Evrópusambandið

Umræðan um hugsanlega inngöngu Íslands í ESB er enn eina ferðina komin út í skurð. Þorgerður Katrín fór aðeins fram úr sér á fundi í vikunni og sagðist vera til í að skoða málið, sagðist raunar vera þeirrar skoðunar að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að leiða Evrópuumræðuna á Íslandi! Einmitt! Er það ekki svipað og að láta Steingrím J. stjórna ráðstefnu um framþróun?

Það stóð ekki á viðbrögðum flokksbræðra Þorgerðar. Geir Haarde gerði strax lítið úr ummælunum og reyndi að svæfa umræðuna og Björn Bjarnason firrtist við og bunaði út úr sér sínum venjulegu útúrsnúningum og órökum, m.a. einhverju tuði um að ESB aðild myndi ekki bjarga illa reknum íslenskum fyrirtækjum! Það er auðvitað alveg rétt hjá Birni, en ég man ekki eftir því að nokkur maður hafi haldið því fram að það myndi sjálfkrafa gerast.

Hinsvegar er það þannig að ef Björn og félagar hefðu ekki staðið á Evrópubremsunni í öll þau ár sem þeir hafa séð um stjórn efnahagsmála á Íslandi værum við ekki í þeirri stöðu að hegðun þessara heimskulega reknu fyrirtækja nýríkra flokksbræðra Björns hefði svo mikil áhrif sem raun ber vitni. Evran er nægilega burðug til að standa af sér bjánagang á borð við gjaldeyrisbrask íslensku bankanna - krónan ekki. Svo einfalt er það. Ef við hefðum borið gæfu til að koma okkur inn í hlýjuna í BrusselWink í valdatíð meistara Davíðs sætum við ekki uppi með gjaldmiðil sem er álíka ónýtur og samningsstaða okkar í hugsanlegum aðildarviðræðum er orðin. 

En það er alltaf hægt að segja ef og hefði. Við verðum að lifa með því að hér hefur Sjálfstæðisflokkurinn slegið á alla umræðu um ESB aðild. Við verðum líka að lifa með því að eitt af því sem Samfylkingin samþykkti þegjandi og hljóðalaust til að komast í stjórn með Birni og félögum var að vera ekki að pirra þá með ESB-fjasi. Í því sambandi talaði forystusveit flokksins um að minni hagsmunum hefði verið fórnað fyrir meiri. Mér liði betur að hafa séð það á framgöngu flokksins í ríkisstjórninni hingað til hvaða "meiri hagsmuni" er um að ræða. Hef ekki komið auga á þá enn sem komið er a.m.k. 

Andstæðingar aðildar tala sumir hverjir um að Evrópusinnar séu bláeygir draumóramenn sem sjái ESB í hyllingum og þrái ekkert heitar en að komast í hlýjuna í Brussel og baða sig upp úr digrum sjóðum sambandsins. Það er heldur lágkúrulegur málflutningur þykir mér. Auðvitað er ESB ekkert Bjarmaland, það held ég að engum detti í hug. Við verðum hinsvegar að fara að koma okkur upp úr því fari sem umræðan hefur verið föst í hér á landi í allt of mörg ár og fara að vega kosti og galla hugsanlegrar aðildar af alvöru.

Ég er enginn sérstakur aðdáandi ESB, síður en svo. Í grunninn finnst mér það bákn allt saman fremur óspennandi, en það er nú samt þannig að við erum nú þegar búin að taka upp fjöldann allan af reglum ESB í tengslum við EES samninginn og því þá ekki að taka skrefið til fulls? Hafa atkvæðisrétt og fá að auki nothæfan gjaldmiðil. Ef eina leiðin til að losna við krónuna er að ganga í ESB er ég til. Það heitir að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.

Ég held að efnahagslífið á Íslandi versni allavega ekki við inngöngu í ESB. Jafnvel þó forsætisráðherrann leyfi sér að halda slíku fram, á milli þess sem hann segir að það sé ekki tímabært að ræða um kosti og galla hugsanlegrar ESB-aðildar!

Ég gæti haldið endalaust áfram, en ég veit að það nennir enginn að lesa svona langa pistla, ekki heldur ég Blush. Ég verð samt að bæta því við að ég er orðinn hundleiður á að heyra Björn og Geir o.fl. benda á að Noregi og Sviss farnist vel utan ESB, og nota það sem rök fyrir því að Ísland eigi ekki að ganga í ESB! Það er fráleitt að bera Ísland saman við þessar þjóðir, þær eru stórveldi samanborið við Ísland. Báðar þjóðir eiga digra sjóði og gætu rétt þjóðarskútuna okkar við án þess að finna fyrir því. Ársvextirnir einir á olíureikningi norðmanna myndu duga til þess. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Ég nenni að lesa svona langa pistla.

Lettland er líka stærra en Ísland og það er í ESB. Þar er 18% verðbólga og allt í klessu. Írar eru líka síður en svo kátir með aðild sína. Svo má benda á að ESB hefur ekki skilað gildum ársreikningi í 13 ár, svo enginn veit í raun og veru hvernig staðan er á þeim bænum. Ég hef talsverðar áhyggjur af því að við verðum bara étnir ef við göngum inn í dæmið.

Ingvar Valgeirsson, 20.5.2008 kl. 16:30

2 identicon

Já SÆLL..

Las fyrsta og síðasta versið.  

 En vildi samt kvitta fyrir þennan litla lestur :) 

 Kveðja frá Héraði, þar sem góða veðrið kemur á morgun :)

Inga (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 20:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband