Óheppileg innlegg

Ég sá Illuga Gunnarsson og Karl Th. Birgisson ræða málefni liðinnar viku í sjónvarpinu í gær eða fyrradag. Það var auðvitað ágætlega skemmtilegt, enda báðir óvitlausir.

Illugi lét þess þó getið, um það bil sem umræðan um krónuna var að sliga hann, að nýgerður kjarasamningur við ljósmæður hefði verið vont innlegg í efnahagsmálin - það væri klárt að fyrirtæki réðu ekki við að fara að því fordæmi sem þar var sett, sem var 22% launahækkun!

Í fyrsta lagi hélt ég að kjarasamningur ljósmæðra hefði snúist um leiðréttingu á hróplegu óréttlæti. Ekki endilega um prósentutöluna sem slíka. Kennarar fengu slíka leiðréttingu í síðustu samningum og ég veit ekki betur en það hafi verið mál manna að miða ekki við þá hækkun/leiðréttingu í komandi kjarasamningum. Í það minnsta voru viðbrögð forystumanna ASÍ á þá leið.

Í öðru lagi finnst mér þessi pilla Illuga koma úr hörðustu átt. Voru þingmenn ekki að fá sína þriðju launahækkun á rúmu ári núna um daginn. Þar af afturvirka eingreiðslu upp á 80 þúsund á kjaft. 

Ég er reyndar ekki það fróður um launamál þingmanna að ég viti hvort þessar hækkanir jafngildi 22% hækkun, efast raunar um það þar sem þeirra laun eru talsvert hærri en ljósmæðra, en krónutalan er örugglega svipuð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband