Árni Mathiesen er snillingur!

Mig hefur lengi grunað að Árni Mathiesen væri vitleysingur. Nýlegt myndskeið sem sýnir hann, Geir Haarde og Einar Kr. Guðfinnsson horfa saman á handboltaleik renndi t.d. stoðum undir þann grun minn, en þar mátti sjá að Árni -sem er af mikilli handboltaætt- var talsvert lengur að fatta hvað var í gangi á vellinum en vestfirðingurinn Einar Kr. og norðmaðurinn Geir!

Rétt í þessu var ég síðan að lesa frétt á Vísi, sem fjallar um hlut Árna í Byr og þar kemur margt athyglisvert fram. Framan af fréttinni styrktist ég enn í trúnni um að maðurinn gengi ekki alveg heill til skógar vitsmunalega séð. Væri kannski svona febrúar, eins og fólk sem vantar aðeins í var stundum kallað í gamla daga.

T.d. kemur fram í fréttinni að fyrir þremur árum tilkynnti Árni með viðhöfn að þeir tímar væru liðnir að stjórnmálamenn væru að vasast í fjármálastofnunum. Samt sem áður kemur nú í ljós að hann er með puttana á bólakafi í Byr. Fádæma vitleysa hugsaði ég, og gott ef það fussaði ekki í mér líka.

En viti menn. Svo bregðast krosstré o.s.frv.........í lok fréttarinnar kemur Árna firnasterkur til baka, með svari sem mátar mig og alla þá aðra sem hafa haldið því fram að þarna væri vitleysingur á ferð! Þegar hann er spurður að því hve lengi hann hafi átt hlut í Byr, svarar hann: „Þessi hlutur í Byr er kominn til eftir að Byr verður til"

Ég gefst upp Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiríkur Harðarson

Maðurinn er náttúrulega að drukkna í hrokapolli.

Eiríkur Harðarson, 29.8.2008 kl. 23:59

2 identicon

Já það sem háttvirtur fjármálaráðherra (dýralæknirinn) á við er að samkvæmt skilgreiningu flestra þá er hlutur í Byr ekki sama og hlutur í Byr nema hluturinn hafi verið til áður en að Byr varð til. Þar sem Byr hefur ekki verið til nema í stuttan tíma þ.e. af þeim tíma sem við viljum marka sem upphaf tímatals okkar þá má með sönnu segja að hlutur Árna í Byr hafi alltaf verið til sem hlutur af miklu stærra samhengi, ja eða viðhengi. Það fer alveg eftir því hvernig þú lítur á það. Samkvæmt íslenskum hlutafjárlögum þá má dýralæknirinn eiga hlut í Byr áður en hann verður Byr.

Þetta er samt alltaf spurning um túlkun. Þú veist það vel sjálfur Heimir, annars eru þetta kannski bara mistök hjá fjármálaráðherranum svona í byrjun hausts að rugla eitthvað með þetta. Hann verður bara að passa upp á að þetta komi ekki fyrir aftur.

Sævar (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 08:35

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Árni hefur væntanlega verið sáttur við þá aðgerð Byrs nýverið að segja upp 14 konum á miðjum aldri, m.a. vegna þess að þær þóttu "eyða of miklum tíma í hvern viðskiptavin"!

Af hverju látum við stjórnmálamenn alltaf komast upp með spillingu? Er það vegna þess að það er engin spilling á Íslandi, eða hvað?

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.9.2008 kl. 12:34

4 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Ég man nú ekki til þess að hann hafi verið á móti því að menn væru að vasast í fjármálastarfsemi ef þeir væru í pólítík. Mig rámar hinsvegar í að hann hafi verið á móti því að menn væru stofnfjáreigendur ef þeir sætu á þingi (held ég fari þarna rétt með, endilega leiðréttið mig ef svo er ekki).

Annars, Lára Hanna, veistu eitthvað til þess að Árni hafi haft eitthvað um uppsögn þessara kvenna að segja eða að hann sé eitthvað sérstaklega ánægður með hana? Tengist þessi uppsögn eitthvað sérstaklega spillingu í stjórnmálum?

Ingvar Valgeirsson, 3.9.2008 kl. 17:44

5 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Svo var ég að átta mig á því að ég á oggolítinn hlut í Byr. Sá hlutur er tilkominn æði löngu áður en Byr varð til...

Ingvar Valgeirsson, 3.9.2008 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband