Að hafa stjórn á „liðinu”

Þó ég fagni því vissulega að ríkisstjórn Geirs H. Hårde sé loks farin frá þá fagna ég ekkert endilega nýrri ríkisstjórn VG og Samfylkingar. Ég hef verið þeirrar skoðunar allt síðan í haust að við þær aðstæður sem hér hafa skapast ættu stjórnmálaflokkarnir að stíga til hliðar og láta valinn hóp sérfræðinga sjá um stjórn landsins fram að kosningum. Hvenær svo sem talið væri ráðlegt að láta þær fara fram. Ég er enn á þessari skoðun.

Það er því miður hætt við því að þeir flokkar sem skipa munu stjórnina næstu 2-3 mánuði muni ekki treysta sér til að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir, sem óhjákvæmilega hlýtur þó að þurfa að taka, af ótta við að það muni skapa þeim óvinsældir í komandi kosningum. En auðvitað vonar maður það besta. Það má kannski hugga sig við það, að það er líklega enginn stjórnmálamaður líklegri til að taka rösklega á málum en einmitt Jóhanna Sigurðardóttir, sem fær nú loks verðugt tækifæri til að sýna hvað í henni býr.

En þrátt fyrir að ég ætli ekki að hrópa húrra fyrir komandi ríkisstjórn, a.m.k. ekki svona fyrirfram, þá verð ég að segja að kvartið í Sjálfstæðismönnum yfir meðferð Samfylkingarinnar á sér er alveg ótrúlega þreytandi. Eiginlega bara barnalegt.

Það er kannski lýsandi dæmi um hjarðeðli Sjálfstæðisflokksins, sem ég hef svo oft tjáð mig um, hvernig þeir túlka aðdraganda stjórnarslitanna. Þá á ég við að Geir og fleiri hafa komið fram og lýst því að sundrungin í Samfylkingunni sé þvílík að formaðurinn hafi ekkert ráðið við flokkinn! Þeir semsagt þekkja ekkert annað en að hlýða foringja sínum í blindni, og ef einhver formaður tekur sig til og hlustar á raddir flokksbræðra sinna, þá hefur hann að mati Sjálfstæðismanna ekki stjórn á liðinu! Þetta finnst mér lýsandi dæmi um hugsunarhátt Sjálfstæðismanna. Hinn almenni flokksmaður á bara að kjósa flokkinn og vera svo til friðs, annars er hann ekki góður liðsmaður Smile.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Assgotans jag er þetta í þér :-) Þú sérð það sjálfur að um leið og ISG fór úr landi þá fór allt á rennireið. Víst hefur hún stjórn á þessum skríl, engin hætta á öðru. Hún kom sér úr landi og lét senditíkunum eftir framkvæmdina.

Og áður en menn gersamlega sturlast yfir því að ég skuli voga mér að halda því fram að hún noti veikindin í pólitískum tilgangi þá skulum við muna að einn ykkar (samfylking - VG = enginn munur í mínum huga) gerði nákvæmlega það sama. Reyndar baðst hann afsökunar eftir að hálf þjóðin reiddist honum og var hann meiri maður fyrir vikið. Þannig að það er best að biðjast bara afsökunar á ummælunum strax.

Bittinú.

Heimir Tómasson, 29.1.2009 kl. 08:35

2 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Samfylkingin = VG ??? Fylgjast með - hafa augu og eyru opin þú veist!

Annar leitar inn að miðju og hefur borgaralegar áherslur á meðan hinn þrífst og nærist á rótinni, er alltaf á jaðrinum og reynir ekki að fela það! Halló! Báðir vinstra megin en reginmunur á taktík.

Annars bind ég vonir við að yfirvofandi kosningar verði verðandi ríkisstjórn hvati til góðra verka. Báðir flokkar (ókei, allir þrír þá) líti á verk sín næstu vikur sem lið í kosningabaráttunni.

Soffía Valdimarsdóttir, 29.1.2009 kl. 09:02

3 Smámynd: Heimir Tómasson

Ég myndi nú frekar vilja að þeir liti á verkefni sín næstu vikur að gera eitthvað af viti fyrir land og þjóð. Þarna kristallast gersamlega vitleysan við þetta flokkakerfi sem er við lýði. Helmingurinn af kjörtímanum fer í að halda fokking kosningabaráttu!

Ég skal viðurkenna að það er munur á flokkunum. Fullyrðing mín VG=SF er á þann mátann komin að ég sé ekki betur en að þeir vilji aikin ríkisafskifti og hefti. Reyndar eru mölbúarnir í VG alveg sérstakir hvað þetta varðar, ef Hjörleifur væri enn á þingi fyrir þá og fengi einhverju ráðið þá væri rafmagnslaust á landinu eftir 2 ár, allir byggju í moldarkofum (það er jú svo grænt) og helstu tómstundirnar væru að kveða rímur því það hvorgi mengar né spillir.

En segðu mér, hvað er að vera með "borgaralegar áherslur"? Mér hefur alltaf sýnst sem stjórnmálamenn noti þennan og annan frasann, helst í viðtölum til að fylla upp í eyður á meðan þeir bíða eftir að næsta hugmynd smelli í kollinn.

Heimir Tómasson, 29.1.2009 kl. 09:24

4 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Borgarar í dag eru kannski eins konar stétt á annars stéttlausum tímum. Það er, sá hópur sem fæst síður við beina framleiðslu, er ekki í sveitunum að framleiða mjólk og heldur ekki í borginni að framleiða smjör og ost úr mjólkinni. Borgarar eru í borgum og bæjum að njóta þess sem hægt er að gera úr smjöri og osti. Þessi stétt starfar í verslun, viðskiptum og hvers kyns þjónustu, hefur tileinkað sér upplýsingasamfélagið, er virkur hluti af því, þetta er fólkið sem krefst mestrar samfélagaslegarar þjónustu og er jafnvel til í að borga fyrir hana.

Svona fyrst þú spurðir ;)

Soffía Valdimarsdóttir, 29.1.2009 kl. 16:44

5 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Nýtt pólitíkst afl er í uppsiglingu!   Vinstri Hægri snú...  þetta er flokkur sem hefur enga stefnu aðra en þá að vera á móti öllu því sem gömlu flokkarnir hafa fram að færa á þeirri forsendu að allt sem frá þeim hefur  komið frá stofnun heimastjórnar og seinna lýðveldisins sé út úr kú. Reyndar vilja þeir halda því fram að stjórnmálamennirnir og konurnar séu húsdýr í álögum. Ég ætla að kjósa þennan flokk og standa að því að búa til einkennislag flokksins sem sungið verður við textann... Baulaðu nú Búkolla mín ... og hver á sér hlýrra föðurland

Pálmi Gunnarsson, 30.1.2009 kl. 20:46

6 Smámynd: Heimir Tómasson

Góður Pálmi...mér finnst þetta reyndar lýsa VG nokkuð vel. Og takk fyrir þetta Soffía.

Heimir Tómasson, 31.1.2009 kl. 08:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband