Aðeins um ástandið

Ég vék að því í bloggfærslu í gær að það hefðu verið reginmistök hjá Samfylkingunni að slíta ekki stjórnarsamstarfinu á haustmánuðum. Á þeim tímapunkti naut flokkurinn enn talsverðs fylgis, enda ekki verið lengi í stjórn, en með hverri vikunni sem liðið hefur síðan þá hefur fylgið við flokkinn minnkað - enda svo gott sem ófyrirgefanlegt að halda lífinu í svo hörmulegri ríkisstjórn sem við búum við.

Nú er útlit fyrir að forysta flokksins neyðist til að láta undan þrýstingi flokksfélaga víðsvegar að af landinu, um að láta Sjálfstæðisflokkinn lönd og leið og hætta að taka þátt í þessu rugli.

Það er vonandi að Ingibjörg og félagar láti verða af því, en það hefur að sönnu orðið þeim ansi dýrkeypt að hanga svona lengi á hræinu. Samkvæmt skoðanakönnunum í dag er fylgi flokksins áþekkt fylgi framsóknarflokksins. Til hamingju með það!

Ég er á því, og hef lengi verið, að það verði að mynda hér einhverskonar starfsstjórn. Helst utanþingsstjórn. Kosningar eru að mínu viti ekki forgangsatriði. Forgangsatriði er að fá fólk til starfa sem tekur á málunum. Kortleggur vandann og greinir þjóðinni frá honum - og tekst siðan á við hann með markvissum hætti. Ekkert af þessu hefur ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar gert, þrátt fyrir að Geir haldi öðru fram. Án haldbærra raka reyndar. Við getum einfaldlega ekki búið við slíkt úrræðaleysi öllu lengur.

Svo ég líti mér nær þá held ég því miður að það megi á margan hátt segja það sama um bæjarstjórnina hér í Hveragerði. Nú er ég alls ekki að hvetja til þess að bæjarstjórnin segi af sér, enda hefur hún um margt staðið sig ágætlega, en mér finnst samt skorta á að hér sé tekið á vandanum með skynsömum hætti. Vandi sveitarfélagsins hefur vissulega verið kortlagður og íbúum greint frá honum, að einhverjum hluta a.m.k., en það skortir dálítið upp á að leitað sé annarra leiða en að skera niður og gæta aðhalds. Það leynast allsstaðar sóknarfæri og það er ýmislegt hægt að gera, bæði til að laða að nýja íbúa - og ekki síður til að halda í þá sem fyrir eru. 

Ég veit um óþægilega marga sem eru fluttir héðan, síðan kreppan skall á. Það er ansi bagalegt, en engu að síður staðreynd. Sumir hafa misst vinnuna og farið til útlanda í atvinnuleit, meðal þeirra eru heimilisfeður sem skilja fjölskyldur sínar eftir hér í bænum meðan þeir afla tekna til reksturs heimilanna erlendis. Það er ósköp skiljanlegt, enda afar hagstætt að fá borgað í erlendri mynt þessa dagana. Ég hef fullan skilning á aðstæðum þessa fólks, en eins og einn þeirra sem eru í þessari aðstöðu benti mér á þá mun hann borga sitt útsvar og önnur skattaleg gjöld erlendis meðan fjölskyldan nýtur þjónustu Hveragerðisbæjar, en hann á börn sem stunda nám í grunnskólanum. Hefur bæjarstjórnin hugsað út í þetta? Það má ekki skilja mál mitt sem svo að ég sé að agnúast út í þetta fólk, síður en svo. Mér finnst bara sorglegt að horfa á eftir góðu fólki úr bænum okkar - án þess að nokkuð sé að gert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Já ég vil lika fagstjórn!

Bæjarstjórnin í Hveragerði.......... nei annars, ég þarf að geta farið í búðina og farið í klippingu og svona nokkuð.

Soffía Valdimarsdóttir, 22.1.2009 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband