IKEA - ekki bara bæklingur (?)

Um miðjan ágúst ár hvert sendir Ikea frá sér glæsilegan bækling með upplýsingum um vörur sem á boðstólum eru í versluninni. Bæklingurinn er sendur inn á öll heimili í landinu og fólk eins og ég flettir honum spjalda á milli í von um að finna eitthvað sem passar í stofuna, eldhúsið o.s.frv. Oftar en ekki finnur maður eitthvað sem mann vantar og væri til í að eiga, enda vörurnar margar hverjar prýðisgóðar og yfirleitt á fínu verði.

Þegar búið er að vinna bug á valkvíða og ná sáttum milli hjóna um hvað skuli keypt er næsta skref að renna í Ikea og ná í herlegheitin. Þangað kemur maður inn fullur tilhlökkunar, enda búinn að velja sér flott dót á fínu verði, og eins og til að minna mann á að maður hafi valið skynsamlega hanga skilti út um allt með útskýringum á því hvernig Ikea fer að því að bjóða svona frábærar vörur á svo lágu verði. Maður fær húsgögn á hagstæðu verði af því að maður setur þau sjálfur saman, eldhúsinnréttingar á undirverði af því að laghentir og úrræðagóðir Svíarnir framleiða svo ógeðslega mikið af þeim og síðast en ekki síst fær maður 10 kjötbollur með sultu á spottprís af því að maður tekur sjálfur af borðinu eftir matinn (ég tek reyndar alltaf til eftir mig á KFC en það gildir einu, ég borga alltaf jafn andskoti mikiðWink). Og maður les skiltin hugfanginn, og hamingjusamur yfir því að vera kominn á rétta staðinn.

En smátt og smátt fer nú glansinn af öllu saman. Að finna starfsmann er álíka erfitt og að réttlæta það að Sturla Böðvarsson sitji á þingi, og þegar hann loksins finnst hefur hann ekkert að segja nema að varan sé ekki til en komi eftir 3-4 vikur. Þannig gengur þetta koll af kolli: Eftir langa bið eftir starfsmanni í hverri deildinni á fætur annarri, sem allir fara með sama frasann, er maður kominn tómhentur á sjálfsafgreiðslubásana sem eru samkvæmt fjölmörgum sænsk-íslenskum skiltum ótrúlega sniðugir: Þar getur maður bara gripið vöruna sem mann vanhagar um, farið með hana á kassa, borgað með bros á vör og brunað heim að setja hana saman. Sem er n.b. hreint ekkert gaman.

En á sjálfafgreiðslubásunum er það sama uppi á teningnum, þar sést hvorki tangur né tetur af þessum ágætu vörum sem prýða litskreyttan bæklinginn og mann fer helst að gruna að maður sé orðinn þátttakandi í vel útpældum sænskum hrekk, bæklingurinn sé agnið sem allir bíti á og eftir þriggja til fjögurra tíma helför um risastórt húsnæðið muni Auddi Blö. þeirra Svía stökkva í fangið á manni og öskra tekinn! (tatt?). Ekki svo ólíkleg pæling, enda Svíar annálaðir húmoristar Whistling.

Ég slapp reyndar út úr þessari sænsku sýndarveröld án þess að Alfons Blonddahl öskraði á mig, en að sama skapi var ég algjörlega tómhentur. Ég hafði lagt af stað frá nýja húsinu mínu í Hveragerði um hádegi á sunnudegi í þeim tilgangi einum að kaupa 6 hluti í Ikea, sem ég hafði valið af kostgæfni í bæklingnum góða, en ekki einn einasti af þessum hlutum var til þegar á staðinn var komið! Það er ótrúlega vel heppnað grín. Til hamingju Svíadruslur, þarna lékuð þið laglega á mig.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er nú eiginlega fegin að fleiri lenda í þessu en ég, hélt að þeir væru með eitthvað samsæri í gangi gegn mér. Þetta er með svo miklum ólíkindum að það er ekki fyndið. Engin furða að maður kaupi stundum eitthvað sem mann vantar ekki, það er svo ergilegt að fara alltaf tómhentur, en kannski er það einmitt plottið hjá þeim, selja okkur það sem við ætluðum ekki að kaupa. ????

Ásdís Sigurðardóttir, 10.9.2007 kl. 19:48

2 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Já þú meinar að þetta sé úthugsað sænsk markaðsfræðitrikk! Það kæmi mér ekkert á óvart, Svíar eru jú alltaf að uppgötva eitthvað merkilegt.

Annars var ég kominn með eitt og annað smálegt í hendurnar í þessari ferð, sem mig vantaði ekkert sérstaklega en ætlaði að grípa með í leiðinni. Ég henti því nú bara inn í tóman sjálfsafgreiðslubásinn og strunsaði tómhentur út, þannig að trikkið virkaði í það minnsta ekki á mig.

Heimir Eyvindarson, 10.9.2007 kl. 19:56

3 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Þú hefðir betur verið heima í gær og hellt á könnuna fyrir okkur hjónin í Klettahlíðinni sem einmitt komu í heimsókn á meðan þú fékkst þér sænskar kjötbollur

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 10.9.2007 kl. 23:39

4 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Gerðu bara eins og ég - sendu bara konuna, en vertu viss um að hún hringi á undan og láti taka draslið frá, sem þið hyggist fjárfesta í.

Sjálfur fékk ég leið á völundarhúsum þegar ég var unglingur. Þess utan eru pylsurnar í IKEA bæjarins verstu.

Ingvar Valgeirsson, 11.9.2007 kl. 21:34

5 identicon

Arrgggg ....  hvað ég var orðin reið fyrir þína hönd þegar ég var komin hálfa leið að lesa þessa færslu og bálreið  þegar ég kláraði. Ég sé að ég hef verið óhemju heppin með þennan bækling. Ég nefnilega lagði bæklinginn óopnaðan á einhverja hillu sem er svo mikið baka til í íbúðinni að enginn uppgötvar hann fyrr en jólahreingerningin verður tekin. Og þá verður honum hent með þeim rökum að ekki einasta sé allt búið sem í honum er heldur hafi það aldrei verið framleitt fyrir íslenskan markað. Mikið verð ég rík um jólin  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 21:50

6 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Ingvar: Það er vissulega rétt hjá þér að það er langbest að senda konuna bara , ég hef oft gert það. En ég hef líka oft reynt að hringja, þetta drasl er ekkert frekar til símleiðis.

Anna: Þú ert ótrúlega heppin, alltaf að græða. Hehe.

Heimir Eyvindarson, 11.9.2007 kl. 22:30

7 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Já Hulda ég hefði svo sannarlega átt að hafa vit á því að vera heima. Góð heimsókn hefði verið margfalt betri en þessi vitleysa. Þið verðið bara að renna aftur - verst hvað það er lítið af húsgögnum hjá okkur 

Heimir Eyvindarson, 11.9.2007 kl. 22:34

8 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Það gerum við alveg örugglega  

en við ætlum að heimsækja ykkur hjónin en ekki húsgögnin

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 11.9.2007 kl. 22:48

9 identicon

Við verðum bara að hringja collect í Ingvar Kamprad og segja honum frá þessu ástandi hérna. En hann svarar sennilega ekki sökum nísku enda bara fjórði ríkasti maður heims Annars fann ég skemmtilegan fróðleik um IngvarKampradElmtarydAgunnaryd á netinu:

http://hugsandi.is/article/112/saenskar-kjoetbollur-og-hertur-pappamassi-umfang-ikea

Baldvin A B Aalen (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 00:45

10 Smámynd: Anna Sigga

 Til hamingju með að vera fluttur til Húrdí... ætla ekki að taka þátt í að bera róg á IKEA, ég á þeim of margt að þakka.... HELL NO! en samt ekki, IKEA er ágætt!  Kannski er ég bara með svo lélegan smekk að enginn kaupir það sem ég kaupi og því alltaf nóg til af. Þú ættir kannski að skipta um smekk!??!

Anna Sigga, 12.9.2007 kl. 09:44

11 Smámynd: Hjalti Árnason

Þetta er ekkert séríslensk ikea fyrirbrigði, sama hvar í heiminum ég hef verslað, kem bara út með servíettur og kerti.

Annars er bbking með helvíti góða ikea sögu á sínu bloggi.....

Og jú, mín skoðun er ansi nálægt Björgvins....... 

Hjalti Árnason, 22.9.2007 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband