Flokkshollusta

Þetta er svo mikil vitleysa að það er engu lagi líkt. Getur einhver heilvita maður hugsað sér að kjósa framsóknarflokkinn í vor?

Það leiðir hugann að öðru: Ég las góða grein á blogginu hans Guðmundar Steingrímssonar, sem er nú af miklum framsóknarættum. Þetta er mjög góð lesning, ef maður lítur framhjá kosningaáróðrinum...........
http://gummisteingrims.blog.is/blog/gummisteingrims/#entry-144744


Ég get vel hugsað mér að kjósa Guðmund á þing. Það er líka mjög auðvelt fyrir mig að slá slíku fram því hann er ekki í framboði í mínu kjördæmi þannig að ég hef ekkert um það að segja. En það er önnur saga. Ég gat líka á tímabili vel hugsað mér að kjósa pabba hans, jafnvel þó hann væri framsóknarmaður.

Þannig er nefnilega um marga góða menn að manni líkar málflutningur þeirra, burtséð frá því hvaða flokki þeir tilheyra. Stundum veltir maður því meira að segja fyrir sér hvað þessi eða hinn sé nú að gera í hinum eða þessum flokknum. Og ég er einn af þeim sem gleðst þegar einhver hefur dug til að taka sjálfstæða ákvörðun, þvert á flokkslínur eins og það er kallað. 

Ég veit ekki hvernig stendur á því að við lítum á flokkshollustu sem dygð. Altént virðist það mjög ríkt í okkur að úthrópa þá einstaklinga sem rísa upp gegn flokknum sínum sem liðhlaupa eða svikara. En hvað með flokkana sjálfa....eru þeir alltaf hafnir yfir alla gagnrýni? Hvor ætli hafi t.d. breyst meira á s.l. 20 árum Steingrímur Hermannsson eða framsóknarflokkurinn?

Þegar ég hugleiði þessa hluti verður mér oft hugsað til afa míns heitins. Hann var einn af stofnfélögum Alþýðuflokksins á fyrri hluta 20. aldarinnar og ég veit ekki betur en hann hafi haldið tryggð við flokkinn allt til dauðadags, en það veit sá sem allt veit að sá Alþýðuflokkur sem Jón Baldvin og nafni hans Sigurðsson stjórnuðu þegar afi var kominn á lokasprettinn átti afar fátt sameiginlegt með flokknum sem hann tók þátt í að byggja upp. En honum þætti vænt um "flokkinn" sinn.

Svona er sjálfsagt með marga. T.d. get ég vel ímyndað mér að margir framsóknarmenn haldi tryggð við flokkinn, einmitt vegna þess að þeim þykir vænt um hann. Halda í einhverja minningu um flokk sem eitt sinn var málsvari bænda og búaliðs og hafði hin mannlegu gildi í hávegum. Svona sósíaldemókratískur jafnaðarmannaflokkur eins og þeir gerðust bestir.

En því miður fyrir þetta fólk er það staðreynd að flokkar breytast með tímanum. Því er alls ekki við hæfi að rægja fólk sem rís upp og gengur frá borði þegar kúrsinn hefur verið tekinn í kolöfuga átt miðað við það sem ætlað var - og lagt var upp með.

Allt er í heiminum hverfult - stjórnmálaflokkar líka. 


mbl.is Umræða um stjórnarskrárfrumvarp stendur enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar stend ég í pólitík?

Ég hef verið spurður að því í dag, eftir að ég birti þennan langa stjórnmálapistil, hvar ég stæði í pólítík. Sannleikurinn er sá að ég hef oft spurt sjálfan mig þessarar sömu spurningar. Einhverjar uppástungur?  

Kosningar í nánd

Eins og flestir vita verður kosið til Alþingis í vor. Það er farið að færast fjör í pólítíkina og menn eru farnir að vekja á sér athygli með einum eða öðrum hætti til að stuðla að góðri kosningu í vor.

Mikið hefur verið rætt um fylgi flokkanna í skoðanakönnunum að undanförnu, rétt eins og einhver tíðindi séu á ferðinni. Vinstri grænir eru í stórsókn og framsókn að þurrkast út o.s.frv.  Það getur verið ágætis dægradvöl að velta þessum hlutum fyrir sér en á endanum kjósum við öll það sama og síðast. Í meginatriðum a.m.k.

Vinstri flokkarnir hafa í gegnum tíðina yfirleitt verið með 35-40% fylgi, svipað og Sjálfstæðisflokkurinn og síðan hafa framsóknarmenn og ný framboð barist um restina.

Sjálfstæðisflokkurinn er alltaf með tæplega 40% fylgi, alveg sama hvað á gengur. Gildir einu hvort þeir gera góða hluti eins og tala í gang góðæri, eða alvonda eins og að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við George W. Bush (sem helsti ráðgjafi Sjáfstæðisflokksins, hannes hólmsteinn gissurarson, hefur bæ ðe wei sagt að sé afburðagáfaður maður!).  

Þessi siðblinda flokksmanna kristallast kannski í því að í eina skiptið sem þeir hafa fengið slæma útreið í kosningum á síðustu 16 árum tóku þeir það á engan hátt til sín heldur skelltu sér beint í að mynda stjórn. Rétt eins og þeir hefðu fengið umboð þjóðarinnar til þess. Þarna er ég að vísa til kosninganna 2003 þegar flokkurinn tapaði 4 þingmönnum. Mestu munaði þar um stórtap í kjördæmi formannsins sjálfs, Davíðs Oddsonar. Samt sat hann sem fastast við völd.

En skammtímaminni kjósenda er það sem flokkurinn þrífst á öðru fremur og því spái ég flokknum 37-38% fylgi eins og venjulega.

framsóknarflokkurinn  fær yfirleitt 17-19 % fylgi og mælist alltaf langt fyrir neðan það í skoðanakönnunum. Ég hef áður útskýrt hvernig stendur á því og vísa í eldri pistla hér á síðunni ef menn vilja skoða það nánar.

Flokkurinn hefur að vísu aldrei verið eins aumkunarverður og einmitt á þessu kjörtímabili og þessvegna held ég að hann muni kannski ekki ná nema 13-15% fylgi. Þeir munu samt sem áður falast eftir völdum, sanniði til.

Það sem ég held að muni fyrst og fremst verða til þess að flokkurinn haldi sæmilega sjó í vor er persónufylgi þeirra sunnlendinga Guðna Ágústssonar og Bjarna Harðarsonar. Það, í bland við fremur slakt mannval á listum annarra flokka í kjördæminu, gæti jafnvel tryggt framsókn 3 menn í Suðurkjördæmi.

Samfylkingin er í krísu þessa stundina. Eins og ég hef sagt áður verða þau að fara að taka á sig rögg og ráða PR mann, eða reka þann sem þau eru með. Klaufagangurinn í yfirlýsingum er pínlegur. Og hvað er með þetta menntaskólalýðræðishjal í flokknum? Fólk nennir ekkert að hlusta á þetta píp. Það vill bara töff flokk með flottan formann. Eins og Ingibjörg getur svo sannarlega verið. Foringjadýrkun Íslendinga á sér engin takmörk, við erum tiltölulega nýorðin lýðveldi og kunnum ekkert á svona lýðræðiskjaftæði.

Og hvað er líka málið með þennan varaformann? Hvaða líkur eru á því að hann taki við stjórn flokksins ef eitthvað kemur upp á? Svona álíka miklar og að Guðni Ágústsson verði formaður framsóknarflokksins. Akkurat engar, eins og sannaðist s.l. sumar. Það stóð aldrei til að Guðni yrði formaður, hann var bara hafður þarna uppá punt. Ég get vel skilið framsóknarmenn að hafa Guðna uppá punt en ég sé ekki puntið í Ágústi Ólafi. Hann er eflaust vandaður drengur og duglegur, en hann hefur engan sjarma - svo ekki sé minnst á að hann er álíka mælskur og Guðlaugur Þ. Þórðarson! 

Þessi varaformannstuska Samfylkingarinnar lenti í 4.sæti í prófkjöri í öðru Reykjavíkur kjördæminu, og var rosa ánægður með traustið!!! Hmmm. Þýðir það ekki að a.m.k. 7 manns í Reykjavík einni njóta meira trausts innan flokksins en varaformaðurinn. Hvurslags traust er það?

Þrátt fyrir allt þetta verður Samfylkingin að líkum með 27-29% fylgi í vor. 
 
Vinstri-Grænir hafa verið á miklu flugi samkvæmt skoðanakönnunum og mælast nú álíka stórir og Samfylkingin. Það skrifast að ég held að stærstum hluta á persónu formannsins Steingríms J. Sigfússonar, enda þjóðin hrifin af sterkum og skeleggum foringjum eins og ég hef áður komið inná. Eins held ég að það sé sérstakt áhugamál fýldra framsóknarmanna að hóta því í skoðanakönnunum að kjósa VG. 

Víst er að ýmis stefnumál VG eiga mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Fólk minnist einarðrar afstöðu flokksins í Íraksmálinu, Kárahnjúkamálinu, Öryrkjamálinu o.s.frv. og getur vel hugsað sér að kjósa svo harðskeytt lið með svo sterkan baráttumann í frontinum.

En eins og yfirleitt er um vinstri menn eru þeir óttalegir klaufar þegar kemur að tækniatriðunum. Þeir eru kannski hraustastir og baráttuglaðastir, en herkænskuna skortir algjörlega. 

Flokkurinn stendur á hátindi ferilsins með öll vopn í hendi. Ríkisstjórnin í andarslitrunum, keppinauturinn á vinstri vængnum í tómu rugli og fólk farið að velta því fyrir sér í alvöru að koma flokknum til valda. Þegar staðan er svona þá er vænlegast að láta litið á sér bera. Quit while you´re ahead.

En búa vinstri menn yfir slíkri herkænsku? Aldeilis ekki. Þegar Steingrímur J. fór að þvaðra um netlöggu í sjónvarpinu var eins og þjóðin vaknaði af dái. Það rifjaðist skyndilega upp fyrir henni hvílíkur forræðishyggjumaður Steingrímur í rauninni er. Hann var á t.d. móti bjórnum á sínum tíma. Það voru allir búnir að gleyma því maður!

Andstæðingar flokksins munu líka gera sér mat úr því þegar kosningabaráttan fer að harðna að flokkurinn er ekki líklegur til að setjast í ríkisstjórn. Nærtækasta dæmið sem menn munu taka máli sínu til stuðnings er að VG unnu stórsigur í síðustu sveitastjórnarkosningum en sitja nær allsstaðar í minnihluta. Þessi þvermóðska VG minnir um margt á Kvennalistann sáluga sem vann stórsigur í kosningum 1987 en gat ekki hugsað sér að taka þátt í stjórnarsamstarfi. Ef Vinstri-grænir temja sér ekki aðeins meiri sveigjanleika er hætta á að örlög flokksins verði hin sömu og Kvennalistans. Því miður. 

Þessi endemis klaufagangur verður til þess að VG fær ekki nema 14-15% fylgi í kosningunum, svo ég haldi nú áfram að spáGlottandi

Frjálslyndi flokkurinn hefur einnig verið á talsverðu flugi í skoðanakönnunum en það hlýtur bara að vera eitthvað grín. Flokkurinn fékk 7,4% í síðustu kosningum og ég yrði steinhissa ef þeir fengju meira en það. Ég spái 5%.

Framtíðarlandið er svo óskrifað blað og gæti skekkt myndina dálítið, aðallega á kostnað vinstri flokkanna. Það fer þó að sjálfsögðu allt eftir því hvort einhverjar kanónur á borð við Jón Baldvin taki þátt í gleðinni.

Aldraðir og öryrkjar gera varla mikinn usla.

Auðir og ógildir verða hugsanlega eitthvað færri en venjulega með tilkomu Framtíðarlandsins. Reyndar er alveg óþolandi að atkvæði þeirra sem mæta á kjörstað og kjósa að skila auðu og lýsa með því frati á alla sem í framboði eru skuli vera flokkuð með atkvæðum þeirra sem kunna ekki að kjósa og gera seðilinn sinn ógildan með einhverjum aulagangi.


mbl.is Margrét, Ómar og Jakob Frímann saman í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt dagsins

Mér finnst frábært af austurlandi.is að birta þessa frétt. Mér finnst enn betra að Mbl.is skuli birta hana og ég vona svo sannarlega að allar fréttastofur landsins fjalli rækilega um þennan dónaskap KHB, sem og annarra sem kunna að verða uppvísir að öðru eins. Það þarf ekkert að efast um að margir kaupmenn sjá sér leik á borði og reyna að hagnast á þessum skattabreytingum. Það verðum við að stöðva með öllum ráðum.

Fyrirtæki eins og KHB eiga að skammast sín, og það á að taka þau rækilega í gegn fyrir athæfi af þessu tagi. Neytendur á Egilsstöðum hvet ég eindregið til að sneiða hjá fyrirtækinu. Vonandi næst samstaða um það fyrir austan og þá mun KHB tapa á græðginni þegar upp er staðið.   

 


mbl.is Söluskáli KHB lækkaði ekki verð í morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Scorsese ofmetinn?

Það fór eins og flestir höfðu spáð að Martin Scorsese hreppti loksins óskarinn eftir langa bið. Það er gott og blessað svosem, en það breytir því ekki að ég hef ekki skilið þessu ógurlegu umræðu um að það yrði skandall ef enn eina ferðina yrði gengið fram hjá honum.

Ég er reyndar enginn kvikmyndasérfræðingur, en eftir að hafa séð nokkrar af myndum Scorsese er svo komið að ég reyni yfirleitt að sneiða hjá þeim. Þær myndir sem ég hef séð eftir kallinn eiga það sammerkt að vera nauðaómerkilegar og fyrirsjáanlegar, sumar meira að segja hundleiðinlegar. Reyndar er Goodfellas undantekning, mér fannst hún mjög hressandi, sérstaklega stórleikur Joe Pesci.

Fyrsta Scorsese myndin sem ég sá var After Hours og hún er alveg hrútleiðinleg. Síðan þá hef ég séð - fyrir utan Goodfellas - Cape Fear, Casino, New York New York og Color of Money. Þetta eru allt sæmilegar ræmur og mér leiddist ekkert yfir þeim en ég gat ekki með nokkru móti komið auga á meinta snilld leikstjórans.

 Trúlega er ég bara svona mikill kjáni.  


mbl.is Scorsese fékk loks Óskarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðmenn deyja ráðalausir

Þetta er aldeilis ekki það eina sem blessaðir Norðmennirnir standa ráðþrota gagnvart. Ég hef ekki enn hitt þann Norðmann sem hefur haldbært ráð við einhverjum vandaWoundering en þeir eru flestir afar vingjarnlegir, það vantar ekki. Hvernig væri nú að taka eitthvað smotterí útaf stóru olíubankabókinni og redda þessu?

Hana nú - og heja Norge!

 


mbl.is Óslóarlögreglan næsta ráðþrota gagnvart aukinni glæpatíðni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handheldur radar

Þessi hraðagreinir er ágæt hugmynd, en hvað hafa menn við svona handheld (skrýtið orð) tæki að gera? Ætla þeir svo að hlaupa ökufantana uppi?
mbl.is Nýtt tæki til hraðamælinga bifreiða tekið í notkun í Borgarnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evróvision

Ég hef verið latur við að blogga undanfarna daga, kenni um tímaleysi. Nú á ég lausa stund og því finnst mér ég mega til að skrifa eitthvað. En þá er spurningin hvað skuli skrifa....Ætti ég að hrauna eitthvað yfir söngvakeppni sjónvarpsins sem er í kvöld? Ég gæti t.d. vakið aftur máls á því hvað mér finnst yfirmáta bjánalegt af Rúv að kalla þetta EVRÓvision! Heitir þetta þá fullu nafni Evróvision söngvacontest?

En nei, ég nenni ekki að tuða yfir því, ég ætla bara að finna kallinn sem fann uppá þessari vitleysu og hía rækilega á hann. Kannski kalla ég hann bara bjána, sem er gott íslenskt orð - og afar lýsandi. Þá kallar hann mig ábyggilega hrekkjupig.

Ég gæti líka farið að tuða eitthvað yfir lögunum og textunum í söngvakeppninni, en þau dæma sig að mestu leyti sjálf og þá er lítið annað eftir en að níðast á framsóknarflokknum eða Birni Bjarnasyni. Það er reyndar alltaf gaman, enda tilefnin næg, en ég bara nenni því ekki í dag. Ég finn örugglega upp á einhverju á morgun.

Reyndar dettur mér í hug að ég gæti sagt ykkur frá því að ég og Auður ætlum að skreppa til Köben um næstu helgi. Það er alltaf gaman, soldið eins og að koma heim finnst mér, þó ég hafi aldrei átt heima þar. Sævar og Bryndís verða líka í Köben og við ætlum að borða saman á Italiano. Snilldarstaður.

Svo ætlum við Auður, og Sæmi líka, að fara til Berlínar í apríl, en þangað hef ég ekki komið síðan snemma á níunda áratugnum þegar ég dvaldi í nágrenni borgarinnar í sumarbúðum ráðstjórnarríkjanna. Það er gaman að segja frá því að hótelið sem við verðum á er einmitt á Alexanderplatz, sem er í hjarta austurhlutans, en þar fengum við ungmennin einmitt að skoða okkur um - og kaupa Pepsi og Snickers í nærliggjandi Inter-shop. Gegn framvísun skilríkja.
mbl.is Úrslitin ráðast í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsjónir og skoðanir á undanhaldi

Bjarni Harðarson sveitungi minn segist í Blaðinu í gær oft hafa verið sammála Kristni H. Gunnarssyni fyrrum samflokksmanni sínum, en honum hafi ekki alltaf líkað framsetningin. Það skiptir Bjarna semsagt meira máli hvernig hlutirnir eru sagðir og hvenær, heldur en hvað er sagt. Hmmmmm........

Enn af framsókn

Í skoðanakönnun sem birtist í Fréttablaðinu í dag er fylgi framsóknar vart mælanlegt. Auðvitað fagna ég því. En ég veit hinsvegar að það er ekki tímabært að fagna strax. Því miður.

Ég þekki marga framsóknarmenn og flestir eiga það sammerkt að tuða og býsnast yfir því sem fer í taugarnar á þeim en gera aldrei neitt í því. Vita gagnslausar liðleskjur svo talað sé mannamál. Þegar Gallup eða Fréttablaðið hringir og spyr hvern þeir ætli að kjósa fussa þeir og sveia, skjóta eitthvað út í loftið eða segja ekki neitt, en á kjördag koma þeir allir skríðandi heim rétt eins og kona sem hefur dvalið í  kvennaathvarfinu en kemur aftur heim, til þess eins að láta ósköpin dynja yfir sig á nýjan leik. 

Nú skora ég á alla framsóknarmenn að standa einu sinni við stóru orðin og kjósa eitthvað annað - eða skila auðu. Flokkurinn á ekkert annað skilið. Það er honum sjálfum fyrir bestu að fá aðeins á baukinn, rétt eins og ofbeldismanninum sem endurheimtir ekki konuna sína úr athvarfinu eða alkanum sem ekki er hjálpað upp í rúm heldur er látinn sofa á eldhúsgólfinu í eigin skítalykt. Að afloknum slíkum kosningum er hægt að endurvekja tiltrú þjóðarinnar á framsókn. Altént mun ég þá, og fyrst þá, rita framsókn með stóru effi.  

mbl.is Fylgi Samfylkingar eykst á ný en fylgi Framsóknarflokks í lágmarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband