Mikið hafði ég það gott

Það er alltaf verið að segja mér að ég hafi haft það svo óskaplega gott í góðærinu að ég geti varla leyft mér að kvarta þó að harðni nú á dalnum um stundarsakir. Mér hefur m.a. verið sagt trekk í trekk að gengi krónunnar hafi verið svo fáránlega hátt að ég hafi stórgrætt á ástandinu. Vitlaus sem ég er trúði ég þessu gagnrýnislaust í smástund.

bilde.jpg
Við nánari skoðun komst ég síðan að því að ég gat nú varla kvittað upp á það. Ef við tökum krónuna fyrst og hið meinta allt of háa gengi hennar þá má segja að gengi hennar hafi verið óeðlilega hátt - miðað við hið raunverulega ástand. En það var ekki óvenjulega hátt. Á því er reginmunur.

Eftir myntbreytinguna 1981 var gengi íslensku krónunnar hið sama og þeirrar dönsku. Fljótlega varð ljóst að við gætum ekki haldið í við hana og 5 árum síðar var danska krónan komin í 5-6 krónur og 10 árum síðar, í kringum 1990, var hún komin í 10 krónur. Síðan þá hefur hún verið á því rólinu; sveiflast niður í 9 krónur og upp í 12. Það er nota bene sama gengi og var á henni í hinu mikla góðæri, þannig að ég get alls ekki sagt að styrking krónunnar hafi verið óvenjulega mikil. En hvort styrkingin var óeðlilega mikil er svo aftur allt annað mál. Það held ég að sé alveg rétt, en það kemur bara meginhluta þjóðarinnar hreint ekkert við.

Hið háa vaxtastig sem Seðlabankinn hefur boðið okkur upp á gerði það t.d. að verkum að erlendir fjárfestar sóttu mjög í hin svokölluðu jöklabréf. Við það styrktist gengi krónunnar umfram það sem það hefði annars verið, en það var samt ennþá á bilinu 10-12 krónur gagnvart danskri krónu þannig að það var ekkert óvenjulegt við það - fyrir allt venjulegt fólk.

Þessi sömu jöklabréf munu síðan nær örugglega ganga af krónunni, eða því sem eftir er af henni, dauðri um leið og hún verður sett á flot aftur. Þá held ég að langflestir fjárfestar muni drífa sig í að koma sparifé sínu sem lengst frá Íslandi. Og mun þá einu gilda hvort hér verða 12 eða 18% stýrivextir. Ég er ekki sérfræðingur í hagfræði, því fer fjarri, en ef þetta gengur eftir - sem margir sérfræðingur spá raunar - þá mun endanlega verða ljóst að vaxtafyllerí Seðlabankans undanfarin ár hefur ekki gert eitt einasta gagn.

davi_oddsson_og_ketill_larsen.jpg 

Ekki misskilja mig, ég hef vissulega haft það ágætt, en ég er ekkert viss um að ég hefði haft það neitt verra þó þetta blessaða góðæri hefði ekki dunið á mér. 

bjor.jpgLangstærstu breytinguna á mínum högum má reyndar rekja beint til góðærisins, en sú breyting er ekki til batnaðar. Ég flutti nefnilega milli byggðarlaga í góðærinu og meðan ég sat rólegur í gamla húsinu mínu ruddust bankarnir inn á fasteignamarkaðinn, með góðfúslegu leyfi þáverandi ríkisstjórnar, og á einni nóttu snarhækkaði húsnæðisverð. Húsið sem ég seldi hækkaði auðvitað rétt eins og húsið sem ég keypti, en þenslan varð til þess að viðbótarlánið sem ég þurfti að taka fyrir mismuninum á verði húsanna varð hærra í krónum talið en ella hefði orðið. Nú hafa bankarnir hrökklast út af fasteignamarkaði og skilja eftir sig sviðna jörð - þar sem annarsstaðar, sem m.a. kristallast í því að verðgildi þessarar nýju eignar minnar rýrnar nú óðum.  

Fasteignalánið mitt er á lágum vöxtum og ég sýndi þá afturhaldssemi, eða framsýni, að hafa það ekki í erlendri mynt, en samt sem áður hefur það nú snarhækkað vegna blessaðrar verðtryggingarinnar, sem aldrei virðist vera rétti tíminn til að afnema. Það er nefnilega svo vont fyrir sparifjáreigendur. Auðvitað er það rétt, en hvernig kemur verðtryggingin við meirihluta þjóðarinnar? Ég leyfi mér að áætla að flest fólk á mínum aldri, og jafnvel flestir á aldrinum 20-50 ára, eigi fremur skuldir en sparifé. Ég á hvorttveggja, en skuldirnar eru talsvert hærri en spariféð. Með hækkun stýrivaxta og verðbólgu horfi ég líklega á endanum upp á það að hækkunin á húsnæðisláninu mínu verði meiri en sem nemur inneigninni á sparireikningnum mínum. 

baukur.jpgÉg verð að gjöra svo vel að kyngja því vegna þess að ég tilheyri meirihlutanum. Hinum þögla og þæga íslenska meirihluta sem lætur endalaust allt yfir sig ganga. Meirihlutanum sem er líka búinn að læra það að hversu óánægð sem við erum þá mun aldrei nokkur ráðamaður á Íslandi axla ábyrgð á sínum gjörðum. Meirihlutanum sem alltaf þarf að taka tillit til einhvers sem ekki kemur honum við.

Tökum umræðuna um ESB sem dæmi. Ein háværustu mótmælin gegn ESB-aðild hafa ávallt komið frá útgerðarmönnum. Það að ganga í ESB þýðir víst nefnilega að við missum yfirráð yfir fiskimiðunum okkar. Við? Höfum "við" einhver yfirráð yfir auðlindum hafsins? Ekki ég allavega! Ég veit ekki betur en það sé löngu búið að afhenda einhverjum smákóngum full yfirráð yfir þeim. Afhverju á ég frekar að vilja að þeir sem veiða fiskinn við Íslandsstrendur og sigla með hann beinustu leið til útlanda á milli þess sem þeir braska með kvótann séu frá Samherja á Akureyri en frá t.d. Spáni? Ég sé bara ekki að það skipti mig nokkru einasta máli. Aukinheldur held ég að það sé engan veginn víst að fiskveiðistefna ESB muni komi íslenskum sægreifum eins illa og þeir vilja vera að láta. Meðan það er ekki skoðað í fullri alvöru er allavega ekki hægt að fullyrða nokkuð um það með neinni vissu.

Á evrusvæðinu eru gegnumgangandi 4-5% vextir og verðbólga á svipuðum slóðum. Verðtrygging lána er ekki fyrir hendi þannig að húsnæðislán lækka þegar borgað er af þeim - öfugt við það sem þekkist hér á landi. Samt má ég ekki tala um að ég vilji athuga hvort það gæti verið álitlegur kostur fyrir mig og aðra Íslendinga að tilheyra slíku hagkerfi án þess að vera uppnefndur lygari, draumóramaður, trúboði, lýðskrumari eða blindur kjáni - svo ég vitni nú einungis í Bjarna Harðarson alþingismann.

Bjarni og hans nótar halda því statt og stöðugt fram að ástandið í ESB sé hrikalegt og við munum fara beina leið til helvítis ef við svo mikið sem ræðum þann möguleika að ganga í ESB. Þeir bregðast ókvæða við ef einhver svo mikið sem minnist á þann möguleika. Meðan "umræðan" um ESB er á þeim nótum, komumst við hvorki lönd né strönd.

Sérfræðingar Bjarna hafa t.d. slegið því fram í feitletruðum fyrirsögnum á sínum síðum að evran hafi fallið svo og svo mikið gagnvart bandaríkjadollar á síðustu dögum að jafnvel hefur verið talað um blóðuga daga í kauphöllum Evrópu í því sambandi.

En hefur þetta meinta afhroð sem evran hefur beðið haft áhrif á gengi evru gagnvart íslensku krónunni? Nei - aldeilis ekki. Staðreyndin er nefnilega sú að jafnvel þó evran og einhverjir aðrir gjaldmiðlar kunni að taka hressilegar dýfur þá komast fáir, ef nokkrir, með tærnar þar sem íslenska krónan hefur hælana þegar kemur að frjálsu falli.

Sömu sérfræðingar hafa einnig slegið því upp í feitletruðum fyrirsögnum að samdráttur næstu missera verði mestur á evrusvæðinu. Máli sínu til stuðnings hafa þessir sérfræðingar bent á að kollegar þeirra í sérfræðingastétt geri ráð fyrir því að samdráttur í þjóðarframleiðslu verði allt að 1,5% á evrusvæðinu á næstu misserum!

Má ég til samanburðar benda á það að gert er ráð fyrir því að þjóðarframleiðsla hér á landi dragist saman um allt að 10% á næstunni! Eigum við að ræða þetta eitthvað frekar?

Nei. Við skulum frekar ræða það hvað við höfðum það öll óskaplega gott í góðærinu og reyna smátt og smátt að telja okkur trú um að flatskjáirnir sem við freistuðumst til að kaupa séu meginástæða þess að hér er allt í ævintýralegri steik.

Vill einhver skipta á flís og bjálka? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá....og sælinú.

Þetta telst nú alveg löðrandi pistill.   Svo löðrandi að okkur sníkjubloggara setur hljóða (miðað við commentaskort á síðustu færslur).

Það yrði allveg sérstök ánægja að sjá þig og þingmann nokkurn, ættaðan úr tungunum, takast á í kastljósi eða silfrinu.

Var ein myndin þarna uppi nokkuð tekin á árlegu landsþingi fuglahræðara??

Golli.

golli (IP-tala skráð) 30.10.2008 kl. 19:39

2 identicon

Ja hérna. Þú ert heldur betur í stuði í dag. Skrambi góður pistill (getur víst líka þýtt romsa, á vel við hér:-) hjá þér samt.

Inga Lóa (IP-tala skráð) 30.10.2008 kl. 20:56

3 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Ja, ég á hérna eina barrnál - einhverjir skiptimöguleikar þar?

Frábær pistill !

Soffía Valdimarsdóttir, 31.10.2008 kl. 09:47

4 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

"Afhverju á ég frekar að vilja að þeir sem veiða fiskinn við Íslandsstrendur og sigla með hann beinustu leið til útlanda á milli þess sem þeir braska með kvótann séu frá Samherja á Akureyri en frá t.d. Spáni?"

Það er jú, eins og þú væntanlega veist, af því að það skapar gjaldeyristekjur hérlendis (ekki veitir af núna) sem og atvinnu. Fiskurinn er líka oftar en ekki (held ég örugglega) unnin hér svo það skapar vinnu fyrir fólk í landi - útflutningur á fiski er helvede stórt hlutfall af heildarútflutningnum.

Bretar fengu að halda eftir rausnarlegum 17% af fiskveiðiheimildum í sinni lögsögu þegar þeir gengu í ESB - enda vilja þeir endilega að við göngum í sambandið, það myndi leiðrétta þeirra hlut. Þá mættum við ekki nota klippurnar - reyndar er krafan um minni tengsla eða algera úrsögn úr ESB orðin býsna hávær í Bretaveldi.

"Á evrusvæðinu eru gegnumgangandi 4-5% vextir og verðbólga á svipuðum slóðum." Ég veit ekki hvaðan þú hefur þetta, en ESB-ríkið Lettland glímir nú við ívið meiri verðbólgu en við. Var rétt um 20% fyrir skemmstu og fór versnandi.

Svo er ESB-ríkið Ungverjaland er þessa dagana að semja við IMF um gjaldeyrislán og ESB-ríkið Eistland glímir við bullandi samdrátt í efnahagslífi (þvert ofan í allar spár)... svo má eflaust lengi telja, þetta er bara það sem ég man úr fréttum.

Hinsvgar er ég fyllilega sammála þér með verðtrygginguna, hún má missa sín. Enda er hún ein af ástæðunum (segja mér fróðari menn) fyrir verðbólgu hérlendis. Vonandi breyta þeir þessu núna, meðan mestallar skuldirnar eru komnar á eina hendi, þ.e. ríkisins. Nú eða aldrei.

Ingvar Valgeirsson, 31.10.2008 kl. 15:18

5 Smámynd: Eiríkur Harðarson

Heimir einn af þínum bestu pistlum hingað til, Þó vil ég hnýta örlítið í þessa ESB-dellu þína. Mér finnst þú skauta yfir þá bláköldu staðreynd að innan ESB-báknins ríkir FAST atvinnuleysi sem hefur aldrei,,svo ég viti, leiðréttu mig ef rangt er"farið undir 4% Varla yrði eitthvað annað uppi á borðinu hér, færum við inní þetta bákn.

Eiríkur Harðarson, 31.10.2008 kl. 17:21

6 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Sæll Ingvar.

Í fyrsta lagi fiskurinn: Ég veit að ég tala glannalega, en það sem ég er að vísa til er það að almenningur þarf alltaf að gæta hagsmuna einhverra annarra. Við verðum að sætta okkur við verðtrygginguna af því að sparifjáreigendur skaðast svo ef hún er tekin af. Þ.m.t. reyndar lífeyrissjóðirnir þar sem við eigum sjálfir einhverjar krónur. En hafa lífeyrissjóðirnir ekki tapað ígildi verðtryggngarinnar í sjóðaruglinu? Það væri gaman ef einhver klárari en við væri til í að kanna það. Sama sagan er með fiskveiðarnar. Ég veit auðvitað að hluti þeirra verðmæta sem skapast af fiskveiðum færa þjóðarbúinu tekjur - en fær almenningur að njóta þess? Að hluta jú, en þegar dæmið er skoðað í heild sinni held ég að ég og þú hefðum það betra innan ESB. Vextir og verðtrygging skipta einfaldlega fólk á okkar aldri meira máli en tekjur þjóðarbúsins - sem enginn getur n.b. sagt fyrir um með vissu hvort; og þá hve mikið, skerðast ef við göngum í ESB. Það verður hugsanlega einhver samdráttur hjá Samherja á Akureyri og olíufélögunum. Þú verður að fyrirgefa mér, en ég græt það ekki sárt.

Þrátt fyrir að Lettland glími við verðbólgu þá eru gegnumgangandi 4-5% vextir og verðbólga á evrusvæðinu. Verðbólgan í Lettlandi er eins og þú bendir á svipuð og hér og jafnvel þó hún muni vaxa eitthvað enn þá á ég nú von á því að við munum fljótt ná þeim, þegar eigendur jöklabréfanna verði búnir að forða þeim héðan .

Varðandi Ungverjaland og Eistland þá veit ég líka að það er samdráttur víðar en hér, ég bendi líka á það í minni romsu, en hann er ekkert í líkingu við það sem blasir við okkur. Svartsýnustu spár á evrusvæðinu ganga út frá 1,5% samdrætti í þjóðarframleiðslu - sem er vissulega hellingur. En það er bara óvart talsvert minna en verður hér.

En það er gott að við erum sammála um verðtrygginguna. Ég held líka að það sé rétt hjá þér að það sé nú eða aldrei.

Skál! (við getum líka verið sammála um það )

Heimir Eyvindarson, 31.10.2008 kl. 17:34

7 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Eiríkur: Ég þakka bæði hrósið og innlitið .

Ég ætla ekki að verða einhver sérstakur málsvari ESB, enda hef ég held ég aldrei sagt að ég viti að við munum hafa það betra þar inni. Ég hef hinsvegar haldið því fram að það hefði ekki farið svona illa fyrir okkur ef við hefðum verið komin þangað inn áður en kreppan skall á. Ég fer ekkert ofan af því og vísa þar sérstaklega til þess að við hefðum þá verið laus við krónuna sem hefur ein og sér aukið mjög á vandræði okkar.

Þar fyrir utan er það eina sem ég veit að það er algjört réttlætismál að við fáum að skoða málið í fúlustu alvöru. Umræðan verður að komast upp úr því fari að þeir sem stinga upp á að málið verði skoðað séu úthrópaðir lýðskrumarar og draumóramenn.

Varðandi atvinnuleysið innan ESB þá held ég þú farir rétt með að það sé nokkuð viðvarandi. Hvort það þyrfti endilega að gerast hér er ég þó ekki endilega viss um. Gleymum því ekki að inn í ESB hafa á síðustu árum komið ríki frá Austur-Evrópu þar sem atvinnuleysi hefur verið umtalsvert og með lögum um atvinnufrelsi á ESB svæðinu hefur vinnuafl frá þeim svæðum sótt til landanna sem sterkar stóðu fyrir. Kannski skekkir það þessa mynd nokkuð. Ég þekki þessi mál bara ekki nógu vel til að tjá mig um þau af neinni alvöru, en ég hygg að einangrun landsins muni vinna með okkur í þessu sambandi. 

Ég er auðvitað líka sammála þér í því að þetta er bákn

Góða helgi. 

Heimir Eyvindarson, 31.10.2008 kl. 17:48

8 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Ég get verið sammála þér með "skál!"-partinn...

:)

Ingvar Valgeirsson, 31.10.2008 kl. 18:02

9 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Ja, sko - datt niður á þetta.

Ingvar Valgeirsson, 5.11.2008 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband