Heimsreisa - Ferðasaga

Eins og ég minntist á í færslunni hér á undan fórum við félagarnir í Á móti sól í mini-heimsreisu um helgina. Til stóð að heimsækja 3 lönd á jafnmörgum dögum, spila á einum tónleikum og fara á aðra ,+ allt hitt (út að borða, versla o.s.frv...), þannig að dagskráin var nokkuð þéttskipuð. Svo ekki sé meira sagt. En illu heilli fór vel ígrunduð ferðaáætlunin í vaskinn á fyrsta degi Crying.

Við hófum leik á því að spila fyrir Árna vin okkar á Útlaganum, svokallað gjaldeyrisgigg, á fimmtudagskvöldið. Þegar því var lokið, um klukkan eitt eftir miðnótt, stóð til að leggjast til hvílu í hljómsveitarrútunni meðan hún bæri okkur ljúflega útá flugvöll. Einhver galsi var í mannskapnum þannig að hvílan var heldur minni en til stóð, og því voru menn ansi þreyttir þegar þeir skipuðu sér í innritunarröð Iceland Express uppúr klukkan 5 um morguninn. Eftir nokkra bið var röðin loks komin að okkur en þá fyrst byrjaði gamanið! Okkur var tilkynnt að vélin sem átti að bera okkur til London hefði bilað og því yrðum við að gjöra svo vel að bíða til klukkan 3 eftir hádegi. Þetta voru vægast sagt váleg tíðindi, enda sáum við fram á að hæpið yrði að ná Prince tónleikunum. Auk þess vorum við ansi óhressir með að fá ekkert að vita um þessa breytingu fyrr en við innritunarborðið.

Eftir að hafa reynt allar mögulegar leiðir til að bjarga málunum gáfumst við upp og fengum okkur herbergi á Hótel Keflavík, svona rétt til að ná einhverjum smá svefni fyrir flugið. Þar fengum við höfðinglegar móttökur, frábæran morgunverð og dýrindis herbergi - sem kom okkur í aðeins betra skap.

Flugið sem átti að fara kl. 15.00, fór síðan ekki í loftið fyrr en rúmlega 16 þannig að vonin um að ná tónleikunum var orðin ansi veik. Klukkan 19.42 að breskum tíma lentum við loks á Stansted og þá áttum við eftir að koma farangrinum í geymslu og koma okkur sjálfum á tónleikana, sem áttu að byrja milli kl. 20 og 21. Engin geymsla fannst fyrir farangurinn þannig að við urðum að gjöra svo vel að fara með hann niður á hótel áður en við fórum á tónleikana. Hótelið var við Marble Arch og tónleikarnir í North Greenwich þannig að það var alveg klárt að við myndum í mesta lagi ná uppklappinu. Við ákváðum samt að láta á það reyna og drifum okkur með miklum látum í lestina til North Greenwich, en þegar út úr henni kom mættum við glöðum tónleikagestum sem streymdu í þúsundum út úr höllinniAngry. Þá bölvuðum við Iceland Express - og það ekki í fyrsta skipti þennan daginn.

Heldur súrir fórum við heim á hótel, sem var bæ ðe wei 4 stjörnu lúxushótel við Oxford stræti sem við splæstum á okkur til að gera ferðina sem þægilegasta Angry, og fórum í háttinn. 

Í bítið morguninn eftir lá leiðin út á Gatwick flugvöll, þaðan sem við flugum til Hamborgar með German Wings flugfélaginu. Sú flugferð var ósköp notaleg. Eftir að hafa komið okkur fyrir í gestahúsinu á búgarðinum þar sem við áttum að skemmta um kvöldið drifum við okkur niður í bæ að skoða fjölbreytt mannlífið. Þetta er í annað skiptið sem hljómsveitin spilar í Hamborg og það er ekki hægt að segja annað en borgin sé stórskemmtileg. Miðbærinn er býsna fallegur og við höfum hitt á mjög góð veitingahús í bæði skiptin, sem er ótvíræður kostur Smile. Núna fengum við t.d. dýrindis steik á Block House, fyrir þá sem eru á höttunum eftir góðu steikhúsi í HamborgWink.  Síðan er náttúrlega skylda að kíkja niður í St.Pauli á slóðir bítla og hálfberra kvenna.

Síðast þegar við fórum skoðuðum við Reeperbahn og Herbertstrasse að nóttu til, og það er ævintýri út af fyrir sig, en nú háttaði þannig til hjá okkur að við ákváðum að kíkja þangað eftir hádegið, og það er engu minni upplifun! Allt öðru vísi reyndarWink. Dagvaktin á Herbertstrasse, þar sem konurnar standa í sýningargluggum og falbjóða sig, er t.d. klárlega ekki eins glæsileg og næturvaktin, það verður að segjast alveg eins og er. Nánar um það síðar, kannski Grin.  

Um kvöldið tókum við svo þátt í hátíðahöldum á búgarðinum, og enduðum kvöldið á að leika fyrir dansi í 3 tíma samfleytt! Það var alveg sama hvað borið var á borð fyrir þjóðverjana, þeir voru alltaf jafn kátir, þó sýnu kátastir þegar gamalt rokk var á boðstólum - AC/DC, Deep Purple o.s.frv...Cool.

Snemma morguninn eftir hélt svo ævintýrið áfram. Við pöntuðum 2 leigubíla sem áttu að flytja okkur á lestarstöðina en þýzka skipulagið brást illilega og einungis annar kom á réttum tíma. Hinn kom alls ekki. Þá var ekki um annað að ræða en að panta annan og biðja hann að keyra eins og vindurinn á lestarstöðina. En sá var nú ekki að flýta sér, hafði enda meiri áhyggjur af því að farangurinn myndi skemma Mercedesinn en að strákarnir væru að missa af lestinni. Svo fór að hann kom 5 mín. of seint og því urðu 3 okkar að bíða í 2 tíma eftir næstu lest. Frekar súrt.

Í Köben var allt lokað eins og oftast nær á sunnudögum og því fórum við yfir til Malmö að versla, það sem til stóð að gera í LondonWink. Eftir vel heppnaða verslunarferð í H&M, Stadium og fleiri góðum stöðum smelltum við okkur aftur yfir Eyrarsundið og fórum í kvöldmat á yndlings ressanum okkar, Italiano við Fiolstræde. Það klikkaði ekki frekar en fyrri daginn og var ágætis endir á skemmtilegri, en misjafnlega heppnaðri ferð.

Við vorum ansi fúlir út í Express á föstudaginn, eðlilega. Ég hef sjálfur haft miklar mætur á félaginu, hef flogið oft með því og aldrei áður lent í vandræðum. En þetta var aðeins of mikið, og hrikalega fúlt svo maður tali mannamál. Eftir því sem dagarnir líða hefur mér þó runnið reiðin að mestu, enda geta allir lent í vandræðum. Mér finnst ég samt hafa heyrt ansi mörg dæmi um vesen hjá Express undanfarið. Vonandi ná þeir að vinna sig útúr þeim vandræðum. Og þó það sé vissulega þannig að maður hafi aldrei lent í viðlíka töf hjá Icelandair þá er það nú samt svo að þar á bæ er iðulega einhver smá seinkun, a.m.k. er það mín reynsla. Ég man varla eftir því að hafa verið í flugi með Icelandair sem var á áætlun! Iðulega 45-60 mínútna seinkun, og stundum að því er virðist algjörlega að ástæðulausu. Mér er t.d. minnisstætt þegar ég fór til Glasgow í fyrrahaust þegar áhöfnin mætti ekki um borð fyrr en rúmum hálftíma eftir áætlaða brottför! Það er alveg spurning hvort það er ekki bara betra að vera einu sinni alltof seinn heldur en alltaf aðeins of seinn? Dæmi hver fyrir sig Smile.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hannes Heimir Friðbjörnsson

Skemmtilegt.

Eg hef hreinustu óbeit á íslenskum flugfélögum!

Hannes Heimir Friðbjörnsson, 28.9.2007 kl. 14:20

2 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Tóku þið nokkuð "ég vildi að væri ennþá úti í Hamborg"

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 28.9.2007 kl. 21:35

3 Smámynd: Eiríkur Harðarson

Þetta er eiginlega líkara SAFARÍSÖGU en ferðasögu

Eiríkur Harðarson, 28.9.2007 kl. 23:14

4 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Vissulega safarík saga. Ég er miður mín að þið skilduð hafa misst af tónleikunum og skil alveg frústrasjónina, þó svo að bilanir geri sjaldnast boð á undan sér (allavega ekki formlegt). Vona af öllu hjarta að þetta komi ekki fyrir mig í þarnæstu viku þegar ég fer út að sjá Rush, sem er besta band í heimi..

Ingvar Valgeirsson, 29.9.2007 kl. 21:55

5 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Svona ferðir lifa lengur í minningunni en  þær þar sem allt gengur upp.....  En engu að síður, frekar leiðinlegt þetta með tónleikana.

Eiður Ragnarsson, 4.10.2007 kl. 06:09

6 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Hannes: Ég hafði það líka þennan daginn, allavega á Express!

Björgvin: Takk, og drífðu þig

Hulda: Nei, ekki í þetta skiptið. En það var samt aðeins gripið í Glampaprógrammið

Eiríkur: Safarísögu já........

Ingvar: Rush já...........

Eiður: Engin spurning, þó neyðarlegu uppákomurnar séu vissulega pirrandi meðan á þeim stendur.

Björgvin: Já það er satt, ég fer í málið

Heimir Eyvindarson, 6.10.2007 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband