Færsluflokkur: Tónlist

Ég er gallagripur

Ég á hinsvegar til að gleyma því í hinu daglega amstri að ég hafi einhverja galla, verð næstum því heilagur á köflum. En hrekk svo við og átta mig, oftast nær.     

Ég varð fyrir þessu í dag þegar ég las nafnlaust grín í Blaðinu um Jakob Frímann Magnússon tónlistarmann, sem skipar fyrsta sæti framboðslista Íslandshreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Nú hef ég enga sérstaka skoðun á Jakobi sem stjórnmálamanni, en greinin hreyfði engu að síður við heilagleika mínum.    

Grínið var eitthvað á þá leið að Jakob hefði nú brasað margt í gegnum tíðina, bæði í tónlist og stjórnmálum, en flestir væru sammála um að aldrei fyrr hefði hann náð fyrsta sæti. Þegar ég las þetta firrtist ég við og fannst fremur ósmekklegt að afgreiða manninn á þennan hátt, jafnvel þó hann liti út fyrir að vera framapotari. En svo hrökk ég við og hugsaði með mér að ég væri nú meiri hræsnarinn, en hræsni er klárlega galli. Ég hefði sjálfur oft gert grín að náunganum með einum eða öðrum hætti. Það flokkast einnig undir galla. Bingó! Tveir gallar, beint í andlitið, á meðan ég las eina örstutta grein í blaði. Geri aðrir betur.   

En burtséð frá öllu gallahjali þá held ég að óhætt sé að fullyrða að Jakob Frímann, hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á honum, hefur náð prýðisgóðum árangri á ýmsum sviðum. Fyrir hartnær 40 árum stofnaði hann, ásamt fleirum, einhverja ástsælustu hljómsveit Íslandssögunnar, Stuðmenn, en þeir hafa sannarlega oft náð „fyrsta sæti”, eiga aðsóknarmet í hinum ýmsu samkomuhúsum og fjöldamörg lög sem hafa náð hylli þjóðarinnar. Mörg þeirra hefur Jakob samið, einn eða í félagi við aðra. Hann framleiddi einnig kvikmyndina Með allt á hreinu, sem er ein allra vinsælasta kvikmynd sem gerð hefur verið hér á landi, svo fátt eitt sé nefnt.   

Mér er til efs að ferilskrá blaðamannsins sem skrifar um Jakob í dag sé jafn glæsileg. Þó veit maður aldrei...........  

 


Kristján Hressi

Kristján Hreinsson er óhress í dag, eins og svo oft áður. Nú er skáldið súrt út í Svein Sigurðsson höfund framlags okkar til Eurovision keppninnar í ár.

Málið er að Kristján gerði íslenska textann við lagið og var tilbúinn með enskan texta líka, sem Sveinn þessi var búinn að samþykkja að nota ef þeir kæmust í keppnina góðu. Á úrslitakvöldinu söng Eiríkur einmitt brot úr þessum texta Kristjáns, en ég hélt reyndar að Eiríkur væri bara að skálda eitthvað á staðnum því það var nú ekki mikið kjöt á beinunum. 

Hver sem ástæðan svosem er ákvað Sveinn að kalla til enskan textahöfund, Peter Fenner að nafni, líklega frændi Fríðu Fenner sem hefur algjörlega sneitt hjá kjöti og fiski um talsverða hríð en það er önnur saga.

Það er í sjálfu sér skynsamlegt því oft verða tilraunir Íslendinga til textagerðar á ensku hjákátlegar og jafnvel þó mér finnist ekki mikið til íslenskra texta Kristjáns koma er ekki annað hægt að segja en að hann hafi gott vald á málinu, hann bara hittir aldrei á neitt skemmtilegt.

Samkvæmt sýnishorninu sem Eiríkur söng úr enska texta Kristjáns á úrslitakvöldinu er Kristján álíka óhittinn á ensku og þegar við bætist kauðaleg málnotkun er ekki von á góðu. En ég hef þó fulla samúð með Kristjáni ef rétt reynist að Sveinn hafi gengið bak orða sinna. Það er aldrei stórmannlegt. Ég væri líka súr ef mér hefði verið hafnað og texti sem inniheldur hendingar eins og  ........rock and roll can heal your soul when broken hearts loose all control......... og..........a passion killed by acid rain a roller coaster in my brain....tekinn fram yfir minn. Þá er maður lítils metinn.

Evróvision

Ég hef verið latur við að blogga undanfarna daga, kenni um tímaleysi. Nú á ég lausa stund og því finnst mér ég mega til að skrifa eitthvað. En þá er spurningin hvað skuli skrifa....Ætti ég að hrauna eitthvað yfir söngvakeppni sjónvarpsins sem er í kvöld? Ég gæti t.d. vakið aftur máls á því hvað mér finnst yfirmáta bjánalegt af Rúv að kalla þetta EVRÓvision! Heitir þetta þá fullu nafni Evróvision söngvacontest?

En nei, ég nenni ekki að tuða yfir því, ég ætla bara að finna kallinn sem fann uppá þessari vitleysu og hía rækilega á hann. Kannski kalla ég hann bara bjána, sem er gott íslenskt orð - og afar lýsandi. Þá kallar hann mig ábyggilega hrekkjupig.

Ég gæti líka farið að tuða eitthvað yfir lögunum og textunum í söngvakeppninni, en þau dæma sig að mestu leyti sjálf og þá er lítið annað eftir en að níðast á framsóknarflokknum eða Birni Bjarnasyni. Það er reyndar alltaf gaman, enda tilefnin næg, en ég bara nenni því ekki í dag. Ég finn örugglega upp á einhverju á morgun.

Reyndar dettur mér í hug að ég gæti sagt ykkur frá því að ég og Auður ætlum að skreppa til Köben um næstu helgi. Það er alltaf gaman, soldið eins og að koma heim finnst mér, þó ég hafi aldrei átt heima þar. Sævar og Bryndís verða líka í Köben og við ætlum að borða saman á Italiano. Snilldarstaður.

Svo ætlum við Auður, og Sæmi líka, að fara til Berlínar í apríl, en þangað hef ég ekki komið síðan snemma á níunda áratugnum þegar ég dvaldi í nágrenni borgarinnar í sumarbúðum ráðstjórnarríkjanna. Það er gaman að segja frá því að hótelið sem við verðum á er einmitt á Alexanderplatz, sem er í hjarta austurhlutans, en þar fengum við ungmennin einmitt að skoða okkur um - og kaupa Pepsi og Snickers í nærliggjandi Inter-shop. Gegn framvísun skilríkja.
mbl.is Úrslitin ráðast í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband