Íslenska krónan

Ég leyfi mér að birta hér skemmtilega grein sem Árni Páll Árnason skrifaði í Fréttablaðið á mánudaginn var. Hér er "yfirburðum" okkar Íslendinga lýst á dálítið annan hátt en við eigum að venjast:

 

Við heyrum oft af niðurstöðum samanburðarkannana sem sýna góða stöðu Íslands í samanburði við önnur lönd. Þrátt fyrir að við höfum oft síðustu ár mælst með lélega útkomu í hagstjórn – m.a.s. talist lélegri á því sviði en í karlafótbolta – hafa ýmsir aðrir þættir verið okkur hliðhollir og gert að verkum að staða okkar hefur verið með því besta sem gerist.

En það er ekki síður mikilvægt að skoða þann samanburð sem er okkur óhagstæður. Þannig háttar til að í danska viðskiptablaðinu Børsen var nýverið athyglisverð frétt um þróun íslensku krónunnar. Þar kom fram að krónan hefði fallið svo mjög að helst væri að leita samanburðar meðal þjóða sem við erum ekki vön að bera okkur saman við – og dygði það þó ekki til. Þannig hefur nýgíneíska cedíið fallið um 16,73% gagnvart danskri krónu frá áramótum og svasílenska línangeníið hefur fylgt suður­afríska randinu og fallið um 20,24%. Íslenska krónan hefur hins vegar fallið vel yfir 30% gagnvart danskri krónu á sama tíma.

En kannski er ekki ástæða til að örvænta. Í greininni kom fram að krónan hefur ekki reynst jafn veik og túrkmeníska manatið, en það hefur fallið um 65,78%. Þar er sem kunnugt er Gúrbangúlí Berdímúhammedoff tekinn við stjórnartaumunum í kjölfar fráfalls Nýasofs Túrmenbasha í fyrra, en spilling og flokksræði einkenna sem fyrr allt þjóðlífið. Neðst á listanum í Børsen yfir veika gjaldmiðla er svo simbabveski dollarinn, sem fallið hefur um 100 prósent. Allir þekkja þær stjórnarfarslegu hörmungar sem gengið hafa yfir hina simbabvesku þjóð undanfarin ár og skýra hrun þess samfélags.

Þetta hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um í hvaða hópi Ísland er þegar litið er til gengisstöðugleika. Við sjáum af þessum samanburði hvað ógæfusömustu þjóðir heims, sem lúta dyntum sjúkra einræðisherra, þurfa að sætta sig við. Metnaðarfull þjóð sem vill búa við góðan og stöðugan kaupmátt og búa alþjóðavæddum fyrirtækjum fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi hlýtur að ætla sér aðra efnahagsumgjörð og betri. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband