Færsluflokkur: Bloggar

Þessu átti ég ekki von á!

Hér er allt í rúst eins og menn vita og málin meira að segja orðin það alvarleg að slegið hefur í brýnu milli okkar og Breta. Breska heimsveldið hefur að því er virðist beitt okkur tilefnislausu harðræði og það eina sem Geir Hilmar hefur um málin að segja er að engan hafi nú órað fyrir að þetta eða hitt myndi fara svona eða hinsegin - og bætir iðulega við að allt verði komið í eðlilegt horf á morgun!

Ég setti því saman lítið vísukorn, í orðastað norðmannsins knáa.

Hér er allt í heljarinnar klessu

heimsveldið vill tafarlausa borgun

Mig óraði nú ekki fyrir þessu

en eflaust verður allt í lagi á morgun 


Frasalúðulakar

Mikið óskaplega leiðast mér stjórnmálamenn sem hafa ekkert að segja. Ég horfði t.d. á Silfur Egils í dag og mér fannst bara allir býsna áheyrilegir í þættinum - nema pólítíkusarnir. Þeir eru ansi margir alveg komnir í þrot.

Mér fannst gott hjá Sigmundi Davíð að segja Degi B. Eggertssyni að þau mál sem við stöndum frammi fyrir núna leystum við ekki með frösum! Dagur er agalegur frasakall, en aflaust ágætis náungi samt.

Ég finn það líka sterkt þessa dagana hversu leiður ég er orðinn á Össuri. Myndlíkingar geta verið ágætar, en öllu má nú ofgera! 

Kjartan Gunnarsson og Geir Haarde (Haarde þýðir einmitt hjörð á frönsku - og nú um stundir sá sem situr kyrr og lætur koma sér á óvart á flestum öðrum tungumálum) féllust í faðma á trúarsamkomu Sjálfstæðisflokksins um helgina - og salurinn klappaði sem óður væri. Gott ef einhverjir felldu ekki tár! Sick

Rétt áður hafði hinn meinti óreiðumaður Kjartan hraunað yfir foringjann sjálfan, Dabba jaka, svo afdráttarlaust að allir fjölmiðlar greindu frá því - en þá brá svo við að Kjartan kannaðist ekki neitt við neitt. Þessi hjörð er í besta falli hlægileg. 

Guðni Ágústsson vill að ráðið verði faglega í stöður seðlabankastjóra. Ef það kemur ekki úr hörðustu átt veit ég ekki hvaðan á mig stendur veðrið! Hann keppist líka við að hvítþvo hendur sínar af ástandinu, þrátt fyrir að hafa verið á bólakafi í því - eins og svo hallærislega margir aðrir þessa dagana. Þ.m.t. Davíð Oddsson. Munurinn er að einhverjir blindir hjarðmenn trúa Davíð ennþá - en enginn tekur nokkurt einasta mark á orðum Guðna lengur. Að skynja vitjunartíma sinn er frasi sem kemur upp í hugann.

Vinstri-grænir halda því mjög á lofti þessa dagana að þeir hafi verið á móti útrásinni. Afsakið, en það er nú ekkert sérstakt afrek hjá flokki sem hefur það eina markmið að vera á móti öllu.

En svo allrar sanngirni sé gætt þá hafa Ögmundur og Steingrímur varað við þessum ósköpum, það verður ekki af þeim tekið. En það má heldur ekki gleyma því að þeir hafa varið krónuhræið okkar með kjafti og klóm. Staða flestra þjóða er slæm um þessar mundir. Okkar er enn verri, þökk sé krónunni. Það held ég að við hljótum að fara að geta verið sammála um.

Ég eyði ekki plássi veraldarvefsins í að tala um menn eins og Pétur Blöndal, sem langar að vera frasakall, en ræður ekki við það. Hefur það eina svar við öllum spurningum að ekki skuli leita sökudólga - og tekst ekki einu sinni að böggla því almennilega út úr sér.

Ég eyði ekki heldur plássi í að ræða Frjálslynda flokkinn, sem maður finnur á stundum sem þessum að enginn sækir stuðning til.

Ekki heldur í Bjarna Harðarson sem heldur því fram að sveigjanleiki íslensku krónunnar sé það sem geri það að verkum að hér séum við enn á floti. 

Ég nenni ekki heldur að eyða orðum í Björn Bjarnason og öll hans furðuverk.

En ég ætla að eyða orðum í Samfylkinguna. 

Ég viðurkenni það að ég tilheyri þeirri hjörð. Það er af því að ég trúi á það sem flokkurinn stendur fyrir. Ég trúi á hin félagslegu gildi, á jöfnuðinn, samhjálpina o.s.frv. og ég hef nú um nokkurra ára skeið trúað því að það væri skynsamlegt fyrir okkur að ganga í ESB. Sérstaklega vegna þess að ég er fyrir löngu búinn að fá mig fullsaddan af því að vera með gjaldmiðil sem má ekki hnerra á án þess að hann fari til fjandans.

Pólítískar skoðanir mínar passa semsagt best við stefnumál Samfylkingarinnar.

En þó ég tilheyri þessari hjörð er ekki þar með sagt að ég fylgi henni í blindni. Stefnumálin sem ég tíni hér til eru mér öll að skapi og eru ástæða þess að ég kaus flokkinn í síðustu kosningum. En hvar eru þau í dag?

Ég hafði orð á því fyrir síðustu kosningar að mér þætti það klaufalegt hjá flokknum að hafa lagt ofurkapp á Evrópumálin 2003, þegar tiltölulega fáir nenntu að pæla í slíku, en stinga þeim svo nánast undir borð í fyrra þegar loks hafði skapast hljómgrunnur fyrir því. Það var áður en mér varð það ljóst að flokkurinn gekk líklega bundinn til kosninga. Var sjálfsagt löngu búinn að ganga frá samkomulagi um stjórn með Sjálfstæðisflokki.

Hið stóra mál, ESB - nota bene aðalstefnumál flokksins, var sett til hliðar að því er virðist kinnroðalaust. Allt til að komast að kjötkötlunum. Og hvað nú þegar kjötkatlarnir springa einn af öðrum? Jú, þá tjaslar ríkisstjórnin saman nýjum - og kemur sínu fólki að. Rétt eins og það hefur alltaf verið. Það sannaðist á nýrri bankastjórn Glitnis í dag. Þó kviknaði von á ný þegar aðstoðarmaður Björgvins G. bakkaði út úr þeim æfingum. Ég er stuðningsmaður Björgvins og vona að hann falli ekki í þennan fúla pytt.

Flokkurinn hefur því miður ekki sýnt mikinn dug í þessu ríkisstjórnarsamstarfi, enda varla von þegar einu skilyrðin við stjórnarmyndun virðast hafa verið þau að fá að vera með.

Svo skil ég ekki þennan sýndarveruleika sem okkur er boðið upp á með varaformanninn - sem er nú einn af þeim sem sáu ekki sólina fyrir útrásinni þegar hún var og hét. Hann var ekki gerður að ráðherra, sem er fremur undarlegt þegar um næstvaldamesta mann flokksins er að ræða (?), og nú þegar formannsins nýtur ekki við þá dettur engum í hug að skipta honum inná! Hvaða skrípaleikur er þetta?

Fyrir mér er þetta einfaldlega kjánalegt - og akkurat engum til góðs.

Ég er samt hress - annað er bannað.

Góðar stundir Smile  


Að hafa stjórn á sínu lífi

Þegar ég lærði til þroskaþjálfa las ég mikið um fólk sem af einhverjum ástæðum er ekki treystandi til að taka ákvarðanir sem varða lífsgæði þess - er þess vegna svipt sjálfræði. Þetta getur verið allskonar fólk, sumt er fjölfatlað, sumt ekki með fulla greind, sumt veilt á geði o.s.frv...

Sumt það fólk sem ég fékk tækifæri til að fræðast nánar um var hrætt við að fóta sig í þjóðfélaginu og vildi helst aðstoð við alla skapaða hluti, en svo var einnig um að ræða fólk sem var svo plagað af ranghugmyndum að það taldi að sér væru allir vegir færir - jafnvel þó því færi fjarri.

Sumt það fólk kom m.a.s. svo vel fyrir að það gat villt á sér heimildir og leikið lausum hala í þjóðfélaginu um talsvert skeið, án þess að félagsþjónustan uppgötvaði það. Þetta fólk olli í sumum tilvikum sjálfum sér og öðrum gífurlegum skaða - með því að hella sér út í misgáfulega hluti án þess að vera á nokkurn hátt í stakk búið til þess.      

Það eru líklega tvö ár síðan ég var að garfast í þessu verkefni, en af einhverjum ástæðum hefur mér stundum verið hugsað til þess þegar menn hafa komið með þau mótrök fyrir því að við gengjum ESB á hönd, að þá myndum við ekki lengur ráða sjálf öllum okkar gjörðum.

Í kreppunni hefur þessi umræða aftur komið upp. Geir Hårde hefur t.d. sagt að það yrði þrautalending að fá aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, vegna þess að þeirri aðstoð myndu fylgja svo ströng skilyrði.

Afsakið, en ég sé bara ekkert slæmt við það. Allir samningar sem verða til þess að minnka vald okkar til að taka ákvarðanir sem skipta máli fyrir framtíð okkar eru af hinu góða.

Ég held að það sé löngu ljóst að okkur er engan veginn treystandi til þess.

Hefðum líklega aldrei átt að fara undan pilsfaldi Dana.

Við getum samt haldið áfram að vera hress Smile.

 


Kreppupunktar

1. Mér og mínum líður vel.

2. Ég geymi peningana mína í Nýja Glitni, Nýja Landsbanka og Kaupþing og vona það besta. 

3. Ég væri til í Nýja Seðlabankann - og Nýja Ísland.

4. Mig langar ekkert til London eins og staðan er í dag.

5. Væri til í að heimsækja Moskvu og Osló.

6. Mér finnst ekkert sérstakt að vera í Samfylkingunni þessa dagana. Nánar um það síðar.

7. Ég er enginn sérstakur aðdáandi Geirs og Davíðs - myndi hafa vit á að skammast mín væri ég sjálfstæðismaður.

8. Ég er alltaf jafn hissa á því hversu slakir íslenskir fjölmiðlamenn eru í að taka viðtöl - menn sleppa allt of létt frá þeim. Afhverju gat Sigmar t.d. ekki sagt sér það að Davíð myndi firra sig allri ábyrgð - og verið tilbúinn til að reka þá vitleysu ofan í hann?

9. Ég geng samt ekki svo langt að segja að þeir séu fífl og dónar.

10. Hefur einhver séð Finn Ingólfsson? 

 


Kveður við nýjan tón

Þar skeit beljan sem ekkert hafði rassgatið .......
mbl.is Faglegan Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn til Moskvu

Ef það fer nú á endanum svo að Rússar lána okkur pening þá legg ég til að Björn Bjarnason verði sendur til að sækja hann.

Norðmenn eru toppmenn

Jens Stoltenberg hafði í dag samband við landa sinn Geir Haarde og áréttaði að það væri ekkert mál að lána okkur 500 milljónir evra!

Ég mun af þessu tilefni láta af þeim ósið mínum að rita Norðmenn með litlum staf.

Heia Norge!


Það er gott að búa í Hveragerði

Ég fékk bækling inn um lúguna í vikunni þar sem þetta kemur fram.

Ég vissi reyndar að hér er gott að búa og þurfti svo sem engan bækling til að segja mér það, en ég fletti honum nú samt - og fannst hann flottur.

Síðan fór ég að velta fyrir mér hvað væri svona gott við að búa hérna og fór því sambandi í huganum yfir fjölmörg samtöl sem ég hef átt við fólk sem ég hef hvatt til að flytja hingað. Ég hugsa að ég hafi alltaf í þeim samtölum tiltekið það fyrst af öllu að hér sé gott mannlíf. Það er einhvernveginn svo að hér í bænum er góður andi, nýju fólki er vel tekið og það er mikil samheldni meðal íbúanna. Það er í það minnsta mín upplifun. Síðan hef ég nefnt að hér sé góður skóli. Ég fer ekki ofan af því að grunnskólinn er góður, fyrst og fremst vegna þess að þar starfar afburða fólk. Aðstaðan er í raun ekki eins og best verður á kosið - jafnvel þó annað sé fullyrt í bæklingnum góða.

Aðstaða til íþróttaiðkunar er ekki heldur nægilega góð, því miður. Sundlaugin er að vísu glæsileg - svo langt sem það nær, en hún er komin til ára sinna og eitt og annað þar uppfrá er ekki eins og best verður á kosið. Ég veit reyndar að þau mál eru í sérstakri skoðun hjá bæjaryfirvöldum - og fagna því.

Hér er hægt að æfa sex íþróttagreinar, en þær eru auk sundsins; fótbolti, körfubolti, blak, badminton og fimleikar. Hér er íþróttahúsið svo heimskulega hannað að ekki er löglegt að spila þar handbolta þannig að maður verður að búa við það að börnin manns sprikli í körfubolta - sem útaf fyrir sig er náttúrlega skandall! Enda alveg á mörkunum að hægt sé að kalla körfubolta íþrótt - a.m.k. samanborið við hina göfugu þjóðaríþrótt handboltann. En það er nú önnur saga Wink.

Þar fyrir utan er íþróttahúsið einfaldlega allt of lítið og löngu sprungið. Sonur minn 15 ára æfir t.d. körfubolta og þeim er m.a. boðið upp á að æfa kl. 6.30 á morgnana, af því að annar tími er ekki laus! Hann æfir líka fótbolta og þar fá þeir þrjár æfingar í viku á gervigrasbleðlinum við grunnskólann, sem ég veit ekki betur en KSÍ hafi skaffað bænum. Það er heldur naumt skammtað og ekki einu sinni hægt að réttlæta með því að hér borgi unglingar minna fyrir íþróttaiðkun en í bæjarfélögum þar sem aðstaða er betri. Því fer fjarri.

Fólk má ekki halda að ég sé að tuða yfir bæjarstjórninni, enda er þetta ástand ekki einni bæjarstjórn að kenna. Síður en svo. Hér virðist einfaldlega hafa verið viðvarandi ákveðið metnaðarleysi - og skammsýni kannski verið of einkennandi. Ég hef t.d. áður tjáð mig um það að mér sýnist að hér hafi vantað alla framtíðarsýn í skóla- og íþróttamálum í gegnum tíðina. Í því sambandi hef ég furðað mig á því hversvegna bærinn reyndi ekki að eignast t.d. Fagrahvammslandið og gamla hótelið, á sínum tíma. Þá ættum við samfellt svæði á besta stað í bænum þar sem leikskóla, grunnskóla, sundlaug og tvö íþróttahús væri að finna og þyrftum ekki að vera að pæla í því að hola niður íþróttahúsi uppi í dal. 

Þessum atriðum hef ég ekki haldið á lofti í samtölum mínum við fólk sem sýnt hefur því áhuga að setjast hér að. Ekki heldur þeirri staðreynd að hér rignir meira en mér hafði dottið í hug að væri fræðilega mögulegt Wink. Ég held frekar áfram að mæra mannlífið og halda því á lofti sem vel er gert. Vona að þið gerið það líka, því það er svo sannarlega gott að búa í Hveragerði - þó alltaf megi gera beturSmile

 


Slagorð dagsins 5

Einn, tveir og Geir!

Slagorð Geirs H. Haarde þegar hann sóttist eftir 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokknum fyrir nokkrum árum.

Líklega það sniðugasta sem frá honum hefur komið.


Slagorð dagsins 4

Krónan - kemur sér vel.

Siggi Fannar á lagið við þetta slagorð (krónan, krónan kemur sér vel), veit ekki hvort hann á slagorðið sjálft.

Þetta er allavega vel við hæfi í dag - nú eða ekki..........???


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband