Færsluflokkur: Bloggar

Um auðmýkt og hroka

Það eru á margan hátt, eða hafa a.m.k. verið, ákveðin forréttindi að vera Íslendingur. Hér er fólkið duglegt, vatnið tært, náttúran falleg og full af auðlindum, eitruð skordýr, krókódílar, eiturslöngur og þess háttar víðsfjarri - og spilling vart mælanleg. Samkvæmt bestu alþjóðlegu mælitækjum!

En svo hrundi spilaborgin.

Svo er að sjá sem örfáum vesalingum hafi tekist að koma þessari harðduglegu þjóð á vonarvöl, með dyggum stuðningi yfirvalda undangenginna ára. Og engu virðist í raun um að kenna nema hrokanum.

Hroka þeirra sem leyfðu sér að afhenda vinum sínum bankana á silfurfati fyrir nokkrum árum.

Hroka þeirra sem flugu svo hátt að athygli vakti um allan heim - og höfðu að engu varnaðarorð sér fróðari manna. Gerðu raunar að þeim gys.

Hroka þeirra sem nú sitja sem fastast og telja enga betur til þess fallna að bjarga ástandinu en þá sjálfa. Þrátt fyrir stjarnfræðilegt vanhæfi, sem ótal margir mér miklu fróðari menn hafa bent á með svo skýrum hætti að engin leið er að draga fjöður yfir. Nema maður sé blindaður af hroka.

Vinur minn hefur ansi gott lífsmottó, sem ég vildi óska að fleiri tileinkuðu sér. Það hljóðar svo: Það getur stundum verið viturlegt að þykjast vera heimskari en maður er, en það er alltaf heimskulegt að þykjast vera vitrari en maður er.

Ég held einmitt að auðmýkt af þessu tagi sé það sem suma Íslendinga skorti tilfinnanlega.

Það þarf auðmýkt til að viðurkenna að aðrir kunni að vita betur en maður sjálfur. Þessa auðmýkt hefðu þeir þurft að hafa til að bera sem fengu æ ofan í æ aðvaranir frá sérfræðingum, erlendum sem innlendum, um það að íslenska bankakerfið væri vaxið þjóðinni yfir höfuð - og gott betur en það - og gæti valdið okkur ómældu tjóni.

Það þarf auðmýkt til að fara með fé. A.m.k. þegar það er fremur mælt í milljörðum en aurum. Þá auðmýkt virðast mér þeir menn sem hafa með auðveldum og skjótum hætti komist í álnir síður hafa til að bera, en menn sem hafa unnið fyrir því á heiðarlegan hátt - með tilheyrandi dugnaði og elju.

Það þarf auðmýkt til að viðurkenna að maður hafi gert mistök.

Það þarf auðmýkt til að stíga til hliðar og leita hjálpar sér hæfari manna.

Ég lýsi eftir slíkri auðmýkt. 


Hvert stefnum við?

Framganga stjórnvalda eftir að kreppan knúði dyra er ekki beysin. Í raun grafalvarleg. Það er t.d. sorglegt að heyra lýsingar á því hvernig viðskiptasambönd sem menn hafa eytt ómældum tíma og peningum í að byggja upp, í fleiri ár, eru nú að engu orðin. Forsvarsmenn fyrirtækja sem voru að manni skilst í örum vexti, Össurar og Marels svo dæmi séu tekin, lýsa ástandinu svona. Það er þyngra en tárum taki. Þrátt fyrir að Geir Haarde haldi öðru fram er það alveg klárt að orðspor Íslands hefur beðið hnekki.

Icesave deilan ein og sér er t.d. ekkert annað en harmleikur. Ég ætla ekki að þykjast vita hvað snýr upp eða niður í efnahagsmálum, en ég hlýt þó að taka mark á Jóni Daníelssyni og fleiri mér gáfaðri mönnum sem segja að þann skrípaleik hefði átt að vera búið að stöðva. En það var því miður ekki gert og því þurfum við að horfast í augu við það að þennan skít þurfum við að hreinsa upp. Við getum ekki ætlast til þess að aðrir þjóðir geri það fyrir okkur. En eins og einhver sagði þá erum við oft eins og litla, freka barnið sem vill bara þiggja - ekki gefa. 

Án þess að ég ætli að úttala mig um tæknileg atriði, sem ég hef ekki hundsvit á, þá get ég ekki með nokkru móti séð hvernig við ætluðum að sleppa við að borga Englendingum og Hollendingum þær tryggingar sem Icesave deilan snerist að stærstum hluta um. EES samningurinn kveður á um að sparifé almennings á svæðinu sé tryggt, upp að ákveðnu marki, og úr því að við kusum að vera með bankarekstur á svæðinu hljótum við að þurfa að lúta þeim reglum sem þar gilda. Ég fæ bara ekki með nokkru móti séð hvernig annað getur gengið upp. Hvers vegna við kusum að hleypa öllu í bál og brand vegna einhvers sem er svo augljóst fæ ég ekki skilið. Hefði tíma ráðamanna, þessar sex eða sjö vikur sem deilan hefur staðið, ekki verið betur varið í eitthvað annað?

Það hefði t.d. verið hægt að eyða tímanum í að koma með einhver raunveruleg ráð til að bjarga því fólki sem á í greiðsluerfiðleikum. Það vantar skýrar línur um það hvað skuli gera. Ekki bara til að fleyta heimilunum í landinu í gegnum yfirvofandi erfiðleika vegna verðbólgu, verðbóta og vaxta. Það vantar einnig áætlun um það hvernig við ætlum að taka á þeim vanda sem að okkur steðjar. Ætlum við að fara í gömlu kreppuhjólförin sem mér sýnist stefna í, þ.e að segja upp skúringakonum og hækka álögur á almenning, eða ætlum við að hugsa málin upp á nýtt?

Ég kalla eftir nýrri hugmyndafræði. Ekki bara hjá ríkisstjórninni heldur líka hjá sveitastjórnum. Reynið nú að finna upp á einhverjum öðrum ráðum en að hækka skatta og skera niður þjónustu!

Við hin getum líka lagt okkar af mörkum. Leggjum nú höfuðin í bleyti og látum okkur detta einhver snjallræði í hug. Ef einhver Hvergerðingur lumar á góðri hugmynd bið ég hann að senda hana á bæjarstjórann. Aldís tekur vel á móti öllum og verður ábyggilega þakklát ef hún fær góða hugmynd inn á borð til sín. Þið hin getið sent á ykkar sveitarstjóra, nú eða einhvern úr þingliðinu. Við búum við gott aðgengi að ráðamönnum. Nýtum okkur það.

Svo er alltaf hægt að senda póstinn bara á Bjarna Harðar, hann er góður í að koma skilaboðum áleiðis Smile


Kæra ríkisstjórn

Guð blessi ykkur fyrir að hafa komið mér til bjargar með glæsilegum aðgerðapakka á föstudaginn.

Ég hlakka til að fá alla þá gríðarlegu upphæð sem ég fæ í barnabætur hér eftir greidda út um hver mánaðamót . Það mun algjörlega bjarga mér. Ég veit að það er alveg ferlegt fyrir ykkur að geta ekki lengur haldið peningunum mínum í 3 mánuði og safnað vöxtum á þá, en svona er nú góðvild ykkar. Kærar þakkir.

Það er líka frábært að barnabæturnar verði ekki teknar beint upp í opinber gjöld. Það munar heilmiklu fyrir mig að geta borgað opinberu gjöldin í bankanum um leið og ég skipti ávísuninni með barnabótunum. Það er að vísu dálítið meira vesen fyrir mig, en ég veit að þið meinið vel. Takk fyrir.

Ég þakka ykkur líka kærlega fyrir að græja nýja vísitölu þannig að verðtryggða lánið mitt, sem hefur hækkað talsvert af því að ég slysaðist til að staðgreiða flatskjá með peningum sem ég var búinn að safna, lækkar tímabundið. Það er að segja það mun ekki hækka svo svakalega eins og ella hefði orðið, eins og þið orðið það sjálf. Að vísu mun höfuðstóllinn hækka, þannig að þegar upp verður staðið mun ég borga meira af því en ella hefði orðið. Og að sjálfsögðu mun ég borga margfalt meira af því en ég hefði gert ef stýrivextir og verðbólga væru hér eins og í nágrannalöndum okkar. En það er önnur saga - og í raun algjörlega óviðkomandi þessu. Kærar þakkir.

Ég þakka ykkur líka fyrir að sjá til þess að ég geti með litlum tilkostnaði selt Range Roverinn minn, sem ég "keypti" allan á gengistryggðu láni, úr landi. Það kemur til með að hjálpa mér alveg svakalega. Ég reyndar man það núna að ég á ekki Range Rover og ekki gengistryggt bílalán heldur, en ég veit að þetta hjálpar vinum ykkar í elítunni sem lentu í því að kaupa Range Rover og Land Cruiser án þess að eiga fyrir þeim. Ég er þess fullviss að þessi ráðstöfun ykkar mun bjarga mörgum heimilum. Fyrir það ber að þakka.

Ég reyndar man það líka núna að ég á ekki í neinum sérstökum vandræðum þannig að ég get því miður ekki stokkið á þetta kostaboð ykkar, en samt sem áður ber að þakka fyrir það sem vel er gert.

Guði sé lof fyrir ykkur og Guð blessi Ísland.


Vinsamlegast nefnið eitt atriði....

...sem Geir Haarde hefur gert vel, eftir að kreppan skall á. Ég man ekki eftir neinu........

Ummæli dagsins!

....við erum flokkur sem er fljótur að bregðast við.

Góða helgi Smile


mbl.is Skipuð verði Evrópunefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Players á föstudaginn

Á móti sól verður á Players á föstudaginn. Gott að vita af því Smile

Euroshopper

Ég fylgdist með strákunum í 10. flokki Hamars spila körfubolta um helgina. Það er reyndar yfirlýst skoðun mín að það sé alveg á mörkunum að körfubolti teljist íþróttagrein, en það breytir því ekki að það má hafa gaman að því að fylgjast með honumWink. Sérstaklega þessum efnilegu strákum.

Þar sem ég hef fengið það hlutverk hjá Lárusi formanni, sem á það sammerkt með Hemma Gunn að manni dettur ekki í hug að segja nei við hann Smile, að halda úti bloggsíðu fyrir þessa körfustráka þá greip ég myndavélina með mér og þar sem hún var náttúrlega batteríslaus þegar til átti að taka skaust ég í Bónus og keypti pakka af Euroshopper rafhlöðum. Það er skemmst frá því að segja að þær fara í flokk með saltlausu saltstöngunum, óæta snakkinu og ósteikjanlegu frönsku kartöflunum í þessari undarlegu seríu. Ég var búinn að taka sex myndir þegar alkaline batteríin sögðu stopp Grin.

Evrópusinni eins og ég ætti kannski bara að þegja yfir þessu? 


Lítill bær með stórt hjarta

Það er svo sannarlega gott að búa í Hveragerði. Samheldni bæjarbúa er einstök. Það sannaðist heldur betur í gær á styrktartónleikum sem starfsfólk grunnskólans, í samvinnu við Hljómlistarfélag Hveragerðis, stóð fyrir á Hótel Örk. Fullt var út úr dyrum og stemmningin mögnuð.

Við félagarnir í Hljómlistarfélaginu erum einfaldlega orðlausir yfir velvilja allra þeirra sem komu að þessu verkefni; hljómlistarfólkinu, Hótel Örk, Hjálparsveitinni o.s.frv.....listinn er endalaus.

Takk fyrir frábæra kvöldstund Smile.


Mikið hafði ég það gott

Það er alltaf verið að segja mér að ég hafi haft það svo óskaplega gott í góðærinu að ég geti varla leyft mér að kvarta þó að harðni nú á dalnum um stundarsakir. Mér hefur m.a. verið sagt trekk í trekk að gengi krónunnar hafi verið svo fáránlega hátt að ég hafi stórgrætt á ástandinu. Vitlaus sem ég er trúði ég þessu gagnrýnislaust í smástund.

bilde.jpg
Við nánari skoðun komst ég síðan að því að ég gat nú varla kvittað upp á það. Ef við tökum krónuna fyrst og hið meinta allt of háa gengi hennar þá má segja að gengi hennar hafi verið óeðlilega hátt - miðað við hið raunverulega ástand. En það var ekki óvenjulega hátt. Á því er reginmunur.

Eftir myntbreytinguna 1981 var gengi íslensku krónunnar hið sama og þeirrar dönsku. Fljótlega varð ljóst að við gætum ekki haldið í við hana og 5 árum síðar var danska krónan komin í 5-6 krónur og 10 árum síðar, í kringum 1990, var hún komin í 10 krónur. Síðan þá hefur hún verið á því rólinu; sveiflast niður í 9 krónur og upp í 12. Það er nota bene sama gengi og var á henni í hinu mikla góðæri, þannig að ég get alls ekki sagt að styrking krónunnar hafi verið óvenjulega mikil. En hvort styrkingin var óeðlilega mikil er svo aftur allt annað mál. Það held ég að sé alveg rétt, en það kemur bara meginhluta þjóðarinnar hreint ekkert við.

Hið háa vaxtastig sem Seðlabankinn hefur boðið okkur upp á gerði það t.d. að verkum að erlendir fjárfestar sóttu mjög í hin svokölluðu jöklabréf. Við það styrktist gengi krónunnar umfram það sem það hefði annars verið, en það var samt ennþá á bilinu 10-12 krónur gagnvart danskri krónu þannig að það var ekkert óvenjulegt við það - fyrir allt venjulegt fólk.

Þessi sömu jöklabréf munu síðan nær örugglega ganga af krónunni, eða því sem eftir er af henni, dauðri um leið og hún verður sett á flot aftur. Þá held ég að langflestir fjárfestar muni drífa sig í að koma sparifé sínu sem lengst frá Íslandi. Og mun þá einu gilda hvort hér verða 12 eða 18% stýrivextir. Ég er ekki sérfræðingur í hagfræði, því fer fjarri, en ef þetta gengur eftir - sem margir sérfræðingur spá raunar - þá mun endanlega verða ljóst að vaxtafyllerí Seðlabankans undanfarin ár hefur ekki gert eitt einasta gagn.

davi_oddsson_og_ketill_larsen.jpg 

Ekki misskilja mig, ég hef vissulega haft það ágætt, en ég er ekkert viss um að ég hefði haft það neitt verra þó þetta blessaða góðæri hefði ekki dunið á mér. 

bjor.jpgLangstærstu breytinguna á mínum högum má reyndar rekja beint til góðærisins, en sú breyting er ekki til batnaðar. Ég flutti nefnilega milli byggðarlaga í góðærinu og meðan ég sat rólegur í gamla húsinu mínu ruddust bankarnir inn á fasteignamarkaðinn, með góðfúslegu leyfi þáverandi ríkisstjórnar, og á einni nóttu snarhækkaði húsnæðisverð. Húsið sem ég seldi hækkaði auðvitað rétt eins og húsið sem ég keypti, en þenslan varð til þess að viðbótarlánið sem ég þurfti að taka fyrir mismuninum á verði húsanna varð hærra í krónum talið en ella hefði orðið. Nú hafa bankarnir hrökklast út af fasteignamarkaði og skilja eftir sig sviðna jörð - þar sem annarsstaðar, sem m.a. kristallast í því að verðgildi þessarar nýju eignar minnar rýrnar nú óðum.  

Fasteignalánið mitt er á lágum vöxtum og ég sýndi þá afturhaldssemi, eða framsýni, að hafa það ekki í erlendri mynt, en samt sem áður hefur það nú snarhækkað vegna blessaðrar verðtryggingarinnar, sem aldrei virðist vera rétti tíminn til að afnema. Það er nefnilega svo vont fyrir sparifjáreigendur. Auðvitað er það rétt, en hvernig kemur verðtryggingin við meirihluta þjóðarinnar? Ég leyfi mér að áætla að flest fólk á mínum aldri, og jafnvel flestir á aldrinum 20-50 ára, eigi fremur skuldir en sparifé. Ég á hvorttveggja, en skuldirnar eru talsvert hærri en spariféð. Með hækkun stýrivaxta og verðbólgu horfi ég líklega á endanum upp á það að hækkunin á húsnæðisláninu mínu verði meiri en sem nemur inneigninni á sparireikningnum mínum. 

baukur.jpgÉg verð að gjöra svo vel að kyngja því vegna þess að ég tilheyri meirihlutanum. Hinum þögla og þæga íslenska meirihluta sem lætur endalaust allt yfir sig ganga. Meirihlutanum sem er líka búinn að læra það að hversu óánægð sem við erum þá mun aldrei nokkur ráðamaður á Íslandi axla ábyrgð á sínum gjörðum. Meirihlutanum sem alltaf þarf að taka tillit til einhvers sem ekki kemur honum við.

Tökum umræðuna um ESB sem dæmi. Ein háværustu mótmælin gegn ESB-aðild hafa ávallt komið frá útgerðarmönnum. Það að ganga í ESB þýðir víst nefnilega að við missum yfirráð yfir fiskimiðunum okkar. Við? Höfum "við" einhver yfirráð yfir auðlindum hafsins? Ekki ég allavega! Ég veit ekki betur en það sé löngu búið að afhenda einhverjum smákóngum full yfirráð yfir þeim. Afhverju á ég frekar að vilja að þeir sem veiða fiskinn við Íslandsstrendur og sigla með hann beinustu leið til útlanda á milli þess sem þeir braska með kvótann séu frá Samherja á Akureyri en frá t.d. Spáni? Ég sé bara ekki að það skipti mig nokkru einasta máli. Aukinheldur held ég að það sé engan veginn víst að fiskveiðistefna ESB muni komi íslenskum sægreifum eins illa og þeir vilja vera að láta. Meðan það er ekki skoðað í fullri alvöru er allavega ekki hægt að fullyrða nokkuð um það með neinni vissu.

Á evrusvæðinu eru gegnumgangandi 4-5% vextir og verðbólga á svipuðum slóðum. Verðtrygging lána er ekki fyrir hendi þannig að húsnæðislán lækka þegar borgað er af þeim - öfugt við það sem þekkist hér á landi. Samt má ég ekki tala um að ég vilji athuga hvort það gæti verið álitlegur kostur fyrir mig og aðra Íslendinga að tilheyra slíku hagkerfi án þess að vera uppnefndur lygari, draumóramaður, trúboði, lýðskrumari eða blindur kjáni - svo ég vitni nú einungis í Bjarna Harðarson alþingismann.

Bjarni og hans nótar halda því statt og stöðugt fram að ástandið í ESB sé hrikalegt og við munum fara beina leið til helvítis ef við svo mikið sem ræðum þann möguleika að ganga í ESB. Þeir bregðast ókvæða við ef einhver svo mikið sem minnist á þann möguleika. Meðan "umræðan" um ESB er á þeim nótum, komumst við hvorki lönd né strönd.

Sérfræðingar Bjarna hafa t.d. slegið því fram í feitletruðum fyrirsögnum á sínum síðum að evran hafi fallið svo og svo mikið gagnvart bandaríkjadollar á síðustu dögum að jafnvel hefur verið talað um blóðuga daga í kauphöllum Evrópu í því sambandi.

En hefur þetta meinta afhroð sem evran hefur beðið haft áhrif á gengi evru gagnvart íslensku krónunni? Nei - aldeilis ekki. Staðreyndin er nefnilega sú að jafnvel þó evran og einhverjir aðrir gjaldmiðlar kunni að taka hressilegar dýfur þá komast fáir, ef nokkrir, með tærnar þar sem íslenska krónan hefur hælana þegar kemur að frjálsu falli.

Sömu sérfræðingar hafa einnig slegið því upp í feitletruðum fyrirsögnum að samdráttur næstu missera verði mestur á evrusvæðinu. Máli sínu til stuðnings hafa þessir sérfræðingar bent á að kollegar þeirra í sérfræðingastétt geri ráð fyrir því að samdráttur í þjóðarframleiðslu verði allt að 1,5% á evrusvæðinu á næstu misserum!

Má ég til samanburðar benda á það að gert er ráð fyrir því að þjóðarframleiðsla hér á landi dragist saman um allt að 10% á næstunni! Eigum við að ræða þetta eitthvað frekar?

Nei. Við skulum frekar ræða það hvað við höfðum það öll óskaplega gott í góðærinu og reyna smátt og smátt að telja okkur trú um að flatskjáirnir sem við freistuðumst til að kaupa séu meginástæða þess að hér er allt í ævintýralegri steik.

Vill einhver skipta á flís og bjálka? 


ESB

Enn og aftur er umræðan um inngöngu Íslands í ESB komin út í skurð. Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja þannig að ég byrja á Geir Haarde. Hann er yfirleitt frekar ráðvilltur líka.

Hann segist alltaf hafa verið tilbúinn til að skoða Evrópumálin með opnum huga. Það er nefnilega það! Fáir hafa staðið jafn fast á ESB-bremsunni og Geir og hans helstu samstarfsmenn; Davíð, Björn o.fl. Síðan kemur Þorgerður Katrín fram og lýsir þeirri skoðun sinni að skynsamlegt sé að fara að huga að ESB-málum í fullri alvöru og þá segir Geir að fullkominn einhugur sé í forystu flokksins um þau mál! Er nema von að maður klóri sér í hausnum þegar þessi maður tekur til máls???

Ég er, eins og áður hefur komið fram, alinn upp á sósíalísku heimili - jafnvel kommúnistísku á köflum. Þegar umræðan um ESB og EES fór af stað fyrir alvöru, fyrir 15-20 árum, voru foreldrar mínir líkt og flestir kommúnistar eins og snúið roð í hund. Töldu aðild að slíkum fyrirbærum aðför að sjálfstæði þjóðarinnar. Ég var sammála.

Eftir því sem árin liðu og skynfærin efldust hef ég þó linast í þeirri afstöðu minni. Ég sá fljótlega að ávinningurinn af EES samningnum var umtalsverður og fyrir nokkrum árum komst ég að þeirri niðurstöðu að líklega væri skynsamlegast fyrir okkur að stíga skrefið til fulls og ganga í ESB. Hvort sú afstaða mín er rétt eða vitlaus ætli ég ekkert að segja um, en þetta er altént sú skoðun sem ég hef myndað mér. Einn og óstuddur. Það ástand sem nú ríkir hefur orðið til þess að styrkja mig enn frekar í þeirri trú að betur væri fyrir okkur komið innan ESB en utan. Ég er þess a.m.k. fullviss að staða okkar væri ekki eins slæm og raun ber vitni hefðum við verið komin í ESB og búin að taka upp evru þegar ósköpin dundu yfir.  

Ég er auðvitað líka sammála því sem margir hafa bent á, að það að ganga í ESB við þær ömurlegu aðstæður sem við höfum nú komið okkur í leysir ekki þann vanda sem við höfum skapað okkur. Það held ég að allir sjái, og ég man ekki eftir því að málsmetandi menn hafi haldið því fram að það myndi laga ástandið í grænum hvelli. Jafnvel þó sumir haldi öðru fram. 

Hvernig fyrir okkur verður komið í framtíðinni getur aftur á móti enginn sagt fyrir um með vissu. En það er alveg ljóst að það er hreint og beint réttlætismál fyrir almenning í landinu að evrópumálin verði rædd í fúlustu alvöru. Við höfum sýnt það á síðustu 64 árum að við erum engan veginn fullfær um að bera ábyrgð á okkar lífi og því ættum við að skoða alla þá utanaðkomandi aðstoð sem okkur stendur til boða með opnum huga. Hvort sem sú aðstoð kemur frá Brussel eða einhversstaðar annarsstaðar. Það er auðvitað glannalegt að segja svona en grínlaust þá höfum við ekki farið vel með það vald sem okkur var falið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband