Vinstri-grænir sáttir með sitt

Tveir öflugir liðsmenn Vinstri grænna fara mikinn á síðum blaðanna í dag. Gestur Svavarsson vinur minn reynir af miklum móð að klóra yfir skítkast Steingríms J. í allar áttir undanfarna daga og Katrín Jakobsdóttir skrifar skemmtilega grein um það að Vinstri-grænir séu komnir til að vera Smile.

Gestur notar orðið broslegt í sinni grein og það er einmitt orðið sem mér datt í hug því það er alveg morgunljóst, og broslegt að vel gefið fólk skuli halda annað, að VG er ekki komið til að vera - því miður. Ég segi því miður því flokkurinn hefur margt prýðisfólk innan sinna vébanda og mörg ágæt mál á stefnuskránni. Einþykkjan og ósveigjanleikinn gera það hinsvegar að verkum að það er öllum hugsanlegum samstarfsaðilum ljóst að vonlaust er að ganga til samstarfs við flokkinn. Hafi einhverjir verið til sem ekki höfðu áttað sig á því fyrir kosningar er þeim það fullljóst núna eftir skítabombur formannsins og fleiri fokksmanna. 

Gestur mærir formann sinn í greininni og segir að sér hafi þótt það heiðarlegt af honum að taka alvarlega yfirlýsingar framsóknar um það að setjast ekki í stjórn ef úrslit kosninganna yrðu í líkingu við það sem síðan varð. Gott og vel. Það kann að vera að það hafi verið heiðarlegt, en það breytir engu um það hversu heimskuleg framkoma Steingríms við framsóknarmenn var. Jafn reyndur stjórnmálamaður og Steingrímur ætti nú að geta sagt sér það að framsókn myndi sækjast eftir völdum hvernig sem færi! Það vissu það allir sem vildu svo þetta yfirklór gengur engan veginn.

Það er ekki annað að skilja á Gesti en að Steingrímur hafi gert allt sem í sínu valdi stendur til að komast í stjórn, samningaviljinn og lipurðin hafi svo sannarlega verið til staðar Wink, vandamálið hafi bara verið að enginn vildi vera memm. Hvernig skyldi nú standa á því? 

Flokkurinn mun, eins og ég þreyttist ekki á að spá fyrir kosningar, fara sömu leið og Kvennalistinn sálugi, sem ég kaus einmitt einu sinni. Þ.e. að með ósveigjanleika sínum og klaufalegri "samningatækni" einangrast flokkurinn og smátt og smátt átta kjósendur sig á því að það að greiða flokknum atkvæði sitt jafngildir því nánast að kasta því á glæ.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grétar Pétur Geirsson

Þarna hittir þú naglann á höfuðið Heimir Eyvindarson.En hvað leikinn varðar þá verður þú að labba einn um sinn

Grétar Pétur Geirsson, 25.5.2007 kl. 18:55

2 Smámynd: Hjalti Árnason

Gestur er líka gamall vinur minn.....VG slær mig alveg út af laginu, ef þú skilur

Búinn að vera hérna alltof lengi........ 

Hjalti Árnason, 25.5.2007 kl. 21:38

3 identicon

Gamli hefur lög að mæla.  Vinstri Græn hafa náð sínu hæsta skori ever, ekki spurning.   Þau er bara of mikil öfgafólk fyrir landann.  Þjóðin vill ekki öfga, hvorki til vinstri né hægri.  Fólk er hrætt við öfga frjálshyggju og öfga vinstri pólitík.   Einmitt þess vegna bindur fólk vonir við nýja ríkisstjórn.  Samfylkingin mýkir Sjallana upp og Geir Haarde er mjög snjall að "létta" yfirbragð stjórnarinnar, slíkt hefði aldrei gengið með Vinstri Grænum. Svo er það nú sér kapítuli útaf fyrir sig hvernig Steingrímur og f%2

Rilli (IP-tala skráð) 26.5.2007 kl. 11:05

4 Smámynd: Anna Sigga

Huff! ég sá strax að þetta yrði e-r vinstri-grænna brenna þannig ég ákvað að reyna ekkert að láta rit þín pirra mig. Ég held samt að ég sé hluti af þessari þjóð, hlýtur þá ekki e-r hluti þjóðarinnar að kjósa "öfgar" til ráða í landinu?

 Eða er þetta e-r misskilningur?

Anna Sigga, 26.5.2007 kl. 15:11

5 identicon

Mér hefur alltaf fundist VG einkennast dálítið af þverstæðum. Þegar ég hlusta á suma fulltrúa VG finnst mér þar vera framsýnt fólk sem vill sjá breytingar og nýsköpun en svo er hinn hópurinn (sem mér finnst meira áberandi á framboðslistum) sem í málflutningi sínum virkar á mig sem lengra til hægri en Sjálfstæðisflokkurinn. Það eru þessir sem segja nei um leið og þeir heyra orðið breytingar. Ég man að þegar ég var stelpa voru notuð þessi tvö orð um andstæðu pólana: kommarnir og íhaldið. Mamma sagði alltaf að það væri hægt að bóka að ef kommi skipti um flokk færi hann yfir til íhaldsins. Ég held að þessi íhaldshugsunarháttur sé dálítið innbyggður í hugmyndafræði þeirra sem stofnuðu VG á sínum tíma. En hvað veit ég - þótt ég leyfi mér stundum að fabúlera dálítið um pólitík 

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 26.5.2007 kl. 15:41

6 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Anna Sigga: Ég vona allavega að skrif mín pirri þig ekki svo að þú hættir að kíkja á síðuna mína. Það væri ferlegt því það er mér sannur heiður að þú skulir sjá þér fært að líta hér inn:-).

En þú ert ekki að misskilja neitt. Það mun alltaf einhver hluti þjóðarinnar kjósa öfga af einhverju tagi, en það er ekki þar með sagt að ég telji VG einhvern öfgaflokk. Þvert á móti er ég mjög ánægður með margt af því sem VG hefur á stefnuskrá sinni, hins vegar sýnist mér ljóst að forystumenn flokksins muni ekki koma neinu til leiðar vegna einþykkju sinnar, ósveigjanleika og undarlegs samskiptamáta við aðra flokka.

Ég er nú svo gamall að ég man eftir öðrum flokki í svipaðri stöðu, Kvennalistanum, sem vann ámóta sigur í kosningunum 1987 og VG gerði núna. Þeim ágætu konum var, ef mig misminnir ekki, boðið til stjórnarmyndunarviðræðna en þær voru svo stífar á sínum prinsippmálum að enginn gat hugsað sér að vinna með þeim. Í kosningunum þar á eftir var enn til dálítið af fólki sem hafði trú á þeim, m.a. ég, en það sama var uppá teningnum - enginn gat unnið með þeim því þær voru hvergi tilbúnar að slaka til. Skömmu síðar var flokkurinn að litlu sem engu orðinn og innlimaðist að lokum í Samfylkinguna.

Það mátti ekki miklu muna að ég hefði kosið VG fyrir þessar kosningar, enda Atli Gíslason mjög frambærilegur maður, en ég gerði það ekki. Ég verð að segja að ég er mjög feginn, eftir að hafa orðið vitni að "samningatækni" formannsins:-).

Það er eitt að vera í minnihluta og vera duglegur að mótmæla öllum þeim kolröngu ákvörðunum sem teknar eru á Alþingi, en til að vera gildandi afl í stjórnmálum er það bara ekki nóg.

Anna/Anno: Ég held að þessi fabúlering sé nokkuð rétt hjá þér, enda hefur maður oft orðið vitni að því í þinginu og stjórnmálaumræðunni að VG og Sjálfstæðisflokkur hafa verið sammála um ólíklegustu mál, t.d. að vera alfarið á móti Evrópusambandsaðild - og neita því að ræða hana. Erkióvinirnir Davíð og Steingrímur voru t.a.m. oft undarlega sammála, m.a. um þá hluti.

Ég man þá tíma vel þegar kommarnir og íhaldið tókust á og ég held að það sé laukrétt hjá þér að sá þvergirðingslegi hugsunarháttur sem oft var uppi á þeim tímum einkennir enn suma stofnendur VG, og að sama skapi suma forkólfa Sjálfstæðisflokksins, s.s. Björn "heitinn" Bjarnason;-).

Heimir Eyvindarson, 26.5.2007 kl. 20:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband