Æ þetta endemis puð

 

Ég er flokksbundinn Samfylkingarmaður. Ég man reyndar ekki gjörla hvernig það vildi til en kann samt sem áður ágætlega við það. En þó ég sé í flokknum er ekki þar með sagt að hann eigi atkvæði mitt víst. Ég er nefnilega þeirri ónáttúru gæddur að geta ekki haldið með stjórnmálaflokkum eins og fótboltaliðum, og ekki fæddist ég heldur í neinn flokk. Þess vegna er ég í þeirri stöðu að þurfa að hugsa það gaumgæfilega fyrir hverjar kosningar hvernig atkvæði mínu er best varið.  Þetta puð mitt hefur gert það að verkum að mér telst til að ég hafi kosið alls 4 ólíka flokka í kosningum til Alþingis. Óttalegur vingulsháttur myndu sumir eflaust segja, en ég reyni að sjálfsögðu að upphefja sjálfan mig og segja að þetta sé til marks um heiðarleika, víðsýni eða eitthvað þaðan af flottara.

 

 

En hvort sem þetta vesen á mér flokkast nú undir vingulshátt eða eitthvað annað þá breytir það því ekki að þessar kosningar eru engin undantekning. Ég hef verið jafn tvístígandi og áður og líklega aldrei eins óákveðinn. Og það er erfitt að vera óákveðinn. Margir kostir í boði, enginn alslæmur og enginn fullkominn heldur. Þá verður maður að reyna að kryfja málin eftir bestu getu.

 

 

Ég held að ég geti lofað því að hvorugan ríkisstjórnarflokkinn mun ég kjósa. Samt hef ég að undanförnu haft ákveðið samviskubit yfir því vegna þess að ég hef svo oft heyrt söng stjórnarherranna um hvað við höfum það gott að ég er eiginlega farinn að trúa því. Hverslags vanþakklæti er þá í mér að hafna þessum ágætu mönnum? Þeir segja jú að við höfum aldrei haft það betra og flagga ótal plöggum frá allskonar stofnunum því til staðfestingar, plöggum sem sýna svart á hvítu mesta hagvaxtarskeið sögunnar. Það er erfitt fyrir óákveðinn sveitastrák eins og mig að bera á móti slíku. Aukinheldur hef ég nú fengið sendan loforðalista frá báðum flokkum þar sem margt freistandi er í boði.

 

 

En hvað hefur hagvöxtur svosem með minn hag að gera og hvað skyldi öðru fremur hafa orðið til að hækka hann svona gífurlega á síðustu árum? Jú það er einkaneysla almennings. Skuldsetning íslenskra heimila, sem er með hreinum ólíkindum um þessar mundir, hefur semsagt jákvæð áhrif á hagvöxtinn. Sú staðreynd að ég borga nú 1700 krónur í hvert skipti sem ég þarf að að fara með börnin mín á læknavaktina hér á Selfossi, í stað lítils sem einskis áður, hækkar einnig hagvöxtinn. Milljónirnar 3 eða 4 sem ég hef borgað í leikskólagjöld til sveitarfélagsins hafa sömuleiðis jákvæð áhrif á hagvöxtinn, sem og milljónirnar sem ég skulda í húsinu mínu. Hagvöxturinn hefur semsagt ekkert með það að gera hvort ég hef það gott eða skítt.

 

 

Hvað loforðalistana áhrærir verð ég að segja að slíkir listar úr þessari átt segja mér ekki neitt. Sú staðreynd að umræddir flokkar hafa haft næg tækifæri til að koma flestum þeim hlutum í framkvæmd sem þeir lofa nú, en kosið að gera það ekki, segir mér mun meira. Til að mynda greiddu stjórnarflokkarnir a.m.k. fjórum sinnum á kjörtímabilinu sem nú er að líða atkvæði gegn afnámi stimpilgjalda.

 

Þá liggur það fyrir. Ég get með góðri samvisku sleppt því að kjósa Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk.

 

 

Hvað er þá eftir? Frjálslyndir og Íslandshreyfingin finnst mér ekki heillandi kostir. Þó flokkarnir hafi margt til síns ágætis finnst mér þeir báðir standa á hálfgerðum brauðfótum. Því hugleiði ég ekki að sinni þann möguleika að kjósa þá.

 

 

Vinstri-grænir hafa hinsvegar heillað mig talsvert á kjörtímabilinu. Þeir hafa verið skeleggir og þjarmað kröftuglega að stjórninni í veigamiklum réttlætismálum, eins og t.d.  Íraksmálinu. En það er ekki nóg að vera góður í að mótmæla. Til að koma góðum hlutum til leiðar þarf að sýna sveigjanleika og vilja til að reyna að komast að niðurstöðu sem færir okkur til betri vegar. Þannig mjökumst við smátt og smátt í rétta átt. Góðir hlutir gerast jú hægt. Því miður sýnist mér að atkvæði greidd VG muni ekki verða til þess að koma málum í betra horf. Að minnsta kosti ekki ef marka má niðurstöður síðustu sveitarstjórnakosninga, þar sem flokkurinn vann sigur á öllum vígstöðvum en settist einungis í eina sveitarstjórn. Slíkur ósveigjanleiki minnir um of á Kvennalistann sáluga, sem ég kaus reyndar einu sinni, til að heillavænlegt geti talist.

 

 

Þá er það Samfylkingin. Ég hef ekki verið sérstaklega hrifin af framgöngu flokksins á kjörtímabilinu og einna helst hef ég orðið fyrir vonbrigðum með formanninn. En þessar síðustu vikur finnst mér flokkurinn þó hafa náð vopnum sínum á nýjan leik. Ingibjörg er farinn að líkjast þeim leiðtoga sem hún eitt sinn var og flokkurinn hefur komið fram með málefnalegar tillögur í veigamiklum málum, eins og t.d. menntamálum þar sem m.a. Björgvin G. Sigurðsson hefur verið duglegur að benda á vitrænar leiðir. Almennt virðist mér flokkurinn setja velferðarmál á oddinn og hafa það að auki umfram aðra stjórnarandstöðuflokka að vera öfgalaus og því vænlegur kostur til að vinna með. Hvernig svo sem mál skipast eftir kosningar.

 

 

Ég get ekki sett fingurinn á það hvað það er umfram annað sem gerir það að verkum að ég mun kjósa Samfylkinguna á laugardaginn. Enda er það svo að ég hef ekkert sérstakt vit á stjórnmálum. En ég hef þó gert heiðarlega tilraun til að skoða mál af sanngirni og komist að þeirri niðurstöðu að Samfylkingin sé besti kosturinn. Vitaskuld get ég ekki neytt neinn til þess að vera sammála mér, en mér þætti vænt um ef fleiri skoðuðu með opnum huga hvernig atkvæði þeirra er best varið. Altént held ég að atkvæði greitt Samfylkingunni geti orðið til þess að smátt og smátt breytist hlutirnir til betri vegar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Elsku kallin minn flokkurinn þinn sem ætlar að nýta HAGVÖXTIN af leikskólagjöldunum og læknaheimsóknum þínum til að framkvæma loforða listann og til að slá á þennslu þjóðfélagsins vilja þeir aðra ÞJÓÐARSÁTT Ég trúi ekki að þú skynsami maður vilji aðra ÞJÓÐARSÁTT !!!!!!!!

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 11.5.2007 kl. 08:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband