Ég er gallagripur

Ég á hinsvegar til að gleyma því í hinu daglega amstri að ég hafi einhverja galla, verð næstum því heilagur á köflum. En hrekk svo við og átta mig, oftast nær.     

Ég varð fyrir þessu í dag þegar ég las nafnlaust grín í Blaðinu um Jakob Frímann Magnússon tónlistarmann, sem skipar fyrsta sæti framboðslista Íslandshreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Nú hef ég enga sérstaka skoðun á Jakobi sem stjórnmálamanni, en greinin hreyfði engu að síður við heilagleika mínum.    

Grínið var eitthvað á þá leið að Jakob hefði nú brasað margt í gegnum tíðina, bæði í tónlist og stjórnmálum, en flestir væru sammála um að aldrei fyrr hefði hann náð fyrsta sæti. Þegar ég las þetta firrtist ég við og fannst fremur ósmekklegt að afgreiða manninn á þennan hátt, jafnvel þó hann liti út fyrir að vera framapotari. En svo hrökk ég við og hugsaði með mér að ég væri nú meiri hræsnarinn, en hræsni er klárlega galli. Ég hefði sjálfur oft gert grín að náunganum með einum eða öðrum hætti. Það flokkast einnig undir galla. Bingó! Tveir gallar, beint í andlitið, á meðan ég las eina örstutta grein í blaði. Geri aðrir betur.   

En burtséð frá öllu gallahjali þá held ég að óhætt sé að fullyrða að Jakob Frímann, hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á honum, hefur náð prýðisgóðum árangri á ýmsum sviðum. Fyrir hartnær 40 árum stofnaði hann, ásamt fleirum, einhverja ástsælustu hljómsveit Íslandssögunnar, Stuðmenn, en þeir hafa sannarlega oft náð „fyrsta sæti”, eiga aðsóknarmet í hinum ýmsu samkomuhúsum og fjöldamörg lög sem hafa náð hylli þjóðarinnar. Mörg þeirra hefur Jakob samið, einn eða í félagi við aðra. Hann framleiddi einnig kvikmyndina Með allt á hreinu, sem er ein allra vinsælasta kvikmynd sem gerð hefur verið hér á landi, svo fátt eitt sé nefnt.   

Mér er til efs að ferilskrá blaðamannsins sem skrifar um Jakob í dag sé jafn glæsileg. Þó veit maður aldrei...........  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband