Jæja þá er maður kominn í gang aftur, eftir gott hlé. Ég er eflaust búinn að móðga þá sem hafa skrifað komment hjá mér, hvað þá klukkað mig. Ég biðst afsökunar á því og ber við tímaleysi. Því til sönnunar ætla ég að telja upp það helsta sem á daga mína hefur drifið síðan ég bloggaði síðast.
Helgina fyrir verslunarmannahelgi fórum við í hljómsveitinni á Borgarfjörð-Eystri, þar sem Magni fagnaði útkomu fyrstu sólóplötu sinnar. Ég var munstraður í bandið sem spilaði með honum þannig að prógrammið hjá mér var nokkuð stíft: Útgáfutónleikar í Fjarðarborg á föstudagskvöldinu og tónleikar í Bræðslunni á laugardagskvöldinu og auk þess spiluðum við í Á móti sól á barnaskemmtun í Fjarðarborg um miðjan laugardaginn og ball á sama stað um kvöldið, að afloknum Bræðslutónleikunum.
Af óteljandi ástæðum hefur háttað þannig til að ég hef ekki fyrr litið þennan Borgarfjörð augum, ég segi óteljandi vegna þess að það hefur ansi oft staðið til að renna þangað þegar við höfum verið að drepa tíma á Egilsstöðum í gegnum tíðina. En einhvernveginn hefur alltaf eitthvað komið uppá þannig að ekkert hefur orðið úr - fyrr en nú. Þetta er ansi afskekktur staður, en býsna fallegur þó. Gaman að sjá þetta . Það eru einhverjar myndir komnar inn frá Borgarfirði, þó ekki myndin af Megasi með 10 kótilettur í fanginu
.
Daginn eftir að ég kom heim frá Borgarfirði skelltum við Auður okkur til Stokkhólms. Það var líka í fyrsta skipti, og vonandi ekki það síðasta. Ég var mjög hrifinn af borginni, hún er virkilega falleg og nóg um að vera. Gamla Stan er snilld, lifandi músik út um allt, götulistamenn og allur pakkinn.
Við bjuggum á Rica Stockholm hótelinu niðrí bæ, skammt frá lestarstöðinni. Það var mjög fínt, og staðsetningin snilld. Búðir og veitingastaðir allt um kring. Vegna fyrirliggjandi anna við spilamennsku þurftum við að stytta ferðina um einn sólarhring, sem var frekar leiðinlegt því við náðum ekki að skoða nema brot af því sem okkur langaði að sjá. En vonandi náum við að heimsækja borgina síðar. Ég mæli allavega með Stokkhólmi, og fólkinu ekki síður.
Svíar eru bestir í návigi, þá eru þeir kurteisir og viðræðugóðir og yfirleitt með sitt á hreinu, en einhvernveginn fara þeir ósegjanlega í taugarnar á mér alveg þangað til ég hitti þá. Ég hef nokkrum sinnum komið til Svíþjóðar og alltaf þegar ég er að undirbúa mig, t.d. með því að fara inná sænskar vefsíður eða lesa blöðin þeirra, þá fyllist ég hálfgerðum viðbjóði. Ég finn í gegnum prentsvertuna og skjáinn hvernig montið og merkilegheitin umlykja mig svo mér verður ómótt. Flökrar við af uppbelgdri þjóðrembunni sem skín í gegnum hvert orð. Svo eru þeir líka alltaf að bjástra við eitthvað glatað. Í flugvélinni las ég t.d. grein um mjög viðamikla rannsókn sem þeirra helstu sérfræðingar, sem eru nú væntanlega engin smámenni, gerðu á sykurlausum vörum. Niðurstaðan var stórmerkileg, í það minnsta fór heil opna undir þessa merkilegu uppgötvun: Sykurlausar vörur smakkast ekki eins vel og þær sykruðu! Svo á maður að bugta sig og beygja fyrir þessu fólki .
Strax og komið var heim frá Stokkhólmi tók stíf spilamennska við. Á miðvikudagskvöldið spiluðum við á troðfullum Gauknum ásamt ástralanum geðþekka Toby Rand, sem var gestur okkar/Magna í vikutíma eða svo. Daginn eftir var haldið til Vestmannaeyja, spilað á Húkkaraballi í Týsheimilinu þá um kvöldið og svo á stóra sviðinu niðrí dal föstudags-, laugardags-, og sunnudagskvöld. Þjóðhátíðin var snilld eins og alltaf, veður með besta móti - í það minnsta talsvert betra en spár gerðu ráð fyrir, stemmningin ólýsanleg eins og alltaf og gestrisni heimamanna hreint með ólíkindum.
Reyndar tókst okkur að móðga fullt af fólki óbeint með því að þiggja ekki heimboð sem við áttum útum allan bæ í hinar ýmsustu veislur, en það helgaðist aðallega af því að heilsa nokkurra okkar var ekki eins og best verður á kosið þannig að við fórum sem minnst útúr húsi. Biðjum hlutaðeigandi afsökunar og lofum að standa okkur betur næst .
Ferðalög | 8.8.2007 | 13:12 (breytt 6.7.2008 kl. 00:12) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Pétur Pétursson framkvæmdastjóri tekjusviðs 365 miðla sagði í viðtali á Stöð 2 fyrr í kvöld að það væri af og frá að áskriftarverð á enska boltanum hefði hækkað umtalsvert milli ára!
Þetta er afar athyglisverð fullyrðing, í ljósi þess að Skjárinn bauð uppá enska boltann í fyrravetur fyrir 2500 kall á mánuði en á Sýn 2 kemur pakkinn til með að kosta 4390 krónur! Hvernig u.þ.b. 75% hækkun milli ára getur ekki talist umtalsverð er mér alveg fyrirmunað að skilja!
Helstu rök Péturs fyrir reikningskúnstunum eru þau að hækkunin hjá þeim sem borga áskrift að Stöð 2 og Sýn til viðbótar við þessa nýju stöð, Sýn 2, muni einungis verða um 10-15%, og því sé aðeins í undantekningartilvikum um hækkun sem orð sé á gerandi að ræða .
Mér er bara alveg skítsama (fyrirgefið orðbragðið) hvaða pakkar eru í boði fyrir trygga áskrifendur 365 miðla. Ég var reyndar lengi vel í þeirra hópi, en gafst uppá Lögregluhundinum Rex og fleira "úrvalsefni" sem Stöð 2 bauð uppá fyrir 5000 kall á mánuði . Staðreyndin er sú að ég gat keypt enska boltann hjá Skjánum (gerði það reyndar ekki) á 2500 s.l. vetur, án skuldbindinga. Ef ég kaupi sama pakka, án skuldbindinga, hjá 365 kostar hann 4390. Þannig lítur dæmið einfaldlega út og ég fæ ekki séð hverslags undantekningartilvik það er
.
Ef hangilæri í Hagkaupum er verðlagt á 5000 kall þá kostar það 5000 kall. Sé hinsvegar hægt að fá það helmingi ódýrara með því að kaupa að auki 30 rúllur af klósettpappír og 2 sígarettupakka, þá er þar um einhverskonar frávik að ræða. Eða hvað?
Enski boltinn | 24.7.2007 | 01:44 (breytt 6.7.2008 kl. 00:12) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Eins gott að þeir nái að hvíla sig vel eftir öll lætin .
![]() |
Erill hjá lögreglu á Selfossi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 23.7.2007 | 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Bloggar | 22.7.2007 | 16:04 (breytt kl. 16:06) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ég varð mér úti um nýjasta 100 laga pakkann frá Senu, 100 íslensk 80´s lög. Þetta er sniðug sería hjá þeim og virðist ganga vel í landann. Það verður samt að segjast að það er margt ansi skrýtið þarna inná milli, t.d. eru á plötunum 2 lög úr ranni Geirmundar Valtýssonar sem er svosem gott og blessað en í mínum huga á Skagfirska sveiflan ekkert skylt við 80´s annað en að hafa komið út á téðu tímabili.........eða hvað?
Síðan eru í pakkanum nokkur lög úr þeirri frábæru kvikmynd Rokk í Reykjavík, flest stórgóð en vekja aftur upp spurninguna um það hvort það sé nóg að hafa komið út á 9.áratugnum til að teljast 80´s lag.....?
Það er auðvitað spurning hvað hver og einn flokkar sem 80´s tónlist, persónulega finnst mér t.d. nauðsynlegt að innan seilingar sé a.m.k. annaðhvort hárblásari eða synthesizer - nema hvorttveggja sé - en hljómsveitir eins og Vonbrigði notuðu klárlega hvorugt
.
Auðvitað er aldrei hægt að gera svona safndisk þannig að öllum líki og það eru heldur ekki til 100 "hreinræktuð" íslensk 80´s lög þannig að það er eðlilegt að útgefendur fylli uppí með efni sem var vinsælt á tímabilinu til að gera gripinn að betri söluvöru. Ekkert nema gott um það að segja, og þó að ég sé aðeins að tuða yfir pakkanum þá er ábyggilega helmingurinn af honum lög sem á einhverjum tímapunkti hafa verið uppáhaldslög hjá mér - t.d. öll lögin úr Rokki í Reykjavík. Það er hálf asnalegt að kvarta yfir því. En að vísu átti ég þau lög öll fyrir, þannig að sem slíkur gerir þessi pakki ekki mikið fyrir mig persónulega. Þó margt sé gott við hann fer ég ekki ofan af því að það hefði verið hægt að gera betur.
Mér finnst t.d. klént að fylla uppí plötuna með lögum sem hafa komið út ótal sinnum á hinum ýmsustu safnplötum, eins og Skólaball með Brimkló og Ég gef þér allt mitt líf með Bjögga og Röggu Gísla. Þau lög eru ábyggilega á góðri leið með að verða til á hverju einasta íslensku heimili. Bæði stórfín, en anna fullkomlega eftirspurn.
Mér hefði þótt skemmtilegra ef útgefendurnir hefðu lagt meira á sig við að grafa upp lög sem voru vinsæl á þessum tíma en hafa ekki verið fáanleg síðan þá. Fornaldarhugmyndir með hljómsveitinni Lola frá Seyðisfirði er gott dæmi um slíkt lag og það er einmitt að finna í pakkanum. Fyrir það fá Senumenn hrós.
Besserwisserinn ég man reyndar í augnablikinu ekki eftir mörgum svoleiðis lögum til viðbótar í svipinn, en það væri eflaust fljótt að rifjast upp ef kafað væri eftir því. Lög eins og Vinur minn missti vitið og Götustelpan (hún var sveitt þá o.s.frv...), sem Pálmi Gunnars gerði vinsæl um miðjan níunda áratuginn, eru t.a.m. ágætis dæmi. Höfundar beggja þessara laga komu óvænt fram á sjónarsviðið og hurfu þaðan jafnskjótt. Annar bóndi norðan úr landi og hinn sjómaður úr Þorlákshöfn, held ég að ég fari rétt með (er þó alls ekki viss), og ég held svei mér þá að ég hafi ekki heyrt þessi lög síðan á 80´s tímabilinu - Gaukurinn í Þjórsárdal einhver? .............
Reyndar hef ég ekki saknað þessara tveggja laga sérstaklega, enda var hvorugt þeirra í sérstöku uppáhaldi hjá mér, en það hefði að mínu mati styrkt þessa útgáfu verulega að hafa þau með. Eins hefði verið gaman að rifja upp eina smell hljómsveitarinnar Pax Vobis - Coming my way, en allstaðar þar sem Pax Vobis kom mátti treysta því að stutt var í bæði syntha og hárblásara. Ég leyfi mér m.a.s. að fullyrða að fáar hljómsveitir hafi blásið hár sitt af viðlíka áfergju og liðsmenn Pax Vobis, með sjálfan Geira Sæm í broddi fylkingar og Þorvald Bjarna á kantinum, gerðu á sínum tíma. Nema ef vera skyldi Stuðkompaníið og Rikshaw - en þau 80´s bönd eiga t.a.m. einungis 1 lag hvort í pakkanum meðan Geirmundur á 2 stk...................
Tónlist | 19.7.2007 | 01:26 (breytt 6.7.2008 kl. 00:13) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)

Bloggar | 13.7.2007 | 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ég tek það fram að ég var ekki á skaganum um helgina og veit nákvæmlega ekkert um það hvernig Írskir dagar fóru fram, en ég reikna með að flestir hafi skemmt sér hið besta eins og oftast er raunin með bæjarhátíðir af þessu tagi.
Sjálfur hef ég troðið upp á allmörgum bæjarhátíðum og oftar en ekki furðað mig á neikvæðum fréttaflutningi í kjölfar þeirra. Það er nú einu sinni þannig að þar sem slíkur mannfjöldi kemur saman er alltaf hætta á einhverjum pústrum og ryskingum og þjóðfélagið er nú því miður orðið þannig að fíkniefnamál koma alltaf upp á slíkum hátíðum. Síðan má alltaf spyrja sig hvort t.d. fjöldi fíkniefnamála sem upp koma sé eitthvað viðmið um það hvort viðkomandi skemmtun hafi tekist vel eða illa. Lögreglan segir t.a.m. mikinn viðbúnað á svæðinu vera ástæðu þess hversu mörg mál komust upp. Er það ekki af hinu góða að tekist hafi að koma böndum á einhverja bófa a.m.k.?
Öll umræða um að það þurfi að breyta fyrirkomulagi bæjarhátíða til að koma í veg fyrir ölvun og ólæti, og jafnvel leggja þær niður fer óumræðilega í taugarnar á mér. Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða að meirihluti gesta á Írskum dögum á Akranesi um helgina var þangað kominn til að skemmta sér. Það að litlum hluta þeirra hafi orðið eitthvað á, og kannski aðeins fatast flugið á ekki að verða til þess að hátíðin heyri sögunni til.
![]() |
Viðbúnaður lögreglu hjálpaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | 10.7.2007 | 04:08 (breytt 6.7.2008 kl. 00:14) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Enn einu sinni dúkkar umræðan um Suðurstrandarveg upp, nú í kjölfar fregna af því að framkvæmdum við fyrirhugaða Sundabraut hefur verið slegið á frest.
Ég er líklega bara svona vitlaus en ég hreinlega næ því ekki afhverju í ósköpunum þarf að gera þennan blessaða veg. Þetta var eflaust ágætis hugmynd fyrir 30 árum síðan þegar við lifðum af fiskveiðum, en það var líka margt annað sem þótti ekki svo galið í þá daga, t.d. hansahillur og Goombay dance band - svo fátt eitt sé nefnt.
Einhvernveginn held ég að þörfin fyrir Suðurstrandarveg sé liðin hjá. Það kann þó vel að vera misskilningur. Allavega eru helstu rökin sem ég hef heyrt fyrir veginum þau að með tilkomu hans aukist hagræði í fiskvinnslu á svæðinu, þ.e. að Suðurland og Suðurnes geti samnýtt afla og eitthvað meira sem ég hef ekki hundsvit á svosem. En er virkilega réttlætanlegt að gera veg fyrir 1100 milljónir svo að sé hægt að rúnta með þorsk milli Þorlákshafnar og Grindavíkur? Var ekki verið að minnka þorskkvótann um þriðjung á milli ára? Halló!
Ég prófaði að "gúgla" Suðurstrandarveg til að sjá hvort finna mætti einhver fleiri rök fyrir þessari framkvæmd og ég verð að segja að niðurstaða leitarinnar var í meira lagi athyglisverð. Allavega fyrir óupplýstan landsbyggðarblesa eins og mig.
T.d. segir í ályktun Sambands sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) frá árinu 2006 eitthvað á þá leið að Suðurstrandarvegur muni hafa gríðarlega jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu, sérstaklega þar sem ekki þurfi þá lengur að aka um höfuðborgarsvæðið til að komast frá Leifsstöð á helstu ferðamannasvæði landsins. Ég er kannski að fara með fleipur en ég held að ég segi það satt að Suðurstrandarvegur stytti ekki leiðina milli t.d. Keflavíkur og Geysis. Leiðin milli Keflavíkur og Selfoss er rúmir 90 km., sé ekið í gegnum höfuðborgarsvæðið, en um Suðurstrandarveg minnir mig að leiðin verði nálægt 120 km. þannig að hvernig hægt er að sjá ávinning í þeim efnum er ofar mínum skilningi. Auk þess hugsa ég nú að erlendir ferðamenn hafi ekkert á móti því að skoða höfuðborgina, ég hef allavega gaman af því að skoða slíkar borgir þegar ég leggst í flakk. Ég myndi allavega ekki hoppa hæð mína af kæti yfir því að geta sneitt algjörlega hjá Kaupmannahöfn og keyrt rakleiðis til Gilleleje eða Stubberup væri ég að koma til Danmerkur í fyrsta skipti . Svo mikið er víst.
Önnur skemmtileg röksemd sem ég sá frá SASS er að vegurinn sé gríðarlegt öryggisatriði. Reykjanesskaginn sé virkt eldfjallasvæði og því sé nauðsynlegt að hafa fleiri en eina samgönguleið mögulega, komi til náttúruhamfara! Það er nú erfitt að setja sig í þessi spor, en ef ég byggi t.d. í Sandgerði og það skylli á slíkt hörmungareldgos að eina von mín til að halda lífi væri að keyra til Þorlákshafnar af öllum stöðum þá held ég nú að ég léti mig hafa það að skröltast veginn eins og hann er í dag, jafnvel þó það kynni að kosta mig 2-3 hjólkoppa og kannski smá hausverk .
Svo sá ég ýmsa mektarmenn, m.a. Einar Njálsson f.v. bæjarstjóra Árborgar, tjá sig um að lagning vegarins hafi verið ein þeirra röksemda sem týndar voru til þegar hið nýja Suðurkjördæmi var búið til. Eigum við að ræða þessa kjördæmaskipan eitthvað?
Á einhver heillegar hansahillur................?
Stjórnmál og samfélag | 10.7.2007 | 03:08 (breytt 6.7.2008 kl. 00:14) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tekið af bloggsíðu Björns Bjarnasonar:
Eftir að hryðjuverkamenn óku á flugstöðvarbygginguna í Glasgow sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands: Hin gömlu skil milli öryggis innan og utan landamæra eru horfin. Við verðum að hugsa málin alveg upp á nýtt. Í Þýskalandi fara nú fram miklar umræður um, hvort breyta eigi stjórnarskránni á þann veg, að herinn megi láta að sér kveða í aðgerðum innan Þýskalands.
Það er nefnilega það
Bloggar | 10.7.2007 | 01:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

![]() |
Idrizaj með þrennu fyrir Liverpool |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 7.7.2007 | 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tónlistarspilari
Færsluflokkar
Tenglar
Hótel
- Hotel Club
- Trip Advisor Umsagnir um hótel o.fl.
- Totalstay Oft góð tilboð
- GTA Hotels Oft góð tilboð
Eitt og annað
Ýmislegt
- Íslenska Beygingar o.þ.h.
- Deacon Blue
- You Tube
Það sem skiptir máli
- KHÍ
- U2
- Madness Þeir eru enn að!
- Liverpool Opinber síða félagsins
- Liverpool Liverpool klúbburinn á Íslandi
- Á móti sól
Flugfélög
Ferðalög o.þ.h.
- British Airways Flug til London Gatwick
- SAS Flug til Osló og Stokkhólms
- Icelandair
- Iceland Express
- German Wings Flug til Kölnar/Bonn o.fl.
England
Ferðalög o.þ.h.
- Flugvellir Flugvellir í Bretlandi
- Eurostar Hraðlest til Parísar og Brussel
- Virgin Trains Lestir út á land
- The Tube Lestarkerfið í London
- London Town London
- Map 24 Vegvísun um allan heim
- Ticketmaster Miðar á tónleika o.fl.
- St.Giles Hotel Frábær staðsetning - ágætt hótel
- Late Rooms Tilboð á gistingu
- Travel Inn Traust og fjölskylduvæn hótelkeðja
Danmörk
Ferðalög o.þ.h.
- Veðrið Veðrið í DK fyrr og nú, eftir svæðum
- Alt om Köbenhavn Allt um Köben
- Min reklame Tilboð frá verslunum
- Krak Vegvísun, kort o.fl.
- Dansk Autorent Ódýr bílaleiga
- Gisting á tilboði Hótel í Danmörku - Tilboð dagsins
- Dancenter Sumarhús í Danmörku og víðar
- Sol og Strand Sumarhús í Danmörku og víðar
- Dansommer Sumarhús í Danmörku og víðar
- Novasol Sumarhús í Danmörku og víðar
- Italiano Skemmtilegur ressi í Köben
Bloggvinir
-
nkosi
-
ansiva
-
atlifannar
-
skarfur
-
agustolafur
-
amotisol
-
baldurkr
-
bbking
-
bjarnihardar
-
brandurj
-
gattin
-
binnag
-
bryndisvald
-
brynja
-
bestfyrir
-
daxarinn
-
ebbaloa
-
austurlandaegill
-
eirag
-
hjolagarpur
-
ellasprella
-
eythora
-
ea
-
fjarki
-
gesturgudjonsson
-
dullari
-
gretar-petur
-
gudni-is
-
gudbjorng
-
hugs
-
gummigisla
-
gummisteingrims
-
bitill
-
gunnarfreyr
-
nesirokk
-
rattati
-
hehau
-
hermannol
-
krakkarnir
-
nabbi69
-
swiss
-
810
-
ingimundur
-
ingvarvalgeirs
-
jakobsmagg
-
presley
-
katrinsnaeholm
-
buddha
-
larahanna
-
maggib
-
magnusvignir
-
jabbi
-
palmig
-
rungis
-
snorris
-
slembra
-
lehamzdr
-
svanurg
-
sverrir
-
saedis
-
tinnhildur
-
tommi
-
postdoc
-
doddilitli
Ágúst 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.8.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 85331
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar