Eðli, gáfnafar o.fl.

Soffía vinkona mín fer ekki fögrum orðum um sjálfstæðismenn á blogginu sínu. Ég man ekkert hvernig maður gerir svona flotta tengla, en hún er í bloggvinavalmyndinni hér til hliðar. Kallar sig Slembru.

Þau ykkar sem nennið ekki að fara eftir slíkum krókaleiðum ætla ég að upplýsa um það að megininntak ágæts pistils Soffíu er gáfnafar sjálfstæðismanna, og hún lætur jafnvel að því liggja að það sé heldur rýrara en annarra þjóðfélagshópa Wink.  

Sjálfur held ég að sjálfstæðismenn séu ekki vitlausari en við gáfaða fólkið sem stendur utan flokksins, síður en svo. Ég á sjálfur marga góða vini í flokknum og þeir eru alveg þrælgáfaðir Smile

Ég held að þetta sé frekar spurning um lífsstíl, eða eitthvað slíkt. Það er eins og eðli sjálfstæðismanna sé ólíkt eðli okkar hinna. Hlutirnir eru einhvernveginn einfaldari í þeirra augum, og það held ég að þurfi alls ekki að vera slæmt.

Lífsspurningar þeirra eru t.d. sjaldnast mjög djúpar, og alls ekki eins tilgerðarlegar og hjá sumu fólki í öðrum flokkum. Raunar sýnist mér að oftast séu þær svona já og nei spurningar; Er Sjálfstæðisflokkurinn bestur? (já), eru kommúnistar vondir? (já), er Bush fífl? (nei).

Svörin við þessum já og nei spurningum hafa þeir ekki alltaf á reiðum höndum, en þá er alltaf hægt að leita til góðra ráðgjafa flokksins sem eru afar ósérhlífnir þegar kemur að því að leggja skoðanalegar flokkslínur.

Hannes Hólmsteinn er einn þessara sérfræðinga, hann kvað t.d. upp úr með það fyrir nokkrum árum að George W. Bush væri afburða gáfaður. Síðan þá hef ég ekki heyrt einn einasta sjálfstæðismann hallmæla Bush. Ekki einu sinni þá sem héldu í einfeldni sinni að maðurinn væri jafn vitlaus og framkoma hans og gjörðir segja til um!

Ein af þeim já og nei spurningum sem sjálfstæðismenn hafa lært rétta svarið við er sú hvort sjálfstæðismenn séu klárari en við hin í að fara með peninga. Svarið við henni er afdráttarlaust já, og hefur verið það svo lengi sem ég man eftir mér. En nú ber svo við að flokkurinn hefur meira og minna séð um efnahagsmál þjóðarinnar í hartnær 2 áratugi, og hvar stendur þjóðin? Í miðjum drullupolli, með stuttbuxurnar niðrum sig.

Ég ætla ekki að ræða innkomu bankanna á húsnæðismarkaðinn, baráttu sjálfstæðismanna við að leggja íbúðalánajóð niður, andstöðuna við að taka upp evru, Pétur Blöndal, Birgi Ármannsson,  o.s.frv.......það væri að æra óstöðugan. Ég ætla ekki heldur að ræða málefni LSH og framgöngu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þar - en þau dæmalausu vinnubrögð sem hann og sérfræðingar hans hafa viðhaft í kjaradeilum við hjúkrunarfræðinga koma á endanum til með að kosta ríkið margfalt meira en það hefði kostað að ganga að öllum þeim kröfum sem hjúkrunarfræðingar lögðu fram í upphafi viðræðnanna! Hann sem sagðist hafa kynnst innviðum heilbrigðiskerfisins svo vel þegar hann kveikti í rassinum á sér í fyrra!  

Málefni LSH minna mann á það að Sjálfstæðisflokkurinn vinnur í grunninn enn eftir úreltri hugmyndafræði Milton Friedman og félaga, sem Hannes Hólmsteinn mælti einmitt mjög hvatlega fyrir á 9. áratugnum. Það er í raun hreint ótrúlegt hve margt af því sem sjálfstæðisflokkurinn er að bjástra við þessi misserin minnir óþægilega á Bretland á tímum Margaret Thatcher. Það virðist sem flokkurinn hafi lífssýn hennar enn að leiðarljósi, þrátt fyrir að m.a.s. örgustu íhaldsmenn í Bretlandi viðurkenni að hún hafi gert meira ógagn en gagn á sinni tíð.

Það eru a.m.k. 10 ár frá því að bretar hófu að reyna að "rétta heilbrigðiskerfið við", eftir aðför Thatcher-stjórnarinnar að því. Samt sem áður veljum við að feta sömu braut og frú Thatcher Sick.

Þá dettur mér í hug já og nei spurning: Var Thatcher töff?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er með betri pistlum sem ég hef lesið lengi! Ég minni á skilgreiningu Hannesar Hólmsteins á Sjálfstæðismönnum sem ég fann mig knúna til að skrifa um hér. Pistillinn þinn er eins og framhald af þeirri skilgreiningu, Heimir!

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.5.2008 kl. 02:52

2 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Vá! Þessi skilgreining Hannesar sem þú bendir á er tær snilld. Þakka þér kærlega fyrir að benda mér á hana, það er frábært að hafa þetta svona svart á hvítu .

Heimir Eyvindarson, 11.5.2008 kl. 04:32

3 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Heyrðu nú mig - ég er hágrátandi af hlátri hérna megin! Takk fyrir að segja allt sem ég nennti ekki útlista. (pínu sjokkerandi samt hvað þetta líkist mínum hugmyndum - talandi um hjarðeðli .....).

Ekki einasta er ég hrokafyllri en nokkur fegurðardrottnig heldur er ég líka húðlöt. Annars er svona knappur og hrokafullur yfirlýsingastíll ákveðið tæki sem ég nota oft - líka á sjálfa mig. Að setja fram svart/hvíta mynd af því sem maður er að fást við og þröngva sér svo til að rökstyðja báðar hliðar leiðir oftar en ekki til meiriháttar viðsnúnings á alls konar ranghugmyndum og klisjum.

Við á vinstri vængnum erum líka klisjukenndar steriotýpur - munurinn er bara sá (og þetta eru reynsluvísindi - búin að spá í þetta frá því ég var 10 ára) að almennt gerir það fólk meiri kröfur til sjálfs sín en það að það láti sér nægja að vera klisja. Við erum held ég meira á tánum við að skilgreina eigin afstöðu og það sem stendur upp úr: - Við skiptum um skoðun og skurðgoð þegar slík skilgreiningartörn leiðir af sér nýjan skilning eða sjónarhorn.

Gáfnafarsblammeringar eru auðvitað á grensunni en það bara dugir ekki minna til en að fara einstaka sinnum út á sitt teygjusvið - að dvelja þar langdvölum er svo kannski annað mál - en ég er bara ekki fyllilega almennileg og vil ekki vera það - get það ekki.

Takk fyrir að bjarga deginum Heimir og Lára Hanna!

Soffía Valdimarsdóttir, 11.5.2008 kl. 13:57

4 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Sömuleiðis

Heimir Eyvindarson, 11.5.2008 kl. 16:24

5 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Það eru nú reyndar ástæður fyrir því að íhaldsmenn í Bretlandi hafa sitthvað út á Thatcher að setja. Flokkarnir þar eru ekki eins og þeir voru í gamla daga, íhaldsflokkurinn er búinn að færast mikið til í pólítík og verkamannaflokkurinn er sirka á þeim stað sem íhaldið var í gamla daga.

Varðandi Sjallana þá eru margir gáfuðustu menn sem ég þekki í flokknum. Nokkrir mestu hálfvitar sem ég þekki líka. Tel það eigi við um alla stóru flokkana, þeir innihalda mestallt litrófið í mismunandi hlutföllum. Sjallarnir hafa verið það lengi við völd að það er móðins að vera á móti þeim, enda vilja menn ekki muna lengur hversu slæmt ástandið var þegar þeir tóku við.

En þó fyrirmenn flokksins hafi ekki viljað tala illa um Bush er ekki þar með sagt að sjálfstæðismenn í heild sinni séu hrifnir af honum. Það væri bara ekkert sérstaklega gáfulegt af ráðherrum og þingmönnum að drulla yfir forseta lands sem við eigum í miklum viðskiptum við. Fæstir þeirra sjalla sem ég þekki eru að farast úr hrifningu á kappanum, ekkert frekar en að menn á vinstri vængnum séu að missa sig af hrifningu yfir stjórnvöldum í Kína eða Kúbu.

Ingvar Valgeirsson, 13.5.2008 kl. 11:56

6 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Góður pistill....

Eiður Ragnarsson, 14.5.2008 kl. 01:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband