Vel heppnuð samsetning

Ég var að enda við að lesa ágætt viðtal við Valgeir Guðjónsson í DV þar sem hann fjallar m.a. um viðskilnað sinn við Stuðmenn. Í sjálfu sér er fátt sem kemur á óvart í viðtalinu, nema kannski það að Valgeir er nú í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn! En það er nú önnur saga.

Ég fór að velta því fyrir mér, og hef svosem oft gert það áður, hvað góður hópur getur komið mörgu til leiðar og hvernig sumar samsetningar ólíks fólks verða að kraumandi suðupotti þar sem snilldin flæðir upp um alla veggi, að því er virðist áreynslulaust.

Hugsið ykkur t.d. hvað Bítlarnir hafa verið magnaður hópur. Það er alveg óhætt að fullyrða að jafnvel þó það sé óumræðilega Lennon og McCartney að þakka hversu stórir Bítlarnir urðu þá spilaði hver einasti meðlimur mikilvægt hlutverk. Á einhvern óútskýranlegan hátt skapaðist stemmning sem leiddi af sér hvern gullmolann af öðrum. Undir dyggri stjórn George Martin auðvitað. Jafnvel á lokametrunum þegar menn töluðust vart við sömdu Paul og John frábær lög, hvor í sínu lagi. Það var eins og það væri nóg að tilheyra hópnum, jafnvel þó menn vildu lítið með hann hafa á stundum.

Síðan hættu Bítlarnir og gullmolunum fækkaði verulega svo ekki sé meira sagt. Auðvitað sömdu þeir eitt og eitt frábært lag, eins og Imagine Lennons, og áttu velgengni að fagna en lagasmíðarnar standast að mínu viti fæstar samanburð við það besta sem þeir gerðu með Bítlunum.

Án þess að ég ætli að líkja Stuðmönnum við Bítlana þá er ég þeirrar skoðunar að samsetning þess hóps hafi verið mjög heppileg. Ég varð mikill aðdáandi Stuðmanna þegar Með allt á hreinu kom út og eignaðist skömmu síðar allt efni sem þeir höfðu gefið út. Þar innan um eru mörg vinsælustu og bestu dægurlög sem hafa verið samin á Íslandi.

Valgeir Guðjónsson stofnaði Stuðmenn ásamt Jakobi Magnússyni og líklega er ekki á neinn hallað þó því sé haldið fram að þeir tveir hafi verið "aðal" Smile. Ekki einu sinni sjálfan Egil Ólafsson sem er þó líklega uppáhaldssöngvarinn minn þegar allt er talið, og flinkur tónlistarmaður. En rétt eins og í Bítlunum hefur hópurinn allt að segja. Stuðmenn voru einfaldlega á þeim árum sem Valgeir var þar innanborðs frábær hópur á öllum sviðum popptónlistar. Þar voru saman komnir afburða hljóðfæraleikarar, söngvarar, húmoristar, upptökumenn, útsetjarar, texta- og lagasmiðir og afraksturinn varð hver smellurinn á fætur öðrum.

Spilverk þjóðanna og Þursaflokkurinn vitna einnig um frjósemi þessa hóps og í því sambandi er kannski vert að upphefja Egil aðeins með því að benda á að hann er sá eini úr þessum hópi sem var í öllum böndunum þremur Smile. Svo einhverrar sanngirni sé gætt.

Þegar Valgeir síðan segir skilið við félaga sína sumarið 1988 hallar verulega undan fæti. Þau eru a.m.k. teljandi á fingrum annarrar handar Stuðmannalögin sem eitthvað er varið í sem komið hafa út eftir brotthvarf Valgeirs. Og alveg á sama hátt hefur ekki margt skemmtilegt komið frá Valgeiri heldur. Þetta er altént mín skoðun, en eflaust eru einhverjir ósammála mér. Það er hinsvegar alltaf jafn gaman að sjá Stuðmenn spila, það hefur ekkert breyst að betri tónleikasveit fyrirfinnst varla.

Þó þetta séu nú ekki merkileg vísindi hjá mér, og engin sannindi nema bara fyrir sjálfan mig, þá finnst mér þetta samt dálítið athyglisvert. Ég á mér ekki marga uppáhalds lagahöfunda íslenska en Valgeir er klárlega einn þeirra - ég nefni yfirleitt hann, Jóhann Helgason eða Magnús Eiríksson ef ég er spurður. Nokkur af þeim lögum sem ég hef sérstakt dálæti á eru líka eftir Jakob Magnússon. Ekkert þeirra er samið eftir 1988.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hefði ekki sagt þetta betur sjálfur.

Sæmi (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 19:20

2 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Heimir Eyvindarson, 29.4.2007 kl. 21:22

3 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Björgvin dipló, nefnir ekki hljómborðsleikara. 

Annars finnst öllum sem ég þekki "fönn fönn fönn" vera fremsta Stuðmannalagið. 

Tómas Þóroddsson, 29.4.2007 kl. 22:32

4 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Alveg sammála þér Björgvin með Fugl dagsins, þar voru nokkur ágæt lög. Valgeir er auðvitað vel yfir meðallagi þegar kemur að því að semja tónlist, og í heildina á hann líklega fleiri skemmtileg lög en restin af hópnum eftir ´88.

Og auðvitað er Egill aðal töffarinn, það er engin spurning, það sem ég átti við með "aðal" átti frekar skylt við innviði hópsins. Valgeir var jú afkastamesti laga- og textahöfundurinn og Jakob stjórnandinn. Mér er líka sagt að þeir hafi verið mjög andstæðir pólar og þannig kannski skapað þá "tension" sem stundum leiðir af sér sköpun............

Hvað varðar hljóðfæraleikarana þá er ég loks ekki sammála þér . Það er rétt að það er til fullt af mönnum sem geta spilað á þessi hljóðfæri, en það er alveg víst að þessir menn eiga sinn þátt í velgengni hópsins. Ekki bara sem hljóðfæraleikarar heldur sem karakterar. Og jafnvel lagahöfundar því ég er ekki frá því að það bitastæðasta sem komið hefur frá Stuðmönnum hin síðari ár sé runnið undan rifjum Þórðar Árnasonar gítarmeistara.

Heimir Eyvindarson, 29.4.2007 kl. 22:53

5 identicon

Blessaður letingi

Mér finnst þeir nú bara allir góðir og flottir en ánægðust er ég þó með að hafa ranglað inná síðuna þína heyri í þér seinna kv.

Obba (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 00:39

6 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Blessuð Obba og takk fyrir innlitið. Farðu svo að blogga sjálf merin þín!

Heimir Eyvindarson, 1.5.2007 kl. 08:19

7 Smámynd: Hjalti Árnason

Það er mikið til í þessu hjá þér. En ég held að stuðmennirnir flestir hafi verið þónokkuð yfir meðallagi góðir hljóðfæraleikarar þegar bandið var sett saman upphaflega, þó að hlutirnir sem þeir gerðu þá séu kannski ekki mikið að hrópa húrra fyrir í dag. En það hefur enginn nálgast þá á nokkurn hátt í frjósemi, bæði á sviði og í laga/textagerð. Myndir þú nenna að spila heilt ball í sjógalla? Ekki ég. Ekki heldur með grímu.

Það fer sögum um að óvinsælasti (ef það er hægt að segja það um Ringo) bítillinn hafi einmitt verið uppspretta ýmissa mislélegra brandara sem hafi svo orðið að mörgum bestu bítlalögunum. Lennon tók setningarnar og vann svo texta útí frá þeim með innskotum frá Paul og voila! Góður trommari eða ekki.......skipti ekki máli.  

Hjalti Árnason, 1.5.2007 kl. 10:27

8 identicon

Það er í raun fleira sameiginlegt með Bítlunum og Stuðmönnum....var ekki Ragga Yoko Ono Íslands??  Ég er á því að Stuðmenn hafi ekki verið sama sveitin eftir að Valgeir hætti, þó margt gott hafi komið frá þeim síðan, það vantaði alltaf eitthvað.  Að lokum..hvað fær Íslendinga til að eltast við Stuðmenn endalaust til útlanda???

Rilli (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 10:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband