Hvert stefnum við?

Framganga stjórnvalda eftir að kreppan knúði dyra er ekki beysin. Í raun grafalvarleg. Það er t.d. sorglegt að heyra lýsingar á því hvernig viðskiptasambönd sem menn hafa eytt ómældum tíma og peningum í að byggja upp, í fleiri ár, eru nú að engu orðin. Forsvarsmenn fyrirtækja sem voru að manni skilst í örum vexti, Össurar og Marels svo dæmi séu tekin, lýsa ástandinu svona. Það er þyngra en tárum taki. Þrátt fyrir að Geir Haarde haldi öðru fram er það alveg klárt að orðspor Íslands hefur beðið hnekki.

Icesave deilan ein og sér er t.d. ekkert annað en harmleikur. Ég ætla ekki að þykjast vita hvað snýr upp eða niður í efnahagsmálum, en ég hlýt þó að taka mark á Jóni Daníelssyni og fleiri mér gáfaðri mönnum sem segja að þann skrípaleik hefði átt að vera búið að stöðva. En það var því miður ekki gert og því þurfum við að horfast í augu við það að þennan skít þurfum við að hreinsa upp. Við getum ekki ætlast til þess að aðrir þjóðir geri það fyrir okkur. En eins og einhver sagði þá erum við oft eins og litla, freka barnið sem vill bara þiggja - ekki gefa. 

Án þess að ég ætli að úttala mig um tæknileg atriði, sem ég hef ekki hundsvit á, þá get ég ekki með nokkru móti séð hvernig við ætluðum að sleppa við að borga Englendingum og Hollendingum þær tryggingar sem Icesave deilan snerist að stærstum hluta um. EES samningurinn kveður á um að sparifé almennings á svæðinu sé tryggt, upp að ákveðnu marki, og úr því að við kusum að vera með bankarekstur á svæðinu hljótum við að þurfa að lúta þeim reglum sem þar gilda. Ég fæ bara ekki með nokkru móti séð hvernig annað getur gengið upp. Hvers vegna við kusum að hleypa öllu í bál og brand vegna einhvers sem er svo augljóst fæ ég ekki skilið. Hefði tíma ráðamanna, þessar sex eða sjö vikur sem deilan hefur staðið, ekki verið betur varið í eitthvað annað?

Það hefði t.d. verið hægt að eyða tímanum í að koma með einhver raunveruleg ráð til að bjarga því fólki sem á í greiðsluerfiðleikum. Það vantar skýrar línur um það hvað skuli gera. Ekki bara til að fleyta heimilunum í landinu í gegnum yfirvofandi erfiðleika vegna verðbólgu, verðbóta og vaxta. Það vantar einnig áætlun um það hvernig við ætlum að taka á þeim vanda sem að okkur steðjar. Ætlum við að fara í gömlu kreppuhjólförin sem mér sýnist stefna í, þ.e að segja upp skúringakonum og hækka álögur á almenning, eða ætlum við að hugsa málin upp á nýtt?

Ég kalla eftir nýrri hugmyndafræði. Ekki bara hjá ríkisstjórninni heldur líka hjá sveitastjórnum. Reynið nú að finna upp á einhverjum öðrum ráðum en að hækka skatta og skera niður þjónustu!

Við hin getum líka lagt okkar af mörkum. Leggjum nú höfuðin í bleyti og látum okkur detta einhver snjallræði í hug. Ef einhver Hvergerðingur lumar á góðri hugmynd bið ég hann að senda hana á bæjarstjórann. Aldís tekur vel á móti öllum og verður ábyggilega þakklát ef hún fær góða hugmynd inn á borð til sín. Þið hin getið sent á ykkar sveitarstjóra, nú eða einhvern úr þingliðinu. Við búum við gott aðgengi að ráðamönnum. Nýtum okkur það.

Svo er alltaf hægt að senda póstinn bara á Bjarna Harðar, hann er góður í að koma skilaboðum áleiðis Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Já ég hef einmitt miklar áhyggjur af því að framganga íslenskra stjórnvalda í Icesave-málinu muni hafa lengri og alvarlegri afleiðingar en slysið sjálft. Hefðu viðbrögð manna og aðgerðir miðað að því frá fyrsta degi að gera þolendum í því máli grein fyrir erfiðri stöðu á íslandi um leið og þeim hefði í AUÐMÝKT verið lofað að allt yrði gert til að bæta fyrir orðinn hlut, horfði málið allt öðruvísi við.

En hrokinn og heimskan er bara svo ráðandi hjá blástökkunum okkar. því miður!

Nú ferð þú í pólitíkina Heimir, það er bara þannig!

Soffía Valdimarsdóttir, 19.11.2008 kl. 21:28

2 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

búin að senda Bjarna póst

Ég öskra á nýja hugmyndafræði.............

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 19.11.2008 kl. 22:47

3 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

hmm - nýa hugmyndafræði tek undir það minn kæri .. ég trúi nú samt að til þess að dansa þann dans þurfi tvo og mér sýnist eins og dansherran eða frúin allt eftir því hvernig maður vill kyngreina álfana sem stjórna landinu, hafi ekki minnstan áhuga á stórkostlegum breytingum. Nú þegar er búið að fá afréttara fyrir lýðinn og á meðan er byrjað að tryggja áframhaldandi völd. Lítið hefur breyst t.d. í bankageiranum annað en að bankagreyin eru alveg búnir á því. Þar situr sama fólkið, sömu sauðirnir og við mærðum sem snillinga og útrásarhetjur. Spillingardýkið er svo agalega djúpt að öflugasta köfunarkúla dygði ekki til botnrannsókna. Stjórnvöld eru ekki getulaus, það liggur fyrir að þau ráða miklu kjósi þau að taka til. Það þjónar bara ekki tilgangi hjá þessu liði að hrista of mikið uppí málum því það myndi trufla svefn þeirra sem í raun og veru ráða öllu. Lýðræði á Íslandi - djókur.

Pálmi Gunnarsson, 20.11.2008 kl. 21:50

4 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Tómas: Takk

Soffía: Kemur þú ekki bara með mér?

Hulda: Ég er búinn að fá póstinn frá Bjarna, takk fyrir skjót viðbrögð!

Pálmi/Jóakim: Svo rétt, svo sorglega rétt 

Heimir Eyvindarson, 21.11.2008 kl. 08:36

5 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Neeei - ég er voða hrædd um að það yrði fljótlega lögreglumál úr því!

Reykfyllt bakherbergi er meira svona ég.

Soffía Valdimarsdóttir, 21.11.2008 kl. 11:01

6 Smámynd: Heimir Tómasson

Góður pistill nafni.

Heimir Tómasson, 23.11.2008 kl. 01:59

7 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Nafni: Takk

Björgvin: Líklegast er það rétt hjá þér að til þess að hér geti risið réttlátt þjóðfélag þarf að hreinsa ærlega til. Ég er t.d. ekki alveg eins æstur í kosningar og margir aðrir, ekki af því að ég vilji að ríkisstjórnin sitji áfram, heldur einfaldlega vegna þess að ég veit ekki hvern andsk. ég ætti þá að kjósa! Það þarf ansi stórar breytingar og sjálfsagt væri best að ríkisstjórnin færi frá og hér yrði skipuð einhverskonar starfsstjórn - fram að kosningum. Hvenær sem þær svo yrðu. 

Iceslave og 20 þús. evra tryggingin er svo atriði sem ég hef svosem sagt að ég skilji ekkert í, en ég er samt á því að úr því menn kusu að starfa á EES-svæðinu þá verði menn að lúta þeim reglum sem þar gilda. En eins og þú bendir á þá má hæglega túlka ástandið sem hér er uppi sem algert hrun, og þar af leiðandi óvenjulegar aðstæður. ESB var greinilega ekki tilbúið að fallast á þá söguskýringu, en hvort það má túlka það em kúgun veit maður ekki. Kannski? Það sýnir okkur þá kannski að það er okkur hollara að vera þar innan dyra en utan , nei ég segi svona.

En svo er spurning hvort framkoma okkar hafi ekki verið með þeim hætti að menn vildu einfaldlega ekki ræða það að veita okkur undanþágu? Hvað veit maður? Það er svo margt í þessu máli sem er á huldu ennþá, t.d. þær fréttir að Gordon Brown og fleiri hafa ráðlagt Haarde í mars eða apríl að leita til IMF, m.a. vegna Icesave. Ef það er raunin að íslensk stjórnvöld hafi vitað að stefndi í slíkt óefni sem nú er orðið, en ákveðið að gera ekkert í því, þá má vel skilja gremju hlutaðeigandi ráðamanna í okkar garð. En eins og ég segi - hvað veit maður???  

Heimir Eyvindarson, 23.11.2008 kl. 23:31

8 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Og varðandi USA þá held ég að það sé góður punktur hjá þér. Það þarf engnn að segja mér að svo hart hefði verið gengið fram gegn þeim. En svona er þetta, það er vont að vera lítill. Og enn verra er það ef maður heldur að maður sé risastór.

Heimir Eyvindarson, 23.11.2008 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband