Færsluflokkur: Bloggar

Eitthvað að frétta?

Ég fór á Vísi.is í morgunsárið til að kanna hvort eitthvað væri að frétta úr þjóðlífinu. Vitlaus sem ég er ber ég alltaf ákveðna von í brjósti um að eitthvað markvert mæti mér á síðum netmiðlanna; t.d. að norski forsætisráðherrann minn hafi ákveðið að gera eitthvað í efnahagsmálunum, sést hafi til Samfylkingarinnar, krónan hafi styrkst, eða að Björn Bjarnason hafi gert eitthvað af viti.

En á hverjum degi mæta vonbrigðin mér, í formi innihaldslítilla ekkifrétta.

Fyrirsagnir dagsins eru m.a: Krónan veikist enn, Dópistar í Keflavík, Amy Winehouse í annarlegu ástandi og Stripplingar trufluðu landsleik í Póló.

Það vildi ég, að ég hefði áhyggjurnar ykkar Smile.


Aumingja bankinn

Fyrsta frétt Bylgjunnar í gærmorgun sagði frá 250 milljóna króna tapi færeyska bankans Eik, það sem af er þessu ári, en einhverjir Íslendingar eiga víst hlut í þessum banka. Í fréttinni kom einnig fram að á síðasta ári hefði bankinn grætt 4 milljarða.

Hvað er málið? Þeir eru þá ennþá með 3750 milljónir í plús. Á ég að vorkenna þeim?


Smá leiðrétting

Aftan á Fréttablaðinu í dag er aðeins minnst á hljómsveitina Á móti sól og Magna okkar. Það er allt gott og blessað, fyrir utan að í þessum stutta texta tekst blaðamönnum að koma fyrir tveimur villum, sem mig langar að leiðrétta hér og nú.

Í fyrsta lagi segir að platan sem við erum að vinna núna, og kemur út í nóvember, sé fyrsta plata okkar með frumsömdu efni síðan árið 2001. Það er ekki rétt. Platan Fiðrildi kom út sumarið 2003, og náði gullsölu, en sá árangur varð til þess að Skífan ákvað að rifta samningi við okkur (!). Síðan þá höfum við selt 30 þúsund plötur (ég veit að þetta kemur málinu ekkert við, en það er bara svo ferlega skemmtilegt að segja frá þessu, ég þreytist aldrei á því Wink). Aukinheldur má tína til að safnplatan okkar, Á móti sól í 10 ár sem kom út fyrir 2 árum, innihélt 3 ný lög.

Í öðru lagi segir að Magni hafi gengið til liðs við bandið 2001. Þar skeikar tveimur árum, hann kom á mölina haustið 1999.

Annars er þetta fín frétt Smile.


Golf

Golf er dálítið skemmtileg íþrótt. Það getur verið ljómandi gaman að labba einn golfhring með góðum félögum, skjóta nokkur vond högg og eitt og eitt gott, týna nokkrum boltum og spjalla saman um heima og geima á meðan. Ég hef farið einn og einn hring á hverju sumri undanfarin 10 ár c.a., semsagt aldrei tekið íþróttina föstum tökum. Frekar litið á golfið sem skemmtilega dægradvöl.

En þó golfið sé skemmtileg íþrótt verð ég að segja að það er með eindæmum hversu mikið af leiðinlegu fólki stundar hana! Ef þú fyllist einhvern daginn löngun til að hitta uppskrúfaða verðbréfasala í Lacoste treyjum og röndóttum buxum bera saman verð á sínum eigin golfsettum og ræða hugsanleg kaup á nýjum treyjum eða sólderum, eða illa krumpaða sólbrunna ellilífeyrisþega sem líta fyrirlitningaraugum á þig um leið og þeir ryðjast framfyrir og veifa fínu skírteinunum sínum, þá er óbrigðult ráð að trilla sér í næsta golfskála. Eins ef þú hefur gaman af að lesa reglur í boðhætti (borgið, lagið, farið, virðið) í bland við hver golfari skal, ekki er heimilt, óheimilt er með öllu o.s.frv... Sick.

Öll þessi uppskrúfaða vitleysa í kringum golfið gerir það að verkum að þetta er eitt mesta fábjánasport nútímans. Póló á ekki breik í þetta montsport! 

Ég á Dunlop golfsett sem ég keypti í Bónus á 7990 kr.- Ég á ekki golfskó, ekki tíglapeysu og ekki heldur röndóttar buxur. Og ég mun aldrei kaupa mér Lacoste bol.


Þegar þú brosir, þá brosum við

........segir í auglýsingu Iceland Express aftan á Fréttablaðinu í dag.

Það kann vel að vera að þetta sé satt og rétt, en hvað gerir Iceland Express þegar viðskiptavinurinn er óánægður? Ekki nokkurn skapaðan hlut í mínu tilviki a.m.k.......


Verstu textarnir

24 stundir birta í dag úttekt blaðsins á verstu textum íslenskrar poppsögu. Ég er svo heppinn að komast á listann, en texti minn við lagið Austur-Þýsk hafnar í 5. sæti.

Þetta er mikill heiður, ég er þarna í hópi með t.d. Stuðmönnum, Sálinni og Skítamóral, sem njóta þess vafasama heiðurs að eiga versta textann og einnig þann þriðja versta. Sá þriðji versti er reyndar alls ekki eftir Skímó, en þar er um að ræða gamla Deildarbungubræðraslagarann Stúlkan mín, sem er eitt af fyrstu lögunum sem Skímó gerði vinsælt.

Fleiri villur er að finna í þessari stuttu úttekt. T.d. er rangt farið með textabrot úr lagi Stuðmanna; Manstu ekki eftir mér, sem gerir það að verkum að textinn virkar kauðalegri en hann er.

Annars finnst mér það textabrot nokkuð skemmtilegt; Það verður fagnaður mikill vegna opnunar fluggrillsjoppunnar. Hér fer væntanlega fyrir brjóstið á dómnefndinni að opnunar sé látið ríma við sjoppunnar. Mér finnst það bara fyndið. Stuðmönnum hefur örugglega fundist það líka. Það er ekki eins og þeir séu einhverjir hlandaular þegar kemur að textagerð.

Þetta minnir mig á það þegar Dr. Gunni skammaði mig á prenti fyrir að láta ömmu ríma við ömmu; viagra fór illa í hana ömmu svo nú á ég ekki lengur neina ömmu.

Þetta fannst mér sniðugt á sínum tíma. Það er kannski ekki skrýtið þegar litið er til þess að uppáhaldsljóðið mitt er svona:

Diddi litli datt í dý

og meiddi sig í fótnum

Hann varð aldrei upp frá því

jafngóður í fótnum

Þessi snilld er held ég eftir Ragga Bjarna Smile.

Bubbi Morthens hefur látið svelta ríma við betla, lögum við gröfum og munstrið við hulstrið, svo fátt eitt sé nefnt úr hans smiðju. Ég sé ekki að það sé neitt betraGrin.

Greinarhöfundur segir íslenska dægurlagatexta marga hverja svo illa samrýmast reglum bragfræðinnar að einsýnt sé að dægurtextaskáld gefi sér varla meira en 10 mín. til að semja hvern og einn. Ég skal ekkert um það segja, en ég var örugglega lengur að hnoða saman textanum við Austur-þýzk. Það gerir stöðu mína enn verri, geri ég ráð fyrirSmile.

Austur-Þýzk er reyndar alls ekki versti texti sem ég hef samið, og langt frá því að vera versti texti sem við höfum gefið út á plötu. Textinn er gerður á þeim tíma sem austur-evrópskar dansmeyjar áttu sviðið á strípiklúbbum bæjarins. Textinn fjallar um mann sem er dreginn á tálar af einni slíkri, en hefur þegar á hólminn er komið ekki efni á að njóta hennar;

Sílíkonbrjóstin senda mér auga, fimmhundruðkallinn

- segir víst ekki neitt 

Annars er þetta gömul saga og ný, að dægurlagatextar þykja oftar en ekki heldur ómerkilegir þegar þeir eru mældir með reglustikum bragfræðinnar. Ég er sammála því, en hef bent á það, eins og svo margir aðrir, að dægurlagatextar lúta ekki sömu reglum. Þar skiptir hrynjandi og mýkt, þ.e. að orðin falli að laglínu, eðlilega meira máli en þegar um upplestur hefðbundinna ljóða er að ræða. Ég hef einnig bent á það, aðallega þegar ég hef fundið mig knúinn til að koma vini mínum Einari Bárðarsyni til varnar Wink, að það er ekki nóg að yrkja tæknilega rétt. Það verður líka að vera eitthvað í textanum sem grípur hlustandann. Best er að eitthvað í textanum hreyfi við manni, snerti jafnvel streng í brjósti, en næstbest er að textinn innihaldi einhver orð sem fólk grípur á lofti og "fær á heilann". Einar er snillingur í því, enda slagorðasmiður mikill. 

Það kom mér satt að segja á óvart að texti Einars við lagið Spenntur, sem við (ÁMS) berum ábyrgð á, skyldi ekki hafna á listanum. Hann er nefnilega einmitt þessari náttúru gæddur: Illa ortur (oft á tíðum sé ég ekki út, stund og staður binda á mig hnút), en jafnframt þannig að fólk man viðlagið við fyrstu hlustun og getur lagt orðin sér í munn.

Hversu oft hefur fólk t.d. ekki öskrað eftirfarandi, hvort upp í annað á sveitaböllum;

ég er miklu meir´en spenntur fyrir þér

mig langar bar´að vera einn með þér 

Það er ekki síst fyrir þetta textabrot sem lagið varð svo vinsælt sem raun ber vitni.

Auðvitað eru margir fleiri textar þess verðir að vera á listanum, en hafa af einhverjum sökum gleymst. T.d. finnst mér textinn við lagið Sekur alltaf dásamlegur;

Það er niðadimm nótt, nístingskuldi - úti kalt.

Land og Synir komast ekki heldur inn á listann með þetta textabrot;

Sjáðu bara mig, ég stend á eigin fótum

áhyggjulaus fyrir það sem koma skal

Bubbi Morthens á líka marga snilldina. T.d. þetta:

Mamma mín hún vinnur og vinnur.
Vinur hennar heitir Finnur.
Ég á engan pabba
hann fór út að labba
og hefur ekki sést síðan.
Það var þá sem mamma fékk kvíðann.

Og svo mætti lengi telja Smile


Svíar

Veitingastaður í Stokkhólmi, sem ég var að skoða á netinu skýrir opnunartíma sinn svona:

Mån-Fre: 10-21, fredagar 10-22
Lördag: 10-22
Söndag: 10-22

Bara Svíar og norðmenn ná að gera einfalda hluti svo flóknaSmile

 
  
  

Ikea

Setti saman 2 Ikea hillur í kvöld. Eina sem gekk af var einn trétappi. Ég er sáttur.

Íslenska krónan

Ég leyfi mér að birta hér skemmtilega grein sem Árni Páll Árnason skrifaði í Fréttablaðið á mánudaginn var. Hér er "yfirburðum" okkar Íslendinga lýst á dálítið annan hátt en við eigum að venjast:

 

Við heyrum oft af niðurstöðum samanburðarkannana sem sýna góða stöðu Íslands í samanburði við önnur lönd. Þrátt fyrir að við höfum oft síðustu ár mælst með lélega útkomu í hagstjórn – m.a.s. talist lélegri á því sviði en í karlafótbolta – hafa ýmsir aðrir þættir verið okkur hliðhollir og gert að verkum að staða okkar hefur verið með því besta sem gerist.

En það er ekki síður mikilvægt að skoða þann samanburð sem er okkur óhagstæður. Þannig háttar til að í danska viðskiptablaðinu Børsen var nýverið athyglisverð frétt um þróun íslensku krónunnar. Þar kom fram að krónan hefði fallið svo mjög að helst væri að leita samanburðar meðal þjóða sem við erum ekki vön að bera okkur saman við – og dygði það þó ekki til. Þannig hefur nýgíneíska cedíið fallið um 16,73% gagnvart danskri krónu frá áramótum og svasílenska línangeníið hefur fylgt suður­afríska randinu og fallið um 20,24%. Íslenska krónan hefur hins vegar fallið vel yfir 30% gagnvart danskri krónu á sama tíma.

En kannski er ekki ástæða til að örvænta. Í greininni kom fram að krónan hefur ekki reynst jafn veik og túrkmeníska manatið, en það hefur fallið um 65,78%. Þar er sem kunnugt er Gúrbangúlí Berdímúhammedoff tekinn við stjórnartaumunum í kjölfar fráfalls Nýasofs Túrmenbasha í fyrra, en spilling og flokksræði einkenna sem fyrr allt þjóðlífið. Neðst á listanum í Børsen yfir veika gjaldmiðla er svo simbabveski dollarinn, sem fallið hefur um 100 prósent. Allir þekkja þær stjórnarfarslegu hörmungar sem gengið hafa yfir hina simbabvesku þjóð undanfarin ár og skýra hrun þess samfélags.

Þetta hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um í hvaða hópi Ísland er þegar litið er til gengisstöðugleika. Við sjáum af þessum samanburði hvað ógæfusömustu þjóðir heims, sem lúta dyntum sjúkra einræðisherra, þurfa að sætta sig við. Metnaðarfull þjóð sem vill búa við góðan og stöðugan kaupmátt og búa alþjóðavæddum fyrirtækjum fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi hlýtur að ætla sér aðra efnahagsumgjörð og betri. 


Hvetur blaðamenn til betra máls

Þessi fyrirsögn er tekin af Vísi.is, en sú annars ágæta vefsíða birti í gær frétt um 14 ára stúlku sem sendi vefmiðlinum bréf þar sem hún hvetur fréttamenn miðilsins til að vanda mál sitt betur. Einhver ágætur fréttamaður, sem líklega hefur ekki tekið sneiðina til sín, tók að sér að skrifa fréttina. Þar með talið fyrirsögnina!

Hvetur blaðamenn til betra máls Sick


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband