Færsluflokkur: Íþróttir

Ólympíuleikarnir á Rúv.

Ég hef  í gegnum tíðina haft gaman af því að fylgjast með ólympíuleikum í sjónvarpinu. Er alinn upp við það má segja, er t.d. minnisstætt þegar mamma kveikti í húsinu meðan hún horfði á listdans á skautum, snemma á 9. áratugnum.

Önnur æskuminning tengd ólympíuleikunum er bangsaruslið sem sovéski sendiherrann færði mér, barni kommúnistans, í aðdraganda leikanna í Moskvu 1980. Ég man líka hve dolfallin við vorum þegar við horfðum á glæsilega setningarathöfnina í Moskvu, í litla Sanyo litasjónvarpinu sem systir mín hafði þá nýverið fjárfest í, í óþökk foreldranna. Meira að segja pabbi gaf sér tíma til að líta upp úr Tolstoj og kveða upp úr með það að svona sýningu gætu vesturveldin, sem sniðgengu leikana þetta árið, aldrei sett á svið. Svo kveikti hann aftur í pípunni og fór að fletta Þjóðviljanum. 

Leikarnir í Barcelona 1992 eru þó þeir ólympíuleikar sem ég man hvað best eftir, enda bar svo til um þær mundir að ég var fótbrotinn og hafði því lítið betra við tímann að gera en að glápa á dýfingar, skotfimi og annað skemmtiefni sem Rúv hafði upp á að bjóða. Mér líkaði lífið, þrátt fyrir fótbrotið, býsna vel á meðan á leikunum stóð því útsending Rúv var til mikillar fyrirmyndar. Samúel Örn og Ingólfur Hannesson lýstu frjálsum íþróttum af mikilli þekkingu, Jónas Tryggvason var ekki síðri í lýsingum á fimleikum, dýfingum o.fl. og svo var handboltalandsliðið í banastuði. 

Núna, 16 árum seinna, er handboltalandsliðið enn í stuði og Samúel Örn stendur sig vel í að lýsa frjálsum íþróttum, en annað er einhvernveginn bara heldur ómerkilegra en ´92 ef eitthvað er. Mér finnst þulir Rúv upp til hópa óspennandi og viðtölin sem þeir taka undarlega kjánaleg mörg hver. Svo finnst mér einhvernveginn útlitið allt og umgjörðin klén, svo ekki sé meira sagt. Svona næstum því eins og á Omega, Polsat og slíkum stöðvum.

Ég skipti af rælni yfir á norska ríkissjónvarpið í gær, sem býður nú almennt upp á eina þá alleiðinlegustu sjónvarpsdagskrá sem fyrirfinnst í vestrænum löndum trúi ég, og ég stóð mig að því að horfa dolfallinn á frábæra umfjöllun þeirra um allskonar íþróttagreinar í hartnær 3 klukkutíma. Og skemmti mér konunglega - rétt eins og ´92! Þátturinn var stórskemmtilegur og vel unninn, og þulirnir hver öðrum betri. 

Þegar ég loks áttaði mig á því að það var komin niðdimm nótt, og ég hafði gleymt mér yfir norsku sjónvarpsprógrammi, ákvað ég að gamni að tékka á hinum stöðvunum í mínu sjónvarpstæki sem sýna frá ÓL; sænska sjónvarpinu, danska sjónvarpinu og Eurosport, og það er skemmst frá því að segja að allar þessar stöðvar hafa, líkt og kollegar þeirra í Noregi, áttað sig á því að það er ekki ennþá 1992.

Þegar norðmenn fatta svoleiðis hluti á undan okkur, þá er eitthvað að.    


Handboltinn á niðurleið?

Mér finnst svolítið undarlegt hvernig viðræður HSÍ við þjálfara hafa gengið. Fyrst var rætt við Magnus Anderson, sem gaf afsvar. Ég veit svosem ekkert um þær viðræður, en þvínæst var leitað til þriggja íslenskra þjálfara, Dags Sigurðssonar, Geirs Sveinssonar og Arons Kristjánssonar - í þessari röð.

Ef eitthvað er að marka fréttaflutning fjölmiðla skil ég varla hvernig þeim íslensku datt yfirhöfuð í hug að standa í viðræðum við HSÍ, því af honum má ráða að enginn þeirra hafi haft tíma fyrir starfið. Dagur og Aron gátu ekki tekið starfið að sér vegna skuldbindinga við sín félagslið og Geir var ekki tilbúinn til að fórna dýrmætum tíma með fjölskyldunni fyrir landsliðið. Eflaust eru ástæður þremenninganna þó flóknari en fréttaflutningur gefur til kynna, vonandi a.m.k. Annars hafa þeir hreinlega verið að sóa tíma HSÍ.

Og talandi um HSÍ þá má kannski velta því fyrir sér hvort nægilega vel sé á málum haldið þar á bæ. Ekki það að ég sé einhver sérfræðingur í þeim efnum, síður en svo, en mér finnst eins og það ríki dálítið metnaðarleysi í handboltanum hér á landi. Almennt séð. Hvernig hefur HSÍ t.d. brugðist við þeirri samkeppni sem handboltinn á í við körfuboltann? Oft hefur maður heyrt þjálfara og fleiri lykilmenn í handboltahreyfingunni tala um að það sé afar slæmt hve margir stórir strákar kjósi fremur að æfa körfubolta en handbolta, og sumir hafa m.a.s. gengið svo langt að kenna því um slakt gengi landsliðsins á síðasta stórmóti, þ.e. að við séum svo miklu lágvaxnari heldur en hin liðin. Það er vissulega áhyggjuefni að hávaxnir og sterkir strákar sæki frekar í körfu en handbolta, en það þýðir ekkert að kvarta og kveina yfir því. Væri ekki nær að gera eitthvað í málunum?

Eins og ég benti á áðan er langur vegur frá að ég sé sérfróður um þessi mál, en mér fróðari menn hafa sagt mér að körfuknattleikssambandið sé t.d. mun duglegra í samstarfi við grunnskólana en HSÍ. Sem dæmi má nefna að KKÍ hefur komið svokölluðum minni-bolta inn í íþróttakennslu í grunnskólunum, en þar er notast við lægri körfur og reglurnar eru rýmri. Ég veit ekki til þess að HSÍ hafi gert neitt til þess að gera handboltann meira spennandi fyrir unga krakka, en það kann vel að vera að ég fari með fleipur.

Körfuboltinn er um margt sniðug íþrótt, og hefur óneitanlega margt að bjóða sem erfitt er að keppa við. T.d. geta menn auðveldlega æft sig einir og eins er lítið mál að leika körfubolta utanhúss. Það er því ljóst að það er ekki einfalt mál fyrir handboltann að keppa við körfuna, en það hlýtur að vera hægt að reyna.

Handboltinn er jú einu sinni nokkurs konar þjóðaríþrótt okkar, og klárlega sú boltaíþrótt sem við stöndum fremst í á alþjóðlegum vettvangi. Vissulega er handboltinn ekki eins stór og vinsæl íþróttagrein á alþjóðamælikvarða og körfubolti, að ekki sé minnst á fótboltann, en það breytir því ekki að þetta er viðurkennd íþróttagrein, spiluð um allan heim og keppnisgrein á ólympíuleikum. Margir íslendingar hafa einnig haft af því atvinnu að spila handbolta, meðan einungis örfáir körfuboltamenn hafa gerst atvinnumenn erlendis - svo fátt eitt sé nefnt.  

Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti körfubolta, það má ekki túlka orð mín á þann veg, en það er mín skoðun að við ættum að hlúa betur að handboltanum. Hvað sem öllum samanburði líður. Mér finnst óumræðilega skemmtilegt að fylgjast með landsliðinu okkar (þegar vel gengurWink ), og ég veit að stór hluti þjóðarinnar er mér sammála. Sú stemmning sem oft hefur myndast í kringum strákana okkar" er óviðjafnanleg og hefur oftar en ekki stytt þjóðinni stundir í svartasta skammdeginu. Vinsældir handboltans fara aukinheldur vaxandi um allan heim, og því er kannski ennþá súrara að horfa upp á greinina koðna niður hér á landi. Vonandi tekst að snúa þeirri óheillaþróun við, og lykilatriði í þeim efnum er að við eigum áfram öflugt A-landslið karla. Það er líklega ekkert sem eflir áhuga ungra krakka meira en að landsliðið nái góðum árangri á stórmótum. Þessvegna er ábyrgð HSÍ þegar kemur að ráðningu landsliðsþjálfara mjög mikil, og mikilvægt að menn fari ekki á taugum þó nokkrir hafi afþakkað djobbið.   


Gamalt tuð

Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaðurinn geðþekki á Stöð 2 og Sýn, tók fyrir nokkrum árum upp þann ósið að segja mikið mun í tíma og ótíma. Þeir voru mikið mun betri í síðari hálfleik... o.s.frv. Þetta fór óskaplega í taugarnar á mér, og mörgum fleiri raunar, á sínum tíma, en af því að Gaupi er að öðru leyti úrvalsmaður og mikill púllari leiddi ég þetta hjá mér Smile.

Síðan ég hætti með Stöð 2 og Sýn hef ég blessunarlega ekki heyrt þessa þvælu lengi, en nú ber svo við að ég er farinn að sjá þessari endemis vitleysu bregða fyrir á prenti! Henry Birgir Gunnarsson íþróttafréttamaður á Fréttablaðinu bregður þessu nú óspart fyrir sig, og gengur meira að segja svo langt í blaðinu í dag að leggja Alfreð Gíslasyni óskapnaðinn í munn í viðtali!

Ég á einhvernveginn bágt með að trúa að Alfreð hafi svo litla tilfinningu fyrir íslensku máli að honum finnist þörf á að láta mikið og mun standa saman í setningum, jafnvel þó hann hafi búið lengi erlendis. Þó veit maður aldrei, kannski er ég bara svo blindaður af aðdáun á manninum að ég trúi engu misjöfnu upp á hann. Allavega þykir mér þetta afskaplega hvimleiður ávani, hver svo sem á í hlut.  


Óli Jó.

Það fór eins og flesta grunaði að Eyjólfi var sagt upp og sá þjálfari sem náð hefur besta árangrinum hér heima hin síðari ár var ráðinn. Alveg án tillits til hvaða mannskap hann hafði undir höndum o.s.frv. Allt frekar fyrirsjáanlegt. Jafnvel hallærislegt.

Mér leist ekkert á þessa ráðningu til að byrja með, en eftir að ég frétti að hann hefði ráðið Pétur Pétursson sem aðstoðarmann hýrnaði heldur yfir mér. Mér líst frábærlega á það. Þar er á ferð hörkunagli sem lætur menn ekki komast upp með neitt múður, og á ágætan þjálfaraferil að baki. Stuttan en glæstan.  

Áfram Ísland!


Henry Birgir í ham

Mér hefur oft blöskrað hvað íþróttafréttamenn geta verið dómharðir og meiðandi. Í dag ryðst einn mesti besserwizzerinn í þeirra hópi, Henry Birgir Gunnarsson á Fréttablaðinu, fram á ritvöllinn og fer miður fögrum orðum um Eyjólf Sverrisson landsliðsþjálfara.

Ég get alveg verið sammála Henry um það að ástandið á landsliðinu er ekki björgulegt þessa dagana, og árangur Eyjólfs er hreint ekki glæsilegur. Það vita allir, en mér finnst óþarfi að vera með skítkast á borð við það að engar faglegar ástæður hafi verið til þess að ráða Eyjólf á sínum tíma og það hafi í raun verið algjörlega út í hött! Jafn ómaklegt finnst mér að gera því skóna að leikmenn beri enga virðingu fyrir honum. Hvað veit Henry Birgir um það?

Hvaða faglegu forsendur bjuggu að baki ráðningu Eyjólfs veit ég ekki, enda enginn sérfræðingur í þjálfunarfræðum, en ég geri ráð fyrir að menn hjá KSÍ hafi verið ánægðir með góðan árangur hans með ungmennalandsliðin, auk þess sem menn þar á bæ þekktu mætavel ótvíræða leiðtogahæfileika hans,enda hafði hann verið dáður fyrirliði íslenska landsliðsins og Herthu Berlin um árabil. Ég geri ráð fyrir að KSÍ forystan hafi hugsað með sér að rétt væri að stokka spilin upp á nýtt, eftir heldur dapurt gengi undangenginna landliðsþjálfara, og veðjað á að Eyjólfur bæri með sér ferska vinda. Svo mikið er víst að Eyjólfi er ekki fisjað saman, glæstur atvinnumannsferill er til vitnis um það, og því trauðla út í hött að veðja á slíkan mann. Eða hvað?

Sannleikurinn er sá að allt frá því að Guðjón Þórðarson hætti hefur enginn friður verið í kringum landsliðið okkar. Um leið og eitthvað bjátar á rísa besserwizzerarnir upp á afturlappirnar og byrja að gjamma hver upp í annan, og heimta afsögn! Þetta er farið að minna óþægilega á andrúmsloftið í Englandi, þar sem það virðist alveg borin von að landsliðsþjálfarar fái nokkurn einasta vinnufrið. Ætli englendingar væru ekki betur settir ef þeir hefðu leyft Sven Göran að halda áfram með liðið í stað þess að ráða Steve Mc Claren, sem var fyrst og fremst ráðinn í djobbið vegna gríðarlegrar pressu í enskum fjölmiðlum. Og helstu rökin fyrir ráðningu hans, og að sumu leyti afsögn Sven Görans líka, voru að það væri ómögulegt að hafa útlending sem landsliðsþjálfara! Það yrði að vera englendingur í brúnni! Bíddu....af því að englendingar eru svo frábærir þjálfarar???

Ég ætla rétt að vona að við verðum aldrei svona vitlaus, en mikið óskaplega finnst mér við stundum vera nálægt því. Það getur vel verið að það sé skynsamlegt að skipta um landsliðsþjálfara núna, en það er algjör óþarfi að ata menn auri með viðlíka hætti og Henry Birgir gerir. Ef menn eru að kalla eftir faglegum vinnubrögðum ættu þeir að fara undan með góðu fordæmi og stofna til faglegrar umræðu.

Mér finnst ekkert galið að gefa Eyjólfi tækifæri í 6-12 mánuði til viðbótar. Verði það hinsvegar ekki niðurstaðan finnst mér skynsamlegast að ráða erlendan þjálfara, og gera við hann langan óuppsegjanlegan samning. Mér dettur Morten Olsen í hug - mér sýnist að hann verði á lausu bráðumWink. Auðmenn Íslands ættu nú að sjá sóma sinn í því að færa þjóðinni slíkan mann að gjöf.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband