Eru berin súr?

Ég var að lesa grein í Morgunblaðinu um sölu á tónlist. Þar kemur fram að Sena ber höfuð og herðar yfir aðra útgefendur, sem eru svosem engar fréttir, en 18 af 20 söluhæstu titlum síðasta árs tengjast að sögn blaðsins Senu beint eða óbeint. Þessu til staðfestingar fylgir listi frá Sambandi hljómplötuframleiðenda yfir 25 söluhæstu plötur ársins 2006. Að vísu er þess getið að sölutölur frá 12 Tónum vanti.

Eitthvað fleira sýnist mér vanta á þennan lista því hljómplötuna Á MÓTI SÓL Í 10 ÁR er þar hvergi að finna. Ég fletti upp í gömlum tölvupóstum til að gá hvort þetta gæti staðist, því síðast þegar ég vissi var platan á topp 10 yfir söluhæstu plötur ársins. Í tölvupóstunum sá ég reyndar ekki endanlegar uppgjörstölur ársins, því þær hafði ég ekki fengið, en ég sá næstsíðasta Tónlista ársins sem er jafnframt síðasti listinn fyrir jól og á honum erum við um 2000 eintökum á eftir Björgvini Halldórssyni, sem samkvæmt Mogganum í dag var langsöluhæstur þessi jólin, og tæpum 1000 eintökum á eftir Bubba. Aftur á móti erum við rúmum 2000 eintökum á undan Regínu Ósk sem á einhvern undarlegan hátt endar þó í 20.sæti á listanum í Mogganum og verður þar með 18. Senuplatan á topp 20!

Fyrir þá sem ekki vita þá er Tónlistinn sölulisti Sambands hljómplötuframleiðenda og eftir honum er farið þegar plötusala er gerð upp, ákveðið hverjir hafa rétt á gull- og platínuplötum o.s.frv. Þessum lista er semsagt ætlað að vera raunverulegt mælitæki, og hefur verið nokkuð marktækur sem slíkur enda eru upplýsingar frá öllum þeim verslunum sem selja tónlist í einhverju magni hafðar til grundvallar við útreikninga á listanum.

Hljómsveitin Á móti sól er ekki í Sambandi hljómplötuframleiðenda, og því kemur okkur sá félagsskapur í sjálfu sér ekki við. Þó höfum við áður gert athugasemdir við vinnubrögð sambandsins og spurt áleitinna spurninga á borð við það hvort Sena njóti sérréttinda hjá sambandinu. Formanni sambandsins tekst t.a.m. yfirleitt alltaf að koma Senu að þegar hann er tekinn tali sem hlutlaus fagaðili, hann var t.d. beðinn að spá fyrir um söluhæstu titlana fyrir jólin í einhverju blaðinu og þar svaraði hann því til að hann mætti nú ekki gera upp á milli eða draga neinn útúr en tókst þó að lokum að nefna 3 flytjendur sem allir voru á mála hjá Senu!

Þegar Björgvini Halldórssyni var afhent platínuplata með viðhöfn á besta tíma rétt fyrir jólin var hann ekki búinn að selja nema rúman helming þess fjölda eintaka sem þarf til að fá afhenta platínuplötu, samkvæmt þeim viðmiðunarmörkum sem sambandið setur öðrum listamönnum, en af einhverjum ástæðum var Senu leyft að taka sölu til Alcan með í reikninginn, en eins og menn muna keypti Alcan ógrynni af disknum og gaf hafnfirðingum í síðbúna jólagjöf. Það eru að mínu mati hæpin vinnubrögð að telja slíka sölu með, og algjörlega andstætt þeim reglum sem aðrir þurfa að fara eftir.

Það er best að taka það fram að það er alls ekki ætlun mín með þessum skrifum að kasta rýrð á Björgvin Halldórsson. Síður en svo, hann á allt gott skilið. Sjálfur keypti ég diskinn hans fyrir jólin, sjálfviljugur í einni af þeim plötubúðum sem tekið er tillit til þegar Tónlistinn er reiknaður út. Ég er einungis að benda á vinnubrögð sem mér finnst athugaverð og ófagleg.

Hvort þessi vinnubrögð megi rekja til þess að formaður Sambands hljómplötuframleiðenda var í mörg ár samstarfsmaður útgáfustjóra Senu, og vann hjá fyrirtæki sem í dag er í eigu Senu, veit ég ekki en ég veit fyrir víst að þessum sama manni er fullkunnugt um í hversu mörgum eintökum hljómplatan Á MÓTI SÓL Í 10 ÁR seldist á síðasta ári. Afhverju hann kýs að sópa þeim tölum undir borðið þegar Morgunblaðið leitar upplýsinga hjá honum veit ég hinsvegar ekki.

Kannski það hafi eitthvað með þá staðreynd að gera að síðan útgáfustjórinn vinur hans ákvað að rifta gildandi samningi milli Senu og Á móti sól, þrátt fyrir að við hefðum nýlokið við að selja plötuna FIÐRILDI í tæpum 5000 eintökum að sumri til (sem er mjög góð sumarsala), höfum við selt yfir 20,000 plötur, þvert á spádóma útgáfustjórans.

Maður spyr sig.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Kvedja fra Lon&don

Brynja Hjaltadóttir, 6.5.2007 kl. 20:25

2 Smámynd: Hjalti Árnason

Kannski morgunblaðið geti fundi ÁMS á listanum með nokkrum greinaskrifum? Annars þar Bo Halldó ekkert að selja plötur til að fá plötur. Hann á bransann og getur alveg málað plötur sjálfur, listrænn eins og hann er...

Auðvitað á einhver óháður aðili að búa til þessa lista. Það er alltaf hægt að búa til einhverja lista, en hvort þeir eru marktækir er annað mál. En þetta er eitt af því sem verður að vera rétt - alveg sama hvað!

Hjalti Árnason, 11.5.2007 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband