Þitt er valið

Ég ætla að tjá mig aðeins frekar um þennan nýja samning. Vissulega er hann langt frá því að vera alvondur, og raunar um margt ágætur. Skref í rétta átt a.m.k. Líklega hefði ég m.a.s. verið býsna ánægður með hann fyrir ári síðan þegar “sérfræðingar mínir í kjaramálum” (launanefnd FG og KÍ) ákváðu að bíða átekta og sjá hvort samningsstaða okkar yrði ekki betri að ári (þ.e. núna!), fremur en að sæta færis og semja þegar allt lék í lyndi í þjóðfélaginu, kampavínið seitlaði úr nýríkum munnvikunum og menn töluðu fremur í milljörðum en krónum. Við værum ágætlega sett ef við hefðum náð þessum samningi þá, værum jöfn viðmiðunarstéttum okkar núna og hefðum verið það s.l. 12-18 mánuði.

En staðan er einfaldlega ekki sú sama og fyrir ári síðan. Það vitum við öll. Forsendur kjarasamninga almennt hafa breyst, og við megum ekki gleyma því að það er ekki á nokkurn hátt okkur að kenna! Eins og Sævar vinur minn orðaði það svo ágætlega um daginn; Við tókum engan þátt í góðærinu og því frábiðjum við okkur að taka þátt í kreppunni.

Miðað við ástandið í þjóðfélaginu í dag er einfaldlega ekki með nokkru móti hægt að segja að í þessum samningi sé fólgin svo mikil kjarabót að við eigum að drífa okkur í að samþykkja hann, brosa og vera glöð. Því miður. 25 þúsund króna hækkunin sem kemur inn fljótlega verður að 12 – 13 þúsund útborguðum krónum. Hvað ætli matarverð hafi hækkað mikið að undanförnu? Að ekki sé talað um allt hitt, olía, bensín, vextir o.s.frv….Er hægt að tala um kjarabót þegar þannig árar?

Eins má segja að ýmis atriði samningsins séu óljós, t.d. hversu miklum peningum sveitarfélög eru tilbúin að veita í hinn nýja TV-eininga flokk. Mér finnst lykilatriði að það liggi fyrir áður en farið verður að íhuga hvort á að samþykkja samninginn eða fella hann.

Meðan við búum við þá sérfræðiþjónustu í kjaramálum sem við í formi félagsgjalda kaupum af KÍ, verðum við annaðhvort að sætta okkur við að vera áfram láglaunastétt, og halda áfram að reyna að narta í hælana á viðmiðunarstéttum okkar, eða að standa upp og finna okkur eitthvað annað að gera.

Okkar er valið, svo einfalt er það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Veistu, þið Sævar hafir báðir svo mikið rétt fyrir ykkur hérna að það er hreint út sagt skelfilegt. Mér finnst þessi lúsarhækkun á þessum tímapunkti eins og blaut tuska í andlitið á kennarastéttinni eins og hún leggur sig - starfandi, flúin eða dauð þá bara væri ég brjáluð. Þvílík vanvirða - og svo í ofanálag er fólki tilkynnt það í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum að nú þurfi allir að leggjast á árarnar til að bjarga því sem bjargað verður. Það var nú bara þannig heima hjá mér að sá sem braut glasið þurfti að sópa því upp.

Til hvers er maður eiginlega að reyna að sækja sér menntun og gera sér far um að taka þátt í samfélaginu? Er ekki bara alveg eins gott að leggjast niður og væla þar til maður kemst á einhverjar bætur. Nei ég meina það - maður ætti að reikna það dæmi til enda áður en lengra er haldið.

Finnst þér ekki drullufúlt að fá þetta framan í þig í miðri prófalotu?

Soffía Valdimarsdóttir, 29.4.2008 kl. 22:34

2 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

E.S.

Gleymdi einu. Þú getur huggað þig við það að ég hitti konu í dag sem veit ekkert að ég þekki þig og hún hældi þér og þínum störfum á hvert reipi.

Soffía Valdimarsdóttir, 29.4.2008 kl. 22:37

3 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Ef maður er ekki sáttur, þá segir maður NEI.

Fólk á ekki að láta bjóða sér hvað sem er ENDALAUST og alltaf þurfa launþegar að fórna sínu !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 29.4.2008 kl. 23:20

4 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Soffía: Já þetta er furðulegt þjóðfélag sem við búum í. Eina stundina heyrir maður varla annað en hallærislegar klisjur á borð við survival of the fittest o.þ.h., og vart er þverfótað fyrir nýríkum verðbréfasérfræðingum sem belgja sig út og segja að ríkið eigi ekki að skipta sér af markaðnum og eigi alls ekki að hefta frelsi einstaklingsins.  

En um leið og þessir apakettir, sem hafa sötrað kampavín með hádegismatnum (eins og það sé eitthvað gott!) í góðærinu - sem þeir spáðu að yrði endalaust, kúka í deigið þá eru ríkisafskipti allt í einu í góðu lagi. Þá á ríkið að hlaupa til og bjarga!!!

Svo er kennurum boðin örlítil hækkun, sem nær því varla að jafna kjör þeirra á við sambærilegar stéttir - hvað þá að verða einhver kjarabót eins og ástandið er orðið, og þá á maður að hlaupa til og samþykkja það með bros á vör. Hneigja sig og þakka pent, um leið og maður skal fyllast sektarkennd yfir því að setja sveitarfélögin á hausinn - en sá söngur er að sjálfsögðu hafinn. Eins og venjulega.

Við forsvarsmenn sveitarfélaga sem láta hafa slíkt eftir sér segi ég: Ef það er svona erfitt að halda úti mannsæmandi menntastofnunum afhverju lokið þið þeim þá ekki bara? Ef ég verð þess valdandi að sveitarfélagið mitt fer á hausinn skal ég glaður hætta að kenna. Ekki vil ég hafa slíkt á samviskunni. 

Og jú, þetta er ekkert sérstaklega hvetjandi í próflestrinum. En hrósið frá vinkonu þinni var hins vegar hvetjandi, takk fyrir það

Hulda: Þetta er akkurat kjarni málsins. Við höfum val. Við þurfum ekkert að láta bjóða okkur upp á þessa vitleysu.

Tómas: Jú til er ég!

Heimir Eyvindarson, 1.5.2008 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband