Lýst er eftir lausnum

Flokkarnir hafa komið fram með ýmsar hugmyndir til lausnar á vanda heimilanna, en það virðist enginn vera sammála um hvað hægt sé að gera.

skuldaklafi_small

20% hugmynd framsóknar er mjög freistandi, en ég hef engar forsendur til að leggja mat á hvort hún er fær. Ég held samt að það sé vert að skoða hana gaumgæfilega, því það er mjög margt sem mælir með því að hún sé farin.

Það sem mér finnst best við þá hugmynd er að þar er viðurkennt að einhver hluti af skuldum bankanna við erlenda lánadrottna verði, eða hafi þegar verið afskrifaður.

Tökum sem dæmi að ég hafi tekið erlent lán hjá Glitni upp á eina milljón. Milljónina hefur Glitnir væntanlega tekið að láni frá einhverjum erlendum banka. Síðan gerist það að Glitnir fer á hausinn. Erlendi bankinn sem lánaði Glitni fer þá í biðröð lánadrottna og fær úr þrotabúi Glitnis brot af því sem Glitnir skuldar honum - jafnvel ekki neitt. Eins og gengur og gerist þegar um gjaldþrot/yfirtöku er að ræða. Það eru því allnokkrar líkur á því að Glitnir muni ekki borga erlenda lánveitandanum þessa milljón - nema hugsanlega að hluta til. Það hindrar hinsvegar Nýja Glitni ekki í því að halda áfram að rukka mig um þennan pening, sem er aukinheldur orðin að tveimur milljónum vegna gengishrunsins! Þannig að Glitnir græðir hreinlega á ástandinu. Ég sé enga glóru í þessu. 

glitnitsmart

Aðrar "lausnir" sem haldið hefur verið á lofti eru t.a.m. lausnir bankanna fyrir þá sem hafa tekið lán í erlendri mynt. Lausnin felst í raun í þvi að lengja í lánunum og jafna þannig greiðslurnar. Það er í sjálfu sér gott og blessað, en í því felst engin niðurfelling. Á endanum borgar lántakandinn alla sína skuld við bankann, og gott betur, óháð því hvað bankinn hefur fengið mikla niðurfellingu sinna skulda.

Þetta er kallað lausn og ríkistjórnin hefur meira að segja mært þetta fyrirkomulag. 

Um leið hefur ríkisstjórnin bent á að þessi leið sé sambærileg þeirri "lausn" sem þeim sem skulduðu verðtryggð lán var boðið upp á í haust. Sú leið var semsagt að lengja í lánunum, en útreikningar sýndu svo ekki var um villst að þegar upp var staðið var sú leið dýrari almenningi, þannig að ef fólk hafði bolmagn til að halda áfram að borga af sínum lánum þá var það umtalsvert ódýrara. Það er því alveg á mörkunum að hægt sé að tala um lausnir í þessum tilvikum. Það er ekki verið að hjálpa neinum. 

steingrjóh

Hvort sem 20% leið framsóknar er fær eða ekki þá finnst mér að það verði að viðurkennast að einhver hluti skulda íslensku bankanna hefur verið, eða mun verða, afskrifaður. Almenningur á að njóta þess.

En það er svo merkilegt að ef einhver minnist á að hjálpa skuldurum þá rís allt kerfið upp á afturlappirnar. Meira að segja verkalýðshreyfingin, sem á nú fyrst og fremst að vera málsvari hins almenna launamanns - miklu frekar en þeirra örfáu Íslendinga sem eru í þeirri stöðu að eiga meira en þeir skulda. 

Það sem ég er að reyna að segja er að hér hefur skapast mjög óvenjulegt ástand. Það ástand er ekki almenningi í landinu að kenna, þrátt fyrir ýmsar aðdróttanir í þá veru. Það ástand er ekki heldur einungis falli Lehman Brothers að kenna, eins og Geir Haarde, Árni Matt. og fleiri hafa statt og stöðugt haldið fram. Hér er ástandið umtalsvert verra en í öðrum löndum vegna þess að ofan á heimskreppuna bættust áhrif gengishruns íslensku krónunnar. Á einu bretti tvöfölduðust skuldir íslenskra heimila, einungis vegna hruns krónunnar. Það ástand á sér enga hliðstæðu í nágrannalöndum okkar - og þó víðar væri leitað.

króna

Þessvegna finnst mér alveg ótrúlegt að enginn flokkur skuli hafa komið fram með skýra stefnu í gjaldmiðilsmálum. Ég er á því að það sé algert forgangsmál að finna flöt á því. Krónan hefur verið ótrúlega þungur baggi á þjóðinni síðan ég byrjaði að fylgjast með stjórnmálum. Ég man t.d. eftir því þegar núllin tvö voru tekin af og stór hluti þjóðarinnar var arðrændur í leiðinni, en ég fullyrði að aldrei hafi krónan verið okkur dýrari en nú um stundir.

Evra__bmp_550x400_q95

Samfylkingin hefur gefið það út að flokkurinn stefni inn í ESB. Ég er sammála því að þann kost þurfi að skoða vel og vandlega og hallast raunar að því að það gæti orðið okkur til hagsbóta þegar fram í sækir. Mér finnst allavega að við eigum að drífa í því að setjast að samningaborðinu og sjá svart á hvítu hvað er í boði. Fyrr en við höfum samningsdrög í höndunum er ekki nokkur leið að hafa vitræna skoðun á því hvort okkur er betur borgið utan eða innan ESB. En með þessari yfirlýsingu sinni má segja að Samfylkingin hafi gefið út stefnu í gjaldmiðilsmálum - einn flokka. Hvað ætla hinir flokkarnir að gera? Ég verð að segja að ég vildi gjarnan fá að vita það áður en kemur að kosningum.

Ég hef oft verið óákveðinn fyrir kosningar, en örugglega aldrei eins og núna. Það er sannast sagna enginn flokkur sem heillar mig þessa dagana. Eins og ég hef áður sagt kaus ég Samfylkinguna í síðustu kosningum og sá flokkur brást algjörlega, fór steinsofandi í gegnum allt stjórnarsamstarfið - í sæluvímu yfir því að fá loksins að vera með.

Ég get ekki sagt að ég sé spenntur fyrir því að kjósa flokkinn aftur, sérstaklega þar sem mér hugnast samstarfið við VG ekkert sérstaklega vel ef ég á að segja alveg eins og er.

VG er um margt ágætis flokkur og innan um má finna þar afskaplega hæft fólk. En það er ekki hægt að segja að flokkurinn hafi komið fram með mikið af ferskum og snjöllum hugmyndum. Formaðurinn segir að eina leiðin út úr kreppunni sé niðurskurður og skattahækkanir og varaformaðurinn orðar þetta enn betur; launalækkanir og skattahækkanir er það sem koma skal. Þetta er vissulega heiðarlegt útspil því að auðvitað þarf að skera niður og jafnvel hækka skatta við þessar aðstæður, en ég held þó að skattahækkanir þær sem VG boðar muni skila afskaplega litlu þegar upp verður staðið. Það er ekki það sem hagkerfi okkar þarf til að komast í gang aftur.

VG-NV-1-Jon_Bjarnason_053kolbrun-halldorsdottir-frett

Þó er, eins og ég segi, innan um í flokknum ágætis fólk. Ég gæti sem kjósandi í Suðurkjördæmi t.d. alveg hugsað mér að kjósa Atla Gíslason, en hið meingallaða kosningakerfi sem við búum við gerir það að verkum að um leið væri ég að veita Kolbrúnu Halldórsdóttur, Jóni Bjarnasyni og fleirum brautargengi. Það kæri ég mig bara engan veginn um. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Þú átt að gera það sem þú ert í raun að segja. Kjóstu nýju framsókn. Framsókn sem gerði uppreisn og kaus sér nýja forystu og þorir að koma fram með róttækar en samt raunhæfar hugmyndir - og er tilbúin að hlusta á aðra, en til þess þarf sjálfstraust, sem VG og S virðist vanta.

Gestur Guðjónsson, 15.4.2009 kl. 15:37

2 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Hver veit, hver veit.....

Heimir Eyvindarson, 15.4.2009 kl. 16:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband