Kristján Hressi

Kristján Hreinsson er óhress í dag, eins og svo oft áður. Nú er skáldið súrt út í Svein Sigurðsson höfund framlags okkar til Eurovision keppninnar í ár.

Málið er að Kristján gerði íslenska textann við lagið og var tilbúinn með enskan texta líka, sem Sveinn þessi var búinn að samþykkja að nota ef þeir kæmust í keppnina góðu. Á úrslitakvöldinu söng Eiríkur einmitt brot úr þessum texta Kristjáns, en ég hélt reyndar að Eiríkur væri bara að skálda eitthvað á staðnum því það var nú ekki mikið kjöt á beinunum. 

Hver sem ástæðan svosem er ákvað Sveinn að kalla til enskan textahöfund, Peter Fenner að nafni, líklega frændi Fríðu Fenner sem hefur algjörlega sneitt hjá kjöti og fiski um talsverða hríð en það er önnur saga.

Það er í sjálfu sér skynsamlegt því oft verða tilraunir Íslendinga til textagerðar á ensku hjákátlegar og jafnvel þó mér finnist ekki mikið til íslenskra texta Kristjáns koma er ekki annað hægt að segja en að hann hafi gott vald á málinu, hann bara hittir aldrei á neitt skemmtilegt.

Samkvæmt sýnishorninu sem Eiríkur söng úr enska texta Kristjáns á úrslitakvöldinu er Kristján álíka óhittinn á ensku og þegar við bætist kauðaleg málnotkun er ekki von á góðu. En ég hef þó fulla samúð með Kristjáni ef rétt reynist að Sveinn hafi gengið bak orða sinna. Það er aldrei stórmannlegt. Ég væri líka súr ef mér hefði verið hafnað og texti sem inniheldur hendingar eins og  ........rock and roll can heal your soul when broken hearts loose all control......... og..........a passion killed by acid rain a roller coaster in my brain....tekinn fram yfir minn. Þá er maður lítils metinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband