Frasalúðulakar

Mikið óskaplega leiðast mér stjórnmálamenn sem hafa ekkert að segja. Ég horfði t.d. á Silfur Egils í dag og mér fannst bara allir býsna áheyrilegir í þættinum - nema pólítíkusarnir. Þeir eru ansi margir alveg komnir í þrot.

Mér fannst gott hjá Sigmundi Davíð að segja Degi B. Eggertssyni að þau mál sem við stöndum frammi fyrir núna leystum við ekki með frösum! Dagur er agalegur frasakall, en aflaust ágætis náungi samt.

Ég finn það líka sterkt þessa dagana hversu leiður ég er orðinn á Össuri. Myndlíkingar geta verið ágætar, en öllu má nú ofgera! 

Kjartan Gunnarsson og Geir Haarde (Haarde þýðir einmitt hjörð á frönsku - og nú um stundir sá sem situr kyrr og lætur koma sér á óvart á flestum öðrum tungumálum) féllust í faðma á trúarsamkomu Sjálfstæðisflokksins um helgina - og salurinn klappaði sem óður væri. Gott ef einhverjir felldu ekki tár! Sick

Rétt áður hafði hinn meinti óreiðumaður Kjartan hraunað yfir foringjann sjálfan, Dabba jaka, svo afdráttarlaust að allir fjölmiðlar greindu frá því - en þá brá svo við að Kjartan kannaðist ekki neitt við neitt. Þessi hjörð er í besta falli hlægileg. 

Guðni Ágústsson vill að ráðið verði faglega í stöður seðlabankastjóra. Ef það kemur ekki úr hörðustu átt veit ég ekki hvaðan á mig stendur veðrið! Hann keppist líka við að hvítþvo hendur sínar af ástandinu, þrátt fyrir að hafa verið á bólakafi í því - eins og svo hallærislega margir aðrir þessa dagana. Þ.m.t. Davíð Oddsson. Munurinn er að einhverjir blindir hjarðmenn trúa Davíð ennþá - en enginn tekur nokkurt einasta mark á orðum Guðna lengur. Að skynja vitjunartíma sinn er frasi sem kemur upp í hugann.

Vinstri-grænir halda því mjög á lofti þessa dagana að þeir hafi verið á móti útrásinni. Afsakið, en það er nú ekkert sérstakt afrek hjá flokki sem hefur það eina markmið að vera á móti öllu.

En svo allrar sanngirni sé gætt þá hafa Ögmundur og Steingrímur varað við þessum ósköpum, það verður ekki af þeim tekið. En það má heldur ekki gleyma því að þeir hafa varið krónuhræið okkar með kjafti og klóm. Staða flestra þjóða er slæm um þessar mundir. Okkar er enn verri, þökk sé krónunni. Það held ég að við hljótum að fara að geta verið sammála um.

Ég eyði ekki plássi veraldarvefsins í að tala um menn eins og Pétur Blöndal, sem langar að vera frasakall, en ræður ekki við það. Hefur það eina svar við öllum spurningum að ekki skuli leita sökudólga - og tekst ekki einu sinni að böggla því almennilega út úr sér.

Ég eyði ekki heldur plássi í að ræða Frjálslynda flokkinn, sem maður finnur á stundum sem þessum að enginn sækir stuðning til.

Ekki heldur í Bjarna Harðarson sem heldur því fram að sveigjanleiki íslensku krónunnar sé það sem geri það að verkum að hér séum við enn á floti. 

Ég nenni ekki heldur að eyða orðum í Björn Bjarnason og öll hans furðuverk.

En ég ætla að eyða orðum í Samfylkinguna. 

Ég viðurkenni það að ég tilheyri þeirri hjörð. Það er af því að ég trúi á það sem flokkurinn stendur fyrir. Ég trúi á hin félagslegu gildi, á jöfnuðinn, samhjálpina o.s.frv. og ég hef nú um nokkurra ára skeið trúað því að það væri skynsamlegt fyrir okkur að ganga í ESB. Sérstaklega vegna þess að ég er fyrir löngu búinn að fá mig fullsaddan af því að vera með gjaldmiðil sem má ekki hnerra á án þess að hann fari til fjandans.

Pólítískar skoðanir mínar passa semsagt best við stefnumál Samfylkingarinnar.

En þó ég tilheyri þessari hjörð er ekki þar með sagt að ég fylgi henni í blindni. Stefnumálin sem ég tíni hér til eru mér öll að skapi og eru ástæða þess að ég kaus flokkinn í síðustu kosningum. En hvar eru þau í dag?

Ég hafði orð á því fyrir síðustu kosningar að mér þætti það klaufalegt hjá flokknum að hafa lagt ofurkapp á Evrópumálin 2003, þegar tiltölulega fáir nenntu að pæla í slíku, en stinga þeim svo nánast undir borð í fyrra þegar loks hafði skapast hljómgrunnur fyrir því. Það var áður en mér varð það ljóst að flokkurinn gekk líklega bundinn til kosninga. Var sjálfsagt löngu búinn að ganga frá samkomulagi um stjórn með Sjálfstæðisflokki.

Hið stóra mál, ESB - nota bene aðalstefnumál flokksins, var sett til hliðar að því er virðist kinnroðalaust. Allt til að komast að kjötkötlunum. Og hvað nú þegar kjötkatlarnir springa einn af öðrum? Jú, þá tjaslar ríkisstjórnin saman nýjum - og kemur sínu fólki að. Rétt eins og það hefur alltaf verið. Það sannaðist á nýrri bankastjórn Glitnis í dag. Þó kviknaði von á ný þegar aðstoðarmaður Björgvins G. bakkaði út úr þeim æfingum. Ég er stuðningsmaður Björgvins og vona að hann falli ekki í þennan fúla pytt.

Flokkurinn hefur því miður ekki sýnt mikinn dug í þessu ríkisstjórnarsamstarfi, enda varla von þegar einu skilyrðin við stjórnarmyndun virðast hafa verið þau að fá að vera með.

Svo skil ég ekki þennan sýndarveruleika sem okkur er boðið upp á með varaformanninn - sem er nú einn af þeim sem sáu ekki sólina fyrir útrásinni þegar hún var og hét. Hann var ekki gerður að ráðherra, sem er fremur undarlegt þegar um næstvaldamesta mann flokksins er að ræða (?), og nú þegar formannsins nýtur ekki við þá dettur engum í hug að skipta honum inná! Hvaða skrípaleikur er þetta?

Fyrir mér er þetta einfaldlega kjánalegt - og akkurat engum til góðs.

Ég er samt hress - annað er bannað.

Góðar stundir Smile  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyþór Árnason

Ég er líka hress. Góður pistill. Kveðja.

Eyþór Árnason, 13.10.2008 kl. 01:30

2 identicon

Sælinú Heimir.

Já þetta var frekar dapurlegt "line-up" í silfrinu í dag nema þessi Sigmundur.  Sem mér hefur alltaf þótt frekar syfjulegur.   Mjög krefjandi að halda augunum opnum þegar hann er að fjalla um skipulagsmál.   En þarna átti hann stórleik, þegar hann sussaði á hárDag, sem var gjörsamlega á autopilot í frösum.

Það virðist sem frjálsræðishjörðin sé ekki enn búin að kveikja, að módelið sé meingallað.  Þau sá þetta meira sem "hnökra" sem þurfi að fínstilla.   Ég tek eftir því að við höfum báðir hrokkið ánægjulega í kút þegar Egill hjólaði í Blöndallinn, í þættinum á undan.   Hvernig dirfist fólk, að hrauna yfir fólkið með peningavitið??

 Ég hef verið að segja mínu fólki, undanfarna daga, að ef gengið væri til kosninga núna eru yfirgnæfandi líkur að ég skilaði auðu.  Annars hef ég aldrei verið í vandræðum með að úthluta mínu atkvæði.   Maður er bara eitt spurningamerki þessa dagana.

Lofaður sé Drottinn, fyrir Íbúðarlánasjóð!!!

 Golli 

golli (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 03:33

3 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Já hann Dagur blessaður er einmitt birtingarmynd þess sem ég þoli ekki hjá Samfylkingunni. Hann beitir gáfulegum talanda með passlega lágstemmdum hætti þannig að allur meginþorri manna getur skilið - en innihaldið er lítið og staðfestan enn minni. Það ereitthvað sóðalega sænskt við Samfylkinguna. Þess vegna er ég pólitískt munaðarlaus nú um stundir.

Soffía Valdimarsdóttir, 13.10.2008 kl. 09:03

4 identicon

Ekta stöff frá gamla!   Sammála með frasadeildina...Svandís er líka skelfileg í þeirri deildinni...samstöðustjórnmál,samstöðu hitt og þetta...einmitt, þannig er líklegast að málin reddist...allir gúbbar sameinist!

Ef að svo fer sem horfir þá verður uppistaðan í bankaráðum landsmannna gamlir og góðir félagar úr Gjánni sálugu....ættum ekki að þurfa að kvarta yfir því, annars er Bjöggi með númerið mitt svo maður veit aldrei???

Golli lofar íbúðalánasjóð og er það vel....það eru ekki nema ca mánuður síðan margtuggin umræða um einkavæðingu íbúðalánasjóðs sett í loftið úr röðum sjálfstæðismanna.....

Annars bara léttleiki.  

Rilli (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 18:21

5 identicon

Tek undir með Rilla, ekta stöff. Djöfull er ég sammála þér kæri vinur með Dag. Þetta var það alslappasta sem ég hef séð til hans, sagði það upphátt á mínu heimili að þetta væri ömurleg frammistaða hjá honum. Fékk einkennilegt augnaráð frá aðdáenda hans á heimilinu.

Það er ekki nóg að vera sætur með fínt hár og próf í vestrænum lækningum! Hann bætir það upp með frábærum frösum. Eða ekki.

Það er rétt sem Rilli segir, Gjáin er kráin. Ég held að það hljóti einungis að vera tímaspursmál hvenær Erlingur Brynjólfsson verður orðinn í bankaráði einhvers bankanna. Samt dálítið skrítið að Flúðakaupmaðurinn sé ekki í öðru bankaráði en Glitnis. Þó það væri nema bara fyrir það hvað hann talaði vel um Baug.

Svo verður ein hljómsveit. Ríkishljómsveitin. Erlendu verkamennirnir flestir farnir úr sinfó, þeir eru svo dýrir. Hljómsveit allra landsmanna hlýtur að verða hljómsveitin Af lífi og sál.

Gaman að heyra svo af nýjasta sameiningartákninu hjá ríkisstjórninni. Sammála um að vera ósammála. Geir segir nei, Ingibjörg segir já. Frábært samstarf.

Sævar (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 20:42

6 Smámynd: Grétar Pétur Geirsson

Er alveg sammála þér. Maður finnur það á svona stundum sem þessu hvað þetta fólk er máttlaust fast í gömlu flokkafrösunum og reyndu að verja sína flokka. Það  væri nær fyrir þetta fólkað girða sig í brók og viðurkenna að öllum þessum flokkum hefur mistekist að standa vaktina enginn er undanskilin.

Hagfræðingurinn Sigmundur var eini maðurinn sem talaði hreina íslensku,svo var Ragnar Önundarsson mjóg góður og gaf góða mynd  af því hvað fór úrskeiðis. En þetta fólk hefur verið kallað öfundarlið einfaldlega vegna þess að það var að reyna að tala af ábyrgð.

Sjáfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á því ástandi sem hér hefur ríkt með Davíð í fararbroddi þeir stokkuðu spilin og gáfu þau líka,en það fengu bara fáir útvaldir að spila þennan póker

Grétar Pétur Geirsson, 14.10.2008 kl. 11:48

7 identicon

Baggalútsmenn settu fram http://baggalutur.is/skrif.php?t=1&id=1506&start=0 nokkrar aðkallandi spurningar. Ég vil eiginlega bara fara að fá svör við nákvæmlega þessum spurningum.

Heiðrún Dóra (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband