Berlín - lið fyrir lið

Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um Berlín. Þar er vissulega margt að skoða og sagan drýpur svo að segja af hverju strái, en þar er líka ýmislegt sem er býsna óspennandi.  

Ferðin var í heildina mjög fín, við fengum frábært veður, vorum á frábæru hóteli og sáum fullt af skemmtilegum hlutum. Samt sem áður er ég ekki viss um að ég komi aftur til borgarinnar. Það var eitt og annað sem mér fannst ekki heillandi, t.d. fólkið, sem ég hafði fyrirfram ímyndað mér að væri kurteist og þægilegt. Það var þvert á móti upp til hópa fremur þungbúið og óhresst, en það sem kom mér kannski mest á óvart var hversu lélegir þjóðverjarnir eru í ensku. Og líka hvað þeim finnst furðulegt að fólk skuli ekki kunna þetta fremur óaðlaðandi mál þeirra. Ef maður hváði hækkuðu þeir bara róminn – þýzkan er ekki ómþýðari á háum styrk, síður en svo. Í kjánaskap mínum gleymdi ég að læra málið áður en ég fór í ferðina og það gerði það að verkum að ég var meira og minna í pati og bendingum allan tímann. 

En eins og ég segi þá var margt gott og margt ekki svo gott þannig að ég ákvað að kryfja upplifun mína á vísindalegan hátt. 

Berlín – lið fyrir lið: 

Flugvöllurinn: Schönefeld Airport - í austurhlutanum: Það var fínt að lenda þar, enda byggingin frekar lítil svo það gekk fljótt og vel að komast í gegn. Hinsvegar var allt annað mál að fljúga þaðan. Við flugum heim á mánudagskvöldi og byggingin var algjörlega troðfull. Það eru tveir matsölustaðir á svæðinu, annar var svo yfirfullur að manni datt ekki í hug að reyna að komast þar inn en hinn var Burger King, án sæta, þar sem maður borðaði á endanum kvöldmatinn – standandi upp á endann. Allt gekk frekar hægt fyrir sig og svo sem ekki neitt jákvætt um flugstöðina að segja.  Ég tók eftir því að reykingar voru hvergi leyfðar, og það var ekki annað á vörðunum að sjá en að þeir væru afar stoltir af því. Reykingabannið plagaði mig ekki neitt, enda hef ég aldrei náð tökum á reykingum, en ég get ekki annað en vorkennt fólki sem þarf að gjöra svo vel að vera reyklaust í þá 2-3 tíma sem flestir þurfa að eyða á svona flugstöðvum til viðbótar við flugið sjálft sem tekur nú í flestum tilvikum einhverja klukkutíma. 

Það er gaman að segja frá því, svona í framhjáhlaupi, að það voru helmingi fleiri starfsmenn að innrita fólk í flug til Mombasa en til Íslands, kannski enn ein staðfestingin á að við erum nú engin stórþjóð. 

Hótelið: Park Inn – á Alexanderplatz í austurhlutanum: Það var frábært í alla staði; herbergið snyrtilegt, rúmið þægilegt og útsýnið frábært (við vorum á 29.hæð og Sæmi á 34.!) og öll aðstaða á hótelinu til fyrirmyndar. Það eru 5-6 veitingastaðir, heilsulind, spilavíti og verslunarmiðstöð í hótelbyggingunni, nokkrir veitingastaðir í nokkurra metra fjarlægð og lestir, sporvagnar og strætisvagnar allt um kring.  

Maturinn: Að mestu vel yfir meðallagi. Við fengum dýrindis steik á Kula Karma í Hackescher Markt og ágæta pizzu á 12 Apostel, svo dæmi séu tekin. Reyndar fær þessi 12 Apostel staður frábæra dóma víðast hvar á hinu þýzka interneti – bestu pizzur í þýzkalandi o.s.frv......sé það rétt eiga þeir bágt. Ég hef fengið betri pizzur í Osló. 

Einn eftirminnilegasti staðurinn sem við fórum á heitir Sixties og er Amerískur restaurant, að útlitinu til eins og klipptur út úr American Graffitti, Grease og svoleiðis myndum, en innvolsið ekki alveg í lagi. Í fyrsta lagi var eingöngu 70´s og 80´s músik í græjunum, í það minnsta hljómaði ekki eitt einasta sixtís lag þennan tíma sem við dvöldum þarna. Í öðru lagi kunnu þjónarnir ekki ensku, sem stingur dálítið í stúf á amerískri matstofu og í þriðja lagi voru hamborgararnir úr kjötfarsi. Ég hefði reyndar getað sagt mér það sjálfur því ég gekk í svipaða gildru í Hamborg fyrir rúmu ári síðan. Svona er maður nú vitlaus. 

Búðirnar: Ég er nú svo mikil kerling að mér finnst gaman að versla, í útlöndum vel að merkja. Það helgast nú aðallega af því að í útlöndum getur maður oft keypt hluti sem ekki eru fáanlegir hér á landi, og eins er verðlagið yfirleitt mun hagstæðara en hér heima. Sérstaklega á fatnaði. Því var ekki til að dreifa í Berlín, allavega ekki í þeim búðum sem við skoðuðum. Maður get gert góð kaup á leikföngum og skóm en þar með var það nú eiginlega upptalið. Að vísu er sá fatnaður sem þessir upp til hópa smekklausu, súrkálsétandi svínakjötsfíklar framleiða og hanna fyrir sjálfa sig fremur ódýr, en um leið og fötin eru farin að líkjast flíkum fyrir venjulegt fólk og bera merki sem maður hefur séð bregða fyrir áður kosta herlegheitin svipað og í Kópavogi og Kringlunni.

En búðirnar eru flottar og úrvalið gott. KaDeWe er mjög flott, sérstaklega fiskborðið, og Galeria Kaufhaus sem er í sömu byggingu og hótelið er mjög flott moll líka. Á Ku Damm er líka fullt af flottum búðum sem gaman er að skoða, en það er ekki til mikils að gera viðskipti þar. Sjálfsagt er hægt að finna ódýrari búðir, en við gerðum það allavega ekki í þessari ferð. 

Sagan og menningin: Ég get nú lítið tjáð mig um menninguna að öðru leyti en því að þýskt sjónvarp er skelfilega leiðinlegt. Þó maður horfi fram hjá því að þeir talsetja allt efni þá var dagskráin hrútleiðinleg á öllum stöðvum, allan tímann.

Öðru máli gegnir um söguna. Við fórum í dæmigerða skoðunarferð í opnum vagni á sunnudeginum og það var ljómandi skemmtilegt. Margt merkilegt að sjá. Ég var alveg heillaður af safninu við Checkpoint Charlie, en þar má t.a.m. sjá ýmsa hluti sem fólk faldi sig í á leiðinni yfir landamærin milli austurs og vesturs og lesa um ótrúlegar flóttatilraunir. Sumar heppnuðust, aðrar ekki. 

Næturlífið: Ég er afskaplega lítið fyrir næturlíf í sjálfu sér, en okkur þótti tilhlýðilegt að kíkja á stemmninguna. Sem var svo að segja engin. Maður eftir mann stóð á því fastar en fótunum að á Friedrichsstrasse, eða the lively Friedrichsstrasse eins og þeir sumir kölluðu þessa ágætu götu, væri svo sannarlega líf í tuskunum. Það var nú öðru nær, það margreyndum við.

Skemmtilegasta hverfið sem við skoðuðum var Hackescher markt, sem er reyndar í grennd við Friedrichsstrasse. Þar eru fínir veitingastaðir og ágætis stemmning. Eins var gaman að koma á Potsdamer platz, en þess má geta að þar er hægt að sjá amerískar bíómyndir sem þjóðverjinn hefur ekki komist í að talsetja - í Sony center sem er mögnuð bygging. Eflaust er ágætis næturlíf einhversstaðar í borginni, en við hittum ekki á það í þetta sinn a.m.k. 

Þá er þessari vísindalegu yfirferð lokið og enn er ég litlu nær um hvernig mér líkar við Berlín. Líklega þarf ég að heimsækja borgina aftur, betur undirbúinn, og sjá hvort hún heillar mig ekki upp úr skónum. Það vantaði herslumuninn í þetta sinn.

Auf wiedersehen  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband