Færsluflokkur: Bloggar
Valgerður Sverrisdóttir veltir á bloggsíðu sinni upp þeirri athyglisverðu spurningu hvort stýrivaxtahækkun Seðlabankans í dag sé aðferð Davíðs Oddssonar til að draga athyglina frá hinni óþægilegu umræðu um Icesave. Svonefnd smjörklípuaðferð.
Ég veit auðvitað ekkert um þetta mál, enda talsvert langt síðan ég hætti að botna upp né niður í þessari kreppu, en það sem mér finnst merkilegt er að Vísir.is er að ég held eini fjölmiðillinn sem hefur greint frá þessum ummælum Valgerðar. Það er allavega ekki stafkrók um þetta að finna á hinum netmiðlunum.
Ég kann ekkert að gera svona flotta linka eins og sumir, en frétt Vísis er á eftirfarandi vefslóð:
http://www.visir.is/article/20081028/FRETTIR01/766546010
Bloggar | 28.10.2008 | 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mér skilst að bankarnir séu nú að leggja lokahönd á mat sitt á því hversu mikið af sparifé fólks hefur gufað upp í Sjóði 9, Peningabréfum og hvað þetta nú allt heitir. Ég heyrði því fleygt í dag að yfirleitt væri um að ræða 30-45% tap. Sel það ekki dýrara en ég keypti það. Það er auðvitað drullufúlt, en samt sem áður býst ég við að einhverjum sé létt því óvissan um afdrif þessara aura hefur verið algjör og eflaust hafa einhverjir búist við hinu versta.
Segjum að þetta verði niðurstaðan og sparifjáreigendur fái 55-70% peninga sinna til baka. Gott og vel. En hvað svo? Ef ég þekki Íslendinga rétt þá verður þess ekki langt að bíða að sama vitleysan verði komin hér í gang aftur. Bankarnir verða afhentir "réttum aðilum" á silfurfati og menn byrja að græða á tá og fingri á nýjan leik.
Í ljósi þess geri ég það að tillögu minni að engar skuldir gömlu bankanna verði afskrifaðar, heldur verði þess gætt að þegar þeir verða aftur orðnir að spikfeitum spilaborgum borgi þeir til baka hverja krónu sem þeir hafa nú sólundað af sparifé almennings.
Við þekkjum það mætavel að bankinn fær alltaf sitt með einum eða öðrum hætti, því ætti það ekki líka að gilda um almenning?
Bloggar | 28.10.2008 | 18:27 (breytt kl. 18:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég er eins og flestir Íslendingar orðinn þreyttur á krepputalinu sem allt umlykur þessa dagana og vil bara halda áfram með lífið. Þetta vita þeir sem landinu stjórna þannig að þeir draga málið á langinn, neita sök og - halda í raun uppi málþófi sumir - vitandi það að við nennum ekki að elta ólar við þessi leiðindi mikið lengur. Verðum allavega búin að gleyma öllu um það hver bar ábyrgð á hverju þegar kemur að næstu kosningum. Svo mikið er víst.
Skoðanakönnunin sem birt var um helgina sýnir t.d. að afstaða fólks til stjórnmálaflokkanna hefur ekki breyst svo ýkja mikið, þrátt fyrir fárviðrið í þjóðfélaginu, í það minnsta ekki eins mikið og maður skyldi ætla þegar annað eins gengur á. Annar ríkisstjórnarflokkanna bætir t.d. við sig fylgi!
Samfylkingin bætir við sig, það er líkast til fyrst og fremst vegna þess mikla stuðnings sem ESB-aðild nýtur þessa dagana. Ég vona allavega að fólk sé ekki að verðlauna flokkinn fyrir vasklega framgöngu í ríkisstjórninni. Framganga flokksins þar hefur verið í sannleika sagt ekki verið til að hrópa húrra yfir. Allt kapp var lagt á að fá að vera með. Málefnin, þ.m.t. inngangan í ESB, lögð til hliðar.
Sofandaháttur Samfylkingarinnar er að hluta til þess valdandi að svo er fyrir okkur komið sem raun ber vitni. Gleymum því ekki. En ég bind þó vonir við það að Samfylkingin hafi kjark og þor til þess að rjúfa þing og ganga til kosninga, og koma síðan að stjórn landsmála á sínum forsendum. Ekki sem hækja og hjálpargagn.
En það sem er eiginlega allra merkilegast við þessa könnun er það að tveir af þremur stjórnarandstöðuflokkum bæta ekki við sig fylgi, þrátt fyrir að ríkisstjórnin sé með allt niðrum sig. Frjálslyndir myndu þurrkast út og framsókn fengi 6%, sem er sama og ekki neitt.
Ég lýsti þeirri skoðun minni í upphafi kreppunnar að mér þætti ólíklegt að kjósendur settu traust sitt á Frjálslynda flokkinn í aðstæðum sem þessum, þannig að þessi niðurstaða kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Sá flokkur er einmitt flokkur sem getur þrifist þegar ekkert ýkja alvarlegt bjátar á, en þegar virkileg vá steðjar að þá leita kjósendur annað. Ég fann þetta á sjálfum mér fyrstu dagana eftir fall bankanna. Þá drakk ég í mig allar fréttir og hlustaði með andakt á pólitíkusana, en mér var hjartanlega sama um hvað Guðjón Arnar og Magnús Þór höfðu fram að færa.
Svipaða sögu er að segja af framsóknarflokknum. Þar á bæ hafa þeir hæst um þessar mundir Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson og það er flokknum hreint ekki til framdráttar. Guðni er vænsti maður en það virðist alveg morgunljóst að þjóðin setur traust sitt ekki á hann á stundum sem þessum. Ekki frekar en á Guðjón Arnar. Kjósendur virðast heldur ekki alveg vera búnir að gleyma því að framsóknarflokkurinn á ansi stóran þátt í því hvernig fyrir okkur er komið. Þó Guðni sé búinn að steingleyma því.
Þegar við bætist að Bjarni Harðarson er á góðri leið með að verða nokkurskonar Magnús Þór þeirra framsóknarmanna, sífellt gjammandi einhverja dæmalausa vitleysu, þá er ekki við miklu að búast. Skemmst er að minnast þess að fyrir fáeinum dögum vildi Bjarni meina að eitthvað "utangarðslið" í flokknum væri að skemma allt fyrir honum og Guðna með því að krefjast þess að setja umræðu um aðild að ESB á dagskrá. Nú hefur komið í ljós að meirihluti flokksmanna vill umræður um aðild að ESB og fremst í flokki þess "utangarðsliðs", sem Bjarni vill n.b. losna við úr flokknum, er sjálf Valgerður Sverrisdóttir! Flokknum væri líklega hollast að biðja Valgerði að taka við og biðja Bjarna og Guðna að halda sig til hlés. A.m.k. Bjarna.
Vinstri-grænir bæta auðvitað við sig miklu fylgi, eiga það enda skilið. Flokkurinn nýtur þess að Steingrímur J. og Ögmundur vöruðu á sínum tíma báðir sterklega við afleiðingum þenslunnar og ofvexti bankanna. Við gleymum því þegar kreppir svo duglega að hversu afturhaldssamur og einstrengingslegur Steingrímur J. getur verið, en sjáum þess í stað í honum sterkan leiðtoga. Steingrímur hefur líka sinnt frændum okkar í Noregi vel í kreppunni og það líkar okkur afar vel, enda norðmenn eina frændþjóðin sem hefur virkilega lagt sig fram um að hjálpa okkur.
Það má samt aldrei gleyma því að Vinstri-grænir verða áfram vinstri-grænir, með öllu sem því fylgir - og umfram allt verða Norðmenn alltaf Norðmenn! Og það er ekkert sérstakt, trúiði mér.
Vissulega getum við margt lært af Norðmönnum. Þeir ganga og hjóla mikið, borða ekki Cocoa Puffs (af því að það fæst ekki í Noregi) og fara snemma að sofa. Norðmenn eru líka tiltölulega lausir við dramb, snobb og yfirlæti og þar mættum við svo sannarlega taka þá okkur til fyrirmyndar. En þeir eru samt Norðmenn. Þar er verðlag hátt, skattar háir og ekki þverfótað fyrir reglum. Misgáfulegum. Þar var t.d. einu sinni bannað að selja tvöfaldan vodka á börum, en allt í lagi að selja tvo einfalda .
Norðmenn eiga fáránlega verðmætar auðlindir. Olíusjóður þeirra er t.a.m. svo digur að bara ársvextirnir af honum í meðalári færu langt með að bjarga íslenska ríkinu úr þeim ógöngum sem það hefur nú ratað í - undir styrkri leiðsögn Geirs Haarde; sem er einmitt norskur. Samt sem áður er opinberum byggingum illa viðhaldið, vegakerfið er hörmulegt og löggæslan er máttlaus. Svo máttlaus raunar að hin vinalega sveitaborg Osló er nú orðin miðstöð heróínneytenda á norðurlöndum! Og afhverju er ástandið svona, þrátt fyrir að allt þetta megi bæta svo um munar með brotabroti af olíusjóðnum? Jú, af því að Norðmenn tíma ekki að taka úr sjóðnum! Og afhverju er það? Jú, af því að þeir eru Norðmenn.
Ekki misskilja mig. Norðmenn eru virkilega góðir gæjar, Vinstri-grænir líka. En of mikið af þeim er bara einfaldlega of mikið. Fyrir minn smekk a.m.k. .
Þá er maður búinn að greina þessa skoðanakönnun, eins og sönnum besserwizzer sæmir.
Góðar stundir
Bloggar | 28.10.2008 | 01:00 (breytt kl. 01:14) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nú er ég kannski að fara með fleipur, en mér skilst að fólk sem á í vandræðum vegna þess að það freistaðist til að setja peningana sína inn í þá sjóði bankanna sem ekki eru tryggðir; peningabréf Landsbankans, sjóð 9 hjá Glitni o.s.frv., fái heldur óblíðar móttökur í bönkunum þessa dagana.
Þessu fólki er boðið upp á yfirdráttarlán á 20% vöxtum, eða hvað það nú er, meðan verið er að komast til botns í þeirra málum!
Maður fer semsagt með allan peninginn sinn í bankann, bankinn sólundar honum í einhverja bölvaða vitleysu og svo þegar mann vantar pening þá býður bankinn manni lán á okurvöxtum, svona rétt á meðan þeir eru að fá það staðfest að þeir hafi eytt öllum manns aurum!
Þetta er náttúrlega ekki hægt. Geta þessir glæpamenn ekki einu sinni séð sóma sinn í því að búa til einhverja millileið með algjörum lágmarkskostnaði fyrir fólkið sem þeir hafa sett á hausinn? Hvar er Jóhanna Sigurðardóttir núna?
Bloggar | 23.10.2008 | 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Að einangrast í einöngruðum flokki, í einöngruðu landi norður í hafi (botniði nú) er bágt hlutskipti - svo ekki sé meira sagt - en virðist þó ætla að verða hlutskipti Bjarna Harðarsonar sveitunga míns.
Íslenska þjóðin hefur löngum hlegið að fornu fasi formanns Bjarna, Guðna Ágústssonar, en nú er svo komið að Bjarni hefur tekið við aðhláturskeflinu. Er orðinn meiri einangrunar- og afturhaldssinni en sjálfur Guðni Ágústsson! Geri aðrir betur!
Það er rétt að halda því til haga að báðir þessir fornmenn eru góðir vinir foreldra minna, teljast eiginlega til fjöskylduvina, og eru báðir úrvalsnáungar þegar póltíkinni sleppir. Þar eru þeir hinsvegar á algjörum villigötum, eins og flestir eru farnir að sjá. Bjarni þó talsvert lengra utan vegar.
Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að Bjarni hafi í fúlustu alvöru lagt það til á einhverri framsóknarsamkomu um helgina að banna umræður um hugsanlega aðild að ESB að svo komnu máli. Bjarni segist hafa hugsað þetta sem stuðningsyfirlýsingu við málflutning Guðna Ágústssonar, en svo fór víst að lokum að sami Guðni sá til þess að tillaga Bjarna yrði strokuð út!
Bjarna hefur orðið tíðrætt um ESB á bloggi sínu og fundið því apparati allt til foráttu, án teljandi raka. Hann hefur einnig mært íslensku krónuna mjög og meðal annars fullyrt það að við eigum því hræi að þakka að ekki sé enn verr fyrir okkur komið en nú er!!! Að vísu hefur hann fært rök fyrir því þvaðri sínu, en þau eru sorgleg. Bjarni hefur víst einnig stungið upp á því að við leitum leiða til að losa okkur út úr EES samningnum. Ég vildi reyndar ekki trúa því að það væri satt þegar ég heyrði það, en þetta á hann víst að hafa sagt í einhverjum sjónvarpsþætti nú um helgina. Ljótt er ef satt er.
Síðan kreppan skall á hefur andúð Bjarna í garð Evrópuumræðunnar heldur vaxið og hann snýr í sífellu út úr fyrir þeim sem eru á annarri skoðun. Hans vinsælustu mótrök þessa dagana eru að það leysi ekki þann vanda sem nú steðji að okkur að ganga skrifræðinu í Brussel á hönd! Bjarni veit þó auðvitað alveg að engum dettur í hug að halda slíku fram. Það er hinsvegar staðreynd sem Bjarni verður að fara að sætta sig við, að staða okkar væri ekki eins erfið og raun ber vitni hefðum við borið gæfu til þess að ganga í ESB áður en ósköpin dundu á. Þá sætum við í fyrsta lagi ekki uppi með ónýtan gjaldmiðil, sem svo sannarlega hefur ekki verið til að bæta ástandið; þrátt fyrir lofsöng Bjarna um það ónýta glingur, og í öðru lagi nytum við liðsinnis Seðlabanka Evrópu, en ekki þess Seðlabanka sem hefur hvað minnst traust í veröld allri um þessar mundir. Þar sem annar dyggur aðdáandi íslensku krónunnar ræður einmitt ríkjum. Svo fátt eitt sé nefnt.
Síðan fregnir fóru að berast af því að hugsanlega væri vandi Íslands það alvarlegur að leita þyrfti á náðir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) hefur Bjarni farið mikinn á bloggi sínu. Hann hefur fundið því allt til foráttu og skammast mjög yfir því að mönnum detti í hug að minnast á slíkt! Hefur ekki mátt heyra á það minnst, ekki frekar en ESB. Hann hefur síðan leyft sér að þvaðra um það að þeir sem vilji aðstoð IMF séu sömu vitleysingarnir og vilji hlaupa í fangið á bjúrókrötunum í Brussel - svo notuð séu hans eigin orð.
Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram að ég viti hvort það er gott eða vont að leita á náðir IMF, ég veit bara að það er afleitt að vera allt í einu í þeirri stöðu að þurfa að velta því fyrir sér. Mér hefur líka skilist að aðkoma IMF sé skilyrði fyrir því að aðrar þjóðir taki þátt í að draga okkur á flot aftur. Þessvegna finnst mér fráleitur málflutningur hjá þingmanni að neita að ræða málin - og bölsótast á bloggsíðum út í þá sem hafa þroska til að gera sér grein fyrir þeirri sáraeinföldu staðreynd að það er ekki hægt að mynda sér skoðun um slík stórmál án þess að athuga a.m.k. fyrst hvað um ræðir. Það sama gildir um aðild Íslands að ESB.
Fremur en að kynna sér málin til hlítar kýs Bjarni að banna umræðu um þau! Í málflutningi sínum elur hann sífellt á ótta við það að hlutirnir séu nú svona eða hinsegin hjá IMF og í ESB. Það er alþekkt aðferð þeirra sem ekki hafa haldbær rök máli sínu til stuðnings, að ala á ótta við hið óþekkta.
Það er semsagt að mínu mati sorglega komið fyrir þessum nýja þingmanni Suðurkjördæmis, sem margir; þar á meðal ég, bundu vonir við að myndi verða ferskur, drífandi og hugmyndaríkur. Líkt og hann er í hinu daglega lífi. Þessvegna er ömurlegt að horfa upp á það að hans helsta innlegg í þá grafalvarlegu umræðu sem nú á sér stað, sé að banna umræður!
Ég ætla ekki að ganga svo langt að segja að Bjarni Harðarson sé versti þingmaður sem sunnlendingar hafa kosið yfir sig, enda um óþægilega auðugan garð að gresja í þeim efnum, en ég hvet hann til að girða sig tafarlaust í brók svo hann endi ekki uppi með þá nafnbót. Ég ber a.m.k. enn þá von í brjósti að hann sýni þjóðinni að það búi meira í honum en fúllyndur framsóknarhundur sem er svo logandi hræddur við heiminn í kringum sig að hann geltir í geðshræringu tóma endemis vitleysu. Sem ekki er tungnamönnum sæmandi .
Bloggar | 21.10.2008 | 01:04 (breytt kl. 02:11) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þá er búið að frumflytja nýja lagið. Ívar Guðmundsson gerði það að vanda. Hægt er að hlusta á lagið, og spjall okkar Ívars á heimasíðu Bylgjunnar. Þeir sem vilja meiri músik, en minna mas geta auðvitað sleppt því að hlusta á viðtalið og snúið sér beint að því að hlusta á lagið. http://www.bylgjan.is/
Svo er auðvitað hægt að hlusta bara á lagið í spilaranum hér til hliðar .
Lagið er lag vikunnar á www.tonlist.is 16. - 23. október.
Eins er gaman að geta þess að föstudaginn 24. október munum við flytja lagið í þættinum Logi í beinni á Stöð 2.
Bloggar | 16.10.2008 | 20:29 (breytt 17.10.2008 kl. 13:15) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Í dag, fimmtudaginn 16. október, er komið að því að hljómsveitin Á móti sól sendi frá sér nýtt lag. Lagið er það þriðja sem við sendum frá okkur á árinu, hin tvö eru Árin; sem ég samdi sjálfur og Til þín; sem Magni samdi.
Lagið heitir Sé þig seinna og er heldur léttara en síðustu tvö lög okkar, enda ekki við hæfi á þeim erfiðu tímum sem yfir þjóðina ganga um þessar mundir að drekkja þjóðinni í tregafullum ástarsöngvum. Lagið er eftir mig og verður frumflutt í þætti Ívars Guðmundssonar á Bylgjunni kl. 10.30, eftir að við Ívar höfum skipst á athugasemdum um efnahagsástandið og fleira sem brennur á okkur . Það er áralöng hefð fyrir því að Ívar frumflytji lög hljómsveitarinnar og við breytum að sjálfsögðu ekki út af þeirri venju, enda íhaldssamir sveitamenn þegar allt kemur til alls.
Bloggar | 16.10.2008 | 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Á Alþingi í dag sagði Össur Skarphéðinsson að Samfylkingin léti ekki beita sig skoðanakúgun og svaraði þar þeim Guðna Ágústssyni og Steingrími J. sem gagnrýndu að Samfylkingin gerði Evrópusambandsaðild að umræðuefni við núverandi aðstæður.
Össur benti á að Íslendingar væru ekki í þeirri stöðu sem nú er upp komin ef þeir hefðu gengið í ESB og tekið upp evruna. Samfylkingin hefði lengi verið hlynnt ESB-aðild og flokkurinn hlyti að mega leggja sín viðhorf fram.
Ég vildi gjarnan spyrja Össur hvernig stendur þá á því að þessu meginstefnumáli flokksins var ýtt til hliðar þegar Samfylkingin samdi um stjórnarsamstarfið. Það verður að teljast alveg furðulegt, í ljósi þess hve mikilvægt mál ESB aðildin er að mati Össurar. Var flokkurinn beittur skoðanakúgun í stjórnarmyndunarviðræðunum, eða gleymdist þetta aðalmál bara?
Bloggar | 15.10.2008 | 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um mitt sumar komst heimsmarkaðsverð á olíu upp í 145 dollara. Þá kostaði dísellítrinn c.a. 190 kall. Í dag er heimsmarkaðsverðið 75 dollarar en verð á dísel er samt ennþá í kringum 190 kallinn!
Í Danmörku kostar dísellítrinn í dag 9,50. Ef gengi krónunnar væri eins og það hefur verið síðustu 20 ár c.a., að undanskildu síðasta hálfa ári, þá jafngilti það 95-110 íslenskum krónum c.a.
Svo er alltaf verið að segja okkur að ástandið hér sé ekkert verra en í öðrum löndum! Ætli okkar ónýti gjaldmiðill hafi semsagt ekkert með þetta að gera?
Nú svo er líka möguleiki að olíufélögin séu með óhreint mjöl í pokahorninu.........en það er nú hæpið.
Líklegast eigum við þetta háa verð bæði krónunni og olíufélögunum að þakka.
Takk fyrir mig
Bloggar | 15.10.2008 | 13:06 (breytt kl. 13:10) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Á Vísi.is kemur fram að greiningardeild Glitnis hefur komist að þeirri niðurstöðu að við verðum fljót að vinna okkur út úr kreppunni.
Mikið ofsalega er ég feginn að heyra þetta. Sérstaklega úr þessari átt!
Bloggar | 14.10.2008 | 18:11 (breytt kl. 23:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tónlistarspilari
Færsluflokkar
Tenglar
Hótel
- Hotel Club
- Trip Advisor Umsagnir um hótel o.fl.
- Totalstay Oft góð tilboð
- GTA Hotels Oft góð tilboð
Eitt og annað
Ýmislegt
- Íslenska Beygingar o.þ.h.
- Deacon Blue
- You Tube
Það sem skiptir máli
- KHÍ
- U2
- Madness Þeir eru enn að!
- Liverpool Opinber síða félagsins
- Liverpool Liverpool klúbburinn á Íslandi
- Á móti sól
Flugfélög
Ferðalög o.þ.h.
- British Airways Flug til London Gatwick
- SAS Flug til Osló og Stokkhólms
- Icelandair
- Iceland Express
- German Wings Flug til Kölnar/Bonn o.fl.
England
Ferðalög o.þ.h.
- Flugvellir Flugvellir í Bretlandi
- Eurostar Hraðlest til Parísar og Brussel
- Virgin Trains Lestir út á land
- The Tube Lestarkerfið í London
- London Town London
- Map 24 Vegvísun um allan heim
- Ticketmaster Miðar á tónleika o.fl.
- St.Giles Hotel Frábær staðsetning - ágætt hótel
- Late Rooms Tilboð á gistingu
- Travel Inn Traust og fjölskylduvæn hótelkeðja
Danmörk
Ferðalög o.þ.h.
- Veðrið Veðrið í DK fyrr og nú, eftir svæðum
- Alt om Köbenhavn Allt um Köben
- Min reklame Tilboð frá verslunum
- Krak Vegvísun, kort o.fl.
- Dansk Autorent Ódýr bílaleiga
- Gisting á tilboði Hótel í Danmörku - Tilboð dagsins
- Dancenter Sumarhús í Danmörku og víðar
- Sol og Strand Sumarhús í Danmörku og víðar
- Dansommer Sumarhús í Danmörku og víðar
- Novasol Sumarhús í Danmörku og víðar
- Italiano Skemmtilegur ressi í Köben
Bloggvinir
- nkosi
- ansiva
- atlifannar
- skarfur
- agustolafur
- amotisol
- baldurkr
- bbking
- bjarnihardar
- brandurj
- gattin
- binnag
- bryndisvald
- brynja
- bestfyrir
- daxarinn
- ebbaloa
- austurlandaegill
- eirag
- hjolagarpur
- ellasprella
- eythora
- ea
- fjarki
- gesturgudjonsson
- dullari
- gretar-petur
- gudni-is
- gudbjorng
- hugs
- gummigisla
- gummisteingrims
- bitill
- gunnarfreyr
- nesirokk
- rattati
- hehau
- hermannol
- krakkarnir
- nabbi69
- swiss
- 810
- ingimundur
- ingvarvalgeirs
- jakobsmagg
- presley
- katrinsnaeholm
- buddha
- larahanna
- maggib
- magnusvignir
- jabbi
- palmig
- rungis
- snorris
- slembra
- lehamzdr
- svanurg
- sverrir
- saedis
- tinnhildur
- tommi
- postdoc
- doddilitli
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar