðjað á að Eyjólfur bæri með sér ferska vinda. Svo mikið er víst að Eyjólfi er ekki fisjað saman, glæstur atvinnumannsferill er til vitnis um það, og því trauðla út í hött að veðja á slíkan mann. Eða hvað?

Sannleikurinn er sá að allt frá því að Guðjón Þórðarson hætti hefur enginn friður verið í kringum landsliðið okkar. Um leið og eitthvað bjátar á rísa besserwizzerarnir upp á afturlappirnar og byrja að gjamma hver upp í annan, og heimta afsögn! Þetta er farið að minna óþægilega á andrúmsloftið í Englandi, þar sem það virðist alveg borin von að landsliðsþjálfarar fái nokkurn einasta vinnufrið. Ætli englendingar væru ekki betur settir ef þeir hefðu leyft Sven Göran að halda áfram með liðið í stað þess að ráða Steve Mc Claren, sem var fyrst og fremst ráðinn í djobbið vegna gríðarlegrar pressu í enskum fjölmiðlum. Og helstu rökin fyrir ráðningu hans, og að sumu leyti afsögn Sven Görans líka, voru að það væri ómögulegt að hafa útlending sem landsliðsþjálfara! Það yrði að vera englendingur í brúnni! Bíddu....af því að englendingar eru svo frábærir þjálfarar???

Ég ætla rétt að vona að við verðum aldrei svona vitlaus, en mikið óskaplega finnst mér við stundum vera nálægt því. Það getur vel verið að það sé skynsamlegt að skipta um landsliðsþjálfara núna, en það er algjör óþarfi að ata menn auri með viðlíka hætti og Henry Birgir gerir. Ef menn eru að kalla eftir faglegum vinnubrögðum ættu þeir að fara undan með góðu fordæmi og stofna til faglegrar umræðu.

Mér finnst ekkert galið að gefa Eyjólfi tækifæri í 6-12 mánuði til viðbótar. Verði það hinsvegar ekki niðurstaðan finnst mér skynsamlegast að ráða erlendan þjálfara, og gera við hann langan óuppsegjanlegan samning. Mér dettur Morten Olsen í hug - mér sýnist að hann verði á lausu bráðumWink. Auðmenn Íslands ættu nú að sjá sóma sinn í því að færa þjóðinni slíkan mann að gjöf.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er svo hjartanlega sammála þér Heimir. Mér finnst menn eins og Henry Birgir og reyndar margir fleiri íþróttafréttamenn ganga alltof langt í skrifum sínum. Mér leiðist líka alveg voðalega mikið þessi endalausi „rek´ann“ kór. Það er eins og fólk nenni ekki að setja sig nóg inn í málin og horfa á heildarmyndina, það er bara einblínt á þjálfarann og honum fundið allt til foráttu. Mér finnst fáránlegt að ímynda sér að slakt gengi landsliðsins sé bara vandamál Eyjólfs.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 12:18

2 Smámynd: Elín Katrín Rúnarsdóttir.

Sunnudagur til sælu fyrir þig

Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 21.10.2007 kl. 11:40

3 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Anna: Algjörlega sammála þér, þessi rek´ann kór er þreytandi. Lífið getur ekki verið svo einfalt að það sé bara einum manni að kenna hvernig málin standa.

Björgvin: Ég ætla nú ekki endilega að fara að mælast til þess að Eyjólfur haldi áfram, en ég veit samt ekki hvort hann hefur endilega fengið næg tækifæri....þó má það alveg vera. 2 ár eru ekkert voðalega langur tími, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að verkefnin hafa ekki verið mörg. Ég er hinsvegar hjartanlega sammála þér að KSÍ þarf að marka sér skýra stefnu í þjálfaramálum almennt. Og eins vil ég tvímælalaust ráða þjálfara til langs tíma, en ég er ekki viss um að Óli Jó sé rétti maðurinn..........ég vil Morten Olsen

Elín: Takk sömuleiðis

Heimir Eyvindarson, 22.10.2007 kl. 10:12

4 Smámynd: GK

Ég vil Eyjólf burt. Liðið er komið á botninn undir hans stjórn.

Hins vegar spyr ég mig hvaða faglegu forsendur liggja að baki ráðningar Henrys á Fréttablaðið.

GK, 24.10.2007 kl. 18:16

5 identicon

Það er nú búið að ráða hann Ólaf Jóhannesson sem Þjálfara. Ég er tónlistarfíkill og mér finnst gaman þegar fólk tjáir sig um tónlist, var að leita að upplýsingum um 100 íslensk 80´s lög og rambaði inn á síðuna hjá þér.

Guðmundur Heiðar Gunnarsson (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 19:13

6 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Hvordan var Kobenhavn ????

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 29.10.2007 kl. 23:26

7 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Gummi Kalli: Góður punktur!

Guðmundur Heiðar: Takk fyrir innlitið, kíkti á síðuna þína. Þar er margt athyglivert.

Hulda: Köben var dejlig, eins og venjulega, og Oslo var kjempegreit

Heimir Eyvindarson, 1.11.2007 kl. 17:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband