Amsterdam - Ferðasaga

Jæja þá er maður kominn heim frá Amsterdam. Prógrammið var nokkuð stíft, skólaheimsóknir, Rolling Stones tónleikar, karaoke, út að borða, út að labba, út að sigla o.s.frv. 

Þetta var í fyrsta skipti sem ég kem til Amsterdam, en vonandi ekki það síðasta. Ég var í smástund að átta mig á því hvort ég fílaði staðinn, hugsanlega vegna þess að við fórum í rauða hverfið strax fyrsta kvöldið og þar fær maður aðeins upp í kok, svo ekki sé meira sagt. Síðan leið það nú hjá og maður naut veðurblíðunnar á fallegum torgum borgarinnar í góðum félagsskap. Það er ekki hægt að kvarta yfir slíku.

Annars var mjög áhugavert að sjá rauða hverfið. Þar var t.d. allt fullt af japönskum túristum sem hefur eflaust liðið frekar illa því þarna er mælst til þess að menn séu ekki með myndavélar á lofti í tíma og ótímaSmile. Þarna stóðu stúlkurnar, eins misjafnar og þær voru margar, í röðum á bak við opnanleg fög og buðu þjónustu sína, sumar höfðu greinilega nóg að gera en aðrar hafa eflaust þurft að gefa sveran afslátt. Fjölbreytileiki mannlífsins í hverfinu endurspeglaðist kannski helst í því að inná milli sýningarglugganna mátti sjá venjulegt fólk. Það var t.d. frekar súrrealískt að sjá matarboð hjá miðaldra fólki mitt á milli tveggja útstillingarglugga! Það gerist varla annars staðarTounge.

Hótelið sem við gistum á var nú ekki til að hrópa húrra fyrir, en það háttaði þannig til þegar við ákváðum að fara þessa ferð að þetta var eina hótelið í Amsterdam sem gat tekið á móti 50 manna hóp þannig að við skelltum okkur á það frekar en að vera í einhverju úthverfi, eða þá tvist og bast um borgina. Hótelið heitir Tulip Inn og er við Nassaukade, svona fyrir ykkur hin að varastWink.

Staðsetningin var samt frábær, hótelið er rétt við Leidseplein, sem er fallegt torg með óteljandi skemmti- og veitingastöðum allt í kring. Þar eru tvö frábær steikhús sem við prófuðum: Gauchos og Rancho og fullt af öðrum flottum ressum, indverskum, ítölskum, grískum, portúgölskum svo fátt eitt sé nefnt. Eitthvað fyrir alla semsagt.

Borgin, a.m.k. það sem ég sá af henni, er falleg og veðrið þessa daga sem við vorum þar var alveg frábært, ef frá er talið þrumuveður sem gekk yfir landið á föstudagskvöldinu og grandaði m.a. 2 manneskjum. Auðvitað þurfti það að hittast þannig á að akkurat þetta kvöld höfðum við ákveðið að skella okkur á tónleika með Rolling Stones Wink. Tónleikarnir voru haldnir í Goffertpark í Nijmegen, sem er rúmum 100 kílómetrum frá Amsterdam, og þangað fórum við saman í rútu, rúmlega 20 manna hópur.

Ferðin tók rúma 4 tíma vegna umferðaröngþveitis sem Hollendingar buðu okkur uppá, annarsvegar vegna þess að alvarlegt slys hafði orðið á hraðbrautinni og hinsvegar einfaldlega vegna þess að það var föstudags-eftirmiðdegi. Þegar rútan loks kom á staðinn byrjaði þetta þvílíka þrumuveður með tilheyrandi eldglæringum og úrhelli sem minnti á vel heppnaða helför sem ég fór í London fyrir nokkrum árum. Maður varð gegndrepa á 0,1 enda bara í stuttbuxum eins og kjáni og röðin við regnfatasöluna á staðnum var þvílík að manni fannst varla taka því að eyða tónleikunum í slíkt vesen. Ég hef aldrei á ævinni séð þvílíkar eldglæringar, svo mikið er víst.

En tónleikarnir voru frábær upplifun. Ég er í sjálfu sér ekki forfallinn stones aðdáandi, finnst Bítlarnir betri ef út í það er farið - en sá samanburður á einhvern veginn engan rétt á sér, en mér finnst þeir góðir og Mick Jagger er klárlega einn af mínum uppáhaldssöngvurum. Og að sjá þann mann á sviði er alveg magnað, hann er örugglega flottasti performer sem uppi hefur verið - svei mér þá!

Bandið byrjaði reyndar hrikalega illa, Start me up var svosem í góðu lagi en svo komu nokkur lög í röð í nýrri kantinum og þar voru Keith og Ron alveg út á túni. Um miðbik tónleikanna lamdi Mick Ron duglega og þá lagaðist bandið stórlega. Keith var samt sem áður aldrei með á nótunum, ekki einu sinni í Brown Sugar! Engum dirfist þó að lemja hann, enda lagast hann örugglega ekkert við þaðWink. En hann er algjör töffari, það má hann eiga, og hann er gríðarlega virtur af aðdáendum bandsins því hann fékk engu síðri móttökur en Jaggerinn.

Þrátt fyrir úrhellið og umferðaröngþveitið var kvöldið frábært, og verður lengi í minnum haft. Rétt eins og ferðin öll.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir síðast. Frábær feð svo ekki sé nú meira sagt.

Guðbjörg (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 16:07

2 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Sömuleiðis

Heimir Eyvindarson, 13.6.2007 kl. 17:53

3 identicon

Fín ferðasagan hjá þér. Það mátti nú alveg þola þetta hótel, þrátt fyrir einhverja galla:-)  En borgin var æði svo mikið er víst. Var að spá í hvort maður ætti ekki bara að hamra inn í tölvupóst á liðið síðasta skemmtiatriði ,,Rauða hverfisins" hvað finnst þér?

Inga Lóa (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 19:40

4 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Já já, þetta var allt í lagi hótel svosem. Við Ari vorum allavega í ágætu herbergi, en það voru nokkrir dálítið óheppnari en við. En ferðin var snilld - húrra fyrir nefndinni enn og aftur .

Alveg sársaukalaust af minni hálfu að setja skemmtiatriðið í póstform 

Heimir Eyvindarson, 13.6.2007 kl. 19:45

5 identicon

Velkominn heim kallinn, fín ferðasaga og já þetta er merkileg borg og undarleg stemming á köflum, enn fullt af góðum ressum og úrvals bjór svo mikð er víst.

Sæmi (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 21:54

6 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Já ég gleymdi alveg að minnast á blessaðan bjórinn. Hann er alveg til fyrirmyndar þarna

Heimir Eyvindarson, 13.6.2007 kl. 22:13

7 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Velkominn heim

En eruð þið búin að finna hús í 810 ???????

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 14.6.2007 kl. 10:34

8 Smámynd: Hjalti Árnason

.....sverann afslátt...hahaha

Hjalti Árnason, 14.6.2007 kl. 19:16

9 identicon

Takk fyrir síðast og frábæra ferð. Mikið var nú bjórinn góður. Þetta verður sko ekki í síðasta skipti sem maður heimsækir Amsterdam, spurning hvort maður nái nokkurn tíma aftur svo skrautlegum hóp af ferðafélögum

The queen of Tálknafjörður (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 19:34

10 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Mér finnst æðislegt að Mick hafi lamið "þennan nýja í bandinu". Mig hefur oft langað til að berja manninn duglega, t.d. í hvert einasta skipti sem ég heyri gítarleik hans.

Ingvar Valgeirsson, 16.6.2007 kl. 19:16

11 Smámynd: Guðrún Olga Clausen

Takk fyrir síðast eða öllu heldur næstsíðast. Djöfull hlýtur þú að vera vanur góðum hótelum. Ég hef verið á mörgum verri en þetta. Að vísu lítil herbergi, brattir stigar og þröngir gangar en þannig er bara A´dam.En ferðin var skemmtileg og ekki skemmdu Jagger og co. Verst að kallar hurfu ????Hí...

Guðrún Olga Clausen, 20.6.2007 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband