Raggi Bjarna ekki með belti!

Eitt leiðinlegasta útvarpsefni sem ég veit er útvarp umferðarráð, eða umferðarstofa eða hvað þetta heitir. Þetta ágæta fólk sem vinnur við að predika hvernig við eigum að keyra á það af einhverjum ástæðum allt sammerkt að tala til okkar hinna eins og við séum heilalausir bjánar. Ef þetta fólk kæmi fram af heiðarleika, en ekki heilagleika, held ég að yrði tekið mun meira mark á því.

Ég vil taka það strax fram að ég er fylgjandi öflugu fræðslu- og forvarnarstarfi í þessum málum, sem og öðrum, en ég leyfi mér að gera athugasemdir við framsetningu Umferðarstofu. Það er t.d. ekki ofsaakstur þegar reyndir ökumenn á nýjum, vel búnum bílum keyra á 110 km. hraða á við góð skilyrði á þjóðvegi nr.1. Það er heldur ekki ofsaakstur og vítaverður glannaskapur að taka fram úr þegar keyrt er niður Lögbergsbrekkuna, eins og Sigurður Helgason hjá Umferðarstofu hefur haldið fram. Það er vissulega óbrotin lína þar, sem er bannað að keyra yfir, en rökin fyrir þeirri línu eru engin.

Óbrotnar línur eru, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, fyrst og fremst settar þar sem akstursskilyrði eru þannig að ekki sést hvað framundan er, t.d. á blindhæðum eða í kröppum beygjum, en sé keyrt niður Lögbergsbrekkuna sést vegurinn framundan svo langt sem augað eygir svo það er dálítið stórt upp í sig tekið að halda því fram að það sé vítavert að taka fram úr þar. Samt sem áður hefur Sigurður lagt undir sig heilu fjölmiðlana til að básúna þennan glannaskap.

Ég er allavega þeirrar skoðunar að það eigi að tala við ökumenn eins og þeir séu vitibornar manneskjur. Það er munur á því að keyra aðeins hraðar en lögin segja til um við bestu aðstæður á nýjum bíl og t.d. því að þeysa um íbúðahverfi á margföldum leyfilegum hámarkshraða. Það er glannaskapur. En af því að Umferðarstofa kýs að tuða yfir öllum litlu atriðunum sem aflaga kunna að fara í umferðinni, allt frá stefnuljósanotkun til stöðumælabrota, verður málflutningur þeirra smám saman eins og hvert annað suð sem enginn nennir að veita athygli, sem er sorglegt því umferðarfræðsla er vissulega nauðsynleg og málstaðurinn svo sannarlega góður.

Það kæmi mér t.d. ekki á óvart þó Umferðarstofa gerði athugasemd við það að í nýrri Olís auglýsingu stígur Raggi Bjarna upp í bíl og brunar af stað án þess að spenna á sig beltið!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband