Enn af klaufagangi vinstri manna

Ég lýsti því yfir fyrir síðustu kosningar að mér þætti Samfylkingin best flokka. Samfylkingin fékk síðan ágæta útkomu í kosningunum og myndaði að lokum ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Allt gott og blessað með það. Ég get lítið kvartað yfir framgöngu Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni enn sem komið er a.m.k., hefði reyndar kosið að flokkurinn hefði staðið fastar í fæturna þegar kom að því að semja um stefnumótun stjórnarinnar í Evrópumálum. Þar kastaði flokkurinn fyrir róða sínu helsta baráttumáli, inngöngu í ESB. Því miður. En gott og vel, allt gengur þetta ágætlega.

Í sveitastjórnamálum hér í nágrenninu finnst mér Samfylkingarfólk hins vegar ekki alveg hafa fundið taktinn. Í mínum gamla heimabæ Selfossi orka margar gjörðir flokksins tvímælis, svo ekki sé meira sagt. Ég ætla svosem ekki að fjölyrða um það hér, en ég nefni sem dæmi umdeild húsakaup og undarlega leigusamninga. Í þessum efnum finnst mér flokkurinn sýna það sem svo margir, sem kannski eru afhuga stjórnmálum, halda stundum fram. Þ.e. að það sé alveg sama hvaða flokkur fari með völdin, stjórnmálamenn hugsi fyrst og fremst um að maka krókinn meðan þeir geti. Og hygla ættingjum og vinum.  

Hér í Hveragerði er Samfylkingin í minnihluta. Að vísu heitir stjórnmálaaflið A-listinn, en innan hans er Samfylkingarfólk og listinn því að einhverju leyti á ábyrgð flokksins. Á fundi bæjarstjórnar í liðinni viku lagði  A-listinn fram bókun sem er með þeim ólíkindum að mér er til efs að ég hafi áður séð aðra eins þvælu. Í bókuninni leggur A-listinn til að fyrirhuguðum framkvæmdum við Grunnskólann verði slegið á frest, og rökin eru þau að ekki sé aðkallandi að stækka skólann! Að vísu segir í bókuninni að brýn nauðsyn sé að stækka mötuneyti skólans sem allra fyrst. Ekki veit ég hvernig blessaðir bæjarfulltrúarnir ætla að fara að því, án þess að stækka skólann. Og ef þeim tekst að stækka mötuneytið án þess að stækka skólann í leiðinni býst ég við að óumflýjanlegt sé að eitthvað minnki á móti. Ekki satt? Hvað það á að vera er mér algjörlega hulin ráðgáta.

Sannleikurinn er sá að skólinn er fyrir löngu orðinn alltof lítill. Það má ekki aðeins sjá með augum sérfræðingsins, þ.e. með því að skoða reglur um fjölda nemenda pr.fermetra og annað slíkt, heldur einnig með berum augum leikmannsins. Það blasir við öllum sem vilja sjá að húsnæði skólans er löngu sprungið. Ég ætla ekki að tíunda það nánar hér að sinni, ef fólk vill nánari útskýringar er sjálfsagt að veita þær.

Þessi bókun A-listans hefur skiljanlega vakið nokkuð hörð viðbrögð á mínum vinnustað, sem er einmitt umræddur grunnskóli. Ég þykist vita, og hef reyndar frétt það eftir áreiðanlegum heimildum, að bæjarfulltrúar listans hafi nú ekki beinlínis meint það sem segir í bókuninni og í raun hafi vantað dálítið inn í hana, sem geri það að verkum að hún misskiljist (!). Það er nefnilega það! Er þetta ekki dæmigert fyrir klaufagang vinstri manna í gegnum tíðina? Hversu oft hefur ímynd vinstri manna ekki beðið hnekki vegna einhvers flumbrugangs í framsetningu? Þetta eflaust ágæta fólk virðist hreinlega ekki gera sér grein fyrir því að þegar talið berst að framtíðarsýn í skólamálum í Hveragerði geta andstæðingarnir endalaust vísað í þessa bókun - til marks um vilja A-listans í málaflokknum. Svona þvælu lætur maður einfaldlega ekki hafa eftir sér.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigga

Ég kenndi þarna einmitt fyrir nokkrum árum og þá var allavega frekar þröngt á mannskapnum. Nýjustu fregnir herma að ef e-ð þá hafi einungis fjölgað  þar á bæ. Ég hef hins vegar aldrei kosið þennan annars e.t.v ágæta flokk Samfylkinguna enda kemur það málinu ekkert við. Ég hef reyndar bara ekkert að segja/skrifa um þetta nema kannski að þessi bókun er náttúrulega bara kjánaleg enda fjallar þú um að e-ð hafi verið ábótavant á framsetningu hennar.

 Hafðiði það annars gott kæru kennarar.

Anna Sigga, 21.2.2008 kl. 13:54

2 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Þakka þér fyrir mín kæra. Ég hef það allavega nokkuð gott, og reikna með að Sævar sé heldur ekki svo slæmur.

Heimir Eyvindarson, 21.2.2008 kl. 14:00

3 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Er þetta ekki týpskt, fá sem flesta til að flytja í bæjarfélag með OF LÍTINN SKÓLA og íþróttahús sem er fyrir löngu sprungið

Ég var áheyrnarfulltrúi í skólanefnd á sínum tíma (sat þar fyrir foreldrafélagið) og lenti í rimmu þegar við bentum á að viðbyggingin væri þegar orðin of lítil þegar hún yrði tekin í notkun. Við vorum kallaðar móðursjúkar þegar við bentum á skotin sem fylla mætti upp í með heilum skólastofum NEI ÞAÐ VARÐ AÐ PASSA UPP Á ARKITEKTÚRINN

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 21.2.2008 kl. 14:50

4 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Akkurat! Það er grátlegt að horfa upp á þetta metnaðarleysi sem ríkir varðandi uppbygginguna hér í bænum. Í skólanum eru t.d. starfandi nokkrir frambærilegir tónlistarmenn, sem hægt væri að virkja til að gera margt mjög áhugavert og skemmtilegt með krökkunum. En aðstaðan er ekki fyrir hendi. Hvorki hvað varðar húsnæði né tækjakost. Sorglegt.

Heimir Eyvindarson, 21.2.2008 kl. 15:11

5 identicon

Ég er alveg sammála þér Heimir, það er fáránlegt að láta svona bókun frá sér. Ég er mjög fúl yfir þessu hjá þeim. Er reyndar pirruð yfir ýmsu í Hveragerði þessa dagana en það er annað mál.

Bryndís (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 15:18

6 identicon

Maður er alltaf að heyra af því í kringum sig að það sé orðið svo vinsælt að setjast að í Hveragerði. Og það má líklega gefa sér að Hvergerðingar vilji fá sem flest fólk til að setjast að. Það þýðir jú meiri útsvarstekjur - ekki satt? Ef ég væri með barn á skólaaldri og hugsaði mér til hreyfings væri það fyrsta sem ég myndi skoða: Hvernig er skólinn, hvernig eru aðstæður í skólanum? Ef ég vissi af því að þetta væri hugafarið sem ríkti hjá sveitarstjórn myndi ég nú ekki vera mjög spennt.

Mér finnst það ótrúleg skammsýni að láta skólann sitja á hakanum eins og gert er þarna og greinilega er ekki verið að horfa til framtíðar með þessari bókun. Ég þekki það ágætlega frá fyrri tíð að vinna í skóla þar sem aðstaðan var endalaust að stoppa mann, sérstaklega fann ég fyrir því þegar ég kenndi tónmennt. Það er frekar niðurdrepandi til lengdar, bæði fyrir kennara og nemendur.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 16:23

7 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

Anna, skólinn sjálfur er frábær og þar er einvalalið starfsfólks (t.d. Heimir)og þar eru vandamálin leyst, þar vantar ekki menntaða kennara og færri komast að en vilja. Og ég hef átt barn í skólanum frá því 1994 og þar hefur öllu innandyra farið MIKIÐ fram

Það er aftur á móti húsnæðismálin sem eru í ólestri, því miður

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 21.2.2008 kl. 17:06

8 identicon

Hulda: ég veit það, ég hef sent kennaranema þangað sem einmitt hafa hælt skólanum í hástert. En húsnði skiptir líka miklu máli og það var einmitt það sem ég var að tala um. Ég var að tala um hvað aðstöðuleysi í húsnæðismálum getur verið nemendum og kennurum erfitt til lengdar.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 20:27

9 identicon

Kæru þið öll

Ég hef oftar en einu sinni lýst því yfir á opinberum vettvangi hversu ánægð ég er með skólann eða réttara sagt starfsfólkið þar. Hins vegar er ég sammála öllu því sem hér hefur verið sagt bæði um þrengsli í skólanum og íþróttahúsinu. Hvort um er að kenna úrræðaleysi/getuleysi/skammsýni valdhafa eða einhverju öðru veit ég ekki en ég veit það eitt að ef ekki fara að koma fram verulegar áherslubreytingar í stjórn og framtíðarsýn þorpsins míns þá fer það illa. Ég hef ekkert á móti eldri borgurum, fjarri því en við þurfum að fá barnafólk með einhverjar tekjur og umsvif og sá hópur þarf þjónustu sem ekki er í boði hreinlega.

En þetta með vinstrafólkið Heimir - við erum bara svo blóðheit og fljótfær upp til hópa að það fer allt í flumbrugang - sorry

Soffía Valdimarsdóttir (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband