ESB

Enn og aftur er umræðan um inngöngu Íslands í ESB komin út í skurð. Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja þannig að ég byrja á Geir Haarde. Hann er yfirleitt frekar ráðvilltur líka.

Hann segist alltaf hafa verið tilbúinn til að skoða Evrópumálin með opnum huga. Það er nefnilega það! Fáir hafa staðið jafn fast á ESB-bremsunni og Geir og hans helstu samstarfsmenn; Davíð, Björn o.fl. Síðan kemur Þorgerður Katrín fram og lýsir þeirri skoðun sinni að skynsamlegt sé að fara að huga að ESB-málum í fullri alvöru og þá segir Geir að fullkominn einhugur sé í forystu flokksins um þau mál! Er nema von að maður klóri sér í hausnum þegar þessi maður tekur til máls???

Ég er, eins og áður hefur komið fram, alinn upp á sósíalísku heimili - jafnvel kommúnistísku á köflum. Þegar umræðan um ESB og EES fór af stað fyrir alvöru, fyrir 15-20 árum, voru foreldrar mínir líkt og flestir kommúnistar eins og snúið roð í hund. Töldu aðild að slíkum fyrirbærum aðför að sjálfstæði þjóðarinnar. Ég var sammála.

Eftir því sem árin liðu og skynfærin efldust hef ég þó linast í þeirri afstöðu minni. Ég sá fljótlega að ávinningurinn af EES samningnum var umtalsverður og fyrir nokkrum árum komst ég að þeirri niðurstöðu að líklega væri skynsamlegast fyrir okkur að stíga skrefið til fulls og ganga í ESB. Hvort sú afstaða mín er rétt eða vitlaus ætli ég ekkert að segja um, en þetta er altént sú skoðun sem ég hef myndað mér. Einn og óstuddur. Það ástand sem nú ríkir hefur orðið til þess að styrkja mig enn frekar í þeirri trú að betur væri fyrir okkur komið innan ESB en utan. Ég er þess a.m.k. fullviss að staða okkar væri ekki eins slæm og raun ber vitni hefðum við verið komin í ESB og búin að taka upp evru þegar ósköpin dundu yfir.  

Ég er auðvitað líka sammála því sem margir hafa bent á, að það að ganga í ESB við þær ömurlegu aðstæður sem við höfum nú komið okkur í leysir ekki þann vanda sem við höfum skapað okkur. Það held ég að allir sjái, og ég man ekki eftir því að málsmetandi menn hafi haldið því fram að það myndi laga ástandið í grænum hvelli. Jafnvel þó sumir haldi öðru fram. 

Hvernig fyrir okkur verður komið í framtíðinni getur aftur á móti enginn sagt fyrir um með vissu. En það er alveg ljóst að það er hreint og beint réttlætismál fyrir almenning í landinu að evrópumálin verði rædd í fúlustu alvöru. Við höfum sýnt það á síðustu 64 árum að við erum engan veginn fullfær um að bera ábyrgð á okkar lífi og því ættum við að skoða alla þá utanaðkomandi aðstoð sem okkur stendur til boða með opnum huga. Hvort sem sú aðstoð kemur frá Brussel eða einhversstaðar annarsstaðar. Það er auðvitað glannalegt að segja svona en grínlaust þá höfum við ekki farið vel með það vald sem okkur var falið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband