Samfylkingin á sínum venjulegu villigötum

Ég held að tímasetning skipti stóru máli í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur. Þessvegna finnst mér það til marks um seinheppni Samfylkingarinnar að hafa sett Evrópumálin á oddinn fyrir síðustu kosningar, þegar enginn nennti að pæla í svoleiðis hlutum, en sett ESB aðild í salt fyrir þessar kosningar þegar greinilegt er að meirihluti þjóðarinnar virðist þeirrar skoðunar að fyrr eða síðar munum við ganga Evrópusambandinu á hönd. Hvað sem tautar eða raular. Því þá ekki að gera það strax?

Ekki nóg með að fólk sé tilbúið til að hugsa slíka hugsun til enda um þessar mundir heldur held ég líka að alveg burtséð frá því hvort það er skynsamlegt eða ekki að ganga í ESB á þessum tímapunkti sé fremur auðvelt að telja fólki trú um að hagsmunum okkar sé betur borgið í ESB en utan þess. Til að mynda get ég sjálfur alveg ímyndað mér að hlutir sem fara mjög í taugarnar á mér um þessar mundir s.s. óstöðugleiki krónunnar, hátt vaxtastig, sukkið á bönkunum, stimpil- og lántökugjöld, verðtrygging og þessháttar ófögnuður hverfi eins og dögg fyrir sólu þegar inn í ESB verður komið. Hver vill ekki taka húsnæðislán í Deutsche Bank með 3% vöxtum, án verðtryggingar og stimpilgjalda og án milligöngu íslensku bankanna? Nú veit ég svosem ekkert um það hvort það verður hægt ef við göngum í ESB, en mér finnst það ekki ótrúlegt. Það er í það minnsta mín tilfinning. 

Ég leyfi mér nefnilega að fullyrða að stór hluti kjósenda fer eftir tilfinningunni einni saman. Hvaða tilfinningu þeir hafa fyrir þessum eða hinum frambjóðandanum eða þessu eða hinu kosningamálinu. Það fólk sem setur sig inní hvert einasta mál sem það telur að skipti máli og tekur ákvörðun um hver hreppir atkvæði þess á grundvelli slíkrar yfirlegu er að ég held í miklum minnihluta. Ég leyfi mér ennfremur að fullyrða að ekki nokkur einasti maður getur sagt til um hvort rétt eða rangt sé að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það er ekki fyrir nokkurn lifandi mann að setja sig inní alla þá hluti sem þar spila inní þannig að á endanum mun tilfinningin ein ráða. 

Í því sambandi bendi ég á að sá mæti maður Hjörleifur Guttormsson var eini íslenski stjórnmálamaðurinn sem las EES samninginn og allt það sem honum tilheyrði á sínum tíma, og fyrir það bar ég mikla virðingu fyrir honum. Að þeim yfirlestri loknum tók hann síðan þá ákvörðun að greiða atkvæði gegn inngöngu Íslands í EES, en nú rúmum 10 árum síðar virðast allir stjórnmálamenn sammála um að inngangan í EES hafi verið gæfuspor hið mesta. Þannig að það er greinilega ekki nóg að vera duglegur að lesaBlush

Ef ég stjórnaði kosningabaráttu Samfylkingarinnar myndi ég setja ESB á oddinn, það er altént mín tilfinning að fólk sé opið og móttækilegt fyrir slíkum vangaveltum og Samfylkingin myndi hala inn talsvert af atkvæðum þeirra kjósenda sem enn eru óákveðnir, sem eru í grófum dráttum svo að segja allir nema þau tæpu 40% sem alltaf kjósa Sjálfstæðisflokkinn.     

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins kjósa flokkinn vegna þess að þeir trúa því að hann sé fullkominn. Fylgi flokksins er yfirleitt mjög stöðugt og kjósendur virðast trúa og treysta flokksforystunni í algjörri blindni, líkt og tíðkast í sértrúarsöfnuðum. Höfuðstöðvar flokksins prýða flennistórar myndir af fyrrverandi og núverandi foringjum flokksins, líkt og var í Sovét forðum og allir trúa því að þeir séu mestir og bestir og engum dettur í hug að til sé grænna gras. Aðrir kjósendur fara ýmist eftir skynsemi sinni eða tilfinningu.

 


mbl.is Flestir telja að Ísland verði komið í ESB árið 2050
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Það er bara svo erfit að tala um svona mál rétt fyrir kosningar. Íhöldin í landinu xd og xv koma alltaf með hræðsluáróður og við hann er svo erfit að eiga.

Tómas Þóroddsson, 17.4.2007 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband