Verstu textarnir

24 stundir birta í dag úttekt blaðsins á verstu textum íslenskrar poppsögu. Ég er svo heppinn að komast á listann, en texti minn við lagið Austur-Þýsk hafnar í 5. sæti.

Þetta er mikill heiður, ég er þarna í hópi með t.d. Stuðmönnum, Sálinni og Skítamóral, sem njóta þess vafasama heiðurs að eiga versta textann og einnig þann þriðja versta. Sá þriðji versti er reyndar alls ekki eftir Skímó, en þar er um að ræða gamla Deildarbungubræðraslagarann Stúlkan mín, sem er eitt af fyrstu lögunum sem Skímó gerði vinsælt.

Fleiri villur er að finna í þessari stuttu úttekt. T.d. er rangt farið með textabrot úr lagi Stuðmanna; Manstu ekki eftir mér, sem gerir það að verkum að textinn virkar kauðalegri en hann er.

Annars finnst mér það textabrot nokkuð skemmtilegt; Það verður fagnaður mikill vegna opnunar fluggrillsjoppunnar. Hér fer væntanlega fyrir brjóstið á dómnefndinni að opnunar sé látið ríma við sjoppunnar. Mér finnst það bara fyndið. Stuðmönnum hefur örugglega fundist það líka. Það er ekki eins og þeir séu einhverjir hlandaular þegar kemur að textagerð.

Þetta minnir mig á það þegar Dr. Gunni skammaði mig á prenti fyrir að láta ömmu ríma við ömmu; viagra fór illa í hana ömmu svo nú á ég ekki lengur neina ömmu.

Þetta fannst mér sniðugt á sínum tíma. Það er kannski ekki skrýtið þegar litið er til þess að uppáhaldsljóðið mitt er svona:

Diddi litli datt í dý

og meiddi sig í fótnum

Hann varð aldrei upp frá því

jafngóður í fótnum

Þessi snilld er held ég eftir Ragga Bjarna Smile.

Bubbi Morthens hefur látið svelta ríma við betla, lögum við gröfum og munstrið við hulstrið, svo fátt eitt sé nefnt úr hans smiðju. Ég sé ekki að það sé neitt betraGrin.

Greinarhöfundur segir íslenska dægurlagatexta marga hverja svo illa samrýmast reglum bragfræðinnar að einsýnt sé að dægurtextaskáld gefi sér varla meira en 10 mín. til að semja hvern og einn. Ég skal ekkert um það segja, en ég var örugglega lengur að hnoða saman textanum við Austur-þýzk. Það gerir stöðu mína enn verri, geri ég ráð fyrirSmile.

Austur-Þýzk er reyndar alls ekki versti texti sem ég hef samið, og langt frá því að vera versti texti sem við höfum gefið út á plötu. Textinn er gerður á þeim tíma sem austur-evrópskar dansmeyjar áttu sviðið á strípiklúbbum bæjarins. Textinn fjallar um mann sem er dreginn á tálar af einni slíkri, en hefur þegar á hólminn er komið ekki efni á að njóta hennar;

Sílíkonbrjóstin senda mér auga, fimmhundruðkallinn

- segir víst ekki neitt 

Annars er þetta gömul saga og ný, að dægurlagatextar þykja oftar en ekki heldur ómerkilegir þegar þeir eru mældir með reglustikum bragfræðinnar. Ég er sammála því, en hef bent á það, eins og svo margir aðrir, að dægurlagatextar lúta ekki sömu reglum. Þar skiptir hrynjandi og mýkt, þ.e. að orðin falli að laglínu, eðlilega meira máli en þegar um upplestur hefðbundinna ljóða er að ræða. Ég hef einnig bent á það, aðallega þegar ég hef fundið mig knúinn til að koma vini mínum Einari Bárðarsyni til varnar Wink, að það er ekki nóg að yrkja tæknilega rétt. Það verður líka að vera eitthvað í textanum sem grípur hlustandann. Best er að eitthvað í textanum hreyfi við manni, snerti jafnvel streng í brjósti, en næstbest er að textinn innihaldi einhver orð sem fólk grípur á lofti og "fær á heilann". Einar er snillingur í því, enda slagorðasmiður mikill. 

Það kom mér satt að segja á óvart að texti Einars við lagið Spenntur, sem við (ÁMS) berum ábyrgð á, skyldi ekki hafna á listanum. Hann er nefnilega einmitt þessari náttúru gæddur: Illa ortur (oft á tíðum sé ég ekki út, stund og staður binda á mig hnút), en jafnframt þannig að fólk man viðlagið við fyrstu hlustun og getur lagt orðin sér í munn.

Hversu oft hefur fólk t.d. ekki öskrað eftirfarandi, hvort upp í annað á sveitaböllum;

ég er miklu meir´en spenntur fyrir þér

mig langar bar´að vera einn með þér 

Það er ekki síst fyrir þetta textabrot sem lagið varð svo vinsælt sem raun ber vitni.

Auðvitað eru margir fleiri textar þess verðir að vera á listanum, en hafa af einhverjum sökum gleymst. T.d. finnst mér textinn við lagið Sekur alltaf dásamlegur;

Það er niðadimm nótt, nístingskuldi - úti kalt.

Land og Synir komast ekki heldur inn á listann með þetta textabrot;

Sjáðu bara mig, ég stend á eigin fótum

áhyggjulaus fyrir það sem koma skal

Bubbi Morthens á líka marga snilldina. T.d. þetta:

Mamma mín hún vinnur og vinnur.
Vinur hennar heitir Finnur.
Ég á engan pabba
hann fór út að labba
og hefur ekki sést síðan.
Það var þá sem mamma fékk kvíðann.

Og svo mætti lengi telja Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Selfyssingar og aðrir Sunnlendingar eiga 4 af 5 verstu textunum... Athyglisvert.

Gestur Guðjónsson, 12.7.2008 kl. 13:52

2 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Það er rétt Gestur. Ef nánar er skoðað þá er athyglivert hvað hljómsveitin Tommi Rótari kemur sterk inn á listann. Sigurður Fannar söngvari sveitarinnar á textann í fyrsta sæti listans. Gítarleikarinn Einar Bárðarson vermir fjórða sætið og hljómborðsleikarinn, ég sjálfur, það fimmta. Aukinheldur er það óbeint á okkar ábyrgð að Skímódrengirnir kynntust laginu Stúlkan mín, þannig að strangt til tekið á þessi fornfræga sveit hlut að máli í 4 af 5 verstu textum sögunnar. Það er vel af sér vikið. Kallar á comeback

Heimir Eyvindarson, 12.7.2008 kl. 14:02

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Ekki spurning. Það mætti athuga hvort ekki sé rétt að athuga hvort pulsupotturinn sé ekki klár í comeback-ið

Gestur Guðjónsson, 12.7.2008 kl. 17:21

4 Smámynd: Anna Sigga

Ég er sko EKKI sátt við að hann Hallbjörn sé þarna á lista með Lukku Láka sinn öss! Eftir gresjunni kemur maður, ríðandi hesti á.... með sexhleypunni er hann sneggri en skugginn að skjót´í mark...

 þetta er bara töff, allavega margt verra að mínu viti!

Anna Sigga, 12.7.2008 kl. 18:13

5 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Já Anna, t.d.

Hátíðarinnar þá

sem þú ert kominn á

þá bestu sinnar tegundar hér á landi á

Heimir Eyvindarson, 12.7.2008 kl. 18:21

6 identicon

Ég er bara svo glöð að þetta lag sé ekki á listanum:

Hún hitti hann á pöbb eitt kvöld á Country pub í Reykjavík Hún starði á hann mjög ákveðinn Hann glápti á móti dauðadrukkinn Hún kinkaði kolli og blikkaði hann Hann var dáleiddur af allann Vodkann Hann fór til hennar og sagði hvar hann var frá Hún sagði "Veistu hvað?" Við höfum sameiginlegt

  því við komum bæði frá Kópavogi

 Þetta er náttúrulega mesta bragsnilld í heimi   

Kolla (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 20:02

7 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Botn tíu textalistinn er forvitnilegur mjög. Af hverju voru engir rapparar á listanum? Aðeins eitt nokkurskonar rapplag er á listanum, Hrókur Sálarinnar. Það er einn skásti rapptexti Íslandssögunnar. Leyfi mér að fullyrða að hvaða texti sem er með Rottweiler eða Sesari A er meira leirburðarstagl en nokkrurntíma nokkuð það sem sett var á þennan lista.

Jú, og af hverju völdu þeir Lukku Láka með Hallbirni? Að mínu mati er það einn skásti texti hans, Hundurinn Húgó rótsaltar Lákann sem ambögusorp.

Ingvar Valgeirsson, 12.7.2008 kl. 20:25

8 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Þetta textabrot fann rafvirkinn eftir Jónas Friðrik

Ég elska að horfa á eftir þér

ó, annar eins rass er hvergi hér

Hann bylgjast og skvettist og byltir sér

já, botninn þinn er alveg met í Heimi hér

Vegna Stúlkan mín með Skítamóral sem versti textinn er lagið Deildabungubræður ekki síðra: Allir drukku og líka Fjóla, en ég fékk bara kóka kóla

Kv, rafvirkinn

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 13.7.2008 kl. 23:22

9 identicon

Frábær pistill. Ég las þessa úttekt og hef verið að velta þessu dálítið fyrir mér síðan. Þú nefnir rímið hjá Bubba. Ég hef tekið eftir mörgu slíku frá honum en það virðist engin áhrif hafa á það hvað sumu fólki finnst textarnir hans alltaf rosalega góðir - ég er stundum sammála því en langt í frá alltaf. Nú hljómar t.d. einhver Drottins texti alla daga útvarpinu af nýju plötunni hans sem mér finnst arfavondur. Villi Vill, sá frábæri lagasmiður samdi líka misgóða texta. Í textanum Skýið endar fyrsta lína viðlags á spyrja, næsta endar á hug, sú þriðja endar á feykja og síðasta línan endar á burt. Mér segir svo hugur að Villi myndi sjálfur hlæja að ýmsu í þessum texta og tala um hnoð. En svo á Villi líka texta eins og t.d. Söknuð, sá texti er algjör listasmíð.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 23:35

10 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Kolla: Það toppar þetta náttúrlega enginn!

Ingvar: Já það er frekar skrýtið að Krókurinn sé þarna. Það er í raun vel heppnaður texti, byggður á frösum PWK, eins og líklega allir vita nema þessi ágæti greinarhöfundur. Lagið varð mjög vinsælt, ekki síst vegna textans og umtalinu í kringum hann. Það eru til margir verri textar með Sálinni.

Hulda/Hannes: Þetta textabrot Jónasar Friðriks er nú kannski sönnun þess að svo bregðast krosstré sem önnur. Sýnir líka að fleiri en Skímó hafa brugðið fyrir sig sér, mér, þér ríminu . Deildarbungubræður voru síðan náttúrlega snillingar! Það eru fáar sveitir sem eiga jafn flotta frasa

Anna: Gaman að þú skulir minnast á Skýið, þar er nú líka talað um að leysast upp í læðing......það hefur mér alltaf þótt hæpin lína .

Ég er síðan algjörlega sammála þér með Bubba. Ég var nú á sínum tíma mikill aðdáandi hans og hann hefur vissulega samið fullt af flottum textum, en það liggur líka hellingur af leirburði eftir hann. En hann virðist kominn í þá stöðu að hann sé yfir gagnrýni hafinn. Gagnrýnendur eru svo miklar hópsálir að enginn virðist þora að standa upp og segja sína meiningu. Ég heyrði t.d. Andreu Jóns dæma plötuna hans hjá Óla Palla fyrir dálitlu síðan og þegar talið barst að textunum þá kom fát á hana. Óli Palli spurði hvort henni þætti þeir ekki góðir og hún fór undan í flæmingi! Líklega vegna þess að allir kollegarnir í gagnrýnendastétt voru búnir að mæra textana í bak og fyrir, eða þá að viðmælandinn er aðdáandi Bubba nr. 1.....?

Á umræddri plötu hans, Fjórir naglar, sem fær gríðargóða dóma hjá gagnrýnendum, m.a. fyrir góða texta, er m.a. að finna eftirfarandi textabrot:

Lag nr. 1: mundu þá að drottinn gædar þig gegnum daginn

Lag nr. 2: Það var engill sem sat á svörtum stein (semsagt ekki steini)

Lag nr. 3:

Og fólkið kemur og fer
og ég veit ástin mín
hvers ég sakna í heimi hér
brúnu augun þín

Lag nr. 4: þar sem bleikir snákar eru í leynum.

Lag nr. 5:

Á vængjum frelsis frjáls þú ert
Þú flýgur út í bláinn.
Þekkja sitt hjarta mest um vert.
Fljúga var alltaf þráin

Lag nr. 6:

Dýrið brosir, berar tennurnar.
Örskotsstund sérðu hendurnar

Lag nr. 7:

Ég er búinn að vera hér í átján ár.
Allt hefur sitt upphaf og endi.
Dýrmætt er lífið og litur augnanna var blár .
Í dauðann manninn ég sendi

Lag nr. 8: ein rolla og lamb í ró og frið

Lag nr. 9: Þú veist ekki vakandi sofandi neitt
Veröld þín með öllu var í gærkvöldi steikt

Lag nr. 10:

Að fyrirgefa, finndu stað og stund
farðu niður á kné og leiktu hund.
Óttinn er eini sanni vinur minn
trúin á ljósið er veikleiki þinn.

Svo fáein dæmi séu tekin

Ég er hræddur um að það myndi heyrast ansi hátt í "gagnrýnendafélaginu" ef sveitaballasveit frá Selfossi myndi senda svona frá sér.

Heimir Eyvindarson, 16.7.2008 kl. 19:39

11 identicon

Góður Heimir! Nákvæmlega  Og svo komstu með línuna sem fer mest í taugarnar á mér í Drottins laginu sem ég vísaði til:  "Mundu að drottinn gædar þig gegnum daginn" .

Já, og þetta með gagnrýnendur og textasmíðar Bubba: Spurning hvort hljóðið breytist í gagnrýnendafélaginu nú þegar Bubbi er fluttur í sveitina ???  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 02:54

12 Smámynd: Hanna

Frábær pistill hjá þér Heimir.

Hanna, 19.7.2008 kl. 22:45

13 Smámynd: Þórður Helgi Þórðarson

Ég var nú soldið súr að fá ekki að vera með:

Sjúga sleikja

í konum kann að kveikja

það er óhollt að reykja,

mín girnilega bleikja

Þetta er fallegt.....

Þórður Helgi Þórðarson, 21.7.2008 kl. 15:31

14 Smámynd: Hjalti Árnason

Til hamingju! Ég held eftir þennan pistil að ég myndi heldur vilja vera á botnlistanum en toppnum. Það er búið að gefa út óendanlega mikið af afburða lélegum textum í íslenskri tónlistarsögu. Ég vil í viðbót við ofannefnt minna á td. Todmobile og ýmislegt sem Bo kallinn hefur gefið út. Og ekki voru textarnir betri fyrir rokkbyltinguna.

Mér sýnist eiginlega að Þórir og Nonni hafi verið bestu textahöfundarninr í Tomma rótara. En annars er ég klár ef það verður comeback. Halla mér makindalega aftur......

Hjalti Árnason, 22.7.2008 kl. 20:18

15 Smámynd: Heimir Tómasson

He he. Man einhver eftir Piranha úr Hveragerði?

Heimir Tómasson, 24.7.2008 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband